þriðjudagur, 31. mars 2015


ljós borgarinnar

gakktu niður strætin við sólsetur, þá verður gamalt dulmál í birtunni upp af götunum en þögular efasemdir á hreyfingu yfir ljósunum

bak við sviðið finnurðu aðsetur breytileikans; inn um hjól vélarrúmsins liggur ómerkt umslag, í því verða eyðublöðin fyrir umsókn þína

mánudagur, 30. mars 2015


djúpin rísa

við ómálga frumveru hvílir uppspretta alheimsins; í bergmáli hennar hljómar frásögn aldanna, af botni hennar stíga formlaus lögmálin

frá kvíslum hennar grundvallast umskiptingin í mektugum farvegum; djúp hennar hafa risið handan skilnings yfir forsjón rúms og tíma

föstudagur, 27. mars 2015


frumtákn jarðar

undir vetrinum lágu frumspekilegar athugasemdir læstar niðri í jörðu og biðu endurvakningar upp af gulu frjómagni sínu

eftir síðustu réttarhöldin köstuðu fyrirboðarnir snjóugum gervum sínum í launmál birtunnar og fylktu eigin liðsheildir

álögunum var loks létt af embættum ljóss og vatns, sem léðu tilurð þeirra nýjum ákvæðum upp af moldugum borðum


goðsjá frá morgni

það hvílir dulráður tónn í lofthjúp morguns, djúpur og samfelldur, líkt og úrskurður framandi vætta hafi lyfst upp af máttugum rómi þeirra yfir hinum jarðnesku myndunum

af himni leika ljósugir fösulþræðir úr frumsöngvum tilverunnar og vefa undan sér hvikular voðir forlaganna, meðan andrúmið tifar af hljóðri geymd yfir vaknandi náttúrunni

fimmtudagur, 26. mars 2015


flöktandi ljós

þarna hljómuðu endurtekin stef í ljósaskiptunum, eitt tók á sig hjúpgerð eftirvæntingar en annað fól í sér áleitinn söng

jafnan hófust upp örlagaríkar forsjónir og arfur frá öðrum tímum, en takturinn missti brátt slög sín svo allt féll í ómegin

skömmu síðar hvarf auglitið frá umgjörð sinni og hjartað fór aftur í gang, svo augnablikin sáldruðust yfir veröldina að nýju


trénað gangsilfur

þegar raðirnar snertu yfirborð náttúrunnar mynduðust í hringstreyminu örfínir vængir úr gagnsæjum himnum, sem svifu yfir laufmáli skóganna og aurugum vatnasviðum

um leið magnaðist dulur seiður yfir iðandi formum jarðarinnar, svo óljós myndhvörf risu upp af þámuðum skapnaðinum og leystu þar með elstu undirstöður heimsins

miðvikudagur, 25. mars 2015


dyrnar í stofunni

svaladyrnar standa hálfopnar; dökkur vindsveipur hróflar örlítið við hurðinni og hleypir tæru kvöldlofti inn í húsið

fyrir dökkvanum falla lýsandi snjókorn hljóðlaust niður, utar hreyfast útlínur trjánna gætilega í fínstilltum skuggamyndum

birtan innan frá rými stofunnar endurkastast af gluggarúðunum og bregður um leið daufu ljósi á upphaf himinsins

mánudagur, 23. mars 2015


andlit náttúrunnar

ég hef séð þau áður, ekki á ósvipuðum stað og þessum; þau vöknuðu morgun einn upp af miðbiki breiðstrætanna eins og nafnlausir fuglar, svifu yfir leikmynd borgarinnar á undrandi vængjum og sáu þaðan vonirnar opnast og lokast í senn

en ofan af turnunum fundu þau andvarann bera kennsl á eirðarlaust hjarta, meðan regnmynd féll inn um opna glugga; þá varð andartakið að ljósmáli á bláum striga en tíminn álútur leiðsögumaður um öræfin sem enginn hefur sigrað nema þögn og vindur

laugardagur, 21. mars 2015


lesmál götunnar

maðurinn sagði bókina ófáanlega og að ekki stæði til að prenta út fleiri eintök af henni, svo ég sneri tómhentur úr versluninni

