fimmtudagur, 26. febrúar 2015


landabréfið

þú sem siglir á úthöfum skilningsins
og fylgir vísum þekkingar og reynslu

þú sem leitar að hinni hreinu visku
og földum perlum undirdjúpanna

land þitt verður ávallt ósamið ljóð
en seglin undin óteljandi stjörnum


endurinnrétting

fyrir vormánuðina heyrði ég skógarsmiðinn
rífa niður úr sér gengnar og fúnar innréttingar

einnig skipti hann um ljósastikur og laufkrónur
og sópaði fasteign sína í talsverðum snúningum

litlu síðar birtust auglýsingar á brumknöppum
um að húsið væri aftur komið á leigumarkaðinn

þriðjudagur, 24. febrúar 2015


saga úr vetrarbraut

einhvern tímann mun ég stíga inn á hið mikla safn,
draga á mitt gólfið hryggjarlið úr útdauðri sjávareðlu,
festa ofan á hann brotinn áttavita síðan á landnámsöld
og sigla svo fram hjá líkneskjum fornra guða og grafhýsa
uns ég brýst í gegnum sýningargler fyrstu tunglferðarinnar

í fallandi geimrykið mun ég að síðustu skrifa
nafn mannsins með báðum lófum og tíu fingrum

þá mun fólk loks skilja hvað milljarða ára ferðalag
getur afhjúpað um vitnisburð fyrsta andartaksins

mánudagur, 23. febrúar 2015


hlutverkið

ég ætlaði að lesa hina gleymdu bók
en blöðin sölnuðu fyrir augum mínum

ég ætlaði að líta í hin miklu djúp
en fann aðeins spegilmynd mína þar


samt bíða enn ósögð orð á tungu næturinnar,
samt eru hendur morgunsins uppfullar af korni

föstudagur, 20. febrúar 2015


spádómurinn

efst í tilbrigðunum, þar sem rökkvaðir ljósturnar geyma voldug tákn himins og mátt sjávaraflanna, mun sú sem heldur á stjörnum standa í uppreiddum dyrum næturinnar

þá mun hún ljóstra upp óþekktu nafni sínu í mánalýsta glugga og svipta hulinni af staðnum þar sem hlæjandi börn misstu bók skýjanna í vatnið

leitaðu því næst að öldruðum manni á heimleið sem gengur hjá grænum eldum og hlustar á fyrstu söngva jarðarinnar, hann mun benda þér á sjö bráðnandi stíga í vorleysingum

fimmtudagur, 19. febrúar 2015


kolkrabbi kveður

rithönd rakst í blekbyttu sem datt á hlið
svo orðlausar hugsanir flæddu yfir tóm blöðin
eins og tært sjóvatn litast þegar kolkrabba bregður,
speglandi um leið undrun og aðdáun úr andlitsdráttum skálds


vetrarganga

allt er myrkt og kalt á göngu að miðjum vetri;
ég sé ekkert fyrir skuggum og skafrenningi,
nema ljós, sem kemur frá sjálfum mér

sunnudagur, 15. febrúar 2015


úr botnlausu hljóðfæri

á bak við hvít rif stjarna
og bringubein úr mánarönd
hvíldi hjartastaður næturinnar
og þúsund óendanlega litlar eilífðir
hreyfðust í hreistruðu gliti á hvarmi sjávar;
þar missti konungurinn krúnu sína í sökkvandi djúp
og halastjarna úr orðum afhjúpaði dulargervi skóganna;
í sama mund féll regnvatn á hörund jarðar, ilmandi og hreina

laugardagur, 14. febrúar 2015


vorbirtingin

endurfædd höldum áfram
að vaxa innan úr móðurkviðum
með morgunroðann í naflastrengjunum
og framtíð heimsins í óþroskuðum höndunum


nýburinn

um fæðingarstofuna barst grátur
þegar andinn var dreginn í fyrsta sinn,
svo ónotuð barnslungun fylltust sama lofti
og fer um litla vængi er detta úr fuglshreiðrum

föstudagur, 13. febrúar 2015


strengjabrúðurnar

frá viðtækjunum barst ásláttur hljóðfæranna svo spriklandi leikbrúður virtust lifna við í iðandi höndum flytjendanna

