Snúningsmaðurinn
Fyrsti sjálfvirki maðurinn
Ég var að laga kaffi fyrir þyrst skrifborð,
Ég mætti dauðunum
Ég veiddi nokkra fiska
Sólrún stakk hníf
Við sögðum kjallaranum sögur þegar allt í einu kom gat á vegg.
Rautt auga óþekktrar veru leit á okkur af sömu undrun til baka:
„Afsakið mig, ég er bara að ná í það sem regnið ánafnaði mér.“
Þegar tæknin
Fólk vandist því
Hann hafði ekki sofið,
Við skrúfuðum nóttina í sundur eins og hillu
Inni í mér hvíla orð sem leita þagnar. En enginn getur lýst djúpinu án þess að gára flötinn.
Ég heyrði skuggadreng flauta undir trénu. Hann sagði ekki neitt, en bað mig um að elta. Tilfinningu? Draum? Ég áttaði mig ekki á því. En mér til furðu sneru spor okkar í hina áttina.
Við komum niður að ánni. Hann dró úr vasanum: Matt glerbrot, ókunnan lykil, tvo steina. Ekki til að muna eða sakna, heldur gæta. Síðan gekk hann í burtu án þess að hreyfast úr stað.
Ég sneri aftur að húsinu. Sólin hafði hækkað á lofti og tréð reis án skugga. Áður en ég lokaði dyrunum hljómaði kunnuglegt stef í fjarska – og eitthvað sem svaraði, miklu nær.
Á enda draumsins
Eitt sinn átti vonin
Krakkarnir í hverfinu kölluðu hann rottumanninn. Af kvikindisskap tróðu þau stundum ostbitum í póstlúguna hans og hlupu í burtu, eins og til að spenna gildru fyrir það sem ljósið snýr sér undan.
Ég þekkti ekki sögu hans, né vissi hvaðan nafnið kom. Kannski var það frammjótt nefið eða gulnaðar, óklipptu neglurnar. Kannski þörfin fyrir að úthýsa því sem minnir óþægilega mikið á okkur sjálf.
Alla daga sat hann í sömu stellingu á skiptistöð strætisvagna. Hann steig aldrei upp í vagn og ég velti fyrir mér eftir hverju hann beið. Það var eins og hann sæti fastur á milli þess sem sést og hverfur.
Snemma vors stóð sætið autt. Ég þóttist viss um að vagn hans hefði loks komið. Fólk ferðaðist áfram í gegnum holrúmið sem hann skildi eftir sig. Sviðinn í lófunum minnti á snertingu við þögult eitur.
Ég leit út um stærsta glugga stöðvarinnar. Nokkur börn skríktu og krítuðu nýjar ófreskjur á stéttina. Handan götunnar liðaðist mjór reykur upp úr ræsinu og gul birtan kastaði ostbitum á járnið.
Móðirin sagði hana
Tómið fær oft á sig illt orð.
Áður en nokkurn grunaði hafði konan í langa húsinu tekið að sér hund. Ekki að eigin frumkvæði, þó enginn þekkti raunverulegu ástæðuna. Hún sem hafði alltaf verið smeyk við svona dýr.
Fyrst um sinn fór hún aðeins út með hann þegar enginn var á ferli. Ef einhver birtist í fjarska, skaust hún niður næstu hliðargötu – með kaldan svita og barning í brjóstinu.
Stundum togaði hundurinn í bandið. Stundum dróst hann svo langt aftur úr að hún varð að kippa í spottann, bara til að gá hvort hann væri enn þarna. Jú, það fór ekki á milli mála.
Á einhvern undarlegan hátt veitti það henni öryggi að hundurinn væri aldrei langt undan. Taumurinn gaf henni líka tilfinningu um vald. Stundum hélt hún bandinu lausu, stundum allt of stuttu – bara til að sýna hver réði.
Í raun veitti þetta henni öryggi sem var erfitt að finna annars staðar. Og um leið dálitla fjarlægð frá ósýnilegu afli sem vildi stundum þrengja að hennar eigin hálsi, eins og stífluð súrefnisgríma.
Þessi litli, skjálfandi rakki gat jafnvel verið dálítið sætur, eftir allt saman. Lítið kvikindi sem hún gat bæði teymt og skammað.
Eftir því sem henni leið betur, fór hún aðallega út að ganga fyrir hundinn. Kannski mildaði það líka eitthvað í ætt við samviskubit.
Hún fór að brosa hlýlega til fólks sem hún mætti. Fólks sem eflaust dró sína eigin tauma á eftir sér.
Spyrjum ei hvar orðin bíða,
Þá gekk drengurinn inn í skógarsal þar sem næturguðirnir sáldruðu agnarlitlum ljóshnöttum undir dökkar slæður skýjanna.
Máninn spurði hvorki um sjúkrahótelið né meðferð litla bróður, heldur kastaði daufhvítum bjarma í spegilsléttar lindir.
