föstudagur, 31. desember 2010


dulmál villimeyjanna

við vitum ekki hvort þú hafir veitt því eftirtekt, sögðu þær sem trúðu á anda og töluðu við tré og steina, en það eru áletranir í ljósaskiptunum, fótatök í ölduróti sjávar og rödd undir fallandi kvöldi sem þú greinir ekki frá andvara af döggvuðum engjum

ég sagðist ekki trúa á þess háttar og reyndi að tala ekki niður til þeirra; að minn veruleiki væri sá sem allir sæju, heyrðu og gætu fundið

fundið? gripu þær fram í og augu þeirra glömpuðu í fyrstu mánageislunum, getur þú fundið að veröld mannsins er stund sundrungar, upphaf hennar gleymt og endir röklaus?; aðeins samtal upp úr svefni, andartak bak við guð eða eldur frá nótt til nætur, dansandi logar yfir afrískum sléttum

miðvikudagur, 29. desember 2010


týndu vitringarnir

loks fundu þau hina týndu vitringa og spurðu þá, hver leyndardómur jarðarinnar væri; einn þeirra leit upp og svaraði:

það er enginn leyndardómur; allt er gefið, en skilningarvit manna nema aðeins fjarlægð og yfirborð náttúrunnar, leiksvið sagna og drauma grafið í rúm og tíma, hannað fyrir hringrás lífs og tilvist líkama

að sjá er því að blindast, að fæðast er að deyja á öðrum stað; það er enginn leyndardómur, dýpsti skilningurinn kemur innan frá, aftan hugsunar og breytinga, því fyrir hinu eilífa eru svörin án spurnar og sannleikurinn án leitar

þriðjudagur, 28. desember 2010


ferðalangurinn

slitnir skór,
gömul ferðataska
og sögur upp úr hljóðfæri

mánudagur, 27. desember 2010


hugur og heimur

tveir spekingar mættust og ræddu um heima og geima; annar sagði veröldina sprottna úr vitund sinni, hinn sagði vitund sína sprottna úr veröldinni

sá fyrri sagði: öll náttúran er vitund mín, eins og jörð undir skýjuðum tindum, veður og vindar ósjálfráðar hugsanir og aðeins botn óendanleikans endimörk sálarinnar

hinn svaraði: vitund mín er aðeins endurvarp himins á vatni jarðar, fjarræn efni sínu eins og ölduniður upphafsins eða skuggi ljóssins; leiftrandi draumur í eilífri nótt

og enn rífast þeir og deila, eins og mótsagnir af eðli máls og merkingar

föstudagur, 24. desember 2010


sáttmálinn

skyndilega lægði stórhríðina
og hvítar snjóslindrur svifu hægt til jarðar
eins og óteljandi sáttmálar eða djúpstæð fyrirgefning

laugardagur, 18. desember 2010


þrír litir úr sannfæringu

ég man að rétt fyrir drauminn þóttist ég sjá vegleysu sveipast í andránni milli djúps og misturs, hvar dyr eilífðarinnar opnuðust í skilningi sem varð aðeins fundinn í tilfinningu; þar ætlaði ég einnig jarteikn hins fyrsta veruleika, eða þess sem gaf ljósið og dró upp vindinn, og hins síðasta, eða þess sem geymir lausn himnanna og lykla næturinnar; síðan missti ég þráðinn í umrót svefnsins og allt varð að ljóði

miðvikudagur, 15. desember 2010


allt er tónlist

allt er tónlist, sagði kondúktorinn, hlustaðu út undan þér: norðurljós eða næturregn á blikkplötu eins og einleikur fiðlu upp úr bakgrunni fallandi strengja eða fjarlægra stjörnuþyrpinga;

gömul tilfinning sem gengur aftur milli fortíða eða atvik á ljósmynd eða rekadrumbur í fjöru eins og sprek úr yfirgefnu hreiðri eða minnið í hljómi tréspils;

gluggi sem veit út að birtunni eða gáróttur stígur í vorleysingum eða von eða það sem kveikir dögunina og aðgreinir tónlist frá engu;

þetta sagði kondúktorinn áður en hann sneri brúnaþungur tónsprotanum aftur að rennandi fljótum og glitrandi ísbreiðum að kvöldlagi

föstudagur, 10. desember 2010


brot úr skýjunum

það bárust raddir í blænum um ljóðskáld sem gat í eina stund hreyft við sjálfum undirstöðum tilverunnar; afhjúpað dulin minni himnanna og ráðið tákn lífsins af jörðu í leiftrandi opinberun orðsins, líkt og hinn fágætasti skrautgali veraldar hefði sest á rithönd þess og gefið upp dvalarstaði gyðja og goðmagna listarinnar í undurblíðu næturljóði, áður en hann slapp úr netháf augnabliksins - út í óleystar gátur reyks og nætur

miðvikudagur, 8. desember 2010


fuglabúrið

hvað er það sem við köllum sál nema sú stund
sem villtur rauðbrystingur svífur óvart inn
opinn musterisglugga í morgunskímunni
og flögrar örvita inn milli hofsúlnanna
fyrr en máðar hendur hafa að lokum
sleppt honum aftur upp í himnana
er opnast bak við loga sólseturs

þriðjudagur, 7. desember 2010


skírn

þegar ég kom út var orðið bjart
án þess að ég hefði tekið eftir því
og öll jörðin reifuð í voðir mjallarinnar

laugardagur, 4. desember 2010


af hæðum borgarinnar

ég man þau kvöld og nætur;
gamlar húsaþyrpingar dregnar upp
eins og leikmynd í birtu götuljósanna,
sæluvinda hríslast í blöðum suðrænna pálma,
hvernig skuggar lauftrjánna svifu yfir gangvegum,
ljósin á brúnni, hljóðin frá veitingastöðum og börum,
salt loftið, dökk hafdjúpin, undrin í óendanleika himins
og yfir jörðinni þetta loforð eða játning sem býr í ungu sumri

eXTReMe Tracker