sunnudagur, 31. maí 2009


mýrarbærinn

á kvöldin
þegar mýrarsólin hnígur
lýkst upp rauður gluggi á vesturgaflinum

fimmtudagur, 28. maí 2009


jarðsprengjur

hraunið
sefur undir mosanum
líkt og minnisvarði löngu liðinnar styrjaldar

miðvikudagur, 27. maí 2009


opið hús

brotnar rúður eyðibýlisins
bjóða inn hvítri fjallaþokunni
eins og það vilji láta gleyma sér


gömul hús

þegar hitastigið breytist brakar í timburhúsinu
eins og viðurinn sé að greina frá
minningum úr skóginum

mánudagur, 18. maí 2009


birting

dag einn - fyrr en aðrir
mun hún ganga á morgunskónum
hljóðlaus eftir mannlausum sumargötum

fimmtudagur, 14. maí 2009


fallin vígi

við annan enda húsagarðsins
stendur gamalt járnhlið hjá girðingu
sem stendur núorðið hálfopið af sjálfu sér

eXTReMe Tracker