mánudagur, 29. nóvember 2010


að morgni

eitthvað
hefur vaxið
í faðmi nætur
og stígur nú fram
undir hinni glóandi dýrð
sem máninn lofaði í alla nótt,
og stjörnur hverfa ein af annarri
inn í geislandi slóð þessarar nýju sólar
meðan rís af náð hennar gullöld glæstra sigra

laugardagur, 20. nóvember 2010


borgin, eða fljótin við rökkrið

götur þessarar borgar eru laglínur,
leiknar af bogandi hæðum undirlagsins
líkt og rennandi frásagnir upp úr hljóði fyrri tíma
eða hin dreymandi fljót sem dansa í kvöld við rökkrið

mánudagur, 15. nóvember 2010


umbreyting

undir hjóli himnanna, milli götu og skýja,
inn um rúmtak drauma og staðlausa regnboga,
á brotnum stígum lystigarða, í flæði dagsbirtunnar,
frá undirstöðum breytileikans og tilurð morgundagsins

laugardagur, 13. nóvember 2010


vetrarmorgunn

morgunninn hefur frosið saman við stirnt næturhúmið,
andartökin líða eins og snjógustir yfir vegum;
síðan horfin bak aðra kyrrð og dýpri

miðvikudagur, 10. nóvember 2010


til næturinnar

getur þú enn lýst fyrir mér, nótt?:
hvernig rigningin hreyfist yfir götunum
í gljáandi mynstrum sem tvístrast í golunni;
hvernig hún fellur hljóðlega af þínum himnum
eins og hrapandi ljósbrot úr dimmum hljómbotni

eXTReMe Tracker