miðvikudagur, 12. júní 2024


Um mennskuna

Ég skil. Þú telur þig skynsama og siðfágaða veru. Líf þitt byggir á traustum gildum og göfugum markmiðum. Þú bendir á villu annars fólks og hlærð að fávisku þeirra og fífldirfsku. En hvað gerist þegar í harðbakkann slær og þínar eigin reglur halda ekki vatni heldur?

    Fyrst kemur vonleysið yfir því sem blasir við. Síðan sút og skömm yfir því að hafa litið undan, látið eftir réttlætingu, lygi. Þú vilt sleppa út, ná andanum, verða maður að nýju. Krúna reiðinnar leggst að enni þér. Hamslaust afl sem ryður frá öllu á vegi sínum.

    En hvernig sem maðurinn berst um sleppur hann ekki. Sleppur aldrei frá holdinu, blóðinu. Aðeins þegar það verður ljóst má öðlast æðsta skilning jarðarinnar: Verkefnið var hvorki að líta undan né að slíta frá sér, heldur að gangast við sinni eigin mennsku og annarra; vakna til dýpri vitundar kærleika og mildis.

miðvikudagur, 29. maí 2024


sýndu mér

sýndu mér

hvar eignafólk

þyrstir ekki í meira


sýndu mér

hvar siðgæðisverðir 

gangast við spegilmynd sinni


sýndu mér

hvar keppnisfólk

þráir ekki viðurkenningu


sýndu mér

hvar þau góðgjörnu

geta sett heilbrigð mörk


sýndu mér

hvar slúðurberar

leggja aftur öfundaraugun


sýndu mér

hvar þau lærðu

skilja takmörk þekkingar


sýndu mér

hvar þau sterku

óttast ekki berskjöldun


sýndu mér

hvar útlit og geta

verða ekki til aðgreiningar 



þá hefurðu sýnt mér

hvernig maður sér mann

fyrir manninum í sjálfum sér

sunnudagur, 19. maí 2024


erindi

regnið málar

ósmíðað altari

víðáttum himins


lífið dregur

nýtt leikfang

úr lóni eilífðar

mánudagur, 22. apríl 2024


minni

inn um þagnir og regndropa
glitra ljóð á hörpum trjánna
á máli sem enginn skilur

nema sá sem ferðast
með fallandi litbrigðum
yfir gleymdum skógarstígum

miðvikudagur, 10. apríl 2024


vetrarlok

þegar morgunninn

snerti máða strengi

kviknuðu ótal lítil ljós

á botni skógarlindanna


sum mynduðu líf, 

önnur urðu að söng

en sum dóu jafnskjótt út

og grófust í þögn og skugga


síðan hvarf tunglið í sama djúp

og dagsljósið dró fram dulmál sitt

laugardagur, 2. nóvember 2019


ljós á vatni

hvernig ljósið endurkastast af öldum vatnsins, frjálst og brotið án útreiknanlegrar slóðar, þögult og þyngdarlaust keipar það og dúar, marar og tvístrast, líkt og fíngerðustu þræðir úr blaktandi klæðum tilverunnar

laugardagur, 14. september 2019


leiðin

gamli vegurinn
hlykkjast ógreinilega áfram
þó áfangastaðurinn sé löngu horfinn

fimmtudagur, 12. september 2019


líf í c-dúr

hvernig lífið líður hjá eins og kvikandi hringtjald dregið umsælis upplifunina - dag eftir dag, ár eftir ár - breytingar í mishröðum víxlferlum allt í kring, hvert andartak laufblað í risavöxnum krónum, ég heyri vindinn leika í greinunum, hrísl og þögn til skiptis, eins og bylgjur í hári villtra dýra á hlaupum frá einum stað til annars, aftur og aftur í stuttu myndskeiði í stöðugri endurspilun með ólíkum tilbrigðum hvert sinn, ógrynni möguleika blómgast og hrörna á undan hverri hreyfingu, það er hér sem fingur andartaksins snertir eilífðina og breytir henni í þetta sem liggur kyrrt eftir í dulum andblæ fortíðar, þegar hringtjaldið snýst hring eftir hring eins og lífið líður hjá

laugardagur, 24. ágúst 2019


hálft samþykki

að hluta var veitt samþykki fyrir veröldinni eins og hún birtist í raun, með ósýnilegum sáttmálum manns og heims, rituðum á mörkum tilveru og tóms, með öll fögur augnablik steypt í hringrás gleymsku og minnis til þess eins að staðfesta hlut sinn mitt í óendanlegri atburðarás þess hversdagslega og sjaldgæfa, þess ljósa og dimma, þess breytta og finnanlega

öðrum þræði var veröldinni hafnað og horft undan í ímyndaðan draum, litið á þeysireið hugsana og aðstæðna sem hálfgert spaug eða léttvæg sannindi, bæringar á yfirborði vatns, skynvillu blinds auga - og yfir þeirri undirritun sveimuðu tilfinningar þvert yfir jarðarslóðanum og frjálst upp í himinvindinn þar sem hvert augnablik brotnaði í agnarlitlar eilífðir draums og væntinga

miðvikudagur, 7. ágúst 2019


reykurinn

hvað lýsir hinu hverfula, fljótandi andartaki betur en reykur sem stígur gætilega upp í sumarlogninu, síbreytilegur að formi, í viðvarandi endurmyndun og mótun eftir smávægilegum hreyfingum loftsins?

hann liðast til himins, eins og laus frá efninu, frá tímabundnum sviptingum allra náttrúlegra hluta, út í ósýnilegar víðáttur, út í hið eilífa og kyrra frelsi handan breytinga og stundlegra skynjana


við sjónarrönd baðast vatnsmökkur ljósgeislum og klýfur form sitt í samfelldum bylgjum úr iðandi hringrás, hver ólík þeirri á undan og sjálf í stöðugri skiptingu og leit að lögun augnabliksins

hann lyftist í morgunbirtunni, umhverfið þögult og rólynt, hvert andartak virðist lengur að líða, eins og hið óendanlega dyljist í svipulum jaðri þess sem verður og hins sem líður hjá


hvað dregur vindana yfir hímandi hvolfin, fangar þá í smáa rennandi þræði úr skýjum og regni eða klæðir brotnandi útlínum þess sem lifnar og deyr með hverjum vængjaslætti?

í umskiptingunum bregður fyrir hverfulli mynd, búinni stuttum skilaboðum, litlum svörum sem hefjast á loft og losna eitt af öðru út í blaktandi vind og ókomnar stærðir

mánudagur, 5. ágúst 2019


tónlistin

yfir lygnum strætum vakna skuggar okkar
með andlit máluð úr augnablikum og draumi

borgarvættir með haustmyrkrið í höndunum
leiða stuttar myndir hjá þokuklæddum steinum

undan sviðinu færist tilfinning yfir gömul hljóðfæri
sem lifna um stund með tónum og þögnum í vindinum

mánudagur, 10. júní 2019


skógarmynd

í gylltu ljóði morgunsins
brennur tíminn á blómi jarðar

skógarmynd brotnar á vatnsfleti
og smáeldar stjarna slokkna í djúpin

máninn skilur eftir sig hverfandi form
sem rekur hægt og hljótt út í dagsbirtuna


húsið rökkvað

tungslrönd bærist
í leysingunum

ljósstíft útvíkkað
sjáaldur starir

umslag merkt
eilífðinni

mánudagur, 9. október 2017


kvöldhljómur

augnablik í vindinum,
hvikull straumur atvika
flæðir um breytilegan heim

lágvær gustur á votu hafsauga,
annar sterkari við rætur fjallsins,
óskýrar myndir vakna í haustloftinu

undir kræklóttan faðm skógartrjánna
hvíslar húmið af dökkum vörum sínum,
með dulmál í hverju laufi - hverri andrá

mánudagur, 25. september 2017


morgunbörn

litlar hendur leita morguns
snemma í glitrandi djúpum

úr austri rís gullinn hnöttur
og bregður ljóma á andlitin

þau opna augnlokin varlega
fyrir björtu sjáaldri heimsins

undan ljósbreiðu hvítra skýja
byrjar himinninn í brosi þeirra

miðvikudagur, 20. september 2017


blóð og skuggi

hvaða takt hefur íhugun,
dregin í rökkvað landslag
vona og flöktandi stjarna?

hvaða gildi hefur andartak,
litað túlkunum og minningum
í endalausri tilveru stundanna?

hvaða þýðingu hafa einföld sannindi,
færð af vörum þess er leitar kjarnans
djúpt í blóði sínu, undir söltum skugga?

