föstudagur, 4. júlí 2025


Snúningsmaðurinn

Úlfar þekkti brakið í liðunum, marrið í vöðvunum: Snúningsmaðurinn. Hann leit ekki við og hélt áfram að teikna, reyndi að heyra ekki hljóðið í beinunum.

Pabbi hans vissi ekki af snúningsmanninum, en hann vissi af Steinari. Sagði honum að slá til baka. En Úlfar vildi ekki slá. Ekki einu sinni Steinar. Að slá Steinar væri að slá sjálfan sig. Steinar hafði misst foreldri líka.

Rödd snúningsmannsins var hás og hvell. Hann sagði myndirnar lélegar. Tilraun til að hylja blöð sem yrðu alltaf auð. Hönd Úlfars staðnæmdist í miðri hreyfingu.

Snúningsmaðurinn hélt áfram: „Þú getur ekkert teiknað, aumingi! Það eina sem þú gerir er að þurrka endalausan skít af þér!“

Úlfar sá snúningsmanninn út undan sér. Fingurnir sneru öfugt og bakið vafðist um skakka hryggarliðina. Úlfar hafði oft meitt sig við að reyna að rétta úr honum.

Þó snúningsmaðurinn væri afmyndaður stamaði hann þó ekki. Hann gat talað. Ólíkt því sem vafðist um tungu Úlfars þegar Steinar nálgaðist.

Snúningsmaðurinn kom alveg upp að skrifborðinu. Olnbogarnir fundu aftur fyrir mölinni á skólalóðinni. Hráka Steinars. Sviðanum eftir spörkin.

Úlfar var vanur að bíða. Steinar hætti alltaf á endanum. Við tók tilfinning sem var bæði þung og létt, og fylgdi honum aftur inn í skólastofuna. Það var auk þess ekki hann, heldur Steinar sem grét.

En í þetta sinn gerðist eitthvað. Úlfar hunsaði hvorki snúningsmanninn né reyndi að stöðva hann. Hann leit beint á hann og rétti honum varlega blað og penna.

Reiðisvipurinn vék fyrir undrun. Þegar snúningsmaðurinn byrjaði að teikna skólalóðina fann Úlfar hvernig herðablöðin fóru að hreyfast. Í fyrsta sinn var hann ekki viss hvor þeirra héldi á pennanum.

þriðjudagur, 1. júlí 2025


Tréð

Kalt ryðið
dró línur í lófann
þegar hliðið opnaðist.

Áður bar dagsljósið
engan þunga.

Tréð læstist
eins og minning
um rætur sínar.

Hún hellti vatninu
yfir þyrsta jörð
og hengdi ljósker
á bera krónuna.

Tré standa eftir.
Tré fara ekki.

Tíminn gáraði
ósýnilegan flöt
undir líkamanum.

Hún geymdi tréð
og tréð geymdi hana.

Svo liðu árin
í þykkum raka.

En einn morgun
titraði strengur
í viðargólfinu.

Hún lá kyrr
eins og hann
myndi þagna.

Tónninn hvarf ekki,
heldur lagðist
nær líkamanum.

Hún áttaði sig.

Hann barst 
ekki að utan.

Hún hélt út.
Hliðið var opið.
Ljóskerin slokknuð.

Börkurinn
var rennsléttur,
eða voru hendur
hennar orðnar hrjúfar?

Tréð hvíslaði
inn í línur 
húðarinnar:

„Enginn sáir fræjum,
heldur leggur þau
í lófa okkar.“

Tréð opnaðist ekki —
heimurinn rúmaðist
allur innan þess. 

Hún gekk inn. 

Í fjarska heyrðist
hliðið lokast aftur.

Gangurinn
var hvorki bjartur
né dimmur.

Agnarsmá kornin
höfðu enga þyngd
í lófa hennar.

Viðurinn andaði.
Einhver hafði
rist á vegginn:
„Líf.“

Hún leit varlega inn
um dyragættina.

Þar sat kona
sem skildi hvorki
orð né þögn.

Ræturnar vöfðust
um ökklana,
andlitið hreyfðist
undir laufinu.

Konan rétti fram
hendurnar, hægt,
eins og hún hefði
beðið hennar.

Hún lagði fræin
í lófa konunnar
og benti á gluggann.

Dagsljósið féll
léttar en áður.

sunnudagur, 29. júní 2025


Slátturinn

Brotin skóflan dinglaði í hendi Fjólu eins og jörðin hefði gefist upp á henni. Olgeir renndi upp rúðunni þegar hún hvarf niðurlút inn í skúr. Hann þrýsti fingrunum í skarpa bíllyklana á meðan Jens talaði. Eintóna röddin rann undarlega vel saman við vélarhljóðið: „Ég myndi láta hana fara. Ég meina... Þetta er í annað sinn í þessari viku. Þetta eru nýjar skóflur.“

Fjóla kom aftur. Jens sat með þögult orfið. Olgeir leit snöggt á hana á meðan hann sneri sér við til að bakka gætilega með kerruna. Hvað ef hún segði satt? Þeir höfðu ekki hlustað á föður hans. Á sláttinn í höfðinu sem kom nokkrum vikum áður en hann hvarf ofan í moldina. Jens myndi ekki skilja að fleira en verkfæri gat brotnað. Ekki fyrr en of seint.

Jens hafði oft spurt Fjólu. En spurningarnar voru ekki til að heyra, heldur afhjúpa. Til að segja að henni væri bara illt í öxlinni þegar hún þyrfti að vinna. Fjóla sagði að áhöldin molnuðu á einhverju hörðu. Ekki steinn. Ekki klöpp. En aðeins Olgeir mátti heyra að verkurinn í öxlinni væri ekki hennar, heldur einhvers undir grasinu. Olgeir myndi skilja að þetta væri ekki lygi, heldur leið til að lifa áfram.

Olgeir rak niður skófluna án vandræða þegar hún var farin. Hann hætti þegar taktbundin höggin minntu á hraðan púls. Olgeir hafði verið hópstjóri í nokkur sumur. Fólk hafði áður hringt sig inn veikt á mánudögum. En þetta var eitthvað annað.

Hann skildi Fjólu enn minna eftir samtalið þegar Jens mundaði orfið efst í brekkunni. Þegar hún talaði um að lyfta því sem moldin gæti ekki borið. Sem enginn gæti borið nema hún.

Ekki að hann tryði henni. En stundum var trúin ekki jafn mikilvæg og að leyfa fólki að bera uppi sitt eigið líf. Ef þeir hefðu trúað föður hans. Ef við myndum öll trúa hvert öðru. En Jens trúði aðeins á árangur, á framtak. Jens var ekki vondur, hann myndi skilja þetta þegar hans eigin verkfæri brystu.

Þegar Jens hermdi eftir Fjólu kreisti Olgeir fram bros til að hylja herpinginn í kviðnum. Sama herping og þegar faðir hans fór upp í rúm og móðir hans sat þegjandi inni í stofu. Í þögninni sem fylgdi honum út í garð. Þögninni sem hann bar enn uppi.

Olgeir ætlaði að mótmæla þegar Fjólu var sagt upp, en eitthvað annað tók yfir. Jens var ánægður. Áhöldin hættu að brotna, en Olgeiri fannst sköftin ýmist þyngri eða jörðin þéttari. Hann stimplaði eitt sinn inn númerið hennar Fjólu en lagði símann niður þegar Jens slökkti á orfinu.

Þegar nýr starfsmaður spurði hvað lægi eiginlega grafið þarna tók Olgeir ósjálfrátt um öxlina. Jens byrjaði að hlæja. Olgeir heyrði hláturinn renna saman við snúninginn á orfinu, í sömu tíðni og slátturinn í höfði föður hans. Eins veröldin væri að fela það sem enginn gat borið lengur. Eða bara til að breiða yfir þögnina í stofunni.


Maður og vél 2

Fyrsti sjálfvirki maðurinn
fraus á miðjum sýningardegi.

Sumir kölluðu það bilun.
Aðrir töluðu um list.
Fáir sáu vinnuaðstæður hans.

fimmtudagur, 26. júní 2025


Sopinn

Ég var að laga kaffi fyrir þyrst skrifborð,
þegar öldruð hjón báðu mig
um að koma út að leika.

Ég skammaði þau – en mundi svo
að einu sinni hafði ég verið gamall líka.
Ég fékk mér sopa.


Þau voru mun eldri en skjalataskan
sem hélt um sögu mína.

Ég opnaði hana
og byrjaði að lesa:


Ég drekk aldrei kaffi með álfum –
læt heitt súkkulaði duga.


En þegar sólin dró land úr austri,
birtist rjúkandi bolli
og tvær verur með lauf á enni.


Rauðklæddur álfur sagði:
„Ég fór á kaffihús. Gat ekki pantað
cappuccino á íslensku.
Þjónninn skildi mig ekki.“

Ég ætlaði að svara:
„Heldurðu að þessar
baunir séu íslenskar?“
En kaffið drakk orð mín.

Hvítklæddur álfur tautaði:
„Meira úrval.
Allir skilja peninga.“

Sá rauði bætti við:
„Það er ekki hægt að panta neitt
ef fólk heldur sig bara innan síns hóps.“

Ég spurði:
„Hafið þið ekki sjálfir lifað ósýnilegir
í hólum öldum saman?“

Þeir horfðu í gegnum mig.

„Við erum enn ósýnilegir.
Það ert þú sem reynir
að sjá okkur með þessum
asnalegu sögum þínum.
Farðu út að leika.“

Ég þagnaði, eins og einhver
hefði rænt af mér kaffibolla
sem ég gat hvorki pantað né drukkið.
Ekki vegna tungumáls, heldur aldurs.

Skjalataskan skall aftur
eins og til að hefta
saman tómar síður.

Kom kaffið til mín
eða hafði ég
drukkið mig héðan?

Gömlu hjónin bentu:
„Þú ert álfurinn.“

Ég leit út.

Þar stóð eldri maður
með framandi svip
og prentaði út laufblöð
með blautum litum.

Garðurinn lagði frá sér bollann
og fór inn að leika við okkur,
með dót sem hverfur ekki
nema maður sjái
hvaðan það kemur.

Ég lyfti bollanum.
Eftirbragðið var sætt.

þriðjudagur, 24. júní 2025


Myndin

Fræðingurinn gekk inn á barinn. Hann trúði ekki á drauga. Ekki nema þá sem afneituðu sinni eigin tilvist. Þræddu borgina í svörtum leigubílum sem gátu ekki stöðvað.

Lyktin barst fyrst. Síðan rám röddin: „Viltu vita hvernig er að vera lifandi og dáinn á sama tíma?“ Hann sá líkama hennar beygjast í glasinu. Veskið var utan af krókódíl.

Hann sagði frá draumnum. Hann hafði feluliti en var þó sá eini sem sást. Byggingarnar voru skakkar og komust ekki fyrir á götunum. Fólk gekk á milli í röngum hlutföllum.

„Þú ert ekki að segja mér þetta,“ sagði hún. „Heldur þeim sem hefur ekki enn lært að hlusta.“ Hann leit upp. Konan var horfin en krókódílaveskið lá eftir á barstólnum.

Hann hljóp á eftir henni en rýmið sveigðist. Svartur leigubíll stöðvaði með autt stýri. Fólkið á götunum gekk í gegnum hann. Hann leit niður. Krít í tveimur hlutum.

Hún tók veskið aftur: „Þær eru ekki að brotna, heldur að muna.“ Hann sá loksins. Ekki hverfið, heldur þann sem hafði lagt litina frá sér þegar bjallan hringdi.

Barljósin voru öðruvísi. Við borðin sátu form sem biðu teikningar. Hann pantaði sér vatnsglas. Dró upp þurran pensil sem hafði legið þéttar upp að lófanum en hann minnti.

Höndin hreyfðist ekki þegar hann málaði útlínurnar. Hann leit í spegilinn hinum megin við barborðið. Smátt og smátt þekkti hann aftur svipinn af ljósmyndunum.

sunnudagur, 22. júní 2025


Brunnurinn

Fæturnir þekktu leiðina, en sporin urðu þyngri með hverju skrefi. Ilmur af votu laufi og steinum minnti á nóttina sem hún stakk af. Svona staðir áttu að vekja ónot, ekki anga af sumri. Seytlandi hljóð. Mjó tunglsbirta. Hún vissi að veran beið.

