nei, þú ert ekki vakandi, þig er að dreyma drauminn um borgina aftur
mánudagur, 17. nóvember 2008
sól og máni
tveimur ólíkum augum horfir himinninn niður á jörðina; annað fylgir lífinu - hitt starir inn í dauðann
sunnudagur, 16. nóvember 2008
vopnin
lifði maðurinn í þúsund aldir
myndi hann týna hatrinu?
lifði maðurinn í einn dag
myndi hann finna það?
föstudagur, 14. nóvember 2008
brúna viðarfiðlan
hún gleymdi aftur viðarfiðlunni sinni í stofunni minni; ég hef aldrei kunnað á fiðlu, en leggi ég hana upp að andlitinu eins og fiðluleikari finn ég ilm skógarins og heyri einhvern fjarlægan óm í hljómbotninum
sunnudagur, 9. nóvember 2008
allegóría/dýramessan
í gulltötrum sínum gekk vættur dýranna inn í stirndan skógarsalinn; hann sagði vorið koma aðeins einu sinni, villigrænt, að maðurinn fæddist blindur eins og hin dýrin en sæi svo aðeins það sem dugði forfeðrum hans til endurmyndunar;
hægt væri að margbrjóta heilann endalaust, minnstu brotin yrðu alltaf óbrotin og að við kölluðum okkur menn því að við fórum úr trjánum en gætum aldrei í raun yfirgefið trén alveg, því þá fengjum við ekki súrefnið og misstum andann
föstudagur, 7. nóvember 2008
enduruppgötvun
allar hugmyndir urðu í síðasta lagi til við byrjun upphafsins;
þannig séð hefur maðurinn ekki komið fram með neina nýjung,
aðeins enduruppgötvað brot af því sem gleymdist við eigin tilurð
fimmtudagur, 6. nóvember 2008
tíminn gengur í garð
í sprungum gamalla viðarbekkja innan almenningsgarða situr tíminn löngum stundum og bíður eftir eilífðinni
þriðjudagur, 4. nóvember 2008
óbreytilegur breytileiki
eftir láréttum strigum tímarúmsins
stíga höfuðskepnur hlutveruleikans
í óvaranlegar eftirmyndir formanna
sunnudagur, 2. nóvember 2008
ljóshaf
milli hallandi húsaraða renna götuljósin í gullvatni af gljáandi slembu síðkvöldanna