föstudagur, 1. september 2017


vetrarnótt

á úlfgráum feldi
skína hrímperlur
dimma vetrarnótt

augnabliksreykur
rís af frosinni jörð
og hverfur út í loftið

fjarlægar minningar
vakna á gömlum stað
og bergmála í auðninni

ljósvitar himins renna
yfir hrein og köld djúpin
frá einni nótt til annarrar

föstudagur, 25. ágúst 2017


hús jarðarinnar

á hverju kvöldi dreymdi mig sama drauminn,
þar sem allar tilfinningar mínar urðu að tónlist
og svifu um í vindinum eins og óteljandi laufblöð

á þessu augnabliki voru hvorki himinn né jörð,
elstu minningar mínar flöktu fyrir augum mínum
eins og ljósglampar á ferð yfir tímalausum vötnum

síðan þegar ég ætlaði að halda þessari ferð minni áfram,
sá ég að vegurinn var horfinn og orðinn að þungum straumi
sem bar mig áfram uns ég vaknaði þegar hann steyptist í djúpin

laugardagur, 12. ágúst 2017


uppspretta vindsins

svífandi af himnum,
brotið á kristöllum skýja;
ljósið snertir yfirborð jarðar

í vöku hvers augnabliks
rísa stórar og smáar öldur;
tíminn vindur klukkur eilífðar

undir ósýnilegri leið regnsins
klæðast göturnar glitrandi dulmáli;
þar lifnar enn þrá, í dökku brjósti nætur

miðvikudagur, 9. ágúst 2017


næturleið

um nóttina breiddist stjörnuþyrping yfir ásjónu jarðar
og vakti glóandi mynstur og glitrandi vefi á vatni hennar

hvítur máni sigldi út yfir hljóð og myrk djúp himingeimsins
og kastaði kaldri mynd sinni á svartan spegil og flöktandi ský

frostkulið ljómaði af kyrrum augnablikum og fjarlægum sálmum
þegar rísandi tákn næturinnar hóf sig á loft úr dimmum sprungum

ég gekk undir dulum ljósum himins um dökkan litinn í auga myrkurs
meðan óteljandi skuggar runnu hljóðlega út í svarm af lýsandi formum

þriðjudagur, 1. ágúst 2017


trú

á annasömum tímum ákvað ég að eiga
stutta göngu um morguninn í skóginum

það var ekki enn orðið alveg bjart þá
og myrkur huldi hverja sprungu og dæld

á gangi inn um stórvaxin trén rakst ég á
yfirgefna og opna bók á miðjum veginum

ég tók hana upp og þrátt fyrir hún væri
illa farin sá ég að þetta hafði verið biblía

stafirnir voru máðir eftir vætusama nótt
og sums staðar vantaði nú heilu síðurnar

skýin hreyfðust varlega yfir veginum
og hljóður vindur fór um skugga trjánna

ég lagði bókina aftur þar sem hún fannst
og hvarf bak við næsta horn á vegi mínum

þriðjudagur, 25. júlí 2017


upphaf haustsins

fölur vindur í greinum trjánna,
andlit mánans á yfirborði tjarnar,
óskýr minning á hreyfingu yfir djúpinu

fimmtudagur, 13. júlí 2017


milli næturhúsanna

enn fellur regnið á hljóðan skugga
er göturnar blána í birtu nýrrar nætur

hugsun mín hvílir um hríð á smásteinum
undir þögulum hreyfingum skýja og drauma

áður en hún heldur af stað niður eftir strætunum,
með lítil andartök í vindinum og eilífðina framundan

fimmtudagur, 15. júní 2017


móðir jörð

hún opnar dyrnar svo ljós sólarinnar fyllir að nýju rökkvuð herbergin,
með léttan vind í lýsandi hárinu og mildan hlátur í bjartri röddinni

í hljóðri athöfninni berast orð hennar um brotinn helgidóm jarðar,
með lifandi tákn í náttúrulegum hreyfingum og frjósömu spori

á naktar strendur bergskorpunnar, undan bylgjandi haföldunum,
felur hún morgunbjarmanum í hendur verðmætustu eign sína

síðast safnar hún týndum og villtum börnum í opinn faðminn
og þvær óhreina líkama þeirra með glitrandi söltum tárum

sunnudagur, 11. júní 2017


óður náttúrunnar

úr mildum lófum vindsins leið nóttin
eins og örsmá stef í hvíslandi reyrblöð

aldin jarðar glitruðu undir berum himni
er lýsandi mána bar við laufgaðar krúnur

í aflausninni spratt villiblómi skógarins
og færði dauðlega fórn sína fyrir jarðlífið

feginsamlega laukst frjómagn þeirra upp
með heilögum dansi og saklausri játningu

dökkar klukkur og dulin tákn ljómuðu
og ótal draumar lyftust yfir dimmri jörð

því hjörtun hafa hvorki nafn né skugga
er andvari nætur fer hljótt um hús þeirra

laugardagur, 3. júní 2017


haustvindurinn

sá dagur mun koma
þegar haustvindurinn
kallar hljóðlega nafn þitt

laufin hnita litla hringi
yfir hálfgleymdum stígum
í rauðum og gulum myndum

öll veröldin virðist hverfa
í dökkan og aflíðandi hljóm
er kviknar í umróti náttúrunnar

þá er sem gamall vinur hvísli
hljótt í svarta og stirnda þögn
sem verður til djúpt í vöku nætur

því með vindinum berast fræ
sem leita skjóls í höndum jarðar
líkt og þau er bíða lausnar morguns

laugardagur, 11. mars 2017


bréf til fortíðar

þegar ég losaði skuggana við fortíð sína
og hljóðfærin fylltust myndlausum draumum,
féllu nokkrir dimmbláir geislar á brotnandi stíga
og földu um leið fyrstu stjörnurnar í fótspor morguns

í hljóðlausu endurvarpinu varð til kunnuglegt stef
sem leið yfir síðustu augnablikin úr hljóm næturinnar
með ljósan svip og hvíslandi orðróm í laufkrónur trjánna,
eins og dulin loforð eða örsmá bréf, týnd handan augnabliks

sunnudagur, 9. október 2016


lykill að degi

þar sem dagurinn rís
yfir nafnlausum leiðum
opnar gamall brunnur auga
mót bjartri veröld norðurheims

þá heyrist rödd koma úr fljótunum
eins og löngu gleymd sýn eða seiður,
með dökk tákn á kunnuglegum tungum
og sannleikann undinn hljóðum skilningi

mánudagur, 19. september 2016


haust

glitrandi þula úr gagnsæju tákni
reis úr dimmum höndum fljótsins
og veröldin ljómaði af gylltu borði

örsmáir gluggar opnuðust við dögun,
af ljósum mynstrum og lifandi stígum
með glær líkneskin yfir glóandi vötnum

haustmorgunn færðist á dökkbláan skugga,
þar sem hugur regnsins dvaldi á öxl hæðanna
og máninn vætti hendur sínar í lygnum draumi

mánudagur, 12. september 2016


haustrigning

ég heyri stundum litla trommu slegna í regninu,
ýmist þungt eða létt og takturinn smá breytilegur

þegar dimmir yfir húsinu mínu sé ég veröldina glitra,
í náttbirtunni rísa göturnar upp af nöktum skuggunum

frásagnir vindsins hreyfast í einni svipan um lýsandi rýmið,
með raddir sem bregða ljósri dulu á skil staða og fyrri atvika

með tímanum fellur vatnið til sjávar með gleymdum minningum,
þangað til hafið geymir loks alla litina sem við völdum á himininn

miðvikudagur, 7. september 2016


miðja borgarinnar

rennandi útlínur gatnanna framundan,
frjáls vindur sveigir tré handan ljósanna

dökkbláir gluggar opnast yfir augnablikinu,
uppgötvun dregin lárétt á uppleystar myndir

að yfirgefa minningu er að finna týnt hljóðfæri,
og takt sem myndar veruleika á bak við skuggann

fremst í núinu bíður staðhæfing í upplýstum dyrum
um leit persónu að uppruna sínum og stað í heiminum

gagnsæ gríma lyftist varlega af elstu hlutum borgarinnar
með óteljandi frásagnir upp úr sögulegum dældum hennar

bláir skuggar dansa í flæðandi ljósi við hringtorg og gatnamót
og fella glitrandi ábreiður á rýmið yfir gangvegum og biðskýlum

þriðjudagur, 23. ágúst 2016


línur og punktar

blár óendanlegur bakgrunnur,
ósýnileg hljóðfærin í vindinum
og hús brotin niður í einföld form

rýmið sameinað í svörtum línum,
rannsókn á fugli með nýjum táknum;
viðföng á eilífri hreyfingu yfir atvikum