Lófarnir kólnuðu á brúninni. Steinarnir voru alltaf kaldir, jafnvel þegar sólin brenndi garðinn. Hún leit niður. Botninn geymdi ekki spegilmynd hennar, heldur þunga nærveru sem talaði þegar hún sneri sér undan. Hún kallaði – en hrasaði og skall með höfuðið á stein sem losnaði.

Engin svör. Rakinn smaug inn í sárið. Æðaslátturinn minnti á fótatökin nóttina sem hún læddist út í skóginn – og systurinnar sem leitaði hennar enn í skógarmyrkrinu. Nóttina áður en hún átti að fara burt – til frænkunnar með stafinn og reglurnar. Hana sveið í kinnina.

Útlínur sáust á botninum, eins og vatnið vissi meira en það sýndi. Blóðdropi lak niður hálsinn, heitur og hljóður. Duft sáldraðist úr veggnum og teiknaði litla hringi á flötinn. Hún horfði á lausa steininn. Enginn hafði kennt henni að hlaða. Samt hélt veggurinn. Þar til nú.

Hún kastaði steininum í þögnina – en brunnurinn gleypti hann án hljóðs. Hún hlustaði. Sama hrollvekjandi gutl og leitaði hennar í draumum.

Hún lokaði augunum – þetta þýddi ekkert. Þá hreyfðist eitthvað. Hún opnaði augun. Fingur verunnar teygðu sig upp úr vatninu. Augun voru gegnsæ – og snertu trosnaðan hnút sem lá dýpra en hún þekkti.

Kaldur dropi rann eftir upphandleggnum. Hún hélt niðri í sér andanum og horfði á veruna draga eitthvað upp úr gruggugum botninum. Smám saman reis það upp – andlit systurinnar, nóttina sem hún lést við leitina.

Hún losaði næsta stein. Þær kipptust allar við: Hún, systirin, veran. Systirin talaði, en veran átti röddina: „Við vorum aldrei ósýnilegri en þræðirnir sem héldu okkur saman.“ Hvítt ör opnaðist á kinn þeirra beggja.

Þögn. Orð systur hennar opnuðu rás sem hún hafði haldið lokaðri. Ekki til að týna sekt, heldur lifa með henni. Þekkja hinn hlutann af sjálfri sér. En hvað ef steinarnir héldu ekki systur hennar, heldur hennar eigin skugga? Hana svimaði. Horfði á veruna.

Hún sá það núna. Brunnurinn geymdi brotið – en hafði gleymt hver átti það. Hann nærði falskt hjarta á milli þeirra, sem slóst um án líkama. Bjó til veru sem hélt þeim saman með svörtum þráðum. Til að taka á móti – verður fyrst að sleppa. En til að sleppa þarf að halda lengur en líkaminn megnar.

Hún gekk með steininn að trjánum. Hann var þyngri en steinn átti að vera. En hún þekkti þennan þunga, hafði borið hann áður og síðan. Steinninn fölnaði af sýnilegri byrði, en virtist þyngjast með hverju skrefi. Spor hennar urðu dýpri um leið, eins og jörðin sjálf mótmælti verkinu. 

Hún lagði steininn upp við gamalt tré, eins og til að skila honum. Kastaði mæðinni. Það voru svo margir steinar eftir. Sumir voru þyngri en hún sjálf.

Hún leit við. Veran stóð við brunninn. Horfði á gluggann á svefnherbergi hennar, síðan beint á hana. Hún hafði hennar eigin augu. Varirnar hreyfðust en hljóðið minnti á rennandi vatn. Andlitið í brunninum lokaði augum og seig ofan í dýpið.

Veran sneri sér hægt – og hvarf inn á milli trjánna. Í þykkan faðminn sem opnaðist þegar allt hafði sýnst lokað. Sporin hurfu eitt af öðru undir moldugan skugga. Þangað sem hluti af henni hafði alltaf beðið.

Hún gekk að brunninum. Sár en ögn léttari. Hvorki af sekt né sakleysi. Fæturnir þekktu ekki þessa jörð lengur – en augun höfðu beðið. Ilmur af gróðri barst með vindinum. 

Vatnið var tært. Hún skolaði sárið. Himinninn var hvítur – hvorki af nóttu né degi, heldur einhverju ósýnilegu sem hélt þeim saman.

fimmtudagur, 19. júní 2025


Strengurinn

Rödd mín kallaði  
af tréstreng  
sem rann á milli  
sviðs og sæta.  
  
Hver æfing  
þroskaði aldin  
sem sprakk út  
í ljós og reyk.  
  
Þó gríman félli  
dauð að nóttu,  
vissi ég af henni  
við fótskör nætur.  
  
Sýningin rann  
fyrir fullu húsi  
af hósta og hlátri  
úr hrjúfum börkum.  
  
Á miðju ári  
sá ég leikarana  
klæða þyrnana  
í þunna búninga.  
  
Síðan opnaðist rós,  
leikararnir hurfu
og risavaxið barn  
stökk á sviðið.  
  
Frá öftustu röð  
sáu ellibelgir  
rósina gufa upp  
og barnið á eftir.  
  
Sagan var öll,  
nema mín, þín  
og þagnarinnar  
sem keypti miða.  
  
Rödd mín kallaði  
af tréstreng,
en strengurinn
rann út í skóginn.

miðvikudagur, 18. júní 2025


Nafnið

Ég mætti dauðunum
við dyr að týndu húsi.

Þeir spurðu mig til vegar,
en ég rataði ekki sjálfur.

Ég veit ekki hvort þeir
sáu í gegnum mig
eða höfðu bara sofið lítið.

Þeir taka langar vaktir —
og mér var kennt
að hringja ekki í þá
nema að ég væri að deyja.

Biðin er víst orðin
heil mannsævi.

En þeir voru ekki pirraðir
yfir ratleysi mínu,
heldur andvörpuðu
úr eigin botnleysi.

Og með andvarpinu
kom þessi
óþekkta hlýja:

„Vegurinn hverfur ekki
þó þokan leggist yfir
og hendur myrkurs
týni útlínum fjallanna.

Við tökum ekkert,
heldur skilum
kjarnanum.

Við köllum ykkur
nafni sem þið
hafið gleymt.“

Síðan tók ljóðið
við samtalinu.

Vindurinn
teiknaði myndir
af öllu sem ég
gat aldrei
horfst í augu við.

Ég kinkaði kolli
eins og ég skildi —

og um stund
mundi ég ekki
hvað ég hét.

Endanleikinn
þekkir mig
ekki lengur

en ég faðma hann —
eins og minn
eigin son.


Veiðin

Ég veiddi nokkra fiska 
úr ánni sem rennur
yfir nöfn steinanna.

Línan var úr lygi
og öngullinn 
sneri sér undan
til að sjá meira.

Sumir fiskar 
beygðu stöngina
af djúpri þyngd.
Aðrir báru andlit barns.

Þeir voru kunnuglegir,
eins og gömul bekkjarmynd
sem sá mig enn brosa
í máðum stólnum.

Ég setti þá 
í þyngdarlausa fötu.
Tálknin hreyfðust
en vatnið stóð kyrrt.

Ég reyndi 
að létta stemmninguna,
en einn þeirra hló ekki
að bröndurum mínum.

Hann flaut hægt 
niður á botn og sagði:

„Þetta gekk allt vel,
en ég hafði ákveðið annað.
Ég get ekki útskýrt það,
en stundum fer ég alveg inn —
ekki til að finna lausn,
heldur sjálfan mig.“

Ég hætti veiðunum —
eða var það áin
sem sleppti mér?

Ég hellti fiskunum úr fötunni.

Þeir hurfu einn af öðrum
undir slý og blauta spegla,
eins og minning 
einhvers annars.

Allir nema sá sem áin
hafði þegar tekið
úr höndum mér.

Hann varð að steini
sem fann enn
fyrir snertingunni.

mánudagur, 16. júní 2025


Blöðrurnar

Sólrún stakk hníf
í kommentakerfið —
ekki til að flýja þögn,
heldur sprengja hana.

„Öruggt rými,“
hikaði Laufey tvíburi.
En Laufey var sjálf
flott af eigin leik.

Laufey kom með nýja lausn.
Sólrún hafði séð auglýsingarnar:
Nú var hægt að blása
ábyrgð frá sér í litlar blöðrur —
gular, bláar, grænar.
En ekki hvítar.

Eitthvað varð eftir.
Hvítur dofi á vörunum.
Sumir kölluðu hann frelsiskossinn,
aðrir botnfall siðferðis.

En blaðra Sólrúnar var kommentakerfið.
Leikurinn þandi lyklaborðið út
og lyfti henni yfir bæinn:
löggæslan, sveitastjórnin, kirkjan.
Sauðir þurftu að heyra það.

Allir höfðu forðað sér,
nema sannleikurinn
sem stakk í blöðrurnar.

Sólrún horfði á systur sína.
Kannski var þetta hennar leið
til að hleypa lofti úr samviskunni.

En hvort stingur meir
að lifa af –
eða snúa baki við þeim
sem treystu á þig?

Blöðrurnar voru dýrar.
En Laufey bauð.
Er hægt að kaupa sér líf?

Sólrún dró fyrir.
Tók upp eina gula blöðru.
Sviði á vörum.
Lykt af hreinsilausn.

Þenslan var hljóðlaus,
en hún heyrði rödd Laufeyjar
í hugskotinu:
„Hjá mér er bara gleði.
Maður velur hugsanir sínar.“

Hún svaraði röddinni:
„Af hverju ertu þá öll
að þenjast út Laufey —
eins og pínulítil, gegnsæ blaðra?“

Sólrún andaði inn,
litirnir sprungu.
Ekki til að eyða
heldur opna.

Eftir var hvít blaðra
sem þurfti að vernda
fyrir hnífum.

laugardagur, 14. júní 2025


Gesturinn

Sellóið hafði alltaf verið í húsinu, löngu á undan fólkinu. Það bar sama dökka hljóm og handriðin. Kannski bauð fólkið mér þangað vegna tóna sem þau höfðu gleymt. Ég hefði aldrei þolað að vera þarna heldur nema fyrir tónlistina.

Flesta morgna vaknaði ég við þungan hlátur, en þegar ég kom upp sat maðurinn pinnstífur fyrir framan hálfétna köku. Hann talaði um gleði, en höndin titraði.

Þegar ég æfði tónstigana heyrði ég hláturinn og barðist um leið við krampa í fingrunum. Stundum var eins og við héldum um sömu strengi, annar með svörtum nótum en hinn með köldum titringi.

En hljóðið sem fór inn í mig kom ekki frá honum. Þegar ég lék á sellóið heyrði ég eitthvað skella saman hinum megin við vegginn, þannig að ég átti erfitt með að fylgja taktmælinum.

Konan borðaði ekki annað en gulrætur og rófur. Hún fiktaði stöðugt við beinhvítar kúlur í litlum silkipoka. Skerandi hljóðið í kúlunum minnti á skellina á bak við vegginn. Fyrsta daginn spurði ég, af sakleysi, hvað væri í þessum kúlum. „Augnablikin sem þeir rændu frá mér,“ svaraði hún hvasst. Ég þorði ekki að spyrja neitt frekar.

Svo var það sonurinn – langur, mjór og með þögul raddbönd frá fæðingu. Ég sá hann ekki þegar ég æfði, en heyrði einhvern fjarlægjast þegar ég lagði bogann frá mér. Hann læddist alltaf eins og hann óttaðist að mynda nokkurt hljóð. Eins og allur líkaminn reyndi að lifa undir sömu þögn.

Síðasta morguninn vaknaði ég enn við læti. Ekki þennan þunglamalega hlátur sem ég hafði reynt að venjast, heldur brambolt í húsgögnum og skápum. Bíll mannsins var horfinn úr innkeyrslunni. Hröð fótatök smugu yfir þröskuldana eins og kaldur gegnumtrekkur. Sellóið hafði dottið á hlið, en var óskaddað.

