litbrigði himins hafa opnað dyr að dýpi fljótanna svo leirug ármynnin glitra af óteljandi sólargeislum með öll þessi andartök sem bíða í ljóshafi morgunsins
þriðjudagur, 25. janúar 2011
endurkoma
hann hafði ekki komið þangað í nokkurn tíma, heildarmynd og einstakir þættir báru þó enn svip sinn og minni, eins og dul birta upp af niðurníddum veggjum - en eitthvað virtist öðruvísi, trén ekki aðeins hærri og vatnið horfið undir bylgjandi sefgrænu
það var eins og gamli tíminn horfði aftur frá staðnum, vaxinn að mestu frá sjálfum sér og búinn til farar, líkt og hér aðeins til að kveðja: ilmur flöktandi greina reis eins og dulmál í þykku kvöldloftinu og annað nær endurtók sig í rökkrinu
laugardagur, 8. janúar 2011
frá jörðu
fátt breytist á himnum þó líði aldur og ævi manna; við reyndum að skilja stjörnurnar sem opnuðust í nótt bak við ský og drauma
konungur orðanna hefur beðið mig um að rita niður hugdettur sínar
ég mætti konungi orðanna á daglegri leið minni hjá ljósaskiptum og breytingum, mér var talsvert brugðið því ég hefði aldrei ávarpað slíkan mann að fyrra bragði - hann vatt sér upp að mér og sagði eitthvað um ljósið sem lifnar milli vetranna eða hvað birtingin skrifar í döggina eða það sem jafnvel hann gæti aldrei fest á hverfult blað úr gleymandi skógum; meira man ég hvorki né skildi enda á talsverðri hraðferð annað
þriðjudagur, 4. janúar 2011
af hverjum degi
rauðar dyr að morgni eða afhjúpun nýrrar stundar eins og ómæld uppskera eða allar hafsins anemónur eða örsmá veröld í hverjum regndropa eða vortré full af söngvum
andartakið sem bíður eins og rísandi sól eða spádómur úr austri eða vonin í skauti verðandi móður eða hin óstöðvandi endurnýjun og frumspretta allrar tilveru