ímynd á flötum grunni færð á umhverfið,
efni sem breytist eftir túlkun og staðsetningu
og hugsanir sem renna til og frá fullkomnun sinni

föstudagur, 19. ágúst 2016


nýjar andstæður

ljósið sýnir aðeins yfirborð hins ógagnsæja,
innan þess býr myrkur úr leyndum flutningum

hver borg hefur hugmyndafræðilegan grundvöll,
klofinn af hinu áþreifanlega í dreifðar eftirmyndir

í andstæðu tónlistarinnar fyrirfinnst innbundið tóm,
þögul, gagnstæð hreyfing úr óskynjanlegri hljómkviðu

hefur vænting staðsetningu? við ógreinileg sjávarföllin
berast öldur þess sem er samhliða skugga þess á djúpinu

- hver uppröðun skilgreinir um leið út undan sér röngu sína,
þar er ljóðið í raunveruleikanum og raunveruleikinn í ljóðinu

þriðjudagur, 16. ágúst 2016


náttúra

undan blágrænum speglum ljósleitra morgna
lyftir hún glærum líkama úr nafnlausum fljótum
og hreinsar árbakkana af aurugum útlínum fortíðar

því alheimar verða ekki eingöngu til við upphaf tímans
heldur einnig með hverju lífi sem fæðist á þessari jörðu
og finnur sig frammi fyrir máttugu sjónarspili náttúrunnar

laugardagur, 30. júlí 2016


andagift

við elstu rætur lífsins,
letrað í salt blóð og stein,
af leyndum dómi tilverunnar

undir gagnsæjum vængjum,
í laufguðum höndum skóganna,
með tímann í rödd sjávarmálsins

í hljóðum skugga nætur
með hjartað numið göldrum
og óð stjarnanna á þyrstum vörum

mánudagur, 18. júlí 2016


himinn og jörð

hví loga vagnar himins yfir dimmum vegum?,
í hljóðri vöku brenna eldar þeirra í djúpi nætur

ég sé lýsandi merkin opnast í fjarlægu mynstri,
andartakið sem eilífðin leggur niður skjöld sinn

hvaða sannleik hefur hún í hljóðri myndun sinni,
þegar draumar árstíðanna lifna og deyja á víxl?

í augum sínum geymir hún gegnsæ, falin vötn,
þar sem regndroparnir sveipa jarðneskar krúnur

og einnig hjarta þitt er nakið í blómgarði hennar,
þar sem glitrandi jörðin afhjúpast á vegferð þinni

miðvikudagur, 6. júlí 2016


um fegurðina

að líta fegurð er að bera aftur kennsl á mynstur sem hugurinn þekkir en náttúran hefur fjarlægt úr vitund okkar; sköpun listar snýst öðru fremur að finna og afhjúpa þessi gleymdu mynstur, jafnt í skynjanlegum veruleika og þeim hugmyndum sem hægt er að setja fram

listamaðurinn býr ekki til neitt nýtt í þessum skilningi, heldur raðar aðeins saman einingum í ákveðin mynstur, svo sem orðum, efni, tónum, litum eða hreyfingum, í þeim tilgangi að skynja og tengjast að nýju hinu eilífa, bæði í sjálfum sér og frammi fyrir breytilegum heimi

föstudagur, 24. júní 2016


í duft fyrstu stjarnanna

hver hefur lagt erindi sín á herðar kvöldsins
og dreift gylltum laufum af altörum skóganna?

yfir dul himnavötn, gljáð fjarlægum táknum
og földum sannleikum í lýsandi hyljum stjarna

þú sem lýkur upp dyrum hinnar björtu nætur,
með blómstur jarðarinnar í frjósömu hjartanu

regnið skíri enni þitt af himneskum djásnum,
þegar eilífðin opnar að síðustu tárvot blöð sín

því einnig andi þinn mun gista mánalýst fljót,
þegar bikar þeirra fyllist af óteljandi stjörnum

miðvikudagur, 8. júní 2016


í slóð birtunnar

þegar ég hristi rúmföt dóttur minnar
flaug eitthvað upp af smárri sænginni

þegar mér varð svo loks litið upp sá ég
að agnarlítil og hvít fjöður sveif yfir mér
og virtist staðnæmast þar nokkur augnablik,
áður en hún leið hljóðlega út í bjart dagsljósið

mánudagur, 6. júní 2016


úr fjarlægum glugga

með stjörnur á tungunni
og dulmál fljótsins í höndum
klæða þau eilífðina ljóskerjum
og andvarann glitrandi draumum

hvarvetna rísa vonir yfir slóðinni
og hefjast á loft með himintunglum
frammi fyrir hvikulum bakgrunni skýja
og þögn þess, sem hlustar eftir ljóði þeirra

miðvikudagur, 25. maí 2016


yfir jörðinni

þegar vormáninn gengur hjá spegilsvörtum steinum fljótanna
og hugmyndin um morgundaginn gárast á lygnum djúpunum
fyllast vit okkar af draumum, ljóðum og dökkum söngvum
sem færast yfir tifandi og glitrandi rýmið á bak við ennið
með fegurstu augnablik jarðarinnar í dulu fótmáli sínu
áður en dagrenningin hefur loks hreinsað augu okkar
af síðustu stjörnum og skuggum húmblárrar nætur

laugardagur, 21. maí 2016


börn heimsins

saklausu börn, þið sem leikið
með eld lífsins og ljós framtíðar

fyrir ykkur hefur jörðin opnað dyr,
þó enginn fái skilið leiðir ykkar enn

þið munuð geyma regn, sól, snjó og vind
þegar hallir nútímans falla í skugga fortíðar

ég hef séð framtíðina í undrandi augum ykkar
og von mannkyns glæðast í vaxandi hjörtunum

verði heimurinn betri en sá sem við skildum eftir,
við sem kölluðum nöfn ykkar upp úr djúpi eilífðanna

föstudagur, 20. maí 2016


lítil bæn

þegar ljósið fellur loks á nakinn anda þinn
og klukkur vindsins þagna af draumi sínum

þegar máninn sofnar í faðmi morgungeislanna
og rigningin klæðir hold þitt með dulu skýjanna

þá mun hljóðfærið í brjósti þínu leika í fyrsta sinn
af söngvunum sem náttúran faldi djúpt í hjarta þínu

mánudagur, 2. maí 2016


eftirmæli

vinir, dveljið ei lengi
við hvíta grímu dauðans

gleðjist við göldróttar lýrur
og etið af korni bestu uppskeru

munið góða stund og glæsta sigra
og krýnið andvarann lárviðarsveigum

megið þið lifa og vitna áhugaverða tíma
og varðveita um stund hina hverfulu paradís

sunnudagur, 1. maí 2016


fyrir eilífðina

áður en draumur minn lyftist af jörðu
og hugurinn heldur út á kyrrar víðáttur

mun tíminn hægja á friðlausri leit sinni
og stöðva loks hjól sín við hringrás lífsins

þá mun minning þín opna ský bak við auðnina
og skilja nöfn okkar eftir yfir hásætum dögunar

laugardagur, 23. apríl 2016


fæðing stórborgar

andartaki áður en söngurinn hófst
og auglit morguns gáraðist tilfinningu,

þegar gylltur ljómi klæddi hvíta götusteina
og kyrrlát stund reifaðist himneskum krúnum,

leið höfuð borgarguðs yfir nakin og hrein strætin
með óteljandi drauma bak við eyðimörk malbiksins

í hjarta hans fólst eftirvænting úr rökkvuðum trumbum
sem slógu inn við leitandi náttúru og híbýli mennskunnar

skömmu síðar stigu ljósgeislar og þulur um hlustandi rýmið
og héldu áfram að opna falin merki yfir gangstéttum og vegum

fimmtudagur, 14. apríl 2016


undan vetri

kaldir speglar vatnsins brotna
í mergð ótal lýsandi klakamynda
og fljóta inn um gullvætta ljósþræði
sem þeir týna snöggvast glæru dulmálinu
frammi fyrir glóandi mynstrum vorlækjanna

sunnudagur, 3. apríl 2016


skógarnir vakna

fjarræn upplifun sveif yfir sofandi mörkum
eins og gleymdur söngur eða vængjuð bending

innar bárust áköll og seiðir af leysandi vötnum
og dul hreyfing hvíldi í flöktandi skyggnum nætur