Þegar ég kom upp sat sonurinn þögull við matarborðið. Fyrir framan hann lá tómur silkipoki. Konan óð á milli herbergja án þess að segja neitt. Svart hárið sveiflaðist á eftir henni.

Þegar móðir hans sá ekki til, benti sonurinn upp í munn sér. Ég heyrði hljóð sem minnti á einhvern að ræskja sig, síðan vélrænan hlátur.

Kannski var ég ekki gesturinn, heldur sellóið. Strengirnir fylltu rými sem þau náðu aldrei að snerta. Augnablik sem kúlurnar gátu ekki geymt. Ég heyri enn óminn í strengjunum þegar ég hugsa til þessa fólks.


Augað

Við sögðum kjallaranum sögur þegar allt í einu kom gat á vegg.

Rautt auga óþekktrar veru leit á okkur af sömu undrun til baka:

„Afsakið mig, ég er bara að ná í það sem regnið ánafnaði mér.“


Skattholið

Gamli maðurinn á neðri hæðinni 
sýndi mér skattholið: 
„Hér geymi ég það 
sem rúmaðist aldrei inni í mér.“

Hann strauk yfir lifandi viðinn 
eins og vaxtarræktarmaður 
sem spennir sig í bilinu 
á milli hégóma og vöntunar.

Ég gekk nær 
og las vandlega 
handskrifaða miða
yfir pínulitlum skúffum:

– „Undrun.“ – „Vanmáttur.“ – „Afbrýðisemi.“ –

„En þarftu ekki að gera þær upp? 
Eftir hverju ertu að bíða?“ spurði ég 
og rykkti í sprungna skúffu.

Skúffan geymdi aðeins 
ryk úr krömdum flugum
og skorpnuðum lirfum. 

Hrollur fór um mig,
ég skellti henni ósjálfrátt aftur,
eins og af ótta við að smitast
af einhverju ósýnilegu 
úr þögn áratuganna.

Gamli maðurinn brosti hlýlega
án þess að hreyfa andlitið.

„Þá missi ég þær,“ sagði hann.
„Og skítt með mig – þegar ég fer
verða þær eftir hérna, 
fyrir fjölskylduna. 

Ég hef þegar merkt mér 
herbergi í erfðamenginu.“

Ég leit á hann –
og sá ekki gamlan mann,
heldur ungan draug
að fálma eftir líkama.

Við fætur hans 
léku hljóðfæri
sem morgunninn
heyrði ekki í lengur.

föstudagur, 13. júní 2025


Maður og vél

Þegar tæknin
verður betri
en maðurinn,

getum við loksins
einbeitt okkur að því
að vera manneskjur.

fimmtudagur, 12. júní 2025


Dauði trúðs

Þegar trúðurinn féll frá
klæddu áhorfendur hann
í rennislétt skrifstofuföt.

Þeir strengdu á hann alvöru nef
og lögðu daufar vekjaraklukkur
yfir brandarann í bringunni.

Áhorfendur ærðust
þegar nýr alvarleiki
þvingaði boltunum í hringi.

Þríhjólin rúlluðu inn
í kringum vísitölurnar
og rólurnar brenndu peninga.

Þetta var ekki sirkus,
bara farði og gerviblóm
yfir stígvélum úr græðgi.

En þegar kerfið
sneri útúrsnúningunum við,
hvarf allt – nema trúðurinn.

Trúðurinn hló þá og grét,
því sýningunni lauk aldrei –
klappið kom án lófataks.

Þó sviðsljósið hafi mörg lög,
getur sá sem hvergi birtist
aldrei stigið í gegnum þau.

Að hverfa inn í spegil
er að koma fram í leik
sem húsið hefur yfirgefið.

Trúður étur trúð,
þegar sviðið máir
bæði menn og hlutverk.

Og trúður sem er innlyksa
í veröld án gríns og gamans,
getur ekki kastað grímunni.


Tækin

Fólk vandist því
ótrúlega fljótt
að tilfinningar
væru mælanlegar.

Gagnrýnendur sögðu
almenning glata hæfni
til að skynja eigin líðan.

Forsvarsmenn tækninnar
minntu á að mannkynið
hefði aldrei skilið sig sjálft –
hvorki fyrr né síðar.

Þetta væri aðeins byrjunin.
Á næsta misseri, sögðu þau,
yrði hægt að eyða tilfinningum
með daufum geisla.

Þau hvísluðu óvart:
„Enginn þarf þá
að finna neitt lengur.“

En þegar skælbrosandi menn
tóku að streyma
inn á heilsugæslur
og biðja um mælingar
á sorg sinni og reiði,

byrjaði kerfið að halla.

Ekki til hliðar –
heldur inn í eitthvað
sem birtist aldrei á skjánum.

miðvikudagur, 11. júní 2025


Ísveggurinn

Sálfræðingurinn hafði hitt margar manngerðir, en aldrei heila fjölskyldu úr ísilögðu gleri. Hún horfði á þau ganga inn með frosin föt og andlit í klakanum.

Þau gáfu ekki mikið af sér. Móðirin andaði köldu við hverja spurningu, og þó faðirinn þurrkaði af sér gleraugun, sat móðan eftir.
 
Dóttirin sat inni í glerkúlu þar sem húsið hreyfðist, en snjórinn sat kyrr. Glitrandi þögn hennar talaði undir nálum og kristöllum.

Þegar sálfræðingurinn spurði um samskiptin á heimilinu, sagði móðirin að dóttirin ætti bara að hrista þetta af sér. Faðirinn lagði örsmáa glerfiðlu á borðið og vék talinu að hnattrænni hlýnun.

Dóttirin hvíslaði úr kúlunni: „Það er ekki bara hægt að hrista burt snjóinn.“

Sálfræðingurinn spurði hvernig fjölskyldan tjáði erfiðar tilfinningar. Móðirin svaraði með ísköldu glotti og speglaði sig á gljáandi eiginmanninum, sem flýtti sér að fela bleytuna undir skónum.

Sálfræðingurinn sneri sér að tölvunni. Ekki til að skrifa í hana – heldur til að finna hlýjuna frá lyklaborðinu.

Hún hlustaði á móður hrópa í gegnum sprungur og föður andvarpa á gluggarúðu til að sjá ekki út.
 
Hún þagði svo með dóttur, sem hreyfði ekki við heiminum af ótta við að týna sporunum.

mánudagur, 9. júní 2025


Heiðin

Ég mætti æsku og elli
uppi á miðri heiði,
þar sem vegalengdir
mælast í því sem finnst
án þess að leita.

Æskan var með nefrennsli
og marbletti upp að hnjám.
Hún spurði og spurði
en hlustaði ekkert á svörin.

Ellin var heldur rórri
og talaði um ódýr duftker
eins og hendur mínar
vissu eitthvað um sandinn. 

Síðan um steina 
sem muna allt 
nema nöfn okkar.

Æskan rétti mér pela
af orðlausum minningum
með bragði af leik og ótta.

Ég fann tönn í mosanum,
en kunni ekki við að spyrja 
hvor þeirra væri eigandinn.

Ellin kinkaði kolli:
„Jæja, gamli.
Ég verð ekkert yngri.“

Þá rétti hún mér
lyfjarúllu og gerviliði
úr títani og sagði:

„Þeir komast
lengra en fæturnir.“

Ég leit við,
en æskan var horfin.

sunnudagur, 8. júní 2025


Þú mátt leggja skóna hér

Hann hafði ekki sofið,
stóð og kallaði 
á dimmum
sjúkrahússgangi:

„Þið hlaupið
til að heyra ekki
skref mín.“

Var ég sá
sem skildi ekki?

Blöð óttans opnast:
Í líkamanum,
í umhverfinu.

Reiðin þrýstir
hælum í jörðina
til að finna fótfestu.

Skömmin skríður 
um mygluð göng
og étur eigin skugga.

En hvar dregur lífið
þurra rót
undan sólu?

Hræðumst ei
helgidóm líkamans.

Leyfum altarinu
að vera brotið.  

Garðarnir bíða
undir skorpunni.

Bíða eftir rödd 
sem seytlar
um opið hold:

„Þú hefur þjáðst.

En þér er óhætt –
þú mátt losa reimarnar
og leggja skóna hér.

Grasið man
iljar þínar.“

laugardagur, 7. júní 2025


Þau sem sáu mannkynið

Hann birtist stundum í gervi fjalls sem heyrir okkur nema staðar. En oftar geymir áin kaldar hendur sem sverfa grjót úr bökkunum.

Hún dregur mánaljósið inn í herbergin, kastar skýjum yfir augu okkar og vefur hárið djúpt í svefninn. Baðar andlit okkar í auðninni.

Hann leggur brekkurnar yfir öxlina og teymir fossinn eins og nafnlausa skepnu. Mótar hreyfingar okkar úr hrjóstugum klettum.
 
Hún raðar fuglasporum og klaka umsælis iljar okkar. Bindur eyðimörkina í útlínur konu. Skrifar það sem söknuður getur ekki lesið.

Þau mætast sem heimur í öðrum heimi. Þetta er ekki ást, heldur eilífðir sem halda fyrir augun. Samvera þeirra er sundrunin sjálf.

Þó mynda þau líkama. Í okkur anda þau með öllum árstíðum. Dansa eins og liðamót sem lifa alla þessa tónlist í fyrsta sinn.

föstudagur, 6. júní 2025


Eftir æskuna

Við skrúfuðum nóttina í sundur eins og hillu
og lögðum bernskuna í þunnan kassa.

Strekktum himnu milli vonar og ótta
og drógum rykugan draum af þakinu.

Tókum fuglana niður úr trjánum,
en skildum söngvana eftir í garðinum.

Brátt hurfu fótatökin úr stiganum
og gljáandi iljar gengu undir sápuvatn.

Við settum rýmið í glærar töskur
og stöfluðum þeim á herðarnar.

Áður en við afhentum húsið gömlum konum
máluðum við það með lit úr gleymdum veggjum.

En í hvert sinn sem við áttum leið hjá
horfði sakleysið á okkur úr gluggunum.

fimmtudagur, 5. júní 2025


Að yfirgefa tungumál

Inni í mér hvíla orð sem leita þagnar. En enginn getur lýst djúpinu án þess að gára flötinn.

Það sem talar hér er aðeins hús sem heimsækir mig þegar óendanleikinn hefur gleymt sér.

Þetta er skel sem vænting skildi eftir. Rofin kalkskurn sem rúmaði aldrei stærð lífsins.

Þegar stráunum er sleppt, tekur engið á móti. Rakinn vefur sér rólega um rætur jarðarinnar.

Fátækt okkar dansar í kringum himinstjörnur. Skriftin á veggjunum opnar nýjar sprungur.

Samt bíður eitthvað ósagt á tungu næturinnar, samt eru hendur morgunsins fullar af korni.

Handan líkamans birtist enginn vegur, aðeins snerting við vota og hrjúfa þögn handan orða.

þriðjudagur, 3. júní 2025


Skuggadrengurinn

Ég heyrði skuggadreng flauta undir trénu. Hann sagði ekki neitt, en bað mig um að elta. Tilfinningu? Draum? Ég áttaði mig ekki á því. En mér til furðu sneru spor okkar í hina áttina. 

Við komum niður að ánni. Hann dró úr vasanum: Matt glerbrot, ókunnan lykil, tvo steina. Ekki til að muna eða sakna, heldur gæta. Síðan gekk hann í burtu án þess að hreyfast úr stað.

Ég sneri aftur að húsinu. Sólin hafði hækkað á lofti og tréð reis án skugga. Áður en ég lokaði dyrunum hljómaði kunnuglegt stef í fjarska – og eitthvað sem svaraði, miklu nær.

sunnudagur, 1. júní 2025


Tennisboltar

Skrifstofan minnti hann á tennisvöll. Boltinn á hillunni. Annar sem aldrei myndi lenda. Netið strengt á milli þess sem er og var. Kaffibollinn brenndi lófann, með sama bruna og spaðinn hafði gert heilu sumrin.

Á vellinum varð hann aftur drengurinn sem tapaði aldrei. Ennisbandið þrýstist inn í höfuðleðrið. Metnaðurinn strekkti skinn yfir hnúana. Sárin og blöðrurnar færðu bikarinn fingurbreidd nær.

