föstudagur, 31. október 2008


fjarlægð

sagt er að máninn
verði aldrei einmanalegri
en þegar hann lítur yfir ljósborgirnar
í fjarlægum glaumi laugardagskvöldanna


útlaginn

hulinn dulu næturhúmi
dæsir einmana vetur
á heitar rúðurnar

fimmtudagur, 30. október 2008


til gamals vinar

ég man mér fannst himinninn alltaf líta öðruvísi út
frá herbergisglugganum þínum;
eins og hann væri brotinn

mánudagur, 27. október 2008


haust

í lágum haustvindinum
andvarpar skógurinn
í brúnt laufið

fimmtudagur, 23. október 2008


jarðarför mánans

frá lygnu hyldýpinu
hljóðlaus niður

niður til
jarðar


O



flýtur milli
hafs og himins

áður en hann leggst
aðframkominn í þangið

mánudagur, 20. október 2008


ósjáanlegur aðdragandi

upphafið
er blindur blettur
á hinum sjáanlega alheimi

eXTReMe Tracker