þriðjudagur, 16. september 2025


Heimspekistríðið í JYSK

Tjaldið opnast. 

Stólókles veður gegnsósa af vætu inn í JYSK á Norðurtorgi á Akureyri, í blárri regnkápu með skeggið grafið ofan í skyrtuna. Hann grípur um síðasta bláa sturtuhengið á sama tíma og Fornfúsíus öldungur læsir í það beinaberri krumlu.


STÓLÓKLES: Afsakið háttvirtur Fornfúsíus. Mér ferst að ónáða samborgara mína í vinsælum rúmfataverslunum. Á stað þar sem almennir borgarar ýta blárri innkaupakerru á milli tekks og tilboða, ganga náungar eins og ég og þú um í eilífri sannleiksleit. En þetta bláa sturtuhengi er mitt.


FORNFÚSÍUS: Ah, Stólókles. Við mætumst aftur yfir baðvöru sem við þörfnumst báðir. En kæri vinur, hvor okkar á eignarétt á því sem hefur ekki enn verið keypt? Sá sem fyrstur hugsar, sér eða snertir? Við hljótum að geta rökrætt okkur úr þessari klemmu.


STÓLÓKLES (slakar á takinu): Ég tek áskorun þinni. Réttlætið fer ekki í matarhlé eins og starfsfólk JYSK. Því hvað er maður og hvað skepna, fái rökin ekki að ráða!


FORNFÚSÍUS: Ég þarf þetta sturtuhengi meir en þú. Brottrekstur minn úr akademíunni í fyrra hefur leikið fjárhaginn grátt síðustu mánuði. Og konan er komin með svo hátt upp í kok af frumspeki, að hún hefur hótað mér sófanum, snúi ég heim án þessa vesæla sturtuhengis. Þetta er því ekki aðeins spurning um ógreinilegt skeljamynstur á gerviefni, heldur síðasta hálmstrá mitt við veruleikann - sjálft hjónabandið!


STÓLÓKLES: Leitt með atvinnumissinn, kæri Fornfúsíus. En þyngri er mín raun en að gera sófann mér að góðu. Gamla sturtuhengið mitt var gegnsætt, og sáust því mín helgustu vé út um baðgluggann gegn minni betri vitund. Nú hefur húsfélagið hótað mér lögreglunni, skýli ég ekki nekt minni fyrir gestum og gangandi! Þetta snýst því ekki um enn eina hagkvæma heimilisvöru, heldur sjálfan rétt minn til einkalífs og frelsis frá yfirgangi valdhafa!


FORNFÚSÍUS: Þvættingur, Stólókles. Þú lyktar eins og blóm á engi! Og hvaða máli skiptir liturinn þig? Þetta hengi er líka til í sefgrænu.


STÓLÓKLES: Það er í stíl við bláa litinn inni á klósetti hjá mér. Þú ættir að þekkja mikilvægi áreiðanleika og samfellu þegar hugsmíðar eru annars vegar! Hvað með þig? Konunni þinni hlýtur að vera sama um sefgrænan lit?


FORNFÚSÍUS: Ah, Stólókles. Hér stendur þú og hefur áhyggjur af nekt þinni. En sérðu ekki að rökvillur þínar svipta þig meiru en klæðum? Er þetta sturtuhengi raunverulega blátt eða litar skynjun okkar það blátt? Hvenær verða plasthringir og þrýstistöng að hengi, nema þegar við höfum fært þessum hlutum merkingu og notagildi?


Stólókles virðist ringlaður og Fornfúsíus nýtir færið og rykkir sturtuhenginu úr höndum hans. Ungur starfsmaður verður var við ryskingar og nálgast spekingana. Það stendur „Kevin Sveinsson“ á nafnspjaldi hans.


KEVIN: Get ég aðstoðað?!


STÓLÓKLES (lítur ekki á Kevin): Ég verð að hrósa þér Fornfúsíus, fyrir metnaðinn. Þú hefur ekki aðeins skapað nýja fræðigrein í kringum þvaðrið í sjálfum þér, heldur ætlarðu nú að teygja hana eins og krumpað lak yfir gjörvalla heimsbyggðina. Og þú hefur náð nýrri dýpt með tvöfaldri afneitun, því ekki snýrð þú þér undan gatinu í þessari speki þinni, heldur kallar það nauðsynlega blástursholu!


KEVIN: Halló? Mér sýnist þið tala um þetta hengi. Ég get gáð hvort við eigum fleiri svona í Skeifunni.


FORNFÚSÍUS (við Kevin): Skeifunni?! Býr hugur minn Skeifuna til, eða stendur hún fyrir eitthvað í raunveruleikanum? Ég þarf þetta hengi núna!


Fornfúsíus grípur klósettbursta eins og sverð og snýr sér að Stólóklesi.


FORNFÚSÍUS: Ætlar þú næst að afklæðast hér í baðvörudeildinni og bíða eftir vatni af himnum? Sérðu ekki, að þrátt fyrir heilu hillurnar af handklæðum og sápustykkjum, að þá verður „bað“ aðeins hugmynd þar til hver og einn gerir það að veruleika heima hjá sér?


KEVIN: Herramenn. Hjá JYSK trúum við á góð tilboð, þar sem réttlætið er... Umm... Já. Réttlætið er.


Kevin brosir stoltur að óvæntu og djúpu innleggi sínu í umræðuna.


STÓLÓKLES (löðrungar Fornfúsíus og togar í sturtuhengið): Þú telur þig slíkan öðling þegar þú ferð í biðröðina við kassann. En þú ferð einungis í röðina til að hleypa fólki á undan þér. Þannig viðheldur þú tálsýn um siðferðislega yfirburði þína. En er það ekki makalaus della, að telja sig fremstan með því að svindla sér aftast?


KEVIN (við sjálfan sig): Er ég til í alvörunni, eða bara sem persóna í einhverju leikriti?


Kevin hristir höfuðið, dregur upp síma og gengur í burtu.


FORNFÚSÍUS (sparkar í sköflunginn á Stólóklesi, sem dettur aftur fyrir sig ofan á sýningarrúm): Ég biðst forláts! Ert þú hér til að ræða undirstöður þekkingar og siðgæða, eða festa kaup á sturtuhengi á gjafaverði? Er það ekki viðeigandi fyrir rökþrot þitt, að þú þurfir að draga fyrir augun á sjálfum þér með þessu þrugli?


Kevin kemur aftur. Spekingarnir toga báðir af alefli í sturtuhengið sem brotnar á milli þeirra.


KEVIN: Ööö... Þið þurfið að borga þetta.


FORNFÚSÍUS: Hver á að borga það sem enginn hefur keypt?


Nokkur ljós slokkna innst í versluninni. Rödd í kallkerfi segir verslunina loka eftir 5 mínútur.


STÓLÓKLES: Þú hefur grafið þína eigin gröf Fornfúsíus! Þú smættaðir hengið niður í brotið plaströr og skeljatjald, og heyrir ekki að verslunin lokar! Mér sýnist stofusófinn bíða þín heima, nema þú hafir sætt þig við hugmyndina um konuna þína?


FORNFÚSÍUS: Þú ert ekki aðeins dóni Stólókles, heldur einnig flón! Það ert þú sem hefur snúið upp á hengið, og fjötrað sjálfan þig um leið! Því þó kassarnir loki og verslunin tæmist, þá lifa hugtökin áfram.


STÓLÓKLES: Ú, ú og æ, æ.


FORNFÚSÍUS: Síðan, aumi og lágkúrulegi Stólókles, er betra að sofa frjáls frammi í sófa, en að skola neyðina í sjálfskipaðri prísund úr baðmottu og blautum flísum!


Kevin veifar öryggisverði sem fylgir spekingunum út. 


STÓLÓKLES (við Fornfúsíus): Geturðu skutlað mér í Bakarameistarann? Mig langar svo í kleinuhring núna.


Tjaldið fellur.

miðvikudagur, 10. september 2025


Rúm og litir

Ólafur ólst upp í gráma sem sagði ekki aðeins drauma hættulega, heldur rændi sjálfri vökunni frá Héðni föður hans. Héðinn hafði lifað af ofríki hvítu doppanna. Hann sagði syni sínum sögur frá tíma þegar fólk missti stjórn á sér. Frá Hilmari nágranna sem setti eitur út í kökurnar því doppurnar sögðu honum að gera það.

„En pabbi, af hverju vildi hann gefa fólki eitur?“ „Ég veit það ekki, sonur sæll. Það er ekki hægt að skilja hvenær við hættum að vera menn og doppurnar taka við. Og það sem við skiljum ekki er hættulegt, eins og martraðir. Góða nótt, kútur.“

Með árunum fór Ólafur að efast um gildi gráa svefnsins. Svefninn hljómaði eins og þægileg átylla til að hlaupast undan ábyrgð. Faðir hans virtist ekki drifinn áfram af lífsgleði heldur ótta. Stundum varð Ólafur reiður í garð fólks sem fylgdi reglum í blindni. Var hann verri maður fyrir vikið?

Héðinn faðir hans mundi hvernig hvítu doppurnar mörruðu í tréstiganum þegar skugginn þrengdi sér á milli fúnandi spýtnanna. Héðinn fékk enn sviða í lófana við það eitt að hugsa um hvítu doppurnar. Doppurnar sem höfðu svæft konuna hans. Einn daginn myndi Héðinn segja syni sínum að Hilma móðir hans hafði ekki látist af slysförum.

Þegar Ólafur var nítján ára varð hann hugfanginn af bannaðri, litaðri tónlist sem gekk í laumi á milli skólafélaganna. Þetta voru miklu dýpri tónverk en sama gráa hlandið sem sprændist endalaust úr útvarpinu. Ólafur var sannfærður um að gráminn hefði kæft sjálfa sköpunargleðina í manneskjunni.

Um þetta leyti sótti Ólafur ólöglegan litaðan fund. Framsækin kona talaði um óteljandi svefnliti. Hún hefði ekki aðeins sofnað í doppóttu, heldur svifið um alheiminn í bleiku og bröndóttu. Þetta hljómaði ekki eins og hræðsluáróðurinn á hans heimili. Ólafur sannfærðist um nauðsyn litabyltingar. Fólk hlyti að rísa upp fyrr eða síðar.

Ólafur sagði föður sínum ekki frá fundinum. Ekki fyrr en hann hafði smíðað appelsínugult rúm með byltingarsinnum úti í skógi. Ólafur sagði Héðni hvernig hann hafði sofnað undir skæru mynstri og séð appelsínugula menn teygja heiminn í nýjar áttir. Hvernig hann andaði í skýjum og stjörnum undir dynjandi lófataki.

„Þetta var engin martröð, pabbi. Ímyndaðu þér hvað þetta getur gert fyrir vinnuna þína. Þú getur smíðað fleiri rúm á tveimur tímum en þú gerir núna á tveimur vikum!“ Ólafur lét vera að segja föður sínum frá lágværu, óþægilegu braki sem barst samtímis sýninni.

Héðinn gamli ærðist: „Hver lét þig gera þetta? Var það Felix? Ég vissi að þau væru enn doppótt!“ Héðinn var sjálfur orðinn doppóttur í framan af reiði. Nei. Ekki fyrir framan drenginn. Hann dró grátt andann.