Man húðin? Blauta málmskífu. Titrandi verðlaunapall. Snertingu sem kona skildi eftir. En drengir halda ekki utan um konur. Drengir elta bolta. Sumir þeirra snúast ekki, heldur staðnæmast yfir leikmanninum.

Hann fitlaði við nafnspjaldið. Að vinna sig upp krafðist aga. Agi krafðist viljastyrks. Viljastyrkur fórna. En að sjá aðeins næsta bikar var að líta fram hjá drengnum sem mátti aldrei nokkurn tímann tapa leiknum.

Boltinn hæfði gólfið. Hann tók niður bandið. Leit ekki á medalíurnar. Hendurnar slöknuðu. Honum fannst einhver leiða sig áfram. Hverjum sigri fylgdi gullpeningur, og annar sem gróf sig undir húðina.

föstudagur, 30. maí 2025


Kvöldgangan

Um kvöldið fór ég í fjallgöngu með vini mínum langt utan úr heimi. Sá var maður málvísinda og hafði lagt stund á íslensku síðustu misseri. Hann var orðinn ágætur í íslensku, jafnvel betri en sumir innfæddir. En þrátt fyrir öll málin sem vinur minn kunni, heillaði hann mest af öllu það sem tungan kemur aldrei í orð.

Áður en við gengum yfir hæð eina straukst fóturinn utan í eitthvað loðið, án þess að ég sæi neitt þess valdandi. Eins og óvænt mýkt náttúruafls, sem maður hafði aðeins tengt við hörku. Vindurinn blés af og til úr annarri nösinni.

Þegar við komum upp fyrir fjallið beið okkar óvænt sjón. Þar, í skugga birtunnar, sat myndarleg tröllkona. Vinur minn varð bergnuminn, eins og hann hefði mætt sinni eigin sól og tungan runnið í stein. Vindurinn varð allsnarpari við þetta.

Tröllkonan heilsaði okkur ekki, og virtist bíða einhvers sem hafði löngu yfirgefið hana. Vinur minn, sem hafði aldrei lært neina jarðfræði, fór að spjalla við tröllkonuna. Ég, gripinn bæði forvitni og þjóðlegum óhug, spurði hvort hún vildi vera í friði.

„Ekki misskilja,“ sagði hún.

„En ég þarf að vera ein.

Ég sit með einsemdinni – ekki af hlýhug, heldur sem hinn helmingur þagnarinnar.“

Þegar hún hafði mælt þetta, andaði vindurinn í grænt hárið, og lítil steinvala rann á milli fóta okkar.

Þó tröllkonan hefði sjálf þagnað, talaði rödd hennar áfram: „Þegar ég týnist undir mosa lít ég út eins og landið mitt. Það er meira en sumir geta sagt.“ Vindurinn andaði köldu í svart hár vinar míns frá annarri heimsálfu.

„En hvað er að tilheyra landi,“ hélt hún áfram og leit í hina áttina, „ef hrossagaukurinn hlær að grasinu sem stingst úr efri vör minni, og köngurlónni dettur ekki annað í hug en að spyrja mig um fjöllin? Aldrei er spurt hvernig steinunum í mér líður.“ 

Hún rétti úr sér og kallaði út í loftið: 

„Og ef mitt eigið land þekkir mig ekki lengur, hver er þá útlendingur í því og hver ekki?!“ Orð tröllkonunnar runnu út í rok sem varð til jafnóðum.

Ég fann spennu í iðrum mér, eins og jarðhitinn hefði náð til mín líka. Ég vissi ekki lengur hvort ég ætti að vorkenna tröllkonunni. En myndi hún éta okkur félagana, færum við að velta við steinum þarna? Hafði vinur minn skilið mál hennar? Ekki bætti úr skák þegar tröllkonan leit beint á okkur og sagði innflutt grjót vera að hafa af henni hlíðina.

Vinur minn virtist hafa skilið hvert orð, því hann sakaði tröllkonuna um hræsni. Og ekki mildilega eins og kurteis gestur sem beygir sig undir framandi sið á ferðalagi sínu. Nei, það var eins og hann byggi yfir sinni eigin tröllkonu, í sínu eigin landslagi, sem væri ekki hér til að miðla neinum málum.

Síðan spurði ég –
ef hún vildi vera ein,
af hverju væri hún þá að segja okkur allt þetta?

Þá fauk í hana, og hún lagðist endilöng í grjótið sem rann saman við rass hennar og læri. Líkaminn varð að einni skriðu, og skriðan að öskri, sem hreyfði við hlíðinni allri í fárviðrinu.

Við fundum grjótið skella aftan á hælunum. Þegar við litum næst um öxl sáum við síðustu sólargeislana leika um hraunið, eins og til að loka fyrir eitthvað, sem var þó aldrei opið.


Kliðurinn

Á enda draumsins
sáum við blöðin
hverfa í reykinn.

Dökku slæðuna
sem sandmóðirin
gróf í skuggann.

Hönd milli stjarna
hellti eyðimörk
í örmjótt glas.

Við færðum lög í stein,
og földum skógana
í brjósti okkar.

Héldum að nóttin 
hefði gleymt hverju
hún hvíslaði í bergið.

En þegar hafið hló
í brotnum kerjum,
heyrðum við kliðinn.

Og skilningurinn
þéttist í lítil ský
á sjónarrönd:

Eilífð gleymir ekki jörð,
heldur festir hana
upp á himininn.

fimmtudagur, 29. maí 2025


Þvottur

Þvotturinn þvær sig ekki sjálfur. Hreinleikinn er til að hengja á snúrur.

Tromlan slær taktinn. Sápan máir minnið. Veröldin byrjar í bastkörfunni.

En hvað kostar hreinsun? Dofnar sannleikur? Snýst sagan um sig sjálfa?

Sokkur týnist, grasblettur gleymir barni, koddaver tapar trú og skýin skömm.

Náttúran gerir fötin ekki óhrein – heldur hitt sem skýlir okkur frá henni.

þriðjudagur, 27. maí 2025


Húsið

Vek ekki drauma,
opna ný augu.

Heyri hjarir marra,
hljóð í lyklum.

Þetta var aldrei hús,
heldur höll að opnast.


Litir skugganna

Eitt sinn átti vonin
ómyndaðan líkama.

Dagarnir liðu án vitnis
og nóttin óttaðist ekki.

Síðan varð til heimur
úr holdi og hreyfingum.

Augun tóku ljós og liti
og eyrun rufu þögnina.

En hugurinn sá eldinn
eyða burt árstíðunum.

Og djúpið hræddi hjartað,
því það sá ekki til botns.

Þá mundi líkaminn rödd
sem hvíslaði í tímann.

Hann leitaði vonarinnar
en minnið rataði ekki.

Hann fann aðeins söng
sem hafði týnt röddinni.

Þá laut líkaminn niður
og heimurinn bleytti augun.

En þegar hann gaf upp von
varð hörundið nógu mjúkt.

Því vonin þekkir
aðeins mýktina.

Vonin sýndi líkamanum
hverju lífið hafði gleymt:

Þó jörðin sé köld og hljóð,
nærir hún ræturnar.

Dauðinn á ekkert nafn,
og skuggarnir geyma liti.

Og sárustu vefirnir
halda um sálina.

mánudagur, 26. maí 2025


Hreinsunin

Hún hélt um auman úlnliðinn og leit í dauflýstan spegil sjúkrastofunnar. Augun báru sorg sem hún náði aldrei að tengjast. Hafði hún ýtt henni frá sér? Til að hlífa þeim? Hún rannsakaði andlitið. Hæglátur svipurinn tjáði aðeins mýkt. Mýkt sem vofði yfir herbergjunum heima. Eins og hennar eigin heimili ætti minningar sem hún kannaðist ekki við.

Nóttina þegar maðurinn í næsta rúmi var í aðgerð gerðist eitthvað. Kannski voru það svefnlyfin. Hún var allt í einu að sparka svartklæddri konu úr hörðu sjúkrarúminu. Konan streittist ekki á móti, en þunginn var meiri en hún hafði ætlað. Hún þrýsti aumum hryggnum aftur í rúmgrindina, vafði sér í kuðung og spyrnti af öllum mætti.

Svartklædda konan skall hljóðlaust á gólfið. Hver var þetta? Handarbakið logaði eftir átökin. Á meðan hún áttaði sig á stöðunni kviknaði skyndilega ljós. Ekki ljós inni á stofunni, heldur í öðru miklu nærra og kunnuglegra rými. Rými sem átti hvorki nafn né stað. Birtan þaðan var hlý og næstum því áþreifanleg.

Gólfið hlaut að vera kalt. Hún leit niður. Líkami svartklæddu konunnar lá þar enn, hreyfingarlaus. Klæðin huldu ekki lengur sárin. Andaði hún? Í sama mund byrjaði fugl að syngja fyrir utan gluggann. Hún óskaði þess að geta séð hann, að ekkert af þessu væri raunverulegt.

Hún hallaði sér nær konunni. Söngurinn fyrir utan gluggann þagnaði. Hún virti líkamann fyrir sér. Húð konunnar var gegnsæ. Undir holdinu var eins og óteljandi litlir fuglar drægju andann með fuglinum úti – og henni sjálfri. Eins og þau hefðu öll einn sameiginlegan andardrátt.

Fuglarnir virtust sofa í nýju birtunni. Hún lagðist hægt aftur niður til að vekja þá ekki. Fuglinn fyrir utan gluggann hóf aftur að syngja, fegur en nokkru sinni áður. Stingirnir voru horfnir úr handarbakinu. Hún fann hlýjan dropa renna niður mjúka kinnina, án mótstöðu. Hann hvarf inn í handarbakið.

sunnudagur, 25. maí 2025


Bóndinn

Bóndinn andvarpaði í vindinn    
og gróf bakverkina í hlíðarnar.    
    
Um jörð hans     
lá gróðri vafin gjá    
sem spurði í stráum    
og svaraði með steinum.    
    
Bóndinn fór 
án þess að koma,
sporin töluðu
á máli þokunnar.
    
Slík þögn     
nemur blóð renna    
og gleypir ótta     
manns og skepnu.    
    
Því sama höndin     
sem gefur mjólk    
þekkir hnífinn.    
    
Að fóðra lambið    
seðjar úlfinn.    
    
Bóndinn skolaði
dauðann í læknum
og lagði þungann
aftur á jörðina.

Hann vissi    
að á þessari jörð     
yrði ekkert heilt    
án þess að brotna.    
    
Og til að birtast náttúrunni    
þyrfti að hverfa úr sjálfum sér.

föstudagur, 23. maí 2025


Alla daga sólbirtunnar

Lífið nemur aðeins söngvana sem mótuðu líkamann. Fiskar mynda búr úr tálknum og hreistri, en þögnin sekkur til botns. Handan birtunnar raðar dauðinn skeljum í sandinn.

Við gengum berfætt um brotin sem féllu úr himninum og gáfum þeim nöfn. Í sumum hvíldum við andlitin. Samt logaði eitthvað nafnlaust á náttblómum og eilífðarstjörnum.

Fornir hafskuggar drógu hrygginn úr söltum djúpum. Að opna hjarta er að hleypa ljósgeislum inn í rifjabúrið. Það sem glóir á milli beinanna sekkur aldrei ofan í leirinn.

miðvikudagur, 21. maí 2025


Rottumaðurinn

Krakkarnir í hverfinu kölluðu hann rottumanninn. Af kvikindisskap tróðu þau stundum ostbitum í póstlúguna hans og hlupu í burtu, eins og til að spenna gildru fyrir það sem ljósið snýr sér undan.

Ég þekkti ekki sögu hans, né vissi hvaðan nafnið kom. Kannski var það frammjótt nefið eða gulnaðar, óklipptu neglurnar. Kannski þörfin fyrir að úthýsa því sem minnir óþægilega mikið á okkur sjálf.

Alla daga sat hann í sömu stellingu á skiptistöð strætisvagna. Hann steig aldrei upp í vagn og ég velti fyrir mér eftir hverju hann beið. Það var eins og hann sæti fastur á milli þess sem sést og hverfur.