þögn sló á raddir náttúrunnar og himnarnir opnuðust
en dimm trumba hóf takt sinn við ástig dansandi skugga

trén munduðu tákn sín og rýmið fylltist undirleik og ljóma
er skógarvættir leituðu sér líkis í greinum, hornum og beinum

um leið rann gustur í runur og raðir úr hringvindum lífs og veru
og kveikti með hverjum þeirra nýjan draum og von um betri heim

sunnudagur, 27. mars 2016


minningar úr framtíðinni

á sólskinsdegi, eftir næstu heimsstyrjöld,
munu ógnarstórar höfuðskepnur birtast
og dvelja við rústir hinna föllnu borga

við fótskör þeirra leika dýr og börn á ný
og afhjúpa stærðir og stafi náttúrunnar
undan hinum saklausa skilningi sínum


rétt áður en þessi sýn hverfur loks aftur,
munu öflin sem fyrst lyftu veröldinni
gera öll augnablik sögunnar að einu

en í þeirri birtingu upphafs og endaloka,
mun felast endurtekning lífs og dauða
og ein áleitnasta spurning allra tíma

fimmtudagur, 24. mars 2016


hvít jörð

frostmóða læðist yfir ísbleika mýri,
þögul og ígrunduð sýn hennar fumlaus

ljósleiknir gluggar opnast við hvert fótmál,
hrímuð ró þeirra sett brothættum kristöllum

hvarvetna liggja örlitlar frásagnir og fíngerð bréf,
snjóhvít blöð þeirra varðveitt í dökknandi höndum

í köldum leyndardóminum andar ósprungið blómstur,
meðan máninn skapar smávaxnar myndir á nakin öræfin

föstudagur, 4. mars 2016


endurnýjun

duftmynd hrundi niður úr rökkvaðri ásjónu og hafði með sér þekkta uppröðun úr grynningum leiks og veru

gömul sannindi brotnuðu í einfölduð form og mynduðu því næst undirstöður nýstárlegra samsetninga og skýringa

þannig urðu elstu uppspretturnar að daufum ísvoðum sem fljótlega leystust upp í gufu og óskýrar vofur

fimmtudagur, 3. mars 2016


vatn og ljós

gakktu hjá hinum hugsandi djúpum að kvöldlagi, bak við lygn vatnsformin munu þau glitra af dulu mynstri og hljóðum vísdómi;

þar verður síðasti vitnisburðurinn færður fram, þegar gljáandi ferjur stundanna yfirgefa að endingu ljósaskipti himins og jarðar

mánudagur, 29. febrúar 2016


frelsi

lítill vindsveipur feykti fisléttu ljóskeri
svo það tókst á loft á kyrrum kvöldhimninum
og sveif hljóðlaust yfir skógarþykknum og strætum
áður en það hvarf í dökkvann milli samliggjandi stjarna

fimmtudagur, 11. febrúar 2016


bréfin í rigningunni

það er skrifað í rigninguna
innan um ljósgeisla og götur
að þessa stund sem þú dvelur
jafnt í híbýlum efnis og hugar
mun vitund þín vakna af sandi
og snerta hin fjarlægu dulu ský
sem enginn hefur enn náð að njörva,
nema með því að yfirgefa allt það sem
veruleikinn hefur skapað í vitund okkar


milli nætur og morguns

dimmrauður tónn slær endurtekið í bakgrunni,
þungur og einsleitur markar hann hið nýja svið

framar færast ljós og strengir yfir gagnsætt rýmið,
kveikt af himneskum eldum og íhugun þögullar nætur

í lokin sé ég brýr morguns rísa við sjóndeildarhringinn,
undan gylltum sveigum þeirra falla fyrstu litir jarðarinnar

þriðjudagur, 29. desember 2015


myndun

reykur rennur aftur, áleiðis yfir fornan sand, eins og formlaust leiftur inn við máða geisla og kyrran draum;

það er þá, sem umrót alls sem kviknar og deyr, býr sér stað að nýju í hljóðri og tærri þögn verðandi daga

sunnudagur, 20. desember 2015


eftir alheiminn

fylgdu tengslunum sem birtingin lyftir af framburði andartaksins,
veglaus mynd þeirra mun að endingu vísa þér á leysingar heimsins

því er dagur og nótt hætta að vera, falla hinir miklu turnar sögunnar
og milljarða ára vitnisburður myndar djúpan skilning í hjarta eilífðar

miðvikudagur, 16. desember 2015


yfir rúmi himinsins

til er eldri og dýpri tilvera en hvikul birting persónu og sjálfs, laus frá túlkun skilnings og hugtaka, þar sem tilgangur og tími missa merkingu

yfirborðsmynd fjarlægðar og forma líður yfir kyrra uppistöðu hennar, eins og hélaðri minningu bregði um stund fyrir bráhvítum glugga

mánudagur, 23. nóvember 2015


söngvar veraldar

í andvaranum reis léttleiki upp af jörðu og lék við friðsæl skýin,
ljós og hljóður, eins og ljúf minning, hneppt úr vitund fyrri tíma

sömu nótt skinu silfruð himnaljós yfir hraunmynd hæstu fjallanna
og sáldruðu nafni sínu hljóðlega niður hreyfingar gleymdra drauma

þriðjudagur, 27. október 2015


yfir jörðinni

fyrir sjóndeildarhringnum hafa strengir himins opnað hvolf sín yfir rúmi jarðarinnar; fíngerð þoka kitlar yfirborð hennar, líkt og fjarræn gustur eða gagnsæ tjöld yfir hæðum og hlíðum

undir niðri vakna hringir og mynstur náttúrunnar í sífellu eins og endurtekin stef úr draumi tilverunnar, færðir yfir veröld ljóss og lifandi forma, úr djúpinu bak við tímann

föstudagur, 16. október 2015


við fótmál skýjanna

í sama mund lýstu gylltir mánar yfir götunum og dauf ljós hreyfðu við lægstu draumunum; þannig tifaði húmið í höndum nætur og reykvaðin ljósbrot svifu yfir dimmum hjörum

nokkrum auglitum síðar risu gráleitir turnar milli skýjanna og óteljandi bjöllur glumdu af hæðum; nær húsinu færðist lágþoka inn um opin hliðin með óm af dulrænum söngvum

sunnudagur, 16. ágúst 2015


upphaf daganna

orðlaus kviða slapp undan óráðnu hreistri og lék yfir stofni jarðarinnar; þar með urðu dansar sólarinnar að þúsund seglum og tilvist mannsins endurtekin stund fyrir athugun og leit

mánudagur, 10. ágúst 2015


fyrirmæli á strætunum

á næturhimninum hefur tíminn snert við djúpi stjarnanna
og hvert andartak vakið ljós úr fjarlægri minningu þeirra

um leið líða óteljandi spurningar og hugtök rétt yfir jörðu
og verða að hljóðri íhugun undir ljóskerjum og götuvitum

mánudagur, 27. júlí 2015


vatnaskil

vatnsfall himinsins leikur á vætugrónum strætunum;
hljóðfæri rigningarinnar hafa snert auðar göturnar,
veröldin tifar í hljóðlausum bláma andartaksins

í flaumnum bregður fyrir táknum borgarinnar,
ljós hennar orðin að ógreinilegu endurvarpi,
andartaksmynd lita og forma á stéttunum

þriðjudagur, 21. júlí 2015


hin orðlausa frásögn

þegar þú hefur næði til, rannsakaðu aftur þögnina í hinum náttúrulegu birtingum, líkt og fyrir margt löngu; sumar minna á bjart stef úr leikandi tónlist, á eilífri ferð yfir sögulegar breytingar

hvernig gangur framrásar hreyfir við setningum umhverfis atburðina, eins og nokkur smábrot hafi afmarkast inn við samfellur tímarúmsins, fólgin bak við dagleg hlutkesti og stundlegar ummyndanir;

í flóði blæbrigða og lita skína nokkrir geislar í gegn, eins og skýjahula færð til bókar, meðan fortíðin heldur áfram að sofna undir vitund okkar, frammi fyrir óendanleika alls sem rennur áfram


eftir lausmæli stundanna

hér er fyrsti tónninn sem ómaði um rými stundanna,
djúpur og víður fyllir hann glufurnar á botni himins

hér er lýsandi vindurinn sem snerti við efni heimsins
og mótaði jarðnesk hljóðfærin í höndum þess eilífa

af hafi hefur gamalt tákn horfið yfir sjóndeildarhring,
eftir situr vitneskja um leit og frelsið í andvaranum

fimmtudagur, 2. apríl 2015


yfir staðlausum farvegum

aftan við hreyfingu stundanna hvílir eilíf frumgerð; ég sá hana eitt sinn sveima yfir björtum degi í ógreinilegum hringferlum sem gufuðu síðan upp í óma himinsins

undir skýjuðum hvolfunum skildi hún eftir sig slóð leitandi tákna, sem rann fyrir botni augnabliksins eftir staðlausum farvegum, yfir hljóðum sendiboðum atvikanna

miðvikudagur, 1. apríl 2015


undan yfirborði aldanna

þegar leitandi öfl fóru eftir tímabilum jarðsögunnar
liðu ótal saltir skuggar yfir botnum hafdjúpanna
og vöktu um leið elstu minningar jarðlífsins


framburðurinn

óendanleiki rakst í frumsvið og vatt rúmið loftþráðum af lausmæltum spuna, svo hrímuð flatneskjan brotnaði í hreyfingar talna og teikna