Sonur hans trúði á liti, hann vissi ekki betur. Hafði Héðinn ýtt undir áhugann með öllum doppóttu sögunum? Söguna um hermanninn sem snerist gegn samborgurum sínum, og vaktmanninn sem hló að viðvörunarljósi álversins. Ólafur sagði ekki neitt. Svipurinn gaf til kynna að hann vissi meira en honum hafði verið sagt. Það var kominn tími á sannleikann.

„Óli minn, ég þarf að segja þér svolítið. Hilma mamma þín dó ekki í bílslysi. Hún missti smám saman tengslin. Þetta byrjaði allt með litunum. Fallegum litum. Fyrst gulur, svo grænn. Hún málaði ótrúlegar myndir. En þegar hvítu doppurnar komu hætti hún að hvíla sig. Dag einn var hún farin að mála sína eigin liti á raunveruleikann.

Héðinn horfði blíðlega á son sinn. Héðinn og Hilma höfðu líka trúað á drauma. Kannski var það nauðsynlegt skeið. Ólafur var skynsamur drengur. Hann myndi sjá fallvaltleika litanna. 

„Óli minn, þú ert að þroskast svo mikið. En veistu... Stundum er það sem syfjar okkur mest einmitt það sem heldur fyrir okkur vöku. Mig dreymir kannski aldrei, en ég sef saklaus maður.“

Héðinn fann smíði sonarins úti í skógi. Hve fögur hún var í náttbirtunni. Hann hikaði, leit í kringum sig og var næstum því lagstur í appelsínugult rúmið. Hann sá Hilmu fyrir sér. Hve glöð hún hafði verið áður en allt fór á hvolf. Þessi gleði gerði ekkert ómögulegt, sem var einmitt það hættulega við hana. Hilma réði ekki við litina. Hún málaði sig smátt og smátt frá Héðni og frá tveggja ára syninum. Frá sjálfri sér.

Héðinn táraðist og hóf öxina á loft. Grár málmurinn blikaði í tungsljósinu. Þegar litaðar spýturnar hrukku í sundur gáfu þær frá sér undarlega langa bresti sem fylgdi Héðni alla leiðina heim. 

Útidyrnar stóðu opnar. Lítið bréf lá á borðinu: „Þú ert ekki hræddur við litina pabbi, heldur sjálfan þig. Þú ert hræddur við að dreyma eins og frjáls maður.“

Héðinn vissi hvar Ólaf væri að finna en lét hann vera. Hann heyrði aftur dynkina. Marrið í stiganum. Hann sá fyrir sér gamla barnaherbergið. Skuggann yfir dýnunni. Drauminn sem varð eftir.

Ólafur gisti hjá byltingarsinnum sem unnu að nýju rúmi. Um nóttina fékk hann litaða sýn: Þrír appelsínugulir menn teygðu veruleikann í nýjar, glitrandi áttir. En það var líka þögul skelfing undir sviðinu. Myndi hann missa stjórn eins og doppótta fólkið? Eins og móðir hans?

Breytingar voru í aðsigi. Grái flokkurinn fékk á sig harða gagnrýni fyrir einokun á sífellt dýrari og þynnri svampdýnum. Andófið náði hámarki þegar Fríða Heiðars í Gráa flokknum svaraði mótmælaröddum í næturútvarpinu: „Kannski vill fólk bara vera sofandi.“

Var fólk að vakna frá gráa minnissvampinum? Þetta var hárrétt augnablik. Ólafur heyrði grámann tifa í bæjarlæknum þegar hann og aðrir byltingarsinnar afhjúpuðu appelsínugult rúm á markaðstorginu. Bæjarbúar göptu af syfju og undrun.

Hægt og bítandi vék þögnin fyrir skvaldri, sem braust út í fagnaðarlæti. Þetta var ekki aðeins rúm, heldur loforð um betri tíma. Múgurinn trylltist.

Var Ólafur tilbúinn? Allt í einu streymdu appelsínugular dýnur og rúmbotnar úr nýrri verksmiðju. Á kaldhæðinn hátt hætti hann að dreyma þó hann legðist í sama litaða rúmið. Í staðinn kom hreinn ótti. Beindist hann að því að endurtaka vegferð foreldra sinna? Eða hræddist hann sína eigin leið?

„Ertu búinn að sjá þetta Óli?“ spurði Davíð félagi hans. Ólafur tók við blaðinu: „Lesblindan dreng dreymdi tvær síður úr Sjálfstæðu fólki í appelsínugulu rúmi.“ 

Ólafur ætlaði að fagna, en innst inni heyrði hann langt, holt hljóð. Hann leit út um gluggann og sá safnsvörðinn hlaupa hálfnakinn niður götuna með appelsínugulan fána á lofti. Hvenær varð fögnuður að algjöru stjórnleysi?

Stundum var Ólafur ekki viss hvort hann væri vakandi. Nafnlausar hótanir sem bárust inn um lúguna bættu ekki úr skák. Ólafur fann djúpstæðan ótta um að hann myndi annaðhvort vakna frá þessu öllu eða missa stjórn á sjálfum sér. Næturnar geymdu hljóð sem minnti á brestandi grein. Heyrðu aðrir þetta líka?

Fríða Heiðars mætti Ólafi í næturútvarpinu. Hún sakaði hann um lýðskrum. „Hvað með efnahaginn og menntakerfið? Allt grátt.“

„Doppurnar voru aldrei illar, aðeins ástríða sem fór úr böndunum,“ sagði Ólafur.

„Þetta er allt sami liturinn,“ svaraði hún. „Það eina sem Ólafur er búinn að gera hérna er að taka eldgamla hvíta doppu niður af háalofti...

„Er rykið á háaloftinu ekki grátt?“ spurði þáttastjórnandinn.

Leyfðu mér að klára hérna. Taka eldgamla hvíta doppu og mála hana appelsínugula. Það er það eina sem hann er búinn að gera.“

Ólafur benti á að fjölskylda Fríðu Heiðars ætti verksmiðjurnar sem framleiddu gráu rúmin. Fólk hefði nú frelsi, ekki aðeins til að velja, heldur til að dreyma sína eigin drauma.

Fríða Heiðars svaraði: „Frelsið er grátt. Að draga upp bara einhvern lit er gera lítið úr baráttu þeirra sem fórnuðu sér fyrir grámann sem við göngum að í dag. Doppurnar koma aftur um leið og við sofnum á verðinum. Gráminn færði okkur vegina og sanngjarna vinnutíma. Ólafur ætlar bara að skola þessu burt með appelsínugulri froðu!“

En fólk hafði tekið lit. Fríða Heiðars sá appelsínugult listaverk spretta upp neðar í götunni sinni. Risavaxna skæra kúlu sem teygði kræklótta anga upp til himins. Óteljandi litaðir kristallar geisluðu í sólinni. Göturnar fylltust af dansi og söngvum. Fríða Heiðars barðist við tilfinningu um að fara út og fagna með þeim.

Hún settist niður við sjónvarpið með bragðlausan gráan safa. Hún dæsti yfir frétt um að vísindamenn hefðu uppgötvað appelsínugular stjörnuþokur og appelsínugul lyf. Hafði hún staðið í vegi fyrir eðlilegri framþróun?

En svo kom frétt um að lögreglumenn og húsverðir hefðu endurtekið sofið yfir sig svo venjulegt fólk hætti sér ekki út á kvöldin. Síðan um versnandi aga sem foreldrar og kennarar kölluðu „appelsínuguluna“. Fríða Heiðars hugsaði um samdráttinn í Gráu verksmiðjunni. Það var hennar að snúa þessari óöld við.

Veröldin hafði litast. En undir skæra litnum var talað um lágværan holan brest. Sumir sögðu hljóðið koma úr nýjum jarðgöngum. Aðrir að hljóðið kæmi einhvern veginn innan frá. Fólkið í lituðu verksmiðjunni hafði varla undan framleiðslunni og Ólafur lofaði að ráða fleira fólk.

Ólafur fann fyrir stolti, en á sama tíma læddist að honum skömm. Voru hvatar hans sjálfselskir eða samfélagslegir? Hann heyrði að strætóbílstjórinn í næsta húsi hefði fengið svo hrikalega martröð að hann gat ekki komið nálægt skiptimiðum aftur. Brak. Fólk mátti ekki fá ranga mynd af byltingunni. Þrátt fyrir að það vantaði fleira fólk tók Ólafur nokkra frá færibandinu og fól þeim að búa til jákvæðar appelsínugular fréttir.

Ólafur lét hraða á framleiðslunni þrátt fyrir viðvaranir starfsfólks: „Við náum ekki að sveigja gormana svona hratt.“ „Lengjum þá vaktirnar,“ svaraði Ólafur og hunsaði grámann sem læddist á milli hans eigin orða. Hann skrifaði undir ódýrari hráefni til að halda niðri kostnaði. Seinna yrðu þau kölluð hetjur.

Úrvinda starfsmenn báðu um frí. „Nú er ekki rétti tíminn til að hvíla sig.“ Ólafur kreppti gráan stein í vasanum. Í hvað var hann að breytast? Var hann farinn að hljóma eins og þau? Nei. Hann var að bjarga fólki frá grámanum. Bjarga framtíðinni.

Allt í einu fóru þræðirnir að slitna. Málningin náði ekki að þorna. Gormarnir skekktust. Ólafur brást við með því að selja dýrar bætur og varahluti. Starfsfólkið vann enn lengri vaktir. Hann rak gamlan skólafélaga sem mótmælti. Annaðhvort var fólk með í byltingunni eða á móti henni.

Rúmin héldu áfram að eyðast innan frá, með undarlegu, holu braki. Ólafur tók nokkur rúm í sundur af ótta við að sjá þar doppur en fann engar. Var hann að endurtaka sömu martröð í nýjum lit?

Fríða Heiðars hló í næturútvarpinu þegar talið barst að holu brakinu sem nú var orðið stöðugt: „Hljóðið í litabólunni að springa. Hún bætti við í samúðarfullum tón: Sjáðu hvernig þeir hafa farið með sitt eigið starfsfólk. Við í Gráa flokknum höfum alltaf barist fyrir eðlilegum hvíldartíma.“

Sumir hörfuðu aftur í grámann. Margir starfsmenn snerust gegn ofríki Ólafs. Harðir stuðningsmenn héldu þó fast í litinn og unnu með Ólafi að því að bæta bæði gorma og grindur.

En skaðinn var skeður. Fríða Heiðars benti á að glæpatíðni og verðbólga hefðu aukist með tilkomu appelsínugulu rúmanna. „Greinilegt orsakasamhengi. Fólk er svo upptekið af sjálfu sér að það lítur ekki á sig sem hluta af samfélaginu lengur. Gráminn sé oss næstur!“

Heima bylti Ólafur sér. Var þetta honum að kenna? Í fréttunum sá hann fólk í appelsínugulum fötum brenna grá rúm á markaðstorginu. Reiður ungur maður baunaði litasprengjum yfir öldunga Svefnráðsins. Þetta var ekki byltingin sem Ólafur ætlaði sér. Hafði hann vakið upp gamla martröð? Nei. Nú þurfti hann að hafa vit fyrir fólki.

