fimmtudagur, 2. apríl 2015


yfir staðlausum farvegum

aftan við hreyfingu stundanna hvílir eilíf frumgerð; ég sá hana eitt sinn sveima yfir björtum degi í ógreinilegum hringferlum sem gufuðu síðan upp í óma himinsins

undir skýjuðum hvolfunum skildi hún eftir sig slóð leitandi tákna, sem rann fyrir botni augnabliksins eftir staðlausum farvegum, yfir hljóðum sendiboðum atvikanna

miðvikudagur, 1. apríl 2015


undan yfirborði aldanna

þegar leitandi öfl fóru eftir tímabilum jarðsögunnar
liðu ótal saltir skuggar yfir botnum hafdjúpanna
og vöktu um leið elstu minningar jarðlífsins


framburðurinn

óendanleiki rakst í frumsvið og vatt rúmið loftþráðum af lausmæltum spuna, svo hrímuð flatneskjan brotnaði í hreyfingar talna og teikna

í sundurleitum vitnisburðinum svifu atburðir og yfirlýsingar fyrir vaknandi grun dómstóla, við athuganir þeirra á aðdraganda málsins

sakborningurinn reis þá upp af undirlagi sínu, seig undir yfirborðið og skaust upp með haldbær sönnunargögn út fyrir lagabálka náttúrunnar

eXTReMe Tracker