úti í portinu heima lá lítill pappírsbátur sem barnið í næsta húsi hafði eflaust skilið eftir og flaut ofan á stækkandi pollunum

himinninn var gráleitur og kastaði undarlegri birtu þarna niður sem lýsti upp snjáða húsveggi og dyr allt í kringum rýmið

ég tók bátinn upp og virti fyrir mér blautt letrið á bakborðanum - og sá þá að hann var brotinn upp úr handriti bókarinnar


skjaldarmerki borgarinnar

það er einhver dulur friður yfir steintröppum í rigningu;
hvernig fallandi droparnir lenda á kyrrstæðum þrepunum
og mynda agnarlítil mynstur upp úr gljáandi vatnsformum

þeir lifna í fjörugum dansi yfir köldum gráma undirlags síns
og flæða niður, syllu eftir syllu, að fótmáli gangstéttarinnar,
eins og hinir fegurstu draumar sem hjörtun ala á vegferð sinni

föstudagur, 20. mars 2015


athugun á texta

orðræða skriftarinnar skóp mismunandi fleti með framburði sínum og mótaði bæði efnistök og myndrænt rými eftir boðskapnum:

í fjarska markaði dimmblá sjóndeild heimsmyndina og lagði línur fyrir samneyti túlkunar og innsæis, meðan tignarlegar skrautsúlur héldu uppi voldugum himinhvolfum

nær gat að líta gáróttar frásagnir upp úr hversdagslífi á ósýnilegum tjöldum, sem merktu um leið svigrúm fyrir tilfinningar og yfirferð á ýmiss konar rökfærslum

samtímis þessu féllu örlitlar þagnir inn um orðin og minntu helst á hljóðið milli regndropa undan votviðrum hlustandi sumarnætur


tilraun með form

þessi texti er í raun myndband; í því sjást nokkrir ljósastaurar við auðar götur að kvöldlagi, en óvíst er með nákvæmari staðsetningu, það er líka ofankoma, annaðhvort rigning eða snjór

perur ljósastauranna virðast við það að klárast, föl birtan undan þeim er farin að flökta, eins og andartaksmyndir yfir gangstéttum og malbiki, draumkennd, nálæg og fjarlæg bæði í senn

rétt áður en það sýnist ætla að slokkna á einhverjum ljósastauranna hefst myndskeiðið á nýjan leik, og er spilað aftur og aftur, alveg eins, meðan þessi lýsing endist í huga lesandans

fimmtudagur, 19. mars 2015


af eldi ljósberans

það sáust stundum svífandi ljósflygsur í garðinum; eina nóttina hélt ég að ég hefði handsamað örsmáa eldflugu þar, fannst ég jafnvel finna vængjaslátt innan í lófunum, en þegar ég opnaði litla rifu milli þeirra til að virða hana betur fyrir mér fann ég hvorki fót né fálmara

síðan rölti ég aftur inn í húsið meðan lágþokan brá glærum hjúp yfir skyggðan trjáviðinn og máninn kastaði hvítum lyklum yfir lygnan vatnsflötinn; þannig uppgötvaði ég að merking ljóða á margt sameiginlegt með frjálsu vindmálinu undan ljósberum næturinnar

miðvikudagur, 18. mars 2015


litmynd úr austri

með gervi sólarinnar á höfðinu og skógarpíplu í munnvikinu gekk hún fyrirhafnarlaust upp rökkvuð hliðarstrætin, og dustaði út undan sér ryk af fornum steintöflum með hlýjum og gulnandi þulum

ljósbleik skýjamynd endurkastaðist af löngum gluggunum þegar hún hvarf svo inn í litla íbúð sína, og hljóð élvinda buldi á þykkum útidyrunum en nokkrir snjómánar urðu eftir í tröppunum