Þegar Fríða Heiðars steig út úr útvarpshúsinu mætti hún ungu pari með appelsínugula vöggu. Barnið svaf, ómeðvitað um merkingu litanna.

Eitt sinn hafði Fríða séð heiminn í lit, án þess að þagga hann niður. Gat hún það enn? Hún heyrði innra með sér doppóttu lögin sem mátti ekki syngja:

„Dreymum doppur frjáls,
dýrð sé kóngi nætur!
Klífum kojur stáls,
kátir sveina fætur!“

Hún fann fyrir létti sem hún náði ekki utan um. Hafði líf hennar gengið á sjálfstýringu? Hún leit á barnið. Hún vissi að sumar reglur í Gráu bókinni voru út í hött. En fólki þurfti að mæta þar sem það var.

Fríða Heiðars leit frá barninu. Hún rifjaði upp loforðið sem hún gaf föður sínum á dánarbeðinu. Loforð um að gefa andvaka heimi gráan svefn.

Slagorðið „GRÁTT ER GOTT“ var á allra vörum í næstu kosningum. Grái flokkurinn náði yfirgnæfandi meirihluta og rúm bæjarins féllu aftur í gráan svefn.

Eftir langa kosninganótt lá Fríða Heiðars með Gráu bókina opna í fartölvunni. Hún lék sér að því að breyta litnum á stöfunum á meðan maður hennar svaf. Fyrst í doppótt. Svo í appelsínugult. Loks aftur í grátt.

Svefnráðið bannaði Ólafi að koma nálægt hönnun og samsetningu rúma nokkurn tímann aftur. Honum var úthlutað starf í grárri verslun. Ólafi var að vissu leyti létt að bera ekki heiminn á herðum sér. Og skyndilega var brakhljóðið á bak og burt.

Héðinn faðir hans heimsótti Ólaf oft í búðina og keypti gráa blýanta. Eitt sinn færði hann Ólafi rykuga mynd sem Hilma móðir Ólafs hafði málað. „Þetta var síðasta myndin.“ Undir gráma myndarinnar skein í litlar hvítar doppur.

Ólafur skildi að Héðinn hafði aðeins reynt að vernda hann fyrir sínum eigin ótta. Ekki var hann heldur til í að fórna geðheilsunni fyrir bæ sem var ekki reiðubúinn að vakna. Ólafur hafði lært að getunni til að dreyma fylgdu óhjákvæmilega martraðir. En síðasta mynd móður hans fylgdi honum.

Eitt kvöld horfði Ólafur á sólina setjast. Skýin, sem minntu á hvítar doppur, urðu smám saman grá. Í andartak brá fyrir keim af appelsínugulu á milli þeirra. Ólafur var ekki aðeins orðinn hræddur við doppurnar heldur sjálfan sig. Hann mundi eftir draumnum í skóginum. Lófatakinu þegar hann tókst á loft. Ef hann gæti aðeins byrjað aftur.

Ólafur heyrði fjarlægan brest, næstum eins og úr minningu. Síðan sá hann fjóra unga menn bera rúm inn í dökkvann. Rúmið hafði liti sem hann hafði aldrei dreymt um: Gulan, bláan, grænan...

Ólafur hristi höfuðið. Þessir litlu drengir vissu ekkert um byltingu. Hverju hann hafði fórnað. Fyrir hverja? Hrjótandi hálfvita.

Annar drengjanna leit á Ólaf og kinkaði kolli áður en hann hvarf út í nóttina. Ólafur fann fyrir óvæntum sting. Hann skildi að lófatakið í fyrsta draumnum hafði aldrei verið fyrir sig heldur alla sem börðust fyrir lituðum hugmyndum.

Ólafur lokaði augum og brosti. Hann fann litina streyma fram hjá sér. Hann sá litina í augum móður sinnar. Óendanlega liti sem hann hjálpaði til við að vekja en myndu hvorki enda með honum né henni.

sunnudagur, 31. ágúst 2025


Opið bréf til ríkisskattstjóra

Kæri ríkisskattstjóri.
Ég skrifa þetta bréf ekki sem eigandi stærsta kvikmyndahúss bæjarins, heldur sem auðmjúkur þjónn samfélagsins. Aldrei myndi ég raska ró yðar vegna svo lítilvægra fjárhæða, nema vegna þeirra skelfilegu atburða sem dunið hafa á kvikmyndahúsi mínu að undanförnu. Málið snýst heldur ekki um fáeina auruga skildinga, heldur sjálfar undirstöður velferðarsamfélagsins.
Sjáðu til, við í Kvikmyndahúsi Garðars Bærings störfum eftir gildum sem lita ekki aðeins starfsemina, heldur einnig líf og limi þeirra sem gefa sýningargestum hlé frá raunveruleikanum. Þegar Kata í miðasölunni fór í barneignarleyfi í fyrra, steig ég sjálfur niður í miðasöluna, þar til ný starfsstúlka fannst. Þessari góðgerð minni og auðmýkt mætti líkja við lægri skattþrep ykkar fyrir þá sem minna mega sín. Já, hér þekkir einn mannvinur annan.
Það er því afskaplega óheppilegt að sá mannlegi harmleikur sem átti sér stað hér síðustu helgi hafi þurft að taka sér bólfestu einmitt innan veggja kvikmyndahúss sem gerir út á kærleik við náungann. Innan húsrúms sem var ekki byggt til að græða, heldur til að opna hug og hjörtu almennings. Og þó nafn mitt slæðist inn á milli lína í Tekjublaðinu, slær hjarta mitt einatt með okkar minnstu bræðrum og systrum.
Ólánið hófst allt með öldruðum manni, Ragnari Fiskfjörð, sem krafðist endurgreiðslu á miða að sýningu lokinni. Hann bar fyrir sig sjaldgæft, áunnið öldrunarheilkenni sem ku hrjá aðeins 0,001% mannkyns, svo nýuppgötvað að fyrsta vísindagreinin um það hefur ekki enn verið birt.
Ragnar þessi sagðist hafa keypt miða á heimildamynd um Síberíurefinn en hafi fyrir mistök lent á annarri, bannaðri og blárri mynd, og upplifað þar bæði niðurlægingu og hortugheit. Hjá okkur, sem sláum oft af miðaverði fyrir börn og erlenda ferðamenn, og röðum í kistur samfélagsins hvort sem litið er til hátekjuskatts eða menningarlegra verðmæta sem skaga langt upp úr nokkru skattaframtali.
Ég stend á krossgötum. Hver og einn ber ábyrgð á að fara í réttan sal. Sat maðurinn virkilega í gegnum heila, ranga kvikmynd án þess að gera neitt? Og það með því að kaupa sig inn á ódýra mynd um slyngan og kaldan ref sem lifir og hrærist í ríki kommúnista! Er það furða virðulegur skattstjóri, að ég spyrji hvort verið sé að hafa mig að fífli?
Á ég að velja harða viðskiptahætti eða auðsýna mildi? Ef ég endurgreiði, gæti það skapað fordæmi þar sem fólk heimtar peninga til baka fyrir eigin mistök, þrátt fyrir að hafa neytt og jafnvel notið þjónustunnar. En gott orðspor vegur einnig þungt hjá grænum, jafnlaunavottuðum velferðarfyrirtækjum eins og mínu.
Auðvitað gætir þú spurt um læknisvottorð. Já, hví hugsaði ég ekki um það? Þorskhaus þessi hefði getað slengt fram gulnuðu A4-skjali þar sem staðið hefði: „Hér með staðfestist að Ragnar Fiskfjörð kommúnisti er með óskráð form elliglapa sem hindra hann í að finna réttan bíósal og krefst þess að allar rangar sýningar verði endurgreiddar með poppi og gosi.“ En engin slík skjöl voru lögð fram.
Það sem áður var myrkvað skjól kvikmyndatöfra er nú orðið að vígvelli siðferðis og sjúkdóma. Hvað næst? Getur fólk með kæfisvefn óskað eftir endurgreiðslu eftir að hafa sofið í gegnum heilu myndirnar? Þurfa eigendur fyrirtækja að standa vörð um hvert viðskiptavinir þeirra fara og í hvers háttar ásigkomulagi? Eða látum við poppkornsregluna sígildu ráða: „Ef þú kláraðir poppið, var myndin ekki svo slæm“?
En málið hefur enn vaxið og dregið að sér óvæntan álitsgjafa. Mann sem kallar sig Dulspekinginn, fastagestur sem segist koma „til að samlagast myrkrinu“. Hann sendi mér handskrifað bréf:
„Þessi Ragnar, ef hann er þá til, er táknmynd óréttlætis í heimi þar sem fólk telur sig eiga rétt á geðþóttatilvist. Hver er svindlarinn? Bíóið, sem selur falska drauma, eða áhorfandinn sem telur sig berja sannleikann augum? Þú flýrð ekki kvikmyndina. Hún er undanskot frá því að líta inn á við í forboðin djúp sálarinnar.“
Ég er siðsamur maður herra skattstjóri, en í lok bréfs bætir Dulspekingurinn við að sjálfsfróun sé bönnuð í kvikmyndahúsum. Var hann að vísa í raunverulegt vandamál, eða var þetta dýpri speki? Átti hann við sálræna fróun, þá egóísku einangrun að nota listina eingöngu fyrir sjálfan sig, þar sem hver borgari situr lokaður og læstur gagnvart sameiginlegri upplifun með náunganum í næsta sæti? Var þetta ákall til samveru eða tilraun til stjórnunar?
Ég vona að þér, virðulegur ríkisskattsstjóri, skiljir alvöru málsins. Hér er ekki reynt að koma nokkrum krónum undan gagni og skyldu, heldur er tekist á um máttarstólpa kerfis sem byggir á réttlæti og virðingu fyrir listinni að reka fyrirtæki með hjartað á réttum stað.
Ég bið þess eins að bera ekki allan kostnað, beinan og óbeinan, sem þegar hlotist hefur og mun gera áfram af miðamáli Ragnars. Og á tíma sem verð á sogrörum og pappaglösum hafa hækkað upp úr öllu valdi!
Þér hljótið að gera undantekningu fyrir heiðarlegan viðskiptamann og samfélagsföður. Annars sér hver maður að öll viðskiptahús bæjarins munu innan tíðar fyllast af skætingi og fordæmalausum endurgreiðslukröfum frá uppgerðarlýð.
Með von um skilning á skattaárinu, Garðar Bæring.

þriðjudagur, 26. ágúst 2025


Hugleiðing

Týnum um stund orði og mynd, lítum í gegnum göt hugmyndanna, lag fyrir lag. Hvert lauf ber ljósinu einn og sama vitnisburðinn.

Hér eru hvorki þagnir né tónar, aðeins hreyfing sem tvístrast frammi fyrir þeim sem leggur eyra að rótlausum sandi fyrirbæranna.

Lítum handan máttar og meins, grípum dýpri voðir en eirðarlaust kapphlaup tilgangs og merkingar. Sjáum yfir notagildi og markmið.