Snemma vors stóð sætið autt. Ég þóttist viss um að vagn hans hefði loks komið. Fólk ferðaðist áfram í gegnum holrúmið sem hann skildi eftir sig. Sviðinn í lófunum minnti á snertingu við þögult eitur. 

Ég leit út um stærsta glugga stöðvarinnar. Nokkur börn skríktu og krítuðu nýjar ófreskjur á stéttina. Handan götunnar liðaðist mjór reykur upp úr ræsinu og gul birtan kastaði ostbitum á járnið.

þriðjudagur, 20. maí 2025


Fáein orð um hamingju

Sama hve hún barðist í ræktinni varð hún aldrei ánægð. Getur kona tapað líkama sínum? Brosið lá að baki spegilsins.

Sjálfsvirðingin var allt of þung. Ekkert skín án þess að brenna um leið. En þrátt fyrir sviðann tók þrekhjólið aldrei af stað.

Ekki spyrja hví kona fer frá einum hnefa til þess næsta. Hvar hún geymi röddina. Ekki spyrja. Spurningar búa ekki til svör.

Stundum getur hjarta átt erfitt með alla birtuna. Ekki af ótta við ljósið, heldur að fela því aftur litla, nakta stelpu.

sunnudagur, 18. maí 2025


Síðustu gatnamótin

Göturnar héldu niðri í sér andanum þegar sá gamli stappaði á kúplingunni, eins og hið minnsta hnjask gæti afvegaleitt skrjóðinn í sitt síðasta stæði.

Slitnar hendurnar vissu hvar vegurinn endaði: Hjá henni — konunni sem hann hafði gefið hálsmenið er slóst til í hanskahólfinu þegar minnstu munaði.

Allt annað í umferðinni gerði glákan að ljóði sínu. Þegar hann ók loks yfir, var sem bíllinn næmi staðar en öll ljós og bílar hyrfu í bylgjandi hár hennar.


Bryggjan

Móðirin sagði hana
of viðkvæma.

Að skapið
væri aðeins leið
til að stjórna.

Augnaráð kennara.
Mixtúra með bragði
af moldugum steinum.

En þegar hún
þekkti ekki 
eigin fætur,
hljóp stúlkan
niður í fjöru.

Þar vaggaði bryggjan
mjúklega á öldunum.

Stundum hægt,
stundum hratt.

Andardráttur,
hreyfing vöggu.

Hafið sagði
við stúlkuna:
„Ég sé. 
Ég veit.“

Og stúlkan 
fann aftur
óljósa kyrrð.

Kyrrð sem við
áttum öll,
áður en við
fengum andlit
og hendur.

laugardagur, 17. maí 2025


Gamla konan og sólin

Enginn býst við því að sólin gleypi gamlar konur – bara sísvona. En þegar henni var rúllað út í bjartan garðinn gerðist eitthvað stórfenglegt.

Hrukkurnar sátu eftir á stéttinni og gigtin lak niður sjóðandi stólbakið. Konan sveif upp í heild sinni og brosti á milli mildustu vindsveipanna.

Þá vorum við ekki börn, heldur hún. Og þau hlupu hlæjandi niður mjókkandi stíga sem enginn man nema skógarnir handan sólarinnar.


Læknirinn

Þreytan sem leggst
á skoðunarbekkinn
rúmast ekki alltaf
í mæliglösum
eða á myndum.

Nei, ekki skortur
á skömmtum
eða skrefum.

Það sem verður 
eftir á bekknum,
löngu á eftir tímann,
eru útlínur þess 
sem hefur reynt of lengi.

Að halda uppi himni. 
Að grípa ljósið.

Þetta er ekki þreyta sjúkdóms,
heldur þreyta tilveru.

Og hvorki töflur né tangir 
ná því burt sem lífið 
skilur hægt og hljótt
út í merg og bein.

Þeir skuggar 
þurfa ekki meira ljós,
aðeins leyfi til að sjást.

föstudagur, 16. maí 2025


Talað við tómið

Tómið fær oft á sig illt orð.
Samt hefur það ekkert gert.

Því eru búin dauf klæði
sem anga af uppgjöf.

Enni þess er krýnt
með þögn og skugga.

En tómið er hvorki höfnun
né að hverfa, heldur öndun.

Tómið er óbreytanlegt, eilíft.
Mótvægi endalausra umskipta.

Djúp og yfirborð sameinast
þar sem vatn speglar himin.  

Vera – án þess að skilja, skapa, 
stjórna, sýna, bjarga eða bæta.

Vera. 
Eintóm vera.

fimmtudagur, 15. maí 2025


Hundurinn

Áður en nokkurn grunaði hafði konan í langa húsinu tekið að sér hund. Ekki að eigin frumkvæði, þó enginn þekkti raunverulegu ástæðuna. Hún sem hafði alltaf verið smeyk við svona dýr.

Fyrst um sinn fór hún aðeins út með hann þegar enginn var á ferli. Ef einhver birtist í fjarska, skaust hún niður næstu hliðargötu – með kaldan svita og barning í brjóstinu.

Stundum togaði hundurinn í bandið. Stundum dróst hann svo langt aftur úr að hún varð að kippa í spottann, bara til að gá hvort hann væri enn þarna. Jú, það fór ekki á milli mála.

Á einhvern undarlegan hátt veitti það henni öryggi að hundurinn væri aldrei langt undan. Taumurinn gaf henni líka tilfinningu um vald. Stundum hélt hún bandinu lausu, stundum allt of stuttu – bara til að sýna hver réði.

Í raun veitti þetta henni öryggi sem var erfitt að finna annars staðar. Og um leið dálitla fjarlægð frá ósýnilegu afli sem vildi stundum þrengja að hennar eigin hálsi, eins og stífluð súrefnisgríma.

Þessi litli, skjálfandi rakki gat jafnvel verið dálítið sætur, eftir allt saman. Lítið kvikindi sem hún gat bæði teymt og skammað.

Eftir því sem henni leið betur, fór hún aðallega út að ganga fyrir hundinn. Kannski mildaði það líka eitthvað í ætt við samviskubit.

Hún fór að brosa hlýlega til fólks sem hún mætti. Fólks sem eflaust dró sína eigin tauma á eftir sér.

þriðjudagur, 13. maí 2025


Orð óvitans

Spyrjum ei hvar orðin bíða,
ákafi fælir fuglinn á brott.

Gefum hinu frjálsa tíma
og frið til þess að anda.

Röskum ei ró þess villta,
ráðum heldur í söngvana.

Að sitja með skugga
er að birtast í ljósinu.

Sönn mildi virðir mörk,
og mótast af nærveru.

Eins og hjartað óx í hafi,
mun haf vaxa í hjartanu.

Ekki til að brjótast út,
heldur gangast við.

Ekki til að hreinsa af mold,
heldur finna til mennsku.


Drengurinn og stjörnurnar

Þá gekk drengurinn inn í skógarsal þar sem næturguðirnir sáldruðu agnarlitlum ljóshnöttum undir dökkar slæður skýjanna.

Máninn spurði hvorki um sjúkrahótelið né meðferð litla bróður, heldur kastaði daufhvítum bjarma í spegilsléttar lindir.

„Kannski bíður ljósið eftir okkur,“ sagði drengurinn. „Ekki aðeins við dögun, heldur líka í stjörnunum sem við óttumst að gleyma.“

mánudagur, 12. maí 2025


Sorgarklukkan

Með tímanum varð eymdin ekki aðeins kunningi úrsmiðsins, heldur að tifi djúpt innan úr vefjunum.

Verkirnir mynduðu dáleiðandi mynstur sem snerust eins og örfínir málmar á milli brjósks og beinenda.

Því sumar klukkur mæla ekki tíma, heldur telja það sem manneskjan getur hvorki haldið um né sleppt.

laugardagur, 10. maí 2025


Refirnir

Ég spurði refina ráða: Hvernig má rata yfir regnvotan móann? Hvað geymir mosinn í myrkustu gjótum?

Skollar svöruðu lægvíst, lágt: „Lykt og skugga. Fótspor, stein og fuglabein. Horn af hrút, hringinn út.

Maðurinn er merkisdýr. En lyngið talar leynimál, ljóð sem enginn skilur. Merking hvílir á minnstu stráum.“

Áður en ég gat meira spurt, skutust refirnir burt. Ég varð hugsi og hljóður. Hvað segja vötn og gróður?

Ég man refanna ráð. Um rödd er hvíslar í kjarri. Um land sem ljósið baðar, og lykil þess að nema staðar.

föstudagur, 9. maí 2025


Minnisleysi

Ég sé hann ganga niður að ánni hvern morgun, með dagsljósið í eftirdragi. Skrefin verða sífellt hægari, en viljinn er góður. 

Hann tínir upp steina áður en sólin snertir þá, og stingur þeim í götóttan vasa. Þó hönd hans skjálfi, geyma augun enn von.

Fólk segir hann hafa tapað áttum, týnt sjálfum sér. En mér sýnist hann aðeins leggja það á minnið sem veröldin hefur gleymt.

miðvikudagur, 7. maí 2025


Sjón

Stundum þegar ég leita 
að gleraugunum á morgnana,
finn ég gleraugu dætra minna.

Þó litlu umgjarðirnar passi ekki,
og heimurinn sé enn í móðu, 
sé ég nóg til að finna mínar.

Að sjá heiminn eins og barn
hefur stundum hjálpað mér
að skerpa mína eigin sýn.

þriðjudagur, 6. maí 2025


Turninn

Áður en ég sofnaði fannst mér ég svífa hægt í kringum viðarturn. Turninn var grafinn niður í gróðurríkan hól, og teygði sig upp til himins.

Hæðirnar voru reistar með tækni og þekkingu, af kynslóðum sem efuðust, vonuðu og trúðu. Ég nam ákafa þrá þeirra eftir hinu mikla og stærra.

Turninn skalf, ég horfði inn. Ég sá átök, blóð. Sagan geymdi einnig sundrung og þrátt fyrir allt geisuðu enn stríð. Ég leit niður.

Ég skildi að það sama og lyftir manninum leiðir hann frá uppruna sínum. Að sá sem leitar endimarkanna getur gleymt jörðinni undir sér.

mánudagur, 5. maí 2025


Skondin er sköpunarþörfin

Hvað sem þú gerir – ekki fara
með sköpunarþörfina í sund.

Í fyrsta lagi heldur hún að tímann megi túlka eins og kvæði, svo það er vonlaust að mæla sér mót við nokkurn mann. Nema að það sé merki um hversu djúpt maður skynjar heiminn að gleyma handklæðinu heima?

Þegar sköpunarþörfin kemst loksins eitthvert, tekur hún bergmálsdýptarmælinn sinn með í barnalaugina, og hefur leitina að einhverju listrænu. Hún sér brothætta fegurð í sprungnum sundkút, sem flýtur á milli hamingjusamra fjölskyldna – óséður, misskilinn.

Ef þú vilt stríða henni aðeins, bentu henni þá á að andköfin á milli sundtaka þurfi ekki að endurspegla innri átök við mennskuna. Eða að ferð í gufuna sé ekki þrungin dulrænum merkjum – já, bara venjuleg gufuferð með tjah, aukaskammti af stjórnlausri dramatík.

Æ, samt… Myndi maður ekki sakna hennar aðeins? Hver ætti annars að finna tákn um tilgang lífsins í froðunni við laugarbakkann? Eða að sýna sitt „sanna sjálf“ með stórfurðulegri sundhettu?

Veistu, væri ég ekki svona upptekinn af því að hlusta á hann Guðjón hérna í heita pottinum tala um nýja snjallklósettið sitt, eða hvað bróðir hans Braga gerði af sér í Berlínarferðinni – þá myndi ég örugglega skrifa skapandi texta um þetta allt.

Seinna bara. Heyrðu, nýja snjallsetan hans Guðjóns getur sýnt tilfinningar og sungið veðurfréttir á sjö tungumálum! – Á meðan situr sköpunarþörfin álengdar og þykist ekki heyra neitt af þessu. Smá áhugasöm, smá áhyggjufull.

laugardagur, 3. maí 2025


Meira en orð

Þú mætir
orðum mínum.

En titrar brúin
í bili þeirra?

Eftirvænting,
andardráttur.

Ekki tóm –
týnd minning.

