þriðjudagur, 30. júní 2009


vaðall

sem færi álfamál
um misturlukið morgunsef
muldraði golan milt í mjölgult húmið


náttstafir

það var rétt eins og á hverri stundu
yrði öllum silfurpeningum himnanna
varpað ofan í dökkar laugar jarðar

mánudagur, 29. júní 2009


landslag

þar sem fjallið rís
spennist jarðlendið upp
eins og þúsund tröll með þanin lungu

sunnudagur, 28. júní 2009


bergmál

hellamálverkin
eins og leiftursýnir
úr löngu gleymdum draumi

laugardagur, 27. júní 2009


systurnar

gleðin
gerði sér títt við glauminn
en depurðin speglaði sig í dökku víninu

miðvikudagur, 24. júní 2009


kalkstigi á hæð

efsta þrepið í hvíta kalkstiganum
hefur leysts upp í fjúkandi duft
og runnið saman við lágskýin


afhjúpunin

aldrei vorum við nær því að ráða
hina óskýranlegu þætti tilverunnar
en í rauðu flæðarmáli hnígandi sólar

sunnudagur, 21. júní 2009


ljós í stargresinu

ljósalda kviknar af dulráðum næturstreng
og færist yfir sviðið líkt og glóandi snjóbylur
með einhvern uppsprettulausan söng á bak við sig


fyrirboði

í hlýjum eftirmiðdagsbjarma
fló agnarlítið kul og snerti laufið
líkt og fjarlægur grunur um haustið

föstudagur, 19. júní 2009


skýrof

skyndilega þögnuðu fuglarnir
og eitt andartak laukst himinninn upp
svo skógarmáninn gljáði spegilsvarta steinana


vottorð

þegar brunnurinn var tæmdur
fannst gulnaður miði innan um botnlaufið
sem á hafði verið rituð vatnsmáðu letri ólæs kveðja

fimmtudagur, 18. júní 2009


stormurinn

er veðurguðirnir lemja á skógartrumbur sínar
stígur marglitt haustlaufið hringdans
undir stórsveit breytinganna

eXTReMe Tracker