Augnablikið er án sundrunar, aðeins stakur þráður vefur hugsun og draum, ljós og reyk. Hver dropi er djúp, hver von er veröldin sjálf.

fimmtudagur, 21. ágúst 2025


Heita vatnið

Sesselja hikaði í smá stund áður en hún rétti Ahmed skál með nýbökuðum kleinum. Langaði að segja honum hvað þetta væri en lét brosið duga. Sesselja gjóaði augum á framandi klæði Fatimu. Á börnin þeirra tvö sem höfðu flúið land án þess að flytja að heiman eins og Atli sonur hennar hafði gert í fyrra.

Sesselja hafði þrifið og þvegið launalaust fyrir komu fjölskyldunnar til landsins og bakað kleinur eftir uppskrift móður sinnar. Vissi þó að hún myndi ekki geta prjónað í viku á eftir vegna gigtarverkja. Það var Sif vinkona sem hafði neytt hana í þetta sjálfboðastarf. Sagðist muna hvernig sér leið þegar dóttir hennar flutti að heiman.

Þegar Fatima þakkaði Allah fyrir húsnæðið fannst Sesselju hún stíga ofan í sjóðheitt kar. Hún spurði sig í augnablik hvort hún væri raunverulega þarna. Fann fyrir stingjunum í höndunum. Nei, hvernig lét hún. Hún var auðvitað ekki þarna fyrir sig sjálfa. Hún var bara þreytt núna. Þreytt á að gefa. 

En síðan, eftir nokkurra vikna sjálfboðastarf, breyttist eitthvað innra með Sesselju. Þetta hófst allt þegar hún ætlaði að panta sér pylsu eftir sundferð. Afgreiðslumaðurinn svaraði henni á ensku. 

Fyrst hitnaði líkaminn allur og hún fann megna lykt af klór og brennisteini. Síðan fannst henni eitthvað taka yfir munnholið, eins og það væri ekki hennar lengur. Sesselja streittist á móti, en tilfinningin líktist drukknun í hennar eigin líkama.

Hún leit stjörf á pylsusalann. Í stað þess að segja: „Eina með öllu,“ þrumaði hún: „Þetta fólk er ekkert komið hingað til að vinna, heldur fara á bætur.“ 

Sesselja greip fyrir andlitið með skelfingarsvip. Hún heyrði hljóð sem minnti á rennandi vatn og fannst eins og líkaminn væri allur blautur og heitur. Sem betur fer skildi maðurinn hana ekki, né hvers vegna hún hljóp í burtu svo sundtaskan varð eftir.

Hún skellti aftur bílhurðinni og leit í baksýnisspegilinn. Hver var þetta? Sesselja sá móður sína fyrir sér kreista hönd hennar þegar þau gengu hjá erlendum verkamönnum á byggingarsvæði. 

Hvernig móðirin hafði beðið hana að þvo sér um hendur eftir að hafa leikið við Alvarez í næstu götu. „Geturðu ekki leikið við Hallgerði frekar? Hún kann að spila á píanó eins og þú. Bróðir þinn er til í að skutla þér til hennar.“ Móðir hennar, fíkniráðgjafinn sem flúði sjálf til Kanaríeyja yfir vetrartímann.

Sesselja herpti varirnar og reyndi að segja: „Ég er ein af góða fólkinu,“ en í staðinn kom: „Þessir helvítis hælisleitendur fá allt upp í hendurnar.“ Hún hrópaði upp fyrir sig með tárin í augunum og tók leigubíl heim.

Sesselja vandist þessu ekki, en hún hætti smám saman að grípa fyrir munninn þegar hún var ein. Hún uppgötvaði sér til undrunar að hluti af henni fann sannleikskorn í hvössustu ummælum. Þetta bæði kitlaði hana og fyllti reiði og skömm.

Þegar raddirnar tóku yfir fannst Sesselju nasirnar fyllast af móðu og líkami hennar hvíla á einhverju hörðu. Hún fann hitann renna inn í holdið: „Er þessi sem lögreglan lýsir eftir útlendingur?“ 

Stundum var þessi tilfinning... góð. Var hún að missa vitið eða að öðlast nýjan skilning á sjálfri sér?

Atli sonur hennar neyddi hana til Korpúlfs læknis. Hann hafði hikað við að kynna móður sína fyrir erlendri kærustu sinni, Aminu. Korpúlfur sendi hana í rannsóknir sem komu eðlilega út. Hann skrifaði svo upp á kvíðalyf sem hún tók aldrei.

Þegar Sesselja mætti Viðari nágranna sagði hann henni að starfsfólkið hafi skyndilega lokað heita pottinum í sundlauginni: 

Þegar hún mætti Viðari nágranna sagði hann henni að starfsfólkið hafi skyndilega lokað heita pottinum í sundlauginni: „Það er eitthvað að hitastillinum, potturinn var sjóðheitur.“ Hún vissi að Viðar færi daglega í heita pottinn. Bjóst við að röddin tæki yfir en náði að svara Viðari að sér þætti það leitt.

Ekki bar á neinu þrjá daga, en þá ætlaði hún að hrósa erlendum afgreiðslumanni í Nettó fyrir góða íslensku. Annað kom úr munni hennar: „Þetta fólk hefur verið hér í tíu ár og kann ekki stakt orð í íslensku!“ 

Sesselju fannst hún fljóta. Sá fyrir sér hveiti, sykur, egg og lyftiduft veltast yfir funheitri pönnu og fann aftur fyrir gigtinni smjúga inn í fingurna eins og bráðið smjör. Hún hljóp heim, á flótta í sínu eigin hverfi. Á flótta frá sínum eigin hugsunum.

Hún óð fram hjá Viðari nágranna í sameigninni sem mælti: „Jæja, potturinn fór í gang. Þessi Lithái kunni ekkert á þetta.“

Hún lokaði dyrunum. Potturinn? Gat það verið? Hitakófið, vatnshljóðin, lyktin. Það passaði við lokunartímann. Hún hafði oft farið í heita pott Dalvallalaugar. Fór með móður sinni í hann í gamla daga og hlustaði á fullorðna fólkið tala um „útlendingavandann“. Hafði ekki erlent barn drukknað í þessum potti þegar móðir hennar var lítil?

En var heiti potturinn uppsprettan, eða dró hitinn aðeins upp á yfirborðið eitthvað sem hún hafði sjálf reynt að halda niðri? Var potturinn þægilegur blóraböggull; bjó hún sjálf yfir fordómum innsti inni sem þægilegt hafði verið að varpa yfir á móðurina og óheflað fólk í sundfötum? 

Var móðir hennar vond? Manneskja sem hafði helgað líf sitt til hjálpar fólki með fíknisjúkdóm. Af hverju gaf lífið aldrei einföld svör?

Atli reyndi allt. Rökræddi við móður sína um málefni innflytjenda. Gaf henni símanúmer dægurmálaþáttar til að viðra skoðanir sínar. En áfram hélt hún. Hvernig yrði að kynna hana fyrir Aminu? Það voru farnar að renna tvær grímur á Aminu við dularfulla biðina: „Is your mother afraid of me?“ 

Atli gafst upp og laug að Aminu að þetta væri byrjandi heilabilun. Amina horfði á eldrauð eyrun. Var það lygi ef Atli trúði því sjálfur? Hann skvetti köldu vatni framan í sig. Tíminn var kominn. Þau urðu að komast yfir þetta.

En Sesselja sagði ekkert allt kvöldið. Hafði komist að því að hennar þögn hélt líka röddinni niðri. Hún benti á maga Aminu og lék eftir þungun. Atli horfði undrandi á móður sína. Af hverju talaði hún ekkert?

Amina brosti og rétti Sesselju kalt vatnsglas. Hún sagði: „Faðir mín, líka bilað heilann. Alzheimer.“

Sesselja fór í kleinu og rauf þagnarbindindið: „Burt með hendurnar! Þetta er hreint, íslenskt vatn!“ Amina horfði óttaslegin á Atla, sem gaf móður sinni illt auga. Sesselju fannst Amina allt í einu vera komin í sundbol og pírði augun á hana. Þannig gekk þetta í hringi eins og í hreinræktaðri íslenskri fjölskyldu.

Sesselja barðist við þörfina fyrir að tala um kostnað við heilbrigðisþjónustu hælisleitenda með því að bryðja ísmolana. Vildu ekki langflestir frið? Hafði hún ekki séð kærleikann með berum augum í starfi sínu? En undir niðri flæddi enn sama hveravatnið út í falinn, botnlausan pott.

Þegar þau voru komin út játaði Atli að móðir sín hefði ekki greinst með heilabilun, en breytingin á henni væri engu að síður bæði snögg og undarleg. Hann nefndi ekki samviskubitið yfir að hafa flutt að heiman. En hann var vissulega orðinn 25 ára. Amina horfði á bíl spóla í burtu hinum megin við götuna. Grár útblásturinn liðaðist á milli þeirra.

„I really want this to work out, Atli. But... I just need peace in my life now.“ Atla sveið þegar hún kvaddi. Þurfti hann í alvöru að velja á milli þeirra?

Eftir að parið gekk út rauk Sesselja inn á klósett, og baðaðist köldu vatni þar til hún skalf þver og endilöng. Daginn eftir bárust fréttir um að heitur pottur í Dalvallalaug hefði allt í einu byrjað að sjóða. „Það væri hægt að steikja kleinur í þessum hita!“ grínaðist fréttamaðurinn. Biluðum hitastilli var kennt um.

Sesselja leit út um gluggann, endurkast hennar á rúðunni var teygt og tvístrað. Höfðu þessar raddir alltaf tilheyrt henni á einhvern bældan, afskræmdan hátt? Var sundlaugin enn opin?

Sesselja skannaði sundmiðann. Fór dáleidd í gegnum búningsklefann. Fann hjartað slá í 37°C potti úr kjöti og beinum. Heyrði ylhýrt málið, vögguvísurnar, þjóðsögurnar, nöfn fjallanna. Sá fyrir sér fátækt fólk ganga yfir fornt landslag í gegnum hríð aldanna. Fyrir hvað? Fyrir hvern?

Hún fann gleðina og stoltið yfir að tilheyra þessari menningu. Sá svo risastóra ylvolga kleinu molna undir dökkum, traðkandi verum með framandi augnaráð. Síðan settist einn baðgestur á eftir öðrum í brennandi sæti með eldrauð augu og spúði gufustrókum yfir landið.

Sesselja hafði séð margt. Sumt fólk var svo ólíkt henni. Hún hafði spurt sig hvort það væri frelsi að hylja líkama sinn? Að karlmaður þyrfti að vera viðstaddur þegar kona fer til læknis? Hafði hún verið hrædd við að týna sjálfri sér? Mynd af móður hennar brá fyrir, marandi í 42°C potti með munninn upp úr: „Þetta fólk hugsar ekki eins og við, Sesselja.“

Hún stóð upp. Droparnir féllu af vörmum kroppnum. Hún gat ekki stjórnað hvað annað fólk lét út úr sér í sundi. En hún gat síað sínar eigin hugsanir. Átt rödd sem gat bæði sungið íslensk þjóðkvæði og boðið fólk velkomið. Þetta þurftu ekki að vera andstæður.