himinninn brosti bara að þessu uppátæki hennar og hvarf sjálfur í sama draumreyk og hvert kvöld, og sagði þakklátur út í kólnandi loftið þegar enginn heyrði til: takk, þetta var einmitt það sem ég þurfti

mánudagur, 16. mars 2015


fuglarnir á þakinu

þú sérð
þá ekki héðan

en yfir þessu
hvíta völundarhúsi

flögra fuglar rétt í þessu,
með fyrstu sprekin í goggum

á þakinu verða hreiður þeirra
og fluglimir bak við föla kalkskurn

fimmtudagur, 12. mars 2015


draumstafir

ljóð eru sofandi,
og lestur lína þeirra
snöggar augnhreyfingar
upp úr draumsvefni líffæranna


vorboðinn

þegar snjóbráð hrundi niður af þakinu
opnuðust sjálfvirkar útidyr um stundarsakir
eins og til að hleypa fersku vorloftinu inn í salina


mynstrin í ræsinu

þegar haustlaufin þekja holræsi borgarinnar
svo straumur vatnsins flæðir niður götur hennar

þá slá litlar klukkur, hreinsaðar í höndum regnsins
og litirnir gárast er himinninn lyftir gráum hjálmum

þá eru spurnir ekki spurnir og hús mitt ekki leit að orðum
heldur hreyfing skýja á vatnsfylltum sprungum jarðarinnar

þá er andi minn frjáls, upp frá endurvarpi sínu af veruleikanum

mánudagur, 9. mars 2015


eldfugl

í leitinni að
veikleikum okkar
finnum við styrkleikana

laugardagur, 7. mars 2015


um leiklistina

hver er leikarinn annar en sá sem setur grímuna upp
og ljáir henni um stund líkama sinn og leitandi augu

hvað er leikurinn annað en lifandi sögn á lýstu sviði
og hinn dauði sem gengur þar aftur kvöld eftir kvöld

hvað er leiksvið annað en umhverfi í ljóstíru og reyk
fyrir myrkvuðum sal af dómurum og rýnandi skuggum


upplestur

skólabók datt úr tösku
og lá nú opin á mannlausum gangstíg
meðan snjórinn féll á hana líkt og ótal bókamerki

fimmtudagur, 5. mars 2015


fyrirmæli

þegar þú kemur til borgarinnar, mun sá sem gætir hliðanna æskja ferðabréfs af hendi; afhentu þá hin fjögur merki: skóg, haf, jörð, himin

við það opnar hann fyrir þér iðandi mynstur götunnar; en næst þegar rigningin speglar ljósin yfir votum strætum á hljóðri nótt, finndu þá hinn bláa lykil

því á síðustu bréfunum stendur að við fall borgarmúranna muni það sem hreyfir við öldum reisa brýr upp af rústum þeirra úr laufum, salti, sandi og skýjum

sunnudagur, 1. mars 2015


maður sem heldur á hurð

þegar heimurinn skiptir um dvalarstað
yfirgefur umhverfið um leið þær frásagnir
sem staður og tími geta sveipað bliki atburða

nokkur merki hrynja við umskiptingarnar
svo beinist úr bognu eða grænn verður gulur
er litir og form kasta af sér gervum nafna sinna

og um stund verða göturnar sem rennandi fljót
en veröldin söngur flökkufólks um borð í barkbát
með ungviði sitt reifað í óuppgötvuð tákn og falin

síðan dregur allt hring um verðandi miðpunkt,
fjöll, himinn og haf setjast aftur, færð úr stað,
breytt að lögun sinni og vídd á framandi stólpum

þau innfæddu berja forviða á hinar nýju dyr,
með fréttir og spurnir á ótal framandi tungum
meðan jörðin opnar áður óséð blóm í garðinum

eXTReMe Tracker