Hjólför að hausti,
hulin vatni.

Margt geymir mýrin
undir málsgreinum.

Sjáðu: Dalur, dýpi, 
dimmur brunnur.

Taumur, tengsl,
taugin á milli fólks.

Tungan veldur
rödd og rými.

Aldrei duga orð 
yfir allar raunir.

En þei – þögnin
mildar og meiðir.

Mætumst því
með tvennu móti:

Orðin segja,
bilin þegja.

fimmtudagur, 1. maí 2025


Óvissan, systir mín

Ég hlusta á systur mína tala - ekki um kjarnann, heldur allt sem umlykur hann: Lög úr sannfæringum og hughreystingum. Þannig vögguvísu er ætlað að róa foreldrið fremur en barnið.

Já, fyrir mér er þetta svefn. Ekki svefninn sem býr í hrópum og grátri líkamans. Meira eins og að leggja slitið sængurlak þétt upp að vökunni, og reyna að sjá ekki drauminn í gegnum götin. 

Sjáðu til, systur minni stafar ógn af því sem hún þekkir hvorki né skilur. Hún hræðist að glata ákveðnu leyfi til athafna, afsökun. Óttinn grefur sig í formin, og formin þrífast á ótta.

En ég segi, það býr eldri viska í iðrum og hörundi. Ekki til að láta af stjórn heldur til að minna á: Söngva úr gleymdum herbergjum. Ljóð sem byrja hvorki né enda. Sannleika blóðstreymis og boðefna.

Systir mín hlær. Samt gætir hún mín, ekki sem systkinis heldur barns sem hún þurfti að gefa frá sér. Kannski hjálpum við hvort öðru. Með undarlegri blöndu ástar og örvæntingar, öryggis og óvissu.

miðvikudagur, 30. apríl 2025


Bréf til vinar

Þú talar um breytingu. Athugaðu að fyrr eða síðar skapar frelsið sína eigin fjötra. Valið geymir nýjar spurningar; jaðarinn óséðan neista. Flótti opnar nýjar dyr, ekki leið út heldur inn í sömu hringrás.

Í rótlausri leit hverfur nærvera. Sá vilji felur í sér vöntun. Að elta er að yfirgefa, fara í kringum óvissu. Þar byrjar gleymska. Ekki tap á tengingu, heldur stanslaus hreyfing, spenna án lausnar.

Að muna er að sitja með, leyfa reynslunni að hljóma, líkamanum að tala. Að dvelja er að finna rými fyrir það varðveitta og týnda. Snerting er ekki uppgjöf, heldur skilyrði til vaxtar, frelsi til að vera.


Kveðja, 

annar leitandi orða.

þriðjudagur, 29. apríl 2025


Draumurinn

Þegar ég vaknaði var tígrisdýr á heimilinu. Í fyrstu hafði ég áhyggjur en með tímanum varð nærvera þess kunnugleg, næstum eðlileg. Þungt þrammið á flísunum, stöku urrið og lyktin sem minnti á rakan skógarbotn - allt vandist þetta merkilega fljótt. 

En dag einn færði dýrið sig upp á skaftið, stökk upp í sófa til mín með háværu mali og lagði risavaxna loppu yfir brjóstkassann á mér. Ég fann minn eigin hjartslátt undir klóm dýrsins, og því fylgdi skrýtin tilfinning, blanda af vernd og skelfingu.

Var dýrið smátt og smátt að taka yfir? Ég flýtti mér inn á skrifstofu til að lesa mér til um sjúkdóma og sýkingar sem fylgja villtum dýrum. En þegar ég mændi á skjáinn gekk óvænt inn annað stórt kattardýr: Grannvaxinn, tignarlegur blettatígur, með dimm og dularfull augu. Einhverra hluta vegna virtist mér stafa mun meiri ógn af þessu dýri, og ég velti meira að segja fyrir mér hvort ég ætti að kalla á eftir tígrinum.

Blettatígurinn nálgaðist hægt og hljóðalaust. Ég man ég hugði of seint að flýja. Dýrið færði sig fyrir aftan mig og þefaði varlega í bæði eyrun á mér. Mjúkur og rannsakandi andardráttur þess fyllti hlustirnar. Ég lokaði augum. Það var eins og dýrið væri að miðla til mín einhverju frumstæðu, um að óttast ekki hið hráa og óræða.

Þegar ég opnaði augun aftur voru bæði dýrin horfin. Í loftinu hékk enn lykt af rökum skógarbotni. Nokkrar djúpar rispur skreyttu parketið. En innra með mér var ákafur en óræður friður sem ég gat ekki alveg útskýrt.

föstudagur, 25. apríl 2025


Regndroparnir

Óteljandi regndropar falla í sömu tjörn.
Öll saga, öll reynsla samofin í eina heild.

Við erum bæði barnið sem horfir á regnið
og regnið sem fellur fyrir augum barnsins.

Óendanlegt augnablik, agnarlitlar eilífðir.

En hvað ef tjörnin gleymir?
Ef barnið snýr sér undan?

Hvað hvílir þá í rýminu á milli þeirra?
Gegnsæ form sem hverfa —
eitt af öðru — í sömu tjörn,
án vitnis, án merkingar.

En tómið heldur áfram,
ekki sem skuggi, heldur sem minning
um eitthvað sem við þekktum
á undan nöfnum og beinum.

Og í röddinni dvelur enn barnið,
enn tjörnin,
og á milli þeirra
fellur hver einasti regndropi.

miðvikudagur, 29. maí 2024


sýndu mér

sýndu mér

hvar eignafólk

þyrstir ekki í meira


sýndu mér

hvar siðgæðisverðir 

gangast við spegilmynd sinni


sýndu mér

hvar keppnisfólk

þráir ekki viðurkenningu


sýndu mér

hvar þau góðgjörnu

geta sett heilbrigð mörk


sýndu mér

hvar slúðurberar

leggja aftur öfundaraugun


sýndu mér

hvar þau lærðu

skilja takmörk þekkingar


sýndu mér

hvar þau sterku

óttast ekki berskjöldun


sýndu mér

hvar útlit og geta

verða ekki til aðgreiningar 



þá hefurðu sýnt mér

hvernig maður sér mann

fyrir manninum í sjálfum sér

sunnudagur, 19. maí 2024


erindi

regnið málar

ósmíðað altari

víðáttum himins


lífið dregur

nýtt leikfang

úr lóni eilífðar

mánudagur, 22. apríl 2024


minni

inn um þagnir og regndropa
glitra ljóð á hörpum trjánna
á máli sem enginn skilur

nema sá sem ferðast
með fallandi litbrigðum
yfir gleymdum skógarstígum

laugardagur, 2. nóvember 2019


ljós á vatni

hvernig ljósið endurkastast af öldum vatnsins, frjálst og brotið án útreiknanlegrar slóðar, þögult og þyngdarlaust keipar það og dúar, marar og tvístrast, líkt og fíngerðustu þræðir úr blaktandi klæðum tilverunnar

laugardagur, 14. september 2019


leiðin

gamli vegurinn
hlykkjast ógreinilega áfram
þó áfangastaðurinn sé löngu horfinn

fimmtudagur, 12. september 2019


líf í c-dúr

hvernig lífið líður hjá eins og kvikandi hringtjald dregið umsælis upplifunina - dag eftir dag, ár eftir ár - breytingar í mishröðum víxlferlum allt í kring, hvert andartak laufblað í risavöxnum krónum, ég heyri vindinn leika í greinunum, hrísl og þögn til skiptis, eins og bylgjur í hári villtra dýra á hlaupum frá einum stað til annars, aftur og aftur í stuttu myndskeiði í stöðugri endurspilun með ólíkum tilbrigðum hvert sinn, ógrynni möguleika blómgast og hrörna á undan hverri hreyfingu, það er hér sem fingur andartaksins snertir eilífðina og breytir henni í þetta sem liggur kyrrt eftir í dulum andblæ fortíðar, þegar hringtjaldið snýst hring eftir hring eins og lífið líður hjá

laugardagur, 24. ágúst 2019


hálft samþykki

að hluta var veitt samþykki fyrir veröldinni eins og hún birtist í raun, með ósýnilegum sáttmálum manns og heims, rituðum á mörkum tilveru og tóms, með öll fögur augnablik steypt í hringrás gleymsku og minnis til þess eins að staðfesta hlut sinn mitt í óendanlegri atburðarás þess hversdagslega og sjaldgæfa, þess ljósa og dimma, þess breytta og finnanlega

öðrum þræði var veröldinni hafnað og horft undan í ímyndaðan draum, litið á þeysireið hugsana og aðstæðna sem hálfgert spaug eða léttvæg sannindi, bæringar á yfirborði vatns, skynvillu blinds auga - og yfir þeirri undirritun sveimuðu tilfinningar þvert yfir jarðarslóðanum og frjálst upp í himinvindinn þar sem hvert augnablik brotnaði í agnarlitlar eilífðir draums og væntinga

miðvikudagur, 7. ágúst 2019


reykurinn

hvað lýsir hinu hverfula, fljótandi andartaki betur en reykur sem stígur gætilega upp í sumarlogninu, síbreytilegur að formi, í viðvarandi endurmyndun og mótun eftir smávægilegum hreyfingum loftsins?

hann liðast til himins, eins og laus frá efninu, frá tímabundnum sviptingum allra náttrúlegra hluta, út í ósýnilegar víðáttur, út í hið eilífa og kyrra frelsi handan breytinga og stundlegra skynjana


við sjónarrönd baðast vatnsmökkur ljósgeislum og klýfur form sitt í samfelldum bylgjum úr iðandi hringrás, hver ólík þeirri á undan og sjálf í stöðugri skiptingu og leit að lögun augnabliksins

hann lyftist í morgunbirtunni, umhverfið þögult og rólynt, hvert andartak virðist lengur að líða, eins og hið óendanlega dyljist í svipulum jaðri þess sem verður og hins sem líður hjá


hvað dregur vindana yfir hímandi hvolfin, fangar þá í smáa rennandi þræði úr skýjum og regni eða klæðir brotnandi útlínum þess sem lifnar og deyr með hverjum vængjaslætti?

í umskiptingunum bregður fyrir hverfulli mynd, búinni stuttum skilaboðum, litlum svörum sem hefjast á loft og losna eitt af öðru út í blaktandi vind og ókomnar stærðir

mánudagur, 5. ágúst 2019


tónlistin

yfir lygnum strætum vakna skuggar okkar
með andlit máluð úr augnablikum og draumi

borgarvættir með haustmyrkrið í höndunum
leiða stuttar myndir hjá þokuklæddum steinum

undan sviðinu færist tilfinning yfir gömul hljóðfæri
sem lifna um stund með tónum og þögnum í vindinum

mánudagur, 10. júní 2019


skógarmynd

í gylltu ljóði morgunsins
brennur tíminn á blómi jarðar

skógarmynd brotnar á vatnsfleti
og smáeldar stjarna slokkna í djúpin

máninn skilur eftir sig hverfandi form
sem rekur hægt og hljótt út í dagsbirtuna


húsið rökkvað

tungslrönd bærist
í leysingunum

ljósstíft útvíkkað
sjáaldur starir

umslag merkt
eilífðinni

mánudagur, 9. október 2017


kvöldhljómur

augnablik í vindinum,
hvikull straumur atvika
flæðir um breytilegan heim

lágvær gustur á votu hafsauga,
annar sterkari við rætur fjallsins,
óskýrar myndir vakna í haustloftinu

undir kræklóttan faðm skógartrjánna
hvíslar húmið af dökkum vörum sínum,
með dulmál í hverju laufi - hverri andrá

mánudagur, 25. september 2017


morgunbörn

litlar hendur leita morguns
snemma í glitrandi djúpum

úr austri rís gullinn hnöttur
og bregður ljóma á andlitin

þau opna augnlokin varlega
fyrir björtu sjáaldri heimsins

undan ljósbreiðu hvítra skýja
byrjar himinninn í brosi þeirra

miðvikudagur, 20. september 2017


blóð og skuggi

hvaða takt hefur íhugun,
dregin í rökkvað landslag
vona og flöktandi stjarna?

hvaða gildi hefur andartak,
litað túlkunum og minningum
í endalausri tilveru stundanna?

