miðvikudagur, 18. ágúst 2010


tré og breytingar

þarna
stóðu trén,
þessar risavöxnu
en all rósömustu lífverur,
með rætur sínar skorðaðar í jörðu,
eins og þær hefðu fundið þægilegan samastað
til að blómstra og deyja á, inn um stöðugt flæði árstíðanna


fyrir miðnætti

þægilegt
að sitja á veröndinni
kvöldið eftir heitan dag,
klukkan að nálgast miðnætti
en enn þá nokkuð hlýtt úti fyrir,
og horfa á trén hreyfast í golunni;
engin hugsun í gangi, aðeins þögult áhorf
á hægar dýfur stærstu greinanna og blaktandi laufin
rétt sjáanleg í ljósinu frá bænum og veikri birtu stjarnanna

mánudagur, 16. ágúst 2010


lofgjörð

eftir
rigninguna:
þakklætisvottur
í angan reynitrjánna

fimmtudagur, 12. ágúst 2010


ágúst

nú var orðið dimmt úti við á þeim tíma sem hann gekk vanalega heim á leið, áin í dalnum svartleit og spegillaus og eins og einhver hryllingur í trjánum; greinar þeirra þrungnar óttasleginni eftirvæntingu í vindhviðunum eins og fiðlur úr lokakafla líðandi sumars

laugardagur, 7. ágúst 2010


úr þokunni

það var dálítil þoka á strætinu sem hún gekk eftir, eins og hún hefði ratað í minningu þar sem smáatriði hafa máðst en atburðarásin stendur eftir að mestu - og að sums staðar hefðu atburðir og staðir runnið í óræðar samsetningar og umhverfið öðlast tilfinningu eða væntingu; eigið líf í samruna veruleika sem móta hverjir aðra í sífellu líkt og strandlengja og sjávarmál; og þarna gekk hún, eins og aðkomandi þáttur í eigin hugsunum; um gamalt hverfi fullt af minningum og vonum alls staðar

eXTReMe Tracker