Amina sagði Atla að lífið hefði kennt henni að útiloka ekki fólk eftir fyrstu kynni. Faðir hennar hefði sjálfur sagt ýmislegt í sínum veikindum.

Næsta morgun sátu Atli og Amina við eldhúsborðið. Sesselja settist niður með þeim: „Ég vil að þú segir henni að mér þykir leiðinlegt hvernig ég var um daginn.“ Atli leit á hana með óvæntri aðdáun.

„Ég ætla að kenna henni íslenska vögguvísu fyrir barnabörnin.“

Gleðisvipur Atla snerist í skeifu: „Mamma! Hvað er að þér? Við vorum að kynnast!“

„Mér er alveg sama,“ sagði Sesselja. Ég var búin að hitta pabba þinn tvisvar þegar ég varð ólétt af þér. Svo veit enginn hvað ég verð lengi hér.“

Sesselja byrjaði að syngja: „Bíum bíum bambaló...“ Hún fann lykt af klór og brennisteini. Líkaminn þrýstist upp að hörðu plastinu. Heyrði einhvern setjast í pottinn: „Það ætti bara að senda þetta lið heim í næstu vél!“

Sesselja hækkaði róminn. Söng um vin sem hún vaggaði í ró yfir hlýrri gufu: „Þetta fólk...“ Hún horfði á Atla og Aminu sem brostu bæði. Móðir Sesselju maraði í soðnu vatninu með froskalappir á bakkanum. 

„En úti bíður andlit á glugga."

Róandi söngurinn, stoltur en hlýr, var hennar val. Söngur sem var ekki endanleg lausn, en upphafið að einhverju nýju. 

Sesselja teygði sig í handklæðið. Klórinn sveið í augun. Hún reyndi að heyra ekki hæðnisraddirnar sem héldu áfram að bubbla í fjarlægum potti.

„Borðar Amina kleinur?“

þriðjudagur, 19. ágúst 2025


Hvíti járnsmiðurinn

Gylfi fann stingi í fótunum við að horfa á afa sinn ganga inn í barnaherbergið, og augun urðu þurr eins og eplið sem hann hafði falið undir rúminu þegar amma hans dó. „Þú nemur húsið,“ sagði afinn. Hann lagði höndina á vegginn: „Finndu, hérna tifar hann.“

Gylfa fannst best að sitja á gólfinu inni í herbergi þegar foreldrar hans rifust. Hann fann þrýsting í kviðnum, eins og raddirnar nörtuðu í eitthvað innra með honum. Hann skildi ekki orðin en vissi að þau snertu hann: 

„Jónína, við eigum ekki efni á... 

...Gylfa og þú kaupir samt...

...það eina sem þú...“

Nóttina eftir sjö ára afmælið vaknaði Gylfi við háreysti frammi á gangi, eins og oft áður. En þetta skipti var öðruvísi. Það var enginn herpingur í maganum, heldur hljóð sem var ekki hans eigið. Ekki grátur móðurinnar eða skrjáf í lyfjaspjaldi, heldur lágt hvísl úr veggnum.

Fyrst sá Gylfi ekkert og hljóðið hætti. En síðan heyrðist lágvær en skær titringur. Gylfi sá glæra, mjóa stilka færast upp vegginn, fasta við gegnsæja skel. Útlínurnar hurfu undir flagnaða málningu þegar pabbi Gylfa opnaði dyrnar og faðmaði hann. Munnur pabbans brosti en augun þögðu.

Mamma Gylfa fór í langa vinnuferð og þegar hún kom til baka bökuðu þau þrjú saman pönnukökur. Þegar foreldrarnir fífluðust í eldhúsinu fann Gylfi fyrir hlýjum straumi fara upp beinin og fiðringi í iljum. Sæt og mjúk lyktin af pönnukökunum myndaði þunnan hring sem snerist í loftinu.

En þegar afi hans lést og mánaðamótin skriðu yfir dagatalið hrópaði mamman á pabbann, og skordýrið kom aftur. Í þetta sinn voru angarnir og búkurinn ekki gegnsæ heldur fölur, og minnti helst á hvítan járnsmið. Hann boraði sig undir málninguna yfir rúmi Gylfa. Skildi eftir sig grófa hnoðra á gólfinu, eins og þurr, grá epli. Faðir Gylfa ryksugaði upp hnoðrana.

Gylfi virti járnsmiðinn fyrir sér. Gróf hann göng, eða var hann svangur? Hann setti puttann í gatið og stakk síðan upp í sig. Fyrst fann hann fyrir létti. En síðan kom sama þykka og daufa bragð og þegar móðir hans opnaði lyfjaskápinn, svo hann skyrpti á gólfið.

Járnsmiðurinn leit ekki við eplabitanum sem Gylfi skildi eftir handa honum. Hlustaði ekki þegar Gylfi talaði við hann. Gylfi reyndi að hugsa um sætu og mjúku pönnukökulyktina. Hvernig pabbi hans stríddi mömmunni og svífandi tilfinningunni í liðunum.

En ekkert gerðist og járnsmiðurinn hélt áfram að narta í vegginn. Þegar lætin frammi urðu hærri, vann járnsmiðurinn hraðar. Og þegar pabbi hans skellti hurð, bættist ný löpp við búkinn.

Gylfi þorði ekki að segja foreldrum sínum frá járnsmiðnum af ótta við að gera illt verra. Þau höfðu oft sagt honum að hafa hljótt þegar þau töluðu saman.

Hvað ef veggurinn hryndi yfir hann? Á sama tíma fannst Gylfa gott að vita af járnsmiðnum, eins og þeir hefðu komist að þegjandi samkomulagi. Eins og járnsmiðurinn væri að segja það sem enginn annar gat sagt.

Síðan var það eitt kvöldið að Gylfi heyrði rödd afa síns innan úr sprungunni, með undarlegu bergmáli: „Sjáðu.“

Gylfi leit í gegnum rifuna. Sá báða foreldra sína. Þegar faðirinn gekk alvarlegur um gólfið fann hann herping í maganum. Andvarp móðurinnar gerði rif Gylfa þyngri. Rödd afans sagði: „Minn nærðist á þögninni.“

Dag einn kom járnsmiðurinn úr vegg grunnskólans. Þegar hann horfði á Öldu kennara hrópa á Björn að vera kyrr fann Gylfi fyrir bruna í bringunni eins og Alda hefði þrýst að því logandi kyndli. Og þegar Gylfa var litið á Björn fann hann straum í fótunum og ið í höndum, eins og hann þyrfti sjálfur að hlaupa um matsalinn.

Gylfi sagði ekkert, því Alda kennari virtist eiga nóg með kyndilinn þegar Björn hlustaði ekki. Hann fann hve þreytt hún var. Og Gylfi passaði að vera þægur svo Björn gæti hreyft sig meira án þess að vera skammaður.

Gylfi sagði engum frá því að hann fann til í bakinu þegar Alda skammaði Björn, eða var sársaukinn alfarið þeirra? Kennararnir hrósuðu Gylfa á foreldrafundum fyrir að vera þægur.

Árin liðu og rödd afans í veggnum varð hans eigin. Járnsmiðurinn varð að tilfinningu í andlitum annarra; skjálftanum í hendi Áskels fyrir próf, þögn kærustunnar þegar hann talaði við aðra stelpu. Þegar pabbi hans öskraði af gleði þegar Gylfi skoraði á körfuboltamótum fannst honum maginn í sér sogast inn í langt og mjótt gat.

Seinna fékk Gylfi ráðgjafastöðu hjá stóru lánafyrirtæki. „Númer 26!“ Ungt par gekk inn. Þegar Gylfi dró upp skuldastöðu parsins horfði konan þurrum augum á manninn sinn. Stóllinn varð allt í einu harðari. Kviður Gylfa skrapp saman eins og gamalt epli.

Þegar parið var farið sat eftir rykhnoðri undir borðinu sem Gylfi stakk ósjálfrátt í skúffuna. Pönnukökulykt barst úr veggnum á móti. Hann fann stingi í fótunum þegar afi hans gekk rólega inn í herbergið. Hann dró upp símtólið og bauð parinu annan tíma.

laugardagur, 16. ágúst 2025


Blómadrengurinn

Bjarni mundi eftir fyrstu auglýsingu Garðeindar: „Við hjálpum þér að muna. Gefðu minningunum nýtt líf með ilmandi blómadreng!
- VARÚÐ: Notið ekki ef alvarleg áföll.“

Regína systir Bjarna varaði hann við: „Ekki hengja þig of mikið við sumarið Bjarni minn, þú veist hvað haustið hefur þegar tekið frá þér. Lóa hefði ekki viljað þetta.“

Lóa hafði sagt áður en stökkbreytingin kom í ljós: „Þú heldur alltaf í það sem er horfið Bjarni. Hvenær ætlarðu að stökkva á græna vagninn?“„Ég vildi aldrei þennan garð,“ svaraði hann. „Til hvers að rækta eitthvað sem endist ekkert?“

Þau kynntust í náminu. Bjarni las um steingervinga á meðan hún smíðaði spálíkön um hnattræna hlýnun. „Þú dregur mig nær jörðinni,“ grínaðist Lóa. Hlátur hennar rauf þögn lesstofunnar.

„Það er gott að vita af þér úti í beði,“ sagði Regína systir. „En þú ættir að leggjast inn á Nytjalund... þú þarft að rækta sjálfan þig líka.“ „Svo þér líði betur?“ hreytti Bjarni. „Bjarni, ég vildi ekki vera fyrir... Það voru vandamál í mínu lífi líka.“

Þetta var fegursti garður bæjarins. Ekki strá af illgresi, ólíkt því þegar Lóa sá um hann. En þarna ríkti sama þögn og innra með honum sjálfum.

Bjarna var heitt í framan þegar hann leitaði að minningadeildinni í Garðeind. Skrýtin lykt mætti honum, blanda af nýslegnu grasi og smurolíu.
 
Þar var stakur blómadrengur eftir, eins hann hefði beðið eftir honum. Þegar Bjarni sá duftið streyma úr litlu gulu augunum á grönnum líkamanum minnti það hann á eitthvað viðkvæmt og varnarlaust í honum sjálfum.

Blómadrengurinn hristi svört, hvít og dröfnött blöðin, í sömu litum og kjóllinn sem Lóa hafði klæðst þegar hún bað Bjarna að setjast í sófann. Svipur hennar sagði allt. Bjarni leit á blómadrenginn. Fálmandi ræturnar á hillunni héldu um tímann sem slapp úr höndunum.

Blómadrengurinn sneri að Bjarna í bílferðinni heim. Drakk í sig hreyfingar hans í stigaganginum. Bjarni hlóð inn gömlum myndum úr garðinum. Mynd af Lóu með fyrstu gulrótina. Aðra með mold á enninu og dropa á linsunni. Hann hoppaði yfir sumar spurningar í appinu: „Hverju viltu gleyma?“

Bjarni vaknaði við blómadrenginn hlæjandi úti í garði. Hann las ævintýrið um Jóa og baunagrasið fyrir hann og lék stóra tröllkarlinn í skýjunum. Blés stríðnislega í laufin þegar blómadrengurinn hvíldist í lófa hans.

