fimmtudagur, 29. júlí 2010


draumur öldrunarlæknisins

mig dreymdi að allir sjúklingarnir mínir, látnir og lifandi,
kæmu til mín á móttökuna ungir og hraustir að sjá,
ég man mér fannst dálítið skrítið í draumnum
að enginn þeirra virtist eiga pantaðan tíma
og einn þeirra hló bara þegar ég spurði
hvort hægðirnar væru reglulegar

miðvikudagur, 28. júlí 2010


svartur og rauður

unga nótt!
með hafið í brjóstinu
og höfuðið fullt af skýjum;
þín svefnlausa þrá og dökka ró;
- í hálfhljóðinu milli næturlestanna
rísa gljáandi strætin upp af skugganum
og einhvers staðar undir himninum fæðist von;
eins og borgarljósin lýsi upp veginn til sólarupprásar

miðvikudagur, 21. júlí 2010


úr albúminu

það vantaði nokkrar myndir í albúmið,
eins og augnablikin hefðu gleymst
og horfið aftur til eigin tíma

þriðjudagur, 20. júlí 2010


undir sunnudegi

nótt hefur farið yfir skýjum,
strætin orðin auð í þögulli bið;
bara hljóðið í laufinu við gluggann
og þær hugsanir sem nema ekki staðar
eða renna saman við slitrur hálfdraums,
gleymdar um leið án marks um tilvist sína;
hér virðist tíminn fjarlægari en nokkru sinni
líkur lágværum öldum bak við ósýnilegan skugga;
annað fjarað út; aðeins bjart rýmið í vöku morgungeislanna

miðvikudagur, 14. júlí 2010


orð eru eyjar

ef orð
eru eyjar
þegja djúpin
í óskýranlegri ró

laugardagur, 10. júlí 2010


hinsta kveðja

þegar hann vissi hver sín hinstu örlög yrðu;
að falla fyrir þessum ólæknandi sjúkdómi;
meðan hann stóð í síðustu dyragættinni
og bjóst til ferðarinnar út í náttúruna,
leit hann sem snöggvast við á okkur
eins og til að segja okkur eitthvað
mikilvægt; afhjúpa leyndardóma
sem aðeins deyjandi maður sér;
en hann sagði ekkert, ekki orð;
horfði alvarlegur upp til okkar,
en svo kom það, alveg óvænt:
brosið sem hann skildi eftir

eXTReMe Tracker