mánudagur, 18. október 2010


veðurlýsing

nokkur brot úr skuggunum runnu saman við vindinn
en ljósgeislar fóru um leið hjá nafni hins óendanlega
og páruðu eitthvað úr eilífðinni í flæðarmál skýjanna

föstudagur, 15. október 2010


úr dimmunni

eitthvað af tímanum hefur snúist við og hverfst um líðandi stund eins og ljósöldur brotna í stirnda mergð á glæru augans

hinir miklu söngvar næturinnar vaknað af hljóðri gleymd og runnið saman við hljómandi strengjaverk náttúrunnar

og sjálfur alheimurinn, eins og endalausar breiður af ólífutrjám í vindi, þroskað aldin sín á stirndum greinum vetrarbrautanna

mánudagur, 4. október 2010


birting örlaganna

hlíðar sólar hafa risið upp
undir lýsandi hvolfum morguns;
vegi hvítum af himni beljar ótt fram
eins og flæðandi kviku úr æðum jarðar;
það er þróttur í stundinni, mátturinn og lukkan
og merkin hafa opnast yfir ljóskrýndri slóð sögunnar

eXTReMe Tracker