hvaða þýðingu hafa einföld sannindi,
færð af vörum þess er leitar kjarnans
djúpt í blóði sínu, undir söltum skugga?

föstudagur, 1. september 2017


vetrarnótt

á úlfgráum feldi
skína hrímperlur
dimma vetrarnótt

augnabliksreykur
rís af frosinni jörð
og hverfur út í loftið

fjarlægar minningar
vakna á gömlum stað
og bergmála í auðninni

ljósvitar himins renna
yfir hrein og köld djúpin
frá einni nótt til annarrar

föstudagur, 25. ágúst 2017


hús jarðarinnar

á hverju kvöldi dreymdi mig sama drauminn,
þar sem allar tilfinningar mínar urðu að tónlist
og svifu um í vindinum eins og óteljandi laufblöð

á þessu augnabliki voru hvorki himinn né jörð,
elstu minningar mínar flöktu fyrir augum mínum
eins og ljósglampar á ferð yfir tímalausum vötnum

síðan þegar ég ætlaði að halda þessari ferð minni áfram,
sá ég að vegurinn var horfinn og orðinn að þungum straumi
sem bar mig áfram uns ég vaknaði þegar hann steyptist í djúpin

laugardagur, 12. ágúst 2017


uppspretta vindsins

svífandi af himnum,
brotið á kristöllum skýja;
ljósið snertir yfirborð jarðar

í vöku hvers augnabliks
rísa stórar og smáar öldur;
tíminn vindur klukkur eilífðar

undir ósýnilegri leið regnsins
klæðast göturnar glitrandi dulmáli;
þar lifnar enn þrá, í dökku brjósti nætur

miðvikudagur, 9. ágúst 2017


næturleið

um nóttina breiddist stjörnuþyrping yfir ásjónu jarðar
og vakti glóandi mynstur og glitrandi vefi á vatni hennar

hvítur máni sigldi út yfir hljóð og myrk djúp himingeimsins
og kastaði kaldri mynd sinni á svartan spegil og flöktandi ský

frostkulið ljómaði af kyrrum augnablikum og fjarlægum sálmum
þegar rísandi tákn næturinnar hóf sig á loft úr dimmum sprungum

ég gekk undir dulum ljósum himins um dökkan litinn í auga myrkurs
meðan óteljandi skuggar runnu hljóðlega út í svarm af lýsandi formum

þriðjudagur, 1. ágúst 2017


trú

á annasömum tímum ákvað ég að eiga
stutta göngu um morguninn í skóginum

það var ekki enn orðið alveg bjart þá
og myrkur huldi hverja sprungu og dæld

á gangi inn um stórvaxin trén rakst ég á
yfirgefna og opna bók á miðjum veginum

ég tók hana upp og þrátt fyrir hún væri
illa farin sá ég að þetta hafði verið biblía

stafirnir voru máðir eftir vætusama nótt
og sums staðar vantaði nú heilu síðurnar

skýin hreyfðust varlega yfir veginum
og hljóður vindur fór um skugga trjánna

ég lagði bókina aftur þar sem hún fannst
og hvarf bak við næsta horn á vegi mínum

þriðjudagur, 25. júlí 2017


upphaf haustsins

fölur vindur í greinum trjánna,
andlit mánans á yfirborði tjarnar,
óskýr minning á hreyfingu yfir djúpinu

fimmtudagur, 13. júlí 2017


milli næturhúsanna

enn fellur regnið á hljóðan skugga
er göturnar blána í birtu nýrrar nætur

hugsun mín hvílir um hríð á smásteinum
undir þögulum hreyfingum skýja og drauma

áður en hún heldur af stað niður eftir strætunum,
með lítil andartök í vindinum og eilífðina framundan

fimmtudagur, 15. júní 2017


móðir jörð

hún opnar dyrnar svo ljós sólarinnar fyllir að nýju rökkvuð herbergin,
með léttan vind í lýsandi hárinu og mildan hlátur í bjartri röddinni

í hljóðri athöfninni berast orð hennar um brotinn helgidóm jarðar,
með lifandi tákn í náttúrulegum hreyfingum og frjósömu spori

á naktar strendur bergskorpunnar, undan bylgjandi haföldunum,
felur hún morgunbjarmanum í hendur verðmætustu eign sína

síðast safnar hún týndum og villtum börnum í opinn faðminn
og þvær óhreina líkama þeirra með glitrandi söltum tárum

sunnudagur, 11. júní 2017


óður náttúrunnar

úr mildum lófum vindsins leið nóttin
eins og örsmá stef í hvíslandi reyrblöð

aldin jarðar glitruðu undir berum himni
er lýsandi mána bar við laufgaðar krúnur

í aflausninni spratt villiblómi skógarins
og færði dauðlega fórn sína fyrir jarðlífið

feginsamlega laukst frjómagn þeirra upp
með heilögum dansi og saklausri játningu

dökkar klukkur og dulin tákn ljómuðu
og ótal draumar lyftust yfir dimmri jörð

því hjörtun hafa hvorki nafn né skugga
er andvari nætur fer hljótt um hús þeirra

laugardagur, 3. júní 2017


haustvindurinn

sá dagur mun koma
þegar haustvindurinn
kallar hljóðlega nafn þitt

laufin hnita litla hringi
yfir hálfgleymdum stígum
í rauðum og gulum myndum

öll veröldin virðist hverfa
í dökkan og aflíðandi hljóm
er kviknar í umróti náttúrunnar

þá er sem gamall vinur hvísli
hljótt í svarta og stirnda þögn
sem verður til djúpt í vöku nætur

því með vindinum berast fræ
sem leita skjóls í höndum jarðar
líkt og þau er bíða lausnar morguns

laugardagur, 11. mars 2017


bréf til fortíðar

þegar ég losaði skuggana við fortíð sína
og hljóðfærin fylltust myndlausum draumum,
féllu nokkrir dimmbláir geislar á brotnandi stíga
og földu um leið fyrstu stjörnurnar í fótspor morguns

í hljóðlausu endurvarpinu varð til kunnuglegt stef
sem leið yfir síðustu augnablikin úr hljóm næturinnar
með ljósan svip og hvíslandi orðróm í laufkrónur trjánna,
eins og dulin loforð eða örsmá bréf, týnd handan augnabliks

sunnudagur, 9. október 2016


lykill að degi

þar sem dagurinn rís
yfir nafnlausum leiðum
opnar gamall brunnur auga
mót bjartri veröld norðurheims

þá heyrist rödd koma úr fljótunum
eins og löngu gleymd sýn eða seiður,
með dökk tákn á kunnuglegum tungum
og sannleikann undinn hljóðum skilningi

mánudagur, 19. september 2016


haust

glitrandi þula úr gagnsæju tákni
reis úr dimmum höndum fljótsins
og veröldin ljómaði af gylltu borði

örsmáir gluggar opnuðust við dögun,
af ljósum mynstrum og lifandi stígum
með glær líkneskin yfir glóandi vötnum

haustmorgunn færðist á dökkbláan skugga,
þar sem hugur regnsins dvaldi á öxl hæðanna
og máninn vætti hendur sínar í lygnum draumi

mánudagur, 12. september 2016


haustrigning

ég heyri stundum litla trommu slegna í regninu,
ýmist þungt eða létt og takturinn smá breytilegur

þegar dimmir yfir húsinu mínu sé ég veröldina glitra,
í náttbirtunni rísa göturnar upp af nöktum skuggunum

frásagnir vindsins hreyfast í einni svipan um lýsandi rýmið,
með raddir sem bregða ljósri dulu á skil staða og fyrri atvika

með tímanum fellur vatnið til sjávar með gleymdum minningum,
þangað til hafið geymir loks alla litina sem við völdum á himininn

miðvikudagur, 7. september 2016


miðja borgarinnar

rennandi útlínur gatnanna framundan,
frjáls vindur sveigir tré handan ljósanna

dökkbláir gluggar opnast yfir augnablikinu,
uppgötvun dregin lárétt á uppleystar myndir

að yfirgefa minningu er að finna týnt hljóðfæri,
og takt sem myndar veruleika á bak við skuggann

fremst í núinu bíður staðhæfing í upplýstum dyrum
um leit persónu að uppruna sínum og stað í heiminum

gagnsæ gríma lyftist varlega af elstu hlutum borgarinnar
með óteljandi frásagnir upp úr sögulegum dældum hennar

bláir skuggar dansa í flæðandi ljósi við hringtorg og gatnamót
og fella glitrandi ábreiður á rýmið yfir gangvegum og biðskýlum

þriðjudagur, 23. ágúst 2016


línur og punktar

blár óendanlegur bakgrunnur,
ósýnileg hljóðfærin í vindinum
og hús brotin niður í einföld form

rýmið sameinað í svörtum línum,
rannsókn á fugli með nýjum táknum;
viðföng á eilífri hreyfingu yfir atvikum

ímynd á flötum grunni færð á umhverfið,
efni sem breytist eftir túlkun og staðsetningu
og hugsanir sem renna til og frá fullkomnun sinni

föstudagur, 19. ágúst 2016


nýjar andstæður

ljósið sýnir aðeins yfirborð hins ógagnsæja,
innan þess býr myrkur úr leyndum flutningum

hver borg hefur hugmyndafræðilegan grundvöll,
klofinn af hinu áþreifanlega í dreifðar eftirmyndir

í andstæðu tónlistarinnar fyrirfinnst innbundið tóm,
þögul, gagnstæð hreyfing úr óskynjanlegri hljómkviðu

hefur vænting staðsetningu? við ógreinileg sjávarföllin
berast öldur þess sem er samhliða skugga þess á djúpinu

- hver uppröðun skilgreinir um leið út undan sér röngu sína,
þar er ljóðið í raunveruleikanum og raunveruleikinn í ljóðinu

þriðjudagur, 16. ágúst 2016


náttúra

undan blágrænum speglum ljósleitra morgna
lyftir hún glærum líkama úr nafnlausum fljótum
og hreinsar árbakkana af aurugum útlínum fortíðar

því alheimar verða ekki eingöngu til við upphaf tímans
heldur einnig með hverju lífi sem fæðist á þessari jörðu
og finnur sig frammi fyrir máttugu sjónarspili náttúrunnar

laugardagur, 30. júlí 2016


andagift

við elstu rætur lífsins,
letrað í salt blóð og stein,
af leyndum dómi tilverunnar

undir gagnsæjum vængjum,
í laufguðum höndum skóganna,
með tímann í rödd sjávarmálsins

í hljóðum skugga nætur
með hjartað numið göldrum
og óð stjarnanna á þyrstum vörum

mánudagur, 18. júlí 2016


himinn og jörð

hví loga vagnar himins yfir dimmum vegum?,
í hljóðri vöku brenna eldar þeirra í djúpi nætur

ég sé lýsandi merkin opnast í fjarlægu mynstri,
andartakið sem eilífðin leggur niður skjöld sinn

hvaða sannleik hefur hún í hljóðri myndun sinni,
þegar draumar árstíðanna lifna og deyja á víxl?