Skordýrin komu aftur. Glærir vængir þeyttust yfir þá og langir, bleikir líkamar grófu göng djúpt undir fótum þeirra. En fleira tók óvæntum breytingum.

Runnarnir uxu svo hratt að Bjarni vaknaði við brakið í þeim á nóttunni. Þeir urðu brátt að óhemju sem teygði kræklótta anga sína yfir blómin hennar Lóu.
 
„Ég var búinn að gleyma svona saklausri gleði,“ sagði Bjarni þegar Regína kom til að hjálpa til við að klippa runnana.

„Hann er sætur,“ sagði Regína með slitnar klippur og þrjá svarta poka. „En garðurinn var leið Lóu til að horfa fram á við.“
 
„Já, Regína... og þess vegna var hún alltaf með þennan nagandi kvíða. Löngu áður en hún greindist.“
Þau litu á blómadrenginn. „Hann hlær alveg eins og Lóa,“ sagði Bjarni. „Nema hann fer niður í lokin þar sem hún fór upp.“
 
Bjarni sá svip Regínu. Sagði henni því ekki að hann heyrði stundum blómadrenginn tala.

„Verð ég alltaf hjá þér?“ spurði blómadrengurinn. „Já,“ svaraði Bjarni en sneri sér undan þegar drengurinn spurði hvort hann væri að vökva andlitið.
 
Komst aftur á jörðina þegar drengurinn sagði frá heitum sandinum á Balí. Lóa fór aldrei til Balí. Ekkert um þetta í bæklingnum. Ráðgjafi Garðeindar virtist ekki vita neitt um minningajurtir.

Daginn tók að stytta. Bjarni var lengur á fætur. Býflugurnar fóru í dvala og laufin gulnuðu. Rökkrið gróf sig í jarðveginn og skreið með ósýnilegan þunga um þröng rör úr mold og steinum.

„Hvað er að gerast?“ spurði blómadrengurinn þegar Bjarni lagði hann í hvítan pott í stofunni. „Það er hlýrra hér, og þú ert nær mér, drengurinn minn.“

En blómadrengurinn hætti að sjúga upp steinefnin og sprotarnir hrörnuðu eins og kyngingarvöðvar Lóu. „Af hverju er ég hér?“ spurði blómadrengurinn þegar Bjarni dró upp sykurlausn í granna pípettu. „Til að muna, með mér.“

Hann sprautaði upp í munn drengsins. Þrátt fyrir þetta blossuðu gulir flekkir upp daginn eftir. Kokhljóðið minnti hann á Lóu þegar næringin í æð var stöðvuð. Súr fýla hékk yfir pottinum þrátt fyrir sífelld moldarskipti.

Þrátt fyrir allt fölnaði blómadrengurinn og grænt hjartað sveigðist til moldar. Stærstu blöðin duttu af og frjómagnið sem áður geislaði á bak við augun varð að þykku og klístruðu dufti sem náðist illa af gólfi og veggjum.

Regína systir mætti með stóru klippur föður þeirra. Tómt málmhljóð heyrðist þegar hún lagði veskið á borðið. Hvað var hún með?

Bjarni fann kveðjuhylki fyrir blómadrengi í veskinu á meðan hún hamaðist á runnunum úti. Hann náði í trjálímið. Þegar Regína kom inn voru tvö blöð komin aftur á höfuðið.

„Nei, þú meiðir hann! Æ, Bjarni, Lóa leyfði haustinu að koma, manstu ekki?“ En Bjarni rauk með klippurnar út í garð. Svaraði ekki skilaboði Regínu: „Ég þarf að vera fyrir norðan næstu vikur.“
Bjarni vaknaði sveittur í fötunum. Mundi ekki hvernig hann komst inn í stofu. Voru rætur blómadrengsins að kólna, eða rann haustið í gegnum hans eigin fingur?

Bjarni strunsaði í gegnum þvögu mótmælenda fyrir framan Garðeind og var ráðlagt af bólugröfnum starfsmanni í mútum að kaupa sólarlampa. Stillti lampanum upp of nálægt svo fíngerðir fræflarnir sviðnuðu.

Þrátt fyrir að blómadrengurinn væri orðinn veikburða, strauk hann. Einu sinni fann Bjarni hann yfir holræsi neðst í götunni. Öðru sinni innan um skrælnað og freðið lauf. Bjarni lokaði gluggunum og dró fyrir þá þegar runnarnir urðu rauðir.

„Ekki meira, pabbi. Ég er svo þreyttur,“ hvíslaði drengurinn. „Vertu sterkur.“ En nótt tók við af degi og stjörnurnar gengu yfir hljóða jörð. Frostið lagði kalt bréf í hendur morgunsins.
„Er ég að deyja?“ spurði blómadrengurinn. Seigt vax hreyfðist með hverjum andardrætti og daufgrænt slý lak niður stilkinn.

„Nei, fræið mitt. Þú ert að opna ný blöð. Blöð í óteljandi litum sem augu okkar hafa aldrei áður séð. Hjarta mitt er hljótt þegar heimurinn grær.“ Regína kom í næsta flugi.

Vindurinn lék á andliti Bjarna þegar hann gróf gráa holu undir stærsta trénu. „Ég verð alltaf hjá þér blómið mitt,“ sagði Bjarni þegar hann lagði þurran líkamann í hylkið sem Regína hélt opnu. Hún reyndi að dusta af frjókornin sem héngu aftan á ullarpeysu hans.

Bjarni var mikið innandyra. Regína sótti um á Nytjalundi fyrir hann án þess að hann vissi. Hann mótmælti ekki. Var sagt að rækta þar tómata og kartöflur fyrir aðra.

„Ráðuneytið endar þessa vitleysu bráðum,“ sagði kokkurinn á Nytjalundi og lyfti grænni ausu yfir skál Bjarna. „Einstaklingurinn velur,“ svaraði kona aftar í röðinni. Mótmælendur lyftu skiltum á mjóum skjá á veggnum: „GARÐEIND GRÆÐIR“.

Ég er ekki að biðja þig um að gera þetta,“ sagði Bjarni í eldhúsinu heima. Regína hélt áfram að raða göfflum og skeiðum í skúffuna.
 
„Það safnast bara upp,“ svaraði hún. „Ég sakna hennar líka. Þú getur ekki lifað svona, Bjarni. Það hreyfist ekki loftið hérna og enn súr lykt hérna eftir þetta... skrípi. Mér liði betur ef þú...“

„Hah! Ég vissi það. ÞÉR liði betur. Af því að þú komst ekki þegar Lóa var veik. Nei, í staðinn kemurðu hingað og ræðst á það eina sem hefur raunverulega hjálpað mér!“

Þegar Regína fór án þess að loka á eftir sér teygði þögnin sig upp undan stóra trénu. Bjarni kveikti á útvarpinu: „Gengin er guðs náð...“ Skipti um stöð. „Dregið hefur stórlega úr barneignum eftir að minningajurtir...“

Bjarni kippti snúrunni úr sambandi og kreisti rafmagnsklóna. Braut sólarlampann með skóflu. Dró dökka sláttuvél út í garð. Bensínlyktin sveið.

Sumarið leið hægt. En einn morgun vaknaði Bjarni fyrr en venjulega. Kunnuglegt hljóð. Gat það verið? Hlátur í sólinni.

Bjarni rauk út. Hjartað hamaðist. Hann leitaði, en fann engan. Hann settist út í garð. Sólin skein. „Til hvers að rækta eitthvað sem endist ekkert?“

Bjarni leit yfir garðinn. Fann ilm moldarinnar. Hlustaði á tímann hvísla sekúndunum í grasið. Lágvært suð frá lítilli baldursbrá barst skammt frá honum. Grófur arfi fálmaði undir brotna girðingu. Runnarnir teygðu úr sér og beðin geymdu hljóðan söng.

„Við ferðumst öll í sama græna vagni,“ hvíslaði Bjarni. Sólin lagði hönd á enni hans. Jörðin var hlýrri en hann mundi.

fimmtudagur, 14. ágúst 2025


Hurðin

Sigurður nam hvellt, málmkennt hljóð fyrir aftan sig. Síðan hæglátt marr. Unga konan á næsta borði glotti og maðurinn hennar rak upp stór augu. Þegar viðarvörnin fyllti vit Sigurðar eins og þykk gríma vissi hann að það væri of seint að snúa við.

Sigurður vissi frá fyrstu kynnum að Eik væri sérstök. Hver setur mynd af gömlum dyrum á stefnumótasíðu? Hann færði sig nær skjánum. Sýndist einhver standa í dyragættinni, eða var þetta endurkast hans sjálfs af glerinu?

Skipti ekki máli þegar kvöld Sigurðar voru dimmir gangar sem leiddu ekkert lengur. Það var ekki eins og Rósa hefði læst hann inni. Sigurður gerði það sjálfur með því að segja ekkert þegar hún skipti heimilisviðnum smám saman út fyrir gler. Hurðar, borð, skápar. Fíngert og viðkvæmt eins og hún sjálf. Viðurinn hafði þó sál.

„Sextugur, fráskilinn starfsmaður í Húsasmiðjunni leitar að einhverju endingargóðu.“ Mynd sem Kalli á lagernum tók á starfsmannagrillinu í hittifyrra. Ekkert eins og gráu iðnaðarfolarnir á innskráningarsíðunni. Hver myndi svara þessu?

Þegar Sigurður náði í skrúfur og bolta fannst honum eitthvað molna innra með sér. Fann bank í brjóstinu þegar viðskiptavinir spurðu um hjarir og pumpur. Svaraði með frosinni bendingu. Þóttist telja eitthvað í hillunni.

Sigurður ekki fundið fyrir neinu undanfarið. Myndin af þeim Rósu í skápnum vakti hvorki söknuð né reiði. Fann vart fyrir bílskúrshurðinni klemma stóru tána. Ekki fyrr en hann sá sig speglast í glerinu.

Sigurður mætti löngu á undan Eik. Angan af grilluðum kjúklingaspjótum og sjávarfangi hékk yfir salnum. Kliður hnífapara, eins og sögin inni á verkstæði að kljúfa síðustu spýturnar í tvennt.

Þegar Sigurður leit við sá hann um stund ekki konuna sem stóð þar heldur hurðina af stefnumótasíðunni. Hún minnti á gömlu hurðina í sveitakirkjunni sem hafði staðið af sér veður aldanna.

Þó hurðin væri nýlökkuð mundi hann eftir sprungunum. Sprungur sem hann gat ekki sýnt. Þessar stuttu, þveru voru aðgerðirnar sem Elvar litli gekkst undir. Þessi ljóta við handfangið þegar Rósa brotnaði niður. Allt í einu var hann ekki viss um hvort hann hefði lokast inni eða úti.

„Sigurður?“ Röddinni fylgdi dauft ískur. Eins og hún vissi að það væru ryðblettir á handfanginu. För á viðnum. En hurðin hékk uppi, þó kanturinn hefði skekkst.

Þessi hreinskilni. Eik bar söguna eins og heiðursmerki. Sigurður átti að vita hvað Rósa hugsaði. Sjá í gegnum hana eins og hreint gler, eins og hún þóttist sjá í gegnum hann. Glerhurðir voru flottar en þær voru ekki gerðar fyrir veðurfarið í lífi þeirra.

