Um mennskuna
Ég skil. Þú telur þig skynsama og siðfágaða veru. Líf þitt byggir á traustum gildum og göfugum markmiðum. Þú bendir á villu annars fólks og hlærð að fávisku þeirra og fífldirfsku. En hvað gerist þegar í harðbakkann slær og þínar eigin reglur halda ekki vatni heldur?
Fyrst kemur vonleysið yfir því sem blasir við. Síðan sút og skömm yfir því að hafa litið undan, látið eftir réttlætingu, lygi. Þú vilt sleppa út, ná andanum, verða maður að nýju. Krúna reiðinnar leggst að enni þér. Hamslaust afl sem ryður frá öllu á vegi sínum.
En hvernig sem maðurinn berst um sleppur hann ekki. Sleppur aldrei frá holdinu, blóðinu. Aðeins þegar það verður ljóst má öðlast æðsta skilning jarðarinnar: Verkefnið var hvorki að líta undan né að slíta frá sér, heldur að gangast við sinni eigin mennsku og annarra; vakna til dýpri vitundar kærleika og mildis.