í sundurleitum vitnisburðinum svifu atburðir og yfirlýsingar fyrir vaknandi grun dómstóla, við athuganir þeirra á aðdraganda málsins

sakborningurinn reis þá upp af undirlagi sínu, seig undir yfirborðið og skaust upp með haldbær sönnunargögn út fyrir lagabálka náttúrunnar

þriðjudagur, 31. mars 2015


ljós borgarinnar

gakktu niður strætin við sólsetur, þá verður gamalt dulmál í birtunni upp af götunum en þögular efasemdir á hreyfingu yfir ljósunum

bak við sviðið finnurðu aðsetur breytileikans; inn um hjól vélarrúmsins liggur ómerkt umslag, í því verða eyðublöðin fyrir umsókn þína

mánudagur, 30. mars 2015


djúpin rísa

við ómálga frumveru hvílir uppspretta alheimsins; í bergmáli hennar hljómar frásögn aldanna, af botni hennar stíga formlaus lögmálin

frá kvíslum hennar grundvallast umskiptingin í mektugum farvegum; djúp hennar hafa risið handan skilnings yfir forsjón rúms og tíma

föstudagur, 27. mars 2015


frumtákn jarðar

undir vetrinum lágu frumspekilegar athugasemdir læstar niðri í jörðu og biðu endurvakningar upp af gulu frjómagni sínu

eftir síðustu réttarhöldin köstuðu fyrirboðarnir snjóugum gervum sínum í launmál birtunnar og fylktu eigin liðsheildir

álögunum var loks létt af embættum ljóss og vatns, sem léðu tilurð þeirra nýjum ákvæðum upp af moldugum borðum


goðsjá frá morgni

það hvílir dulráður tónn í lofthjúp morguns, djúpur og samfelldur, líkt og úrskurður framandi vætta hafi lyfst upp af máttugum rómi þeirra yfir hinum jarðnesku myndunum

af himni leika ljósugir fösulþræðir úr frumsöngvum tilverunnar og vefa undan sér hvikular voðir forlaganna, meðan andrúmið tifar af hljóðri geymd yfir vaknandi náttúrunni

fimmtudagur, 26. mars 2015


flöktandi ljós

þarna hljómuðu endurtekin stef í ljósaskiptunum, eitt tók á sig hjúpgerð eftirvæntingar en annað fól í sér áleitinn söng

jafnan hófust upp örlagaríkar forsjónir og arfur frá öðrum tímum, en takturinn missti brátt slög sín svo allt féll í ómegin

skömmu síðar hvarf auglitið frá umgjörð sinni og hjartað fór aftur í gang, svo augnablikin sáldruðust yfir veröldina að nýju


trénað gangsilfur

þegar raðirnar snertu yfirborð náttúrunnar mynduðust í hringstreyminu örfínir vængir úr gagnsæjum himnum, sem svifu yfir laufmáli skóganna og aurugum vatnasviðum

um leið magnaðist dulur seiður yfir iðandi formum jarðarinnar, svo óljós myndhvörf risu upp af þámuðum skapnaðinum og leystu þar með elstu undirstöður heimsins

miðvikudagur, 25. mars 2015


dyrnar í stofunni

svaladyrnar standa hálfopnar; dökkur vindsveipur hróflar örlítið við hurðinni og hleypir tæru kvöldlofti inn í húsið

fyrir dökkvanum falla lýsandi snjókorn hljóðlaust niður, utar hreyfast útlínur trjánna gætilega í fínstilltum skuggamyndum

birtan innan frá rými stofunnar endurkastast af gluggarúðunum og bregður um leið daufu ljósi á upphaf himinsins

mánudagur, 23. mars 2015


andlit náttúrunnar

ég hef séð þau áður, ekki á ósvipuðum stað og þessum; þau vöknuðu morgun einn upp af miðbiki breiðstrætanna eins og nafnlausir fuglar, svifu yfir leikmynd borgarinnar á undrandi vængjum og sáu þaðan vonirnar opnast og lokast í senn

en ofan af turnunum fundu þau andvarann bera kennsl á eirðarlaust hjarta, meðan regnmynd féll inn um opna glugga; þá varð andartakið að ljósmáli á bláum striga en tíminn álútur leiðsögumaður um öræfin sem enginn hefur sigrað nema þögn og vindur

laugardagur, 21. mars 2015


lesmál götunnar

maðurinn sagði bókina ófáanlega og að ekki stæði til að prenta út fleiri eintök af henni, svo ég sneri tómhentur úr versluninni

úti í portinu heima lá lítill pappírsbátur sem barnið í næsta húsi hafði eflaust skilið eftir og flaut ofan á stækkandi pollunum

himinninn var gráleitur og kastaði undarlegri birtu þarna niður sem lýsti upp snjáða húsveggi og dyr allt í kringum rýmið

ég tók bátinn upp og virti fyrir mér blautt letrið á bakborðanum - og sá þá að hann var brotinn upp úr handriti bókarinnar


skjaldarmerki borgarinnar

það er einhver dulur friður yfir steintröppum í rigningu;
hvernig fallandi droparnir lenda á kyrrstæðum þrepunum
og mynda agnarlítil mynstur upp úr gljáandi vatnsformum

þeir lifna í fjörugum dansi yfir köldum gráma undirlags síns
og flæða niður, syllu eftir syllu, að fótmáli gangstéttarinnar,
eins og hinir fegurstu draumar sem hjörtun ala á vegferð sinni

föstudagur, 20. mars 2015


athugun á texta

orðræða skriftarinnar skóp mismunandi fleti með framburði sínum og mótaði bæði efnistök og myndrænt rými eftir boðskapnum:

í fjarska markaði dimmblá sjóndeild heimsmyndina og lagði línur fyrir samneyti túlkunar og innsæis, meðan tignarlegar skrautsúlur héldu uppi voldugum himinhvolfum

nær gat að líta gáróttar frásagnir upp úr hversdagslífi á ósýnilegum tjöldum, sem merktu um leið svigrúm fyrir tilfinningar og yfirferð á ýmiss konar rökfærslum

samtímis þessu féllu örlitlar þagnir inn um orðin og minntu helst á hljóðið milli regndropa undan votviðrum hlustandi sumarnætur


tilraun með form

þessi texti er í raun myndband; í því sjást nokkrir ljósastaurar við auðar götur að kvöldlagi, en óvíst er með nákvæmari staðsetningu, það er líka ofankoma, annaðhvort rigning eða snjór

perur ljósastauranna virðast við það að klárast, föl birtan undan þeim er farin að flökta, eins og andartaksmyndir yfir gangstéttum og malbiki, draumkennd, nálæg og fjarlæg bæði í senn

rétt áður en það sýnist ætla að slokkna á einhverjum ljósastauranna hefst myndskeiðið á nýjan leik, og er spilað aftur og aftur, alveg eins, meðan þessi lýsing endist í huga lesandans

fimmtudagur, 19. mars 2015


af eldi ljósberans

það sáust stundum svífandi ljósflygsur í garðinum; eina nóttina hélt ég að ég hefði handsamað örsmáa eldflugu þar, fannst ég jafnvel finna vængjaslátt innan í lófunum, en þegar ég opnaði litla rifu milli þeirra til að virða hana betur fyrir mér fann ég hvorki fót né fálmara

síðan rölti ég aftur inn í húsið meðan lágþokan brá glærum hjúp yfir skyggðan trjáviðinn og máninn kastaði hvítum lyklum yfir lygnan vatnsflötinn; þannig uppgötvaði ég að merking ljóða á margt sameiginlegt með frjálsu vindmálinu undan ljósberum næturinnar

miðvikudagur, 18. mars 2015


litmynd úr austri

með gervi sólarinnar á höfðinu og skógarpíplu í munnvikinu gekk hún fyrirhafnarlaust upp rökkvuð hliðarstrætin, og dustaði út undan sér ryk af fornum steintöflum með hlýjum og gulnandi þulum

ljósbleik skýjamynd endurkastaðist af löngum gluggunum þegar hún hvarf svo inn í litla íbúð sína, og hljóð élvinda buldi á þykkum útidyrunum en nokkrir snjómánar urðu eftir í tröppunum

himinninn brosti bara að þessu uppátæki hennar og hvarf sjálfur í sama draumreyk og hvert kvöld, og sagði þakklátur út í kólnandi loftið þegar enginn heyrði til: takk, þetta var einmitt það sem ég þurfti

mánudagur, 16. mars 2015


fuglarnir á þakinu

þú sérð
þá ekki héðan

en yfir þessu
hvíta völundarhúsi

flögra fuglar rétt í þessu,
með fyrstu sprekin í goggum

á þakinu verða hreiður þeirra
og fluglimir bak við föla kalkskurn

fimmtudagur, 12. mars 2015


draumstafir

ljóð eru sofandi,
og lestur lína þeirra
snöggar augnhreyfingar
upp úr draumsvefni líffæranna


vorboðinn

þegar snjóbráð hrundi niður af þakinu
opnuðust sjálfvirkar útidyr um stundarsakir
eins og til að hleypa fersku vorloftinu inn í salina


mynstrin í ræsinu

þegar haustlaufin þekja holræsi borgarinnar
svo straumur vatnsins flæðir niður götur hennar