„Kannski bíður ljósið eftir okkur,“ sagði drengurinn. „Ekki aðeins við dögun, heldur líka í stjörnunum sem við óttumst að gleyma.“
Þú mætir
Ég hlusta á systur mína tala - ekki um kjarnann, heldur allt sem umlykur hann: Lög úr sannfæringum og hughreystingum. Þannig vögguvísu er ætlað að róa foreldrið fremur en barnið.
Já, fyrir mér er þetta svefn. Ekki svefninn sem býr í hrópum og grátri líkamans. Meira eins og að leggja slitið sængurlak þétt upp að vökunni, og reyna að sjá ekki drauminn í gegnum götin.
Sjáðu til, systur minni stafar ógn af því sem hún þekkir hvorki né skilur. Hún hræðist að glata ákveðnu leyfi til athafna, afsökun. Óttinn grefur sig í formin, og formin þrífast á ótta.
En ég segi, það býr eldri viska í iðrum og hörundi. Ekki til að láta af stjórn heldur til að minna á: Söngva úr gleymdum herbergjum. Ljóð sem byrja hvorki né enda. Sannleika blóðstreymis og boðefna.
Systir mín hlær. Samt gætir hún mín, ekki sem systkinis heldur barns sem hún þurfti að gefa frá sér. Kannski hjálpum við hvort öðru. Með undarlegri blöndu ástar og örvæntingar, öryggis og óvissu.
Þú talar um breytingu. Athugaðu að fyrr eða síðar skapar frelsið sína eigin fjötra. Valið geymir nýjar spurningar; jaðarinn óséðan neista. Flótti opnar nýjar dyr, ekki leið út heldur inn í sömu hringrás.
Í rótlausri leit hverfur nærvera. Sá vilji felur í sér vöntun. Að elta er að yfirgefa, fara í kringum óvissu. Þar byrjar gleymska. Ekki tap á tengingu, heldur stanslaus hreyfing, spenna án lausnar.
Að muna er að sitja með, leyfa reynslunni að hljóma, líkamanum að tala. Að dvelja er að finna rými fyrir það varðveitta og týnda. Snerting er ekki uppgjöf, heldur skilyrði til vaxtar, frelsi til að vera.
Kveðja,
annar leitandi orða.
Þegar ég vaknaði var tígrisdýr á heimilinu. Í fyrstu hafði ég áhyggjur en með tímanum varð nærvera þess kunnugleg, næstum eðlileg. Þungt þrammið á flísunum, stöku urrið og lyktin sem minnti á rakan skógarbotn - allt vandist þetta merkilega fljótt.
En dag einn færði dýrið sig upp á skaftið, stökk upp í sófa til mín með háværu mali og lagði risavaxna loppu yfir brjóstkassann á mér. Ég fann minn eigin hjartslátt undir klóm dýrsins, og því fylgdi skrýtin tilfinning, blanda af vernd og skelfingu.
Var dýrið smátt og smátt að taka yfir? Ég flýtti mér inn á skrifstofu til að lesa mér til um sjúkdóma og sýkingar sem fylgja villtum dýrum. En þegar ég mændi á skjáinn gekk óvænt inn annað stórt kattardýr: Grannvaxinn, tignarlegur blettatígur, með dimm og dularfull augu. Einhverra hluta vegna virtist mér stafa mun meiri ógn af þessu dýri, og ég velti meira að segja fyrir mér hvort ég ætti að kalla á eftir tígrinum.
Blettatígurinn nálgaðist hægt og hljóðalaust. Ég man ég hugði of seint að flýja. Dýrið færði sig fyrir aftan mig og þefaði varlega í bæði eyrun á mér. Mjúkur og rannsakandi andardráttur þess fyllti hlustirnar. Ég lokaði augum. Það var eins og dýrið væri að miðla til mín einhverju frumstæðu, um að óttast ekki hið hráa og óræða.
Þegar ég opnaði augun aftur voru bæði dýrin horfin. Í loftinu hékk enn lykt af rökum skógarbotni. Nokkrar djúpar rispur skreyttu parketið. En innra með mér var ákafur en óræður friður sem ég gat ekki alveg útskýrt.
Óteljandi regndropar falla í sömu tjörn.
sýndu mér
hvar eignafólk
þyrstir ekki í meira
sýndu mér
hvar siðgæðisverðir
gangast við spegilmynd sinni
sýndu mér
hvar keppnisfólk
þráir ekki viðurkenningu
sýndu mér
hvar þau góðgjörnu
geta sett heilbrigð mörk
sýndu mér
hvar slúðurberar
leggja aftur öfundaraugun
sýndu mér
hvar þau lærðu
skilja takmörk þekkingar
sýndu mér
hvar þau sterku
óttast ekki berskjöldun
sýndu mér
hvar útlit og geta
verða ekki til aðgreiningar
þá hefurðu sýnt mér
hvernig maður sér mann
fyrir manninum í sjálfum sér
inn um þagnir og regndropa