mánudagur, 29. febrúar 2016


frelsi

lítill vindsveipur feykti fisléttu ljóskeri
svo það tókst á loft á kyrrum kvöldhimninum
og sveif hljóðlaust yfir skógarþykknum og strætum
áður en það hvarf í dökkvann milli samliggjandi stjarna

fimmtudagur, 11. febrúar 2016


bréfin í rigningunni

það er skrifað í rigninguna
innan um ljósgeisla og götur
að þessa stund sem þú dvelur
jafnt í híbýlum efnis og hugar
mun vitund þín vakna af sandi
og snerta hin fjarlægu dulu ský
sem enginn hefur enn náð að njörva,
nema með því að yfirgefa allt það sem
veruleikinn hefur skapað í vitund okkar


milli nætur og morguns

dimmrauður tónn slær endurtekið í bakgrunni,
þungur og einsleitur markar hann hið nýja svið

framar færast ljós og strengir yfir gagnsætt rýmið,
kveikt af himneskum eldum og íhugun þögullar nætur

í lokin sé ég brýr morguns rísa við sjóndeildarhringinn,
undan gylltum sveigum þeirra falla fyrstu litir jarðarinnar

eXTReMe Tracker