þá slá litlar klukkur, hreinsaðar í höndum regnsins
og litirnir gárast er himinninn lyftir gráum hjálmum

þá eru spurnir ekki spurnir og hús mitt ekki leit að orðum
heldur hreyfing skýja á vatnsfylltum sprungum jarðarinnar

þá er andi minn frjáls, upp frá endurvarpi sínu af veruleikanum

mánudagur, 9. mars 2015


eldfugl

í leitinni að
veikleikum okkar
finnum við styrkleikana

laugardagur, 7. mars 2015


um leiklistina

hver er leikarinn annar en sá sem setur grímuna upp
og ljáir henni um stund líkama sinn og leitandi augu

hvað er leikurinn annað en lifandi sögn á lýstu sviði
og hinn dauði sem gengur þar aftur kvöld eftir kvöld

hvað er leiksvið annað en umhverfi í ljóstíru og reyk
fyrir myrkvuðum sal af dómurum og rýnandi skuggum


upplestur

skólabók datt úr tösku
og lá nú opin á mannlausum gangstíg
meðan snjórinn féll á hana líkt og ótal bókamerki

fimmtudagur, 5. mars 2015


fyrirmæli

þegar þú kemur til borgarinnar, mun sá sem gætir hliðanna æskja ferðabréfs af hendi; afhentu þá hin fjögur merki: skóg, haf, jörð, himin

við það opnar hann fyrir þér iðandi mynstur götunnar; en næst þegar rigningin speglar ljósin yfir votum strætum á hljóðri nótt, finndu þá hinn bláa lykil

því á síðustu bréfunum stendur að við fall borgarmúranna muni það sem hreyfir við öldum reisa brýr upp af rústum þeirra úr laufum, salti, sandi og skýjum

sunnudagur, 1. mars 2015


maður sem heldur á hurð

þegar heimurinn skiptir um dvalarstað
yfirgefur umhverfið um leið þær frásagnir
sem staður og tími geta sveipað bliki atburða

nokkur merki hrynja við umskiptingarnar
svo beinist úr bognu eða grænn verður gulur
er litir og form kasta af sér gervum nafna sinna

og um stund verða göturnar sem rennandi fljót
en veröldin söngur flökkufólks um borð í barkbát
með ungviði sitt reifað í óuppgötvuð tákn og falin

síðan dregur allt hring um verðandi miðpunkt,
fjöll, himinn og haf setjast aftur, færð úr stað,
breytt að lögun sinni og vídd á framandi stólpum

þau innfæddu berja forviða á hinar nýju dyr,
með fréttir og spurnir á ótal framandi tungum
meðan jörðin opnar áður óséð blóm í garðinum

fimmtudagur, 26. febrúar 2015


landabréfið

þú sem siglir á úthöfum skilningsins
og fylgir vísum þekkingar og reynslu

þú sem leitar að hinni hreinu visku
og földum perlum undirdjúpanna

land þitt verður ávallt ósamið ljóð
en seglin undin óteljandi stjörnum


endurinnrétting

fyrir vormánuðina heyrði ég skógarsmiðinn
rífa niður úr sér gengnar og fúnar innréttingar

einnig skipti hann um ljósastikur og laufkrónur
og sópaði fasteign sína í talsverðum snúningum

litlu síðar birtust auglýsingar á brumknöppum
um að húsið væri aftur komið á leigumarkaðinn

þriðjudagur, 24. febrúar 2015


saga úr vetrarbraut

einhvern tímann mun ég stíga inn á hið mikla safn,
draga á mitt gólfið hryggjarlið úr útdauðri sjávareðlu,
festa ofan á hann brotinn áttavita síðan á landnámsöld
og sigla svo fram hjá líkneskjum fornra guða og grafhýsa
uns ég brýst í gegnum sýningargler fyrstu tunglferðarinnar

í fallandi geimrykið mun ég að síðustu skrifa
nafn mannsins með báðum lófum og tíu fingrum

þá mun fólk loks skilja hvað milljarða ára ferðalag
getur afhjúpað um vitnisburð fyrsta andartaksins

mánudagur, 23. febrúar 2015


hlutverkið

ég ætlaði að lesa hina gleymdu bók
en blöðin sölnuðu fyrir augum mínum

ég ætlaði að líta í hin miklu djúp
en fann aðeins spegilmynd mína þar


samt bíða enn ósögð orð á tungu næturinnar,
samt eru hendur morgunsins uppfullar af korni

föstudagur, 20. febrúar 2015


spádómurinn

efst í tilbrigðunum, þar sem rökkvaðir ljósturnar geyma voldug tákn himins og mátt sjávaraflanna, mun sú sem heldur á stjörnum standa í uppreiddum dyrum næturinnar

þá mun hún ljóstra upp óþekktu nafni sínu í mánalýsta glugga og svipta hulinni af staðnum þar sem hlæjandi börn misstu bók skýjanna í vatnið

leitaðu því næst að öldruðum manni á heimleið sem gengur hjá grænum eldum og hlustar á fyrstu söngva jarðarinnar, hann mun benda þér á sjö bráðnandi stíga í vorleysingum

fimmtudagur, 19. febrúar 2015


kolkrabbi kveður

rithönd rakst í blekbyttu sem datt á hlið
svo orðlausar hugsanir flæddu yfir tóm blöðin
eins og tært sjóvatn litast þegar kolkrabba bregður,
speglandi um leið undrun og aðdáun úr andlitsdráttum skálds


vetrarganga

allt er myrkt og kalt á göngu að miðjum vetri;
ég sé ekkert fyrir skuggum og skafrenningi,
nema ljós, sem kemur frá sjálfum mér

sunnudagur, 15. febrúar 2015


úr botnlausu hljóðfæri

á bak við hvít rif stjarna
og bringubein úr mánarönd
hvíldi hjartastaður næturinnar
og þúsund óendanlega litlar eilífðir
hreyfðust í hreistruðu gliti á hvarmi sjávar;
þar missti konungurinn krúnu sína í sökkvandi djúp
og halastjarna úr orðum afhjúpaði dulargervi skóganna;
í sama mund féll regnvatn á hörund jarðar, ilmandi og hreina

laugardagur, 14. febrúar 2015


vorbirtingin

endurfædd höldum áfram
að vaxa innan úr móðurkviðum
með morgunroðann í naflastrengjunum
og framtíð heimsins í óþroskuðum höndunum


nýburinn

um fæðingarstofuna barst grátur
þegar andinn var dreginn í fyrsta sinn,
svo ónotuð barnslungun fylltust sama lofti
og fer um litla vængi er detta úr fuglshreiðrum

föstudagur, 13. febrúar 2015


strengjabrúðurnar

frá viðtækjunum barst ásláttur hljóðfæranna svo spriklandi leikbrúður virtust lifna við í iðandi höndum flytjendanna

þær dönsuðu á titrandi strengjum við dunandi stigmál tónverksins og vöktu við það skynjun og skilning úr djúpi mannlegrar tilvistar

en með síðasta slættinum féllu þær máttlausar aftur niður í skuggann og hljóðupptakan endaði í hlustandi þögn og dulri endurómun


óskýrar frásagnir

þú heyrir þá hallandi stef
undir dulri hreyfingu skýja,
þegar dagarnir endurnýja sig
og breyta lifandi híbýlum sínum
í brotnandi mynd vaknandi morgna
og glóandi merkisberar þeirra á jörðinni
rísa yfir iðagrænum uppsprettum veraldar
við sífellda umröðun hinna náttúrulegu tákna

fimmtudagur, 12. febrúar 2015


uppdráttur að korti

við tekur hálfgreinilegur slóði gegnum skógana,
gakktu inn um laufsúlur hans og lifandi dulmálið;
enn lengra, bak við myndir trjánna og græn merki,
muntu koma síðla kvölds að reykstignum líkneskjum
er gnæfa upp úr hringlaga svæði á gróðurlausum stað;
þar rís glæst hof sem sagt er frá í draumum og goðsögnum,
skreytt gylltum loftmyndum og bjarma af bláum safírsteinum;
inni í sölum þess ómar brotinn sálmur upp úr hvítu myrkri stjarna


eldfjallið

þögult um aldir,
sveipað djúpum dvala
lýkur nú upp logandi dyrum;
frumstæður kraftur undirdjúpanna:
rífandi heift eða gígur af brennandi þrá?,
eldhaf eyðileggingar eða fæðing nýrrar jarðar?