Sigurður lyfti brúnum. „Var þetta norskur harðviður á myndinni þinni?“ Eik leit rannsakandi á hann. „Ég veit ekki hvaðan dyrnar komu.“ Hún leit á salatið. „En ég veit hvað það er að halda þeim opnum. Fyrir sjálfri mér.“

„Læsti einhver þig inni?“ spurði Sigurður. „Nei, ég lokaði þeim sjálf. Missti trú á að einhver gæti geymt lykilinn með mér, án þess að týna honum.“ Kertaljósið dró fram rauðgyllta undirtóna í ljósbrúnu hári hennar. „En ég er komin í viðgerð.“

Eik fálmaði eftir vatni en rakst í ólífuolíuna sem helltist yfir hönd hennar. Hún stirðnaði öll upp á meðan húðin drakk olíuna í sig eins og skrælnaður rekadrumbur. Hún hló svo og fór að tala um skóginn við heimabæinn sinn.

Sigurður fylgdi Eik heim. Nóttin lagði ósýnilega lykla á glampandi ræsin. Litla glæra poka með hjörum og skrúfum sem hreyfðu um stund við heiminum. Þau héldust í hendur.

En við dyrnar heima hjá henni var eins skrúfurnar sneru vitlaust. Sigurður tók í handfangið. Brá hvað það var kalt. Minnti á janúarkvöldið sem Rósa keyrði burt. Skuggi hans á glerinu. Hann sleppti.

„Fyrirgefðu,“ sagði hann og leit afsakandi á Eik. „Mér líður eins og flagnandi gúmmílista. Þessum sem tolla ekki lengur á samskeytunum.“

Þögn. Sigurður fann þungt bank. Orð hans bergmáluðu í löngu, dökku rými sem hann þekkti of vel. Honum fannst trekkurinn opna eitthvað innra með sér. Sigurður sá sjálfan sig ganga út í ilmandi skóg. Hávær sög rauf kyrrðina. 

Hann leit á Eik. Hún sagði: „Þetta er allt í lagi. Ég skemmti mér vel. Mér sýndist þú gera það líka.“

Hljóðið þegar Eik hallaði aftur fylgdi honum heim eins og greinar að slást í vindi. Greinar sem teygðu sig lengra en nokkrar dyr. 

Hann hraðaði sér. Fannst fólk benda og hvísla. Hljóp upp stigaganginn. Lykillinn ætlaði aldrei að rata í skrána.

Sigurður hafði gleymt að læsa. Var viss um að eitthvað væri horfið en hann fann ekki hvað. Hafði Rósa ekki tekið allt? Förin eftir glerskápinn voru á sínum stað. En stofan var léttari. Litirnir aðrir. Skærari.

Þegar Sigurður settist við eldhúsborðið fann hann sting í baugfingrinum. Hljóðaði, ekki af sársauka heldur undrun. Ljósbrún rák undir holdinu.

Sigurður þrýsti fingri á hana. Jú, alvöru flís. Sviðinn var sár og ljúfur. Líka þessi í augunum, eins og örfínn salli hefði ratað í augnkrókana. En Sigurður heyrði ekki í söginni.

Um nóttina dreymdi hann þykka móðu streyma inn í Blómaval. Garðdvergar og grá Búddahöfuð kölluðu eitthvað reiðilega á milli sín. Dvergarnir reyndu að halda hillunum uppi á meðan þung höfuðin mynduðu stækkandi sprungur í þær.

Þegar Sigurður mætti í vinnuna daginn eftir spurði hann Kalla hvort hann gæti tekið nýja mynd af sér. „Hvað, minn bara búinn að greiða sér?“ glotti Kalli.

Ungur maður skimaði í kringum sig. Sigurður steig yfir þröskuld lagersins. „Ég er að leita að hurð sem þolir allt.“ 

Sigurður leit djúpt í augu drengsins. Sá sjálfan sig í votu yfirborði þeirra. Fingurinn stakk aftur. „Þessi endist þér út ævina... ef þú manst að bera á hana.“

miðvikudagur, 13. ágúst 2025


Maðurinn á milli

Fyrst var aðeins ógreinilegt rumsk í stofusófanum, eins og einhver væri að teygja úr sér. „Rottur?“ spurði Andri. „Brak í leðrinu,“ svaraði Ólöf yfir myndinni. En síðan heyrðist einhver kyngja þó poppið væri löngu búið.

Andri hafði látið undan að horfa á Stellu í orlofi eftir leiðindaþras. „Ég sagði við manninn, er ekki betra að þið ræðið þetta þegar hvorugt ykkar er þreytt?“ Ólöf lagði glasið harkalega niður: „Getum við talað um eitthvað annað en vinnuna?“

„Við hvern á ég að tala? Þú ert tvo tíma í ræktinni,“ svaraði Andri fýlulega. „Hvað ertu að flýja?“ 

„Veistu hvernig þetta er í vinnunni hjá mér? Veistu hvað ég...“

„Ólöf. Vandi flestra para sem koma til mín er...“ 

„Aaa... Þegar ég er í ræktinni er alla vega enginn að nuða vandamálum annarra í smettið á mér.“ 

Þau kveiktu á myndinni. En brátt var eins og einhver annar ætti þögnina í sófanum, eins og hol spenna sem hvorugt þekkti. Síðan byrjuðu hljóðin.

Andri reyndi að hrista ónotakenndina af sér. Lagði hönd yfir herðar Ólafar. Hann mætti ósýnilegum þunga, eins og hann þyrfti að ýta annarri hendi frá.

Hann þefaði. Daufur rakspíri. Framhjáhald? Hver var tvo og hálfan tíma í ræktinni?

En tortryggni hans vék fyrir sameiginlegum ótta þegar þau heyrðu einhvern geispa undan leðurklæðningunni. Þau tókust í hendur, eins og einu sinni.

Andri tók hljóðið af sjónvarpinu. Nú heyrðist einhver svolgra. Brennivínslykt reis úr bilinu á milli skrautpúðanna.

„Hvaða hljóð eru þetta?“ spurði Andri. Þögnin sem fylgdi lagðist eins og seigfljótandi hjúpur á milli þeirra.

Síðan heyrðist spurt: „Hvað fannst þér um unga fólkið í morgun, Andri?“ Röddin var hrjúf og hás. Minnti á Ladda með hálsbólgu.

Andri opnaði munninn en Ólöf boraði tveimur fingrum inn í öxl hans og hristi þungbrýnd höfuðið. Það mátti ekki fóðra þetta, hvað sem þetta var. 

En röddin hélt áfram: „Rúnar hefði alveg getað tekið einn í viðbót, fyrst Sigga var veik. Fólk er búið að bíða í nokkrar vikur.“ 

Röddin þagnaði. Myndin hélt áfram en þau fylgdu ekki söguþræðinum. Uppi í rúmi horfðust þau þögul í augu á meðan einhver skrækti: „Er maðurinn að verða vitlaus eða hvað?“

Heimilið varð ekki samt aftur. Röddin byrjaði þegar Andri kom heim og hætti um leið og Ólöf sofnaði. Andri lagði til að Ólöf hefði það huggulegt yfir bók fyrir háttinn.

Ólöf vildi láta athuga með hlerun, símana, þungmálma, sófaframleiðandann, Ladda, særingamann... Andri hummaði.

„Andri, ertu hérna?“ „Já. Við eigum eftir að borga píparanum, tryggingarnar, fasteignagjöldin... Sjáum hvað við eigum eftir mánaðamótin. Það er ekki eins og þetta sé hættulegt Ólöf.“ 

En vikurnar liðu og Andri sat bara inni í stofu þegar hún kom fram. „Veistu ég er farin að halda að þú viljir hafa þetta FYRIRBÆRI á milli okkar.“

„Ha... nei, nei. Ég meina... Það er fínt að tala við hann sko.“ 

„Ssss,“ sussaði maðurinn á milli þegar Ólöf skellti útidyrahurðinni. „Það er verið að horfa á mynd hérna.“

Þannig gekk þetta. Þegar Andri kom heim talaði hann við manninn um vinnudaginn og kveikti svo á Stellu fyrir hann.

Ólöf fór í ræktina á meðan. En þegar hún tók um lóðin rifjaði hún upp hótun mannsins sem hún hafði handtekið. Hún kláraði ekki lyftuna. Var þetta popplykt?

Þau reyndu. Andri lagði popp og staup á stofuborðið. Ólöf keypti Stellu í orlofi og setti á endurspilun. Síðan laumuðust þau upp í hjónaherbergi. Þetta var kannski það sem þau þurftu.

En friðurinn entist ekki lengi. Andri hrasaði niður tröppur í vinnunni og braut báða ökkla. Var mikið heima.

Ólöf kom seint heim eftir ljóta aðkomu að slysi. Andri talaði um verki, lélegan svefn, ógleði... Ólöf dæsti og sauð spaghettí.

Hún horfði út. Sá fyrir sér vettvang slyssins. Brotið glerið, blóðið, augun. Strauk yfir auman blett undir bolnum þegar Andri stakk gafflinum upp í sig. Ætti hún að láta líta á þetta? 

Hún fór ekki í ræktina. Andri hélt áfram, taldi sig vera að kvefast aftur. „Þetta spaghettí er enn hart.“ 

Það var þá sem maðurinn á milli þeirra rauf aðra þögn: „En þú Ólöf... hvernig líður þér?“ 

„Ha, mér? Ertu að spyrja mig?“ Andri hætti að bryðja spaghettíið.

„Já, þér,“ svaraði röddin. „Ég sé að þú ert annars hugar í dag. Ég vil að þú vitir að mér finnst þú vera sterk.“ Þetta hafði Andri aldrei sagt. 

„Veistu. Stundum erum við sterkust þegar við berskjöldum okkur. Þú þarft ekki að bera þetta allt ein.“ 

Ólöfu fannst móta fyrir útlínum mannsins, í sama mynstri og rautt leðrið. Ætli hann væri myndarlegur?

Andri gjóaði augum á Ólöfu. Maðurinn var orðinn mjög áhugasamur um konuna hans. Eins og hann hafði verið gagnvart Andra. Nú töluðust þeir varla við.

Andri sá Ólöfu pukrast með staupglas inn í stofu seint um kvöld. „Hvað heldurðu að þú sért að gera?“ Hátt, skerandi hljóð rauf samtalið, eins og þungt húsgagn að færast. Þau sáu greinilega tvo ökkla við sófann.

Ólöf varði minni tíma í ræktinni. Sagðist ætla að lesa aðeins fyrir háttinn. En Andri heyrði kæft flissið inn í herbergi.

„Þú lítur út eins og leikkona á þessari mynd.“ „En sætt af þér. Finnst þér rauður fara mér?“ „Ólöf, allir litir fara þér vel.“ 

Andri beit í sængina og horfði á diplómað í sambandshjúkrun yfir náttborðinu. Þessu varð að linna.

Nótt eina þegar lyktin af poppi og brennivíni smaug sér inn í gróandi beinin klippti hann af bæði gipsin. Staulaðist hljóðlaust fram þrátt fyrir sársaukann.