í augum sínum geymir hún gegnsæ, falin vötn,
þar sem regndroparnir sveipa jarðneskar krúnur

og einnig hjarta þitt er nakið í blómgarði hennar,
þar sem glitrandi jörðin afhjúpast á vegferð þinni

miðvikudagur, 6. júlí 2016


um fegurðina

að líta fegurð er að bera aftur kennsl á mynstur sem hugurinn þekkir en náttúran hefur fjarlægt úr vitund okkar; sköpun listar snýst öðru fremur að finna og afhjúpa þessi gleymdu mynstur, jafnt í skynjanlegum veruleika og þeim hugmyndum sem hægt er að setja fram

listamaðurinn býr ekki til neitt nýtt í þessum skilningi, heldur raðar aðeins saman einingum í ákveðin mynstur, svo sem orðum, efni, tónum, litum eða hreyfingum, í þeim tilgangi að skynja og tengjast að nýju hinu eilífa, bæði í sjálfum sér og frammi fyrir breytilegum heimi

föstudagur, 24. júní 2016


í duft fyrstu stjarnanna

hver hefur lagt erindi sín á herðar kvöldsins
og dreift gylltum laufum af altörum skóganna?

yfir dul himnavötn, gljáð fjarlægum táknum
og földum sannleikum í lýsandi hyljum stjarna

þú sem lýkur upp dyrum hinnar björtu nætur,
með blómstur jarðarinnar í frjósömu hjartanu

regnið skíri enni þitt af himneskum djásnum,
þegar eilífðin opnar að síðustu tárvot blöð sín

því einnig andi þinn mun gista mánalýst fljót,
þegar bikar þeirra fyllist af óteljandi stjörnum

miðvikudagur, 8. júní 2016


í slóð birtunnar

þegar ég hristi rúmföt dóttur minnar
flaug eitthvað upp af smárri sænginni

þegar mér varð svo loks litið upp sá ég
að agnarlítil og hvít fjöður sveif yfir mér
og virtist staðnæmast þar nokkur augnablik,
áður en hún leið hljóðlega út í bjart dagsljósið

mánudagur, 6. júní 2016


úr fjarlægum glugga

með stjörnur á tungunni
og dulmál fljótsins í höndum
klæða þau eilífðina ljóskerjum
og andvarann glitrandi draumum

hvarvetna rísa vonir yfir slóðinni
og hefjast á loft með himintunglum
frammi fyrir hvikulum bakgrunni skýja
og þögn þess, sem hlustar eftir ljóði þeirra

miðvikudagur, 25. maí 2016


yfir jörðinni

þegar vormáninn gengur hjá spegilsvörtum steinum fljótanna
og hugmyndin um morgundaginn gárast á lygnum djúpunum
fyllast vit okkar af draumum, ljóðum og dökkum söngvum
sem færast yfir tifandi og glitrandi rýmið á bak við ennið
með fegurstu augnablik jarðarinnar í dulu fótmáli sínu
áður en dagrenningin hefur loks hreinsað augu okkar
af síðustu stjörnum og skuggum húmblárrar nætur

laugardagur, 21. maí 2016


börn heimsins

saklausu börn, þið sem leikið
með eld lífsins og ljós framtíðar

fyrir ykkur hefur jörðin opnað dyr,
þó enginn fái skilið leiðir ykkar enn

þið munuð geyma regn, sól, snjó og vind
þegar hallir nútímans falla í skugga fortíðar

ég hef séð framtíðina í undrandi augum ykkar
og von mannkyns glæðast í vaxandi hjörtunum

verði heimurinn betri en sá sem við skildum eftir,
við sem kölluðum nöfn ykkar upp úr djúpi eilífðanna

föstudagur, 20. maí 2016


lítil bæn

þegar ljósið fellur loks á nakinn anda þinn
og klukkur vindsins þagna af draumi sínum

þegar máninn sofnar í faðmi morgungeislanna
og rigningin klæðir hold þitt með dulu skýjanna

þá mun hljóðfærið í brjósti þínu leika í fyrsta sinn
af söngvunum sem náttúran faldi djúpt í hjarta þínu

mánudagur, 2. maí 2016


eftirmæli

vinir, dveljið ei lengi
við hvíta grímu dauðans

gleðjist við göldróttar lýrur
og etið af korni bestu uppskeru

munið góða stund og glæsta sigra
og krýnið andvarann lárviðarsveigum

megið þið lifa og vitna áhugaverða tíma
og varðveita um stund hina hverfulu paradís

sunnudagur, 1. maí 2016


fyrir eilífðina

áður en draumur minn lyftist af jörðu
og hugurinn heldur út á kyrrar víðáttur

mun tíminn hægja á friðlausri leit sinni
og stöðva loks hjól sín við hringrás lífsins

þá mun minning þín opna ský bak við auðnina
og skilja nöfn okkar eftir yfir hásætum dögunar

laugardagur, 23. apríl 2016


fæðing stórborgar

andartaki áður en söngurinn hófst
og auglit morguns gáraðist tilfinningu,

þegar gylltur ljómi klæddi hvíta götusteina
og kyrrlát stund reifaðist himneskum krúnum,

leið höfuð borgarguðs yfir nakin og hrein strætin
með óteljandi drauma bak við eyðimörk malbiksins

í hjarta hans fólst eftirvænting úr rökkvuðum trumbum
sem slógu inn við leitandi náttúru og híbýli mennskunnar

skömmu síðar stigu ljósgeislar og þulur um hlustandi rýmið
og héldu áfram að opna falin merki yfir gangstéttum og vegum

fimmtudagur, 14. apríl 2016


undan vetri

kaldir speglar vatnsins brotna
í mergð ótal lýsandi klakamynda
og fljóta inn um gullvætta ljósþræði
sem þeir týna snöggvast glæru dulmálinu
frammi fyrir glóandi mynstrum vorlækjanna

sunnudagur, 3. apríl 2016


skógarnir vakna

fjarræn upplifun sveif yfir sofandi mörkum
eins og gleymdur söngur eða vængjuð bending

innar bárust áköll og seiðir af leysandi vötnum
og dul hreyfing hvíldi í flöktandi skyggnum nætur

þögn sló á raddir náttúrunnar og himnarnir opnuðust
en dimm trumba hóf takt sinn við ástig dansandi skugga

trén munduðu tákn sín og rýmið fylltist undirleik og ljóma
er skógarvættir leituðu sér líkis í greinum, hornum og beinum

um leið rann gustur í runur og raðir úr hringvindum lífs og veru
og kveikti með hverjum þeirra nýjan draum og von um betri heim

sunnudagur, 27. mars 2016


minningar úr framtíðinni

á sólskinsdegi, eftir næstu heimsstyrjöld,
munu ógnarstórar höfuðskepnur birtast
og dvelja við rústir hinna föllnu borga

við fótskör þeirra leika dýr og börn á ný
og afhjúpa stærðir og stafi náttúrunnar
undan hinum saklausa skilningi sínum


rétt áður en þessi sýn hverfur loks aftur,
munu öflin sem fyrst lyftu veröldinni
gera öll augnablik sögunnar að einu

en í þeirri birtingu upphafs og endaloka,
mun felast endurtekning lífs og dauða
og ein áleitnasta spurning allra tíma

fimmtudagur, 24. mars 2016


hvít jörð

frostmóða læðist yfir ísbleika mýri,
þögul og ígrunduð sýn hennar fumlaus

ljósleiknir gluggar opnast við hvert fótmál,
hrímuð ró þeirra sett brothættum kristöllum

hvarvetna liggja örlitlar frásagnir og fíngerð bréf,
snjóhvít blöð þeirra varðveitt í dökknandi höndum

í köldum leyndardóminum andar ósprungið blómstur,
meðan máninn skapar smávaxnar myndir á nakin öræfin

föstudagur, 4. mars 2016


endurnýjun

duftmynd hrundi niður úr rökkvaðri ásjónu og hafði með sér þekkta uppröðun úr grynningum leiks og veru

gömul sannindi brotnuðu í einfölduð form og mynduðu því næst undirstöður nýstárlegra samsetninga og skýringa

þannig urðu elstu uppspretturnar að daufum ísvoðum sem fljótlega leystust upp í gufu og óskýrar vofur

fimmtudagur, 3. mars 2016


vatn og ljós

gakktu hjá hinum hugsandi djúpum að kvöldlagi, bak við lygn vatnsformin munu þau glitra af dulu mynstri og hljóðum vísdómi;

þar verður síðasti vitnisburðurinn færður fram, þegar gljáandi ferjur stundanna yfirgefa að endingu ljósaskipti himins og jarðar

mánudagur, 29. febrúar 2016


frelsi

lítill vindsveipur feykti fisléttu ljóskeri
svo það tókst á loft á kyrrum kvöldhimninum
og sveif hljóðlaust yfir skógarþykknum og strætum
áður en það hvarf í dökkvann milli samliggjandi stjarna

fimmtudagur, 11. febrúar 2016


bréfin í rigningunni

það er skrifað í rigninguna
innan um ljósgeisla og götur
að þessa stund sem þú dvelur
jafnt í híbýlum efnis og hugar
mun vitund þín vakna af sandi
og snerta hin fjarlægu dulu ský
sem enginn hefur enn náð að njörva,
nema með því að yfirgefa allt það sem
veruleikinn hefur skapað í vitund okkar


milli nætur og morguns

dimmrauður tónn slær endurtekið í bakgrunni,
þungur og einsleitur markar hann hið nýja svið

framar færast ljós og strengir yfir gagnsætt rýmið,
kveikt af himneskum eldum og íhugun þögullar nætur

í lokin sé ég brýr morguns rísa við sjóndeildarhringinn,
undan gylltum sveigum þeirra falla fyrstu litir jarðarinnar

þriðjudagur, 29. desember 2015


myndun

reykur rennur aftur, áleiðis yfir fornan sand, eins og formlaust leiftur inn við máða geisla og kyrran draum;

það er þá, sem umrót alls sem kviknar og deyr, býr sér stað að nýju í hljóðri og tærri þögn verðandi daga

sunnudagur, 20. desember 2015


eftir alheiminn

fylgdu tengslunum sem birtingin lyftir af framburði andartaksins,
veglaus mynd þeirra mun að endingu vísa þér á leysingar heimsins

því er dagur og nótt hætta að vera, falla hinir miklu turnar sögunnar
og milljarða ára vitnisburður myndar djúpan skilning í hjarta eilífðar

miðvikudagur, 16. desember 2015


yfir rúmi himinsins

til er eldri og dýpri tilvera en hvikul birting persónu og sjálfs, laus frá túlkun skilnings og hugtaka, þar sem tilgangur og tími missa merkingu

yfirborðsmynd fjarlægðar og forma líður yfir kyrra uppistöðu hennar, eins og hélaðri minningu bregði um stund fyrir bráhvítum glugga

mánudagur, 23. nóvember 2015


söngvar veraldar

í andvaranum reis léttleiki upp af jörðu og lék við friðsæl skýin,
ljós og hljóður, eins og ljúf minning, hneppt úr vitund fyrri tíma

sömu nótt skinu silfruð himnaljós yfir hraunmynd hæstu fjallanna
og sáldruðu nafni sínu hljóðlega niður hreyfingar gleymdra drauma

þriðjudagur, 27. október 2015


yfir jörðinni

fyrir sjóndeildarhringnum hafa strengir himins opnað hvolf sín yfir rúmi jarðarinnar; fíngerð þoka kitlar yfirborð hennar, líkt og fjarræn gustur eða gagnsæ tjöld yfir hæðum og hlíðum

undir niðri vakna hringir og mynstur náttúrunnar í sífellu eins og endurtekin stef úr draumi tilverunnar, færðir yfir veröld ljóss og lifandi forma, úr djúpinu bak við tímann

föstudagur, 16. október 2015


við fótmál skýjanna

í sama mund lýstu gylltir mánar yfir götunum og dauf ljós hreyfðu við lægstu draumunum; þannig tifaði húmið í höndum nætur og reykvaðin ljósbrot svifu yfir dimmum hjörum

nokkrum auglitum síðar risu gráleitir turnar milli skýjanna og óteljandi bjöllur glumdu af hæðum; nær húsinu færðist lágþoka inn um opin hliðin með óm af dulrænum söngvum

sunnudagur, 16. ágúst 2015


upphaf daganna

orðlaus kviða slapp undan óráðnu hreistri og lék yfir stofni jarðarinnar; þar með urðu dansar sólarinnar að þúsund seglum og tilvist mannsins endurtekin stund fyrir athugun og leit

mánudagur, 10. ágúst 2015


fyrirmæli á strætunum

á næturhimninum hefur tíminn snert við djúpi stjarnanna
og hvert andartak vakið ljós úr fjarlægri minningu þeirra

um leið líða óteljandi spurningar og hugtök rétt yfir jörðu
og verða að hljóðri íhugun undir ljóskerjum og götuvitum

mánudagur, 27. júlí 2015


vatnaskil

vatnsfall himinsins leikur á vætugrónum strætunum;
hljóðfæri rigningarinnar hafa snert auðar göturnar,
veröldin tifar í hljóðlausum bláma andartaksins

í flaumnum bregður fyrir táknum borgarinnar,
ljós hennar orðin að ógreinilegu endurvarpi,
andartaksmynd lita og forma á stéttunum

eXTReMe Tracker