þriðjudagur, 10. febrúar 2015


líf jarðar

máninn skein á mitti og baðm mildrar nætur
svo ung jörð og frjó glitraði í döggvaðri slóð

vínviðurinn bar kaleik fylltan blóði að himni
í drukknum söng sínum, glöðum og helgum

ævi mannsins er draumur í hjarta dýrsins
og fiskibein, fært á land úr djúpum hafsins

ég veit ekkert um tilvist guðs og sálar,
og þekki hvorki auglit anda né grímur vætta

en leið mín liggur meðfram óvissu og efa,
í fylgd glaðværðar og galdra undrunar og þrár

svo fylgið mér bræður og systur, sláist með í för,
því lífið er lofgjörð frá morgni til hinnar eilífu nætur

mánudagur, 9. febrúar 2015


corvus corax

í yfirgefinni torfkirkju lá gamalt, brostið altari
sem bar sér nú engin merki nýlegrar guðsþjónustu,
að frátöldum skínandi glampa af handfylli silfurpeninga,
slitinni sálmabók og bleksvörtum fjöðrum við opinn glugga

föstudagur, 6. febrúar 2015


hurðin, hljóðfærin og skipið

ég hef aldrei gengið inn um dyr sannleikans;
ég hef aðeins lappað upp á hjarirnar
og málað hurðina spurningum

ég hef aldrei leikið á hljóðfæri óendanleikans;
ég hef aðeins snert varlega umgjörð þeirra
og komið rödd minni fyrir í klæðningunni

ég hef aldrei siglt skipi eilífðar;
ég hef aðeins séð kjöl lagðan í mót þess
og fundið salt brimið drjúpa af landfestunum


undir himni

opnist þið vegir fram fyrir stafni,
sýnið faðm ykkar í svip atburðanna,
því dagarnir hafa leyst öll innsigli sín
og sólin snert við iðandi hringrás jarðar;
hádegið lyftir krúnu sinni yfir kvikandi hæðum


leiðarvísir

þegar þú kemur síðan að ströndinni
gakktu hjá rauðleitum táknum klettanna
þar sem þytur loftsins geymir undirleik sjávar
og öldurnar hafa hulið slóð augnabliksins í sandinum;
handan þeirra finnurðu hulinn innganginn að húsi jarðarinnar

þriðjudagur, 23. desember 2014


litir jarðar

það er orðið langt síðan ég stóð við mýrarbrunnana síðast og horfði á hvikula spegilmynd himins á botni þeirra færast yfir hljótt dýpið, eins og hugur rótlausrar veru á leið hjá veröld okkar

dagar hafa færst yfir jörðu af hreyfingu sólar; regn þeirra og öldur höggvið út myndir í steina hennar, hvert sumar fært ávexti í laufgandi hendur skóganna, einræður mánans liðið um dökk loftin af bókfellum næturinnar

hér voru eitt sinn rituð orð - elstu stafirnir hafa máðst af mánuðum og farvegum andartaksins - ólæsilegar menjar þeirra bíða í efni andrúmsloftsins og yfirborði jarðar, nú huldar mér, eins og endurtekin skilaboð aðeins ætluð þeim sem hafa ekki snert veröldina enn

mánudagur, 20. október 2014


til hvítra skýja

þar sem vindurinn nemur staðar 
undir björtu minni tunglsljóssins,
rann stígur sem ég þekkti eitt sinn

annar lá eftir fögrum morgni
eins og hreyfing reyks í vorgusti,
fylltur táknum upphafslausra mynda

sá þriðji lifir enn -
merktur hausti, merktur nótt,
djúpt í dökku blóði þíns unga hjarta

miðvikudagur, 10. september 2014


heimferð

græn ör
götuvitans
bendir heim

laugardagur, 24. ágúst 2013


rauðir skuggar

rauðir skuggar:
fallandi rúmtak jarðar
bundið í óleyst ljóshaf stjarna

tákn og stafir
úr dulmáli eilífðar
birtust næstum í andartak

síðan var eins og eitthvað
slyppi á glósvörtum vængjum
út um opinn glugga á húsi orðanna


veðurfréttir

vindurinn
feykti upp póstlúgunum
eins og til að flytja fregnir af breyttum heimi

mánudagur, 28. janúar 2013


framvinda vorsins

það bíða tækifæri í ósánum vindi;
opin birta leikur á yfirborði daganna,
eins og rísandi klettar ónuminna landa

mánudagur, 24. desember 2012


úr samtali sjávar og mána

lestu hinar brotnu dyr
blika yfir dimmum tindum;

af fljótunum, þar sem spegillinn
dró skott sitt yfir sökkvandi mána

í dökkgrænum andvara flöktandi suðurs,
með salt tindrið úr öldóttum augum sjávar

á norðurhvolfunum, þaðan sem leiftrin
falla á hulin merki hafsbotns og vinda

þar, undir hljóðum vegalengdum stjarna,
klæðist jörðin skýjum annarrar nætur

þriðjudagur, 6. nóvember 2012


raddir trommunnar

hér voru ætluð orð
en orðin urðu fyrr að tónum
og tónarnir krýndu hljóðfall bak við vindinn

í röddum þessarar trommu voru slegin form
og formin vöktu forn öfl úr viðjum jarðar
sem drógu upp ævir og árstíðir manna

og táknin runnu á hjóli tímans
svo myndir og merki spunnu net
sem fangaði um stund atvik lífsins

en þegar húmið snerti andlit mánans
var sem hvíslað væri í lauf og greinar
dulinn spádóm sem greyptist inn í fræin

laugardagur, 11. febrúar 2012


þúsund litir

það er muldur
í ljósinu

jarðvegur
sem regnið málar

þúsund litir
í spegli vorsins

sunnudagur, 1. janúar 2012


eflaust
undir regni
annarrar nætur

spyrð þú mig
hvort ár og eilífð
geymi táknmál himins

- á meðan
myndast lyklar
undir regnfallinu

mánudagur, 25. júlí 2011


án titils

í fjörunni liggur
bátur á hvolfi
í rigningu

laugardagur, 9. júlí 2011


úr óendanleikanum

undir hinum hvelfandi bogum
var dregin upp mynd yfir aðra eldri,
þú veist, eins og þegar blikandi tunglsrönd
rís yfir sofandi dýpi af minni hrynjandi stjarna;
þannig varð allt ein hending, máluð þvert yfir himininn


miðnæturklukkan

hljóðlega afvinst stirningin
yfir rjóðri miðnætur og skóga,
og eilífðin brotnar í annarri nótt

mánudagur, 28. mars 2011


vegir

hvert líf hefur sína leið,
hvert sumar eigin blik vatns og myndar,
hver nótt sinn draum og andvara í dökkum greinum

þriðjudagur, 15. mars 2011


úr minningu alheimsins

hvað er tilvist?; leiftrandi andrá sem myndast inn um tíma eins og blaktandi hlið er opnast í vorþeynum eða mánalýst strönd undir ölvaðri nótt eða stirndur sálmur dreginn upp úr silfruðu djúpi rökkurs og bláma

staður fyrir ljós og vind eða gínandi skuggsjá, leitandi myndar sinnar undir eilífri fyllingu veru og drauma; margstrent mósaík tilfinningar og efnis eða táknum hlaðinn óður rýndur yfir fjöll, vötn og sanda

þessi óljósa tilvísun í faðmi vinds og breytinga, lituð af birtingu umhverfis og innri myndar - þeirrar sem rennur í og úr víðáttunni aftan forms og rýmis, þar sem kölluð er sál; og þú stendur hér, líf þitt, eins og þúsund augnablik úr minningu alheimsins

mánudagur, 28. febrúar 2011


í ljósrofi rennandi nætur

fyrir vorið;
nafnlaus viðvera
í birtunni frá regninu

þriðjudagur, 22. febrúar 2011


þau síðustu stræti vetrar

hún stígur inn -
enn óbráðinn snjór í hárinu
og upphafið á brosi sem ég kannast við

föstudagur, 28. janúar 2011


rísandi jörð

litbrigði himins hafa opnað dyr að dýpi fljótanna
svo leirug ármynnin glitra af óteljandi sólargeislum
með öll þessi andartök sem bíða í ljóshafi morgunsins