Ólöf og maðurinn litu undrandi upp. Andri sá flóttaleg augun á dökkrauðu leðurandlitinu. Síðan hvessti maðurinn brúnir.

Andri þreif í hönd Ólafar. Faðmaði hana fast að sér þegar hún stóð upp. Maðurinn sagði: „Hún þarf meira, Andri. Hvað heitir þetta aftur... virk hlustun?“ 

Rödd mannsins titraði eins og slitinn sófagormur sem danglar út í loftið. Þegar hann reis upp rakst hann í borðið svo það hvolfdist úr poppskálinni og brennivínsflöskunni yfir gólfið.

„Við hljótum að geta fundið eitthvert jafnvægi hérna,“ sagði Andri. „Já,“ sagði maðurinn. „Það er enginn að tala við þig,“ sagði Andri reiðilega. „Þú ert að stía okkur í sundur. Farðu.“

„Ég er að reyna að hjálpa ykkur.“ Röddin var há og tær. „Og þú Andri, þakkar mér fyrir með... afbrýðisemi?“ 

„Farðu! Þú ert ekki velkominn hérna!“ hrópaði Ólöf.

Maðurinn stökk upp. Ætlaði á milli þeirra en hrasaði um blautt poppið og datt aftur fyrir sig á sjónvarpið sem brotnaði. Stella í orlofi hélt einhvern veginn áfram þó skjáglerið lægi mulið yfir votum baununum.

Andri leit á Ólöfu. „Héðan í frá kemst ekkert á milli okkar, ókei?“ „Nú þegir þú Andri,“ sagði Ólöf. Þau kysstust. Maðurinn gekk settist hægt í sófann og hvarf inn í leðrið. Gormarnir gáfu frá sér lágvært suð. Stök baun heyrðist poppast.

mánudagur, 11. ágúst 2025


Teppið

Albert þurfti aukasígarettu áður en hann þorði að hringja bjöllunni: „Parfdal von Untergarten.“ Nafnið eitt lagði þrönga skel yfir brjóstið svo hann saug aðra umferð úr astmapústinu. Blágrænn hólkurinn minnti hann alltaf á vinalega skjaldböku.

Albert sat grafkyrr þegar prentari prófessorsins fór í gang. Virti fyrir sér gamlan spegil á vegg bílskúrsins. Það var eitthvað óþægilegt við spegilinn sjálfan svo hann skoðaði bara rammann: Austræn skrift og endurteknar ristur á bókstafnum F.

Hornið sem kom fyrst út úr prentaranum líktist helst gömlu teppi. Þétt ofnir þræðir sem runnu saman yfir mjúka og loðna undirstöðu. Fyrst saklausar línur og bogar. En þegar fyrsta formið tók á sig mynd leit Albert ósjálfrátt undan, hristi síðan höfuðið og hló vandræðalega. Þetta líktist sturtuhengi úr æsku sem hann óttaðist þegar hann fór einn á klósettið. Hvernig átti þetta að hjálpa með reykleysi?

Albert vissi að prófessor Parfdal hafði alltaf verið óhefðbundinn. Ekki aðeins gegnsýrður af austrænni speki, heldur einnig sínum eigin uppfinningum. En Albert hafði reynt allt. Samt spurði Gerður hvort allt þyrfti að gerast svona hægt.

Astmaköstin eftir blóðugan skilnað í fyrra höfðu kostað hann 7. sætið í norðvesturkjördæmi. Alberti var að vissu leyti létt, honum fannst hann ekki tilbúinn að andmæla sjálfum iðnaðarráðherra opinberlega.

Bara ef hann væri jafn ákveðinn og ráðherrann. Hrökklaðist ekki inn í aumingjalega skel. Undirbúandi ræðu um hreint loft með sígarettu í munninum. Og nú, þegar Gerður átti von á fyrsta barni þeirra snerist þetta ekki einungis um hann sjálfan lengur.

Albert vissi að það væri búið að hóta prófessor Parfdal brottrekstri úr alþjóðafélagi geðrannsókna margendurtekið. En þegar prófessorinn sofnaði óvart yfir skanna þrívíddarprentarans svo annað augað nam við ljósrákina, varð ekki aftur snúið.

Þetta var fyrsta frétt þrjá daga í röð. „Snillingur að störfum, eða örvætingarfull tilraun til að sópa fyrri afglöpum undir teppið?“ Fordæmin sýndu að margar stærstu uppgötvanir læknavísinda voru gerðar af slysni.

Parfdal hallaði sér óþægilega nálægt Alberti, svo mottan á efri vörinni straukst við eyrnasnepilinn: „Í fyrsta skipti í sögunni getur þú séð þína eigin dulvitund prentaða á teppi. Þú borgar Parfdal... en verður samt ríkur. Gott!“

„Hver heldur þú að vilji flagga bældum hvötum í anddyrinu heima hjá sér?“ Albert færði sig undan prófessornum.

„Fólk hefur alltaf þurrkað skóna í dulvitundina hvort eð er,“ svaraði Parfdal glottandi. „Þú getur keypt teppi í JYSK eins og allir aðrir ef þér sýnist!“

Albert hlustaði á vélina prenta. Skrýtin lykt fylgdi sem fór beint ofan í lungun. Hann hóstaði. Lyktin minnti á stigaganginn á Baldursgötu. Foreldrar hans, báðir að reykja yfir vagninum. Albert ætlaði að grípa astmapústið en kuðlaði óvart saman sónarmyndinni af syninum. Prentarinn hvein eins og hann væri líka tepptur.

Albert pírði augun á teppið. Lítil grá vera með hrútshorn og klaufir að kyrkja hans fyrrverandi. Albert fann hvernig fingurnir krepptust. Brjóstið hitnaði. Hvernig vissi...?

Parfdal sat á bak við gegnsætt gler og sönglaði þýska barnagælu vafinn í sitt eigið teppi á meðan:

„Schlaf, kleiner Schildkröten-Junge, die Muscheln auf dem Meeresboden werden die Sterne nie kennenlernen.“

Albert gjóaði augum á teppi Parfdals. Blágrænn drengur sem há, hvít vera rassskellti með... þýskri orðabók?

Hann mætti augnaráði prófessorsins sem kjökraði: „F mein Herr, ég komst aldrei lengra en F.“

Albert leit á sitt eigið teppi og minnti sig á að það var Parfdal sem var meðferðaraðilinn þarna. Og furðufuglinn.

„Það er eitthvað að þessari vél, prófessor.“ Prófessorinn leit niður, en svaraði lágt og snöktandi: „Nei, Meister Albert. Það er eitthvað mikið að okkur öllum. En þú og ég... við sjáum í gegn, er það ekki?“

Albert reyndi að hugsa um eitthvað fallegt. Bíddu... Hver voru þetta á teppinu? Iðnaðarráðherra, Albert sjálfur og konan úr sundi sem svaraði aldrei þegar hann bauð henni góðan dag. Þau þrjú í kynsvalli... á Ingólfstorgi?

Af hverju iðnaðarráðherra? Maður sem hann hafði sakað um landráð. Albert á teppinu reykti sínar eigin lungnapípur. Ráðherrann líktist héra við ráslínu en Albert bar skel á bakinu. Þessi vél var illa biluð, eins og Parfdal sjálfur.

Gráir bílskúrsveggirnir þrengdu að Alberti. Hann sundlaði og kastaði upp yfir teppið svo tækið sendi frá sér bláan neista og stöðvaðist. Leiðslurnar rifnuðu af með blautu soghljóði þegar Albert rauk út rauður í framan.

Parfdal bauðst til að senda Alberti teppið tveimur dögum síðar sem hann þáði. Til að tortíma því. Eða fela það undir pallinum í sumarbústaðnum? Nei, Gerður myndi ærast. Brenna þetta strax.

En þegar teppið týndist í póstinum varði Parfdal sig með því að dulvitundin færi sínar eigin leiðir. Albert hefði skemmt dýran tækjabúnað og þegar skrifað undir eigendaábyrgð sem tók fyrir endurgreiðslu. Hann væri bara heppinn að Parfdal væri maður fólksins.

Albert heyrði ekki af prófessor Parfdal aftur. Hafði nóg með að sinna ungabarni heima. Leit í frosinni skömm á konuna þegar iðnaðarráðherra kynnti frumvarp um virkjun í miðjum þjóðgarði. Fannst hann sitja í heitum potti þegar þau rifust um hvort nikótínfíkn væri spurning um aga eða erfðir. Hætti að bjóða góðan dag í sundi.

En samfélagið breyttist með uppfinningunni. Albert sofnaði yfir nýrri glæpasögu þar sem enginn braut af sér. Hætti að dreyma. Á meðan hann fór út með barnavagninn heyrði hann prest og sálfræðing í útvarpinu tala um auða bekki. Allar auglýsingar í þættinum voru um djúphreinsun á mottum.

Sumir viðskiptavinir Parfdals kvörtuðu yfir því að húð þeirra væri farin að líkjast gömlu, litlausu teppi. Eldri kona sýndi skóför á bakinu. Parfdal komst undan með því að kenna um ljósabekkjum og tíðum ferðum til sólarlanda.

Sonur Alberts óx og dafnaði. Þegar Albert sótti afmælisköku fyrir þriggja ára afmælið heyrði hann um stórfellt skattsvik í útvarpinu: „Lögreglan kom að galtómum bílskúr prófessorsins. Aðeins stakur þráður lá eftir á gólfinu, vafinn inn í sjálfan sig.“

Sumir töldu það merki um að Parfdal hefði flúið inn í sjálfan sig. Jarðbundnari raddir sögðu hann hafa haldið austur um höf.

Fimm árum seinna fór Albert í heimsreisu með fjölskyldunni. Í afskekktri búð í Nepal rakst hann á kunnugleg mynstur á teppum í hundraðavís. Eitt þeirra sýndi mynd af rjúkandi berkjum. Greinilega var búið að hreinsa út aðra hluta teppisins, en hann þekkti enn útlínur sinnar fyrrverandi.

Albert þóttist ekki sjá teppin, né bera kennsl á sölumanninn. Gekk framhjá gömlum spegli án þess að lesa skriftina á viðnum. Keypti skjaldböku úr leir handa átta ára syni sínum: „Af hverju eru þær með svona skel?“ spurði sonurinn. „Til að verja sig,“ svaraði Albert.

Þegar Albert steig út veiddi hann sígarettupakka upp úr vasanum. Hann rétti syninum skjaldbökuna og fannst eins og hann væri sjálfur að horfa út um lítið gat sem tveir fullorðnir stóðu yfir með glóð í munnvikunum og sögðu: „Við völdum þetta aldrei.“

Albert drap í sígarettunni. Reykurinn minnti á raknandi þræði. Hann tók skjaldbökuna af syni sínum og þrykkti henni inn um glugga á versluninni þar sem hún mölvaði gamla spegilinn.

Albert fyllti lungun af hreinu lofti. Sonurinn benti á F-laga ský. Innan úr búðinni barst tregafullur söngur: „Schlaf, kleiner Schildkröten-Junge...“ En Albert sá aðeins bros Gerðar.

eXTReMe Tracker