þriðjudagur, 24. október 2006


saga mannsins

í eilífðarmynstri tímans hafa myndast ævilangir aurslóðar af fátæku dufti lífdómsins, þar sem sögur genanna snúast í blóðmyllum jarðar, svo brot meðvitundar dreifast um draumlausan svefn náttúrunnar

eins og reikistjarna sem fýkur í veðrabrigðunum eitt skjótt tilveruskeið, þannig er maðurinn, leikinn í lifandi tónum langt í kvikuholi ótímans; hálfnóta, sem brátt greinist ekki frá endalausri hljómkviðu alheimsins

þriðjudagur, 17. október 2006


flökkusögur

í þessum stuttu og óskýru draumum
sem flökta um þröng aflíðandi strætin
á leið sinni meðfram borgartrjánum

í rjóðri skógarins langt inni í nóttinni
þar sem draugar dýrahringsins dansa
einhver ármilljón kringum lífhvolf sólar

í hverju heimilislausa tungli
sem vaknar djúpt undir sjávarganginum
og finnur sér veg í fari skýjanna, á slóð himins

mánudagur, 2. október 2006


skuggar skýjanna

kannski
það sé ekki guð
sem á að fyrirgefa okkur
heldur við sem eigum að fyrirgefa honum

eXTReMe Tracker