þær dönsuðu á titrandi strengjum við dunandi stigmál tónverksins og vöktu við það skynjun og skilning úr djúpi mannlegrar tilvistar

en með síðasta slættinum féllu þær máttlausar aftur niður í skuggann og hljóðupptakan endaði í hlustandi þögn og dulri endurómun


óskýrar frásagnir

þú heyrir þá hallandi stef
undir dulri hreyfingu skýja,
þegar dagarnir endurnýja sig
og breyta lifandi híbýlum sínum
í brotnandi mynd vaknandi morgna
og glóandi merkisberar þeirra á jörðinni
rísa yfir iðagrænum uppsprettum veraldar
við sífellda umröðun hinna náttúrulegu tákna

fimmtudagur, 12. febrúar 2015


uppdráttur að korti

við tekur hálfgreinilegur slóði gegnum skógana,
gakktu inn um laufsúlur hans og lifandi dulmálið;
enn lengra, bak við myndir trjánna og græn merki,
muntu koma síðla kvölds að reykstignum líkneskjum
er gnæfa upp úr hringlaga svæði á gróðurlausum stað;
þar rís glæst hof sem sagt er frá í draumum og goðsögnum,
skreytt gylltum loftmyndum og bjarma af bláum safírsteinum;
inni í sölum þess ómar brotinn sálmur upp úr hvítu myrkri stjarna


eldfjallið

þögult um aldir,
sveipað djúpum dvala
lýkur nú upp logandi dyrum;
frumstæður kraftur undirdjúpanna:
rífandi heift eða gígur af brennandi þrá?,
eldhaf eyðileggingar eða fæðing nýrrar jarðar?

þriðjudagur, 10. febrúar 2015


líf jarðar

máninn skein á mitti og baðm mildrar nætur
svo ung jörð og frjó glitraði í döggvaðri slóð

vínviðurinn bar kaleik fylltan blóði að himni
í drukknum söng sínum, glöðum og helgum

ævi mannsins er draumur í hjarta dýrsins
og fiskibein, fært á land úr djúpum hafsins

ég veit ekkert um tilvist guðs og sálar,
og þekki hvorki auglit anda né grímur vætta

en leið mín liggur meðfram óvissu og efa,
í fylgd glaðværðar og galdra undrunar og þrár

svo fylgið mér bræður og systur, sláist með í för,
því lífið er lofgjörð frá morgni til hinnar eilífu nætur

mánudagur, 9. febrúar 2015


corvus corax

í yfirgefinni torfkirkju lá gamalt, brostið altari
sem bar sér nú engin merki nýlegrar guðsþjónustu,
að frátöldum skínandi glampa af handfylli silfurpeninga,
slitinni sálmabók og bleksvörtum fjöðrum við opinn glugga

föstudagur, 6. febrúar 2015


hurðin, hljóðfærin og skipið

ég hef aldrei gengið inn um dyr sannleikans;
ég hef aðeins lappað upp á hjarirnar
og málað hurðina spurningum

ég hef aldrei leikið á hljóðfæri óendanleikans;
ég hef aðeins snert varlega umgjörð þeirra
og komið rödd minni fyrir í klæðningunni

ég hef aldrei siglt skipi eilífðar;
ég hef aðeins séð kjöl lagðan í mót þess
og fundið salt brimið drjúpa af landfestunum


undir himni

opnist þið vegir fram fyrir stafni,
sýnið faðm ykkar í svip atburðanna,
því dagarnir hafa leyst öll innsigli sín
og sólin snert við iðandi hringrás jarðar;
hádegið lyftir krúnu sinni yfir kvikandi hæðum


leiðarvísir

þegar þú kemur síðan að ströndinni
gakktu hjá rauðleitum táknum klettanna
þar sem þytur loftsins geymir undirleik sjávar
og öldurnar hafa hulið slóð augnabliksins í sandinum;
handan þeirra finnurðu hulinn innganginn að húsi jarðarinnar

eXTReMe Tracker