þriðjudagur, 25. janúar 2011


endurkoma

hann hafði ekki komið þangað í nokkurn tíma, heildarmynd og einstakir þættir báru þó enn svip sinn og minni, eins og dul birta upp af niðurníddum veggjum - en eitthvað virtist öðruvísi, trén ekki aðeins hærri og vatnið horfið undir bylgjandi sefgrænu

það var eins og gamli tíminn horfði aftur frá staðnum, vaxinn að mestu frá sjálfum sér og búinn til farar, líkt og hér aðeins til að kveðja: ilmur flöktandi greina reis eins og dulmál í þykku kvöldloftinu og annað nær endurtók sig í rökkrinu

laugardagur, 8. janúar 2011


frá jörðu

fátt breytist á himnum
þó líði aldur og ævi manna;
við reyndum að skilja stjörnurnar
sem opnuðust í nótt bak við ský og drauma

föstudagur, 31. desember 2010


dulmál villimeyjanna

við vitum ekki hvort þú hafir veitt því eftirtekt, sögðu þær sem trúðu á anda og töluðu við tré og steina, en það eru áletranir í ljósaskiptunum, fótatök í ölduróti sjávar og rödd undir fallandi kvöldi sem þú greinir ekki frá andvara af döggvuðum engjum

ég sagðist ekki trúa á þess háttar og reyndi að tala ekki niður til þeirra; að minn veruleiki væri sá sem allir sæju, heyrðu og gætu fundið

fundið? gripu þær fram í og augu þeirra glömpuðu í fyrstu mánageislunum, getur þú fundið að veröld mannsins er stund sundrungar, upphaf hennar gleymt og endir röklaus?; aðeins samtal upp úr svefni, andartak bak við guð eða eldur frá nótt til nætur, dansandi logar yfir afrískum sléttum

miðvikudagur, 29. desember 2010


týndu vitringarnir

loks fundu þau hina týndu vitringa og spurðu þá, hver leyndardómur jarðarinnar væri; einn þeirra leit upp og svaraði:

það er enginn leyndardómur; allt er gefið, en skilningarvit manna nema aðeins fjarlægð og yfirborð náttúrunnar, leiksvið sagna og drauma grafið í rúm og tíma, hannað fyrir hringrás lífs og tilvist líkama

að sjá er því að blindast, að fæðast er að deyja á öðrum stað; það er enginn leyndardómur, dýpsti skilningurinn kemur innan frá, aftan hugsunar og breytinga, því fyrir hinu eilífa eru svörin án spurnar og sannleikurinn án leitar

þriðjudagur, 28. desember 2010


ferðalangurinn

slitnir skór,
gömul ferðataska
og sögur upp úr hljóðfæri

mánudagur, 27. desember 2010


hugur og heimur

tveir spekingar mættust og ræddu um heima og geima; annar sagði veröldina sprottna úr vitund sinni, hinn sagði vitund sína sprottna úr veröldinni

sá fyrri sagði: öll náttúran er vitund mín, eins og jörð undir skýjuðum tindum, veður og vindar ósjálfráðar hugsanir og aðeins botn óendanleikans endimörk sálarinnar

hinn svaraði: vitund mín er aðeins endurvarp himins á vatni jarðar, fjarræn efni sínu eins og ölduniður upphafsins eða skuggi ljóssins; leiftrandi draumur í eilífri nótt

og enn rífast þeir og deila, eins og mótsagnir af eðli máls og merkingar

föstudagur, 24. desember 2010


sáttmálinn

skyndilega lægði stórhríðina
og hvítar snjóslindrur svifu hægt til jarðar
eins og óteljandi sáttmálar eða djúpstæð fyrirgefning

laugardagur, 18. desember 2010


þrír litir úr sannfæringu

ég man að rétt fyrir drauminn þóttist ég sjá vegleysu sveipast í andránni milli djúps og misturs, hvar dyr eilífðarinnar opnuðust í skilningi sem varð aðeins fundinn í tilfinningu; þar ætlaði ég einnig jarteikn hins fyrsta veruleika, eða þess sem gaf ljósið og dró upp vindinn, og hins síðasta, eða þess sem geymir lausn himnanna og lykla næturinnar; síðan missti ég þráðinn í umrót svefnsins og allt varð að ljóði

miðvikudagur, 15. desember 2010


allt er tónlist

allt er tónlist, sagði kondúktorinn, hlustaðu út undan þér: norðurljós eða næturregn á blikkplötu eins og einleikur fiðlu upp úr bakgrunni fallandi strengja eða fjarlægra stjörnuþyrpinga;

gömul tilfinning sem gengur aftur milli fortíða eða atvik á ljósmynd eða rekadrumbur í fjöru eins og sprek úr yfirgefnu hreiðri eða minnið í hljómi tréspils;

gluggi sem veit út að birtunni eða gáróttur stígur í vorleysingum eða von eða það sem kveikir dögunina og aðgreinir tónlist frá engu;

þetta sagði kondúktorinn áður en hann sneri brúnaþungur tónsprotanum aftur að rennandi fljótum og glitrandi ísbreiðum að kvöldlagi

föstudagur, 10. desember 2010


brot úr skýjunum

það bárust raddir í blænum um ljóðskáld sem gat í eina stund hreyft við sjálfum undirstöðum tilverunnar; afhjúpað dulin minni himnanna og ráðið tákn lífsins af jörðu í leiftrandi opinberun orðsins, líkt og hinn fágætasti skrautgali veraldar hefði sest á rithönd þess og gefið upp dvalarstaði gyðja og goðmagna listarinnar í undurblíðu næturljóði, áður en hann slapp úr netháf augnabliksins - út í óleystar gátur reyks og nætur

miðvikudagur, 8. desember 2010


fuglabúrið

hvað er það sem við köllum sál nema sú stund
sem villtur rauðbrystingur svífur óvart inn
opinn musterisglugga í morgunskímunni
og flögrar örvita inn milli hofsúlnanna
fyrr en máðar hendur hafa að lokum
sleppt honum aftur upp í himnana
er opnast bak við loga sólseturs

þriðjudagur, 7. desember 2010


skírn

þegar ég kom út var orðið bjart
án þess að ég hefði tekið eftir því
og öll jörðin reifuð í voðir mjallarinnar

laugardagur, 4. desember 2010


af hæðum borgarinnar

ég man þau kvöld og nætur;
gamlar húsaþyrpingar dregnar upp
eins og leikmynd í birtu götuljósanna,
sæluvinda hríslast í blöðum suðrænna pálma,
hvernig skuggar lauftrjánna svifu yfir gangvegum,
ljósin á brúnni, hljóðin frá veitingastöðum og börum,
salt loftið, dökk hafdjúpin, undrin í óendanleika himins
og yfir jörðinni þetta loforð eða játning sem býr í ungu sumri

mánudagur, 29. nóvember 2010


að morgni

eitthvað
hefur vaxið
í faðmi nætur
og stígur nú fram
undir hinni glóandi dýrð
sem máninn lofaði í alla nótt,
og stjörnur hverfa ein af annarri
inn í geislandi slóð þessarar nýju sólar
meðan rís af náð hennar gullöld glæstra sigra

laugardagur, 20. nóvember 2010


borgin, eða fljótin við rökkrið

götur þessarar borgar eru laglínur,
leiknar af bogandi hæðum undirlagsins
líkt og rennandi frásagnir upp úr hljóði fyrri tíma
eða hin dreymandi fljót sem dansa í kvöld við rökkrið

mánudagur, 15. nóvember 2010


umbreyting

undir hjóli himnanna, milli götu og skýja,
inn um rúmtak drauma og staðlausa regnboga,
á brotnum stígum lystigarða, í flæði dagsbirtunnar,
frá undirstöðum breytileikans og tilurð morgundagsins

laugardagur, 13. nóvember 2010


vetrarmorgunn

morgunninn hefur frosið saman við stirnt næturhúmið,
andartökin líða eins og snjógustir yfir vegum;
síðan horfin bak aðra kyrrð og dýpri

miðvikudagur, 10. nóvember 2010


til næturinnar

getur þú enn lýst fyrir mér, nótt?:
hvernig rigningin hreyfist yfir götunum
í gljáandi mynstrum sem tvístrast í golunni;
hvernig hún fellur hljóðlega af þínum himnum
eins og hrapandi ljósbrot úr dimmum hljómbotni

mánudagur, 18. október 2010


veðurlýsing

nokkur brot úr skuggunum runnu saman við vindinn
en ljósgeislar fóru um leið hjá nafni hins óendanlega
og páruðu eitthvað úr eilífðinni í flæðarmál skýjanna

föstudagur, 15. október 2010


úr dimmunni

eitthvað af tímanum hefur snúist við og hverfst um líðandi stund eins og ljósöldur brotna í stirnda mergð á glæru augans

hinir miklu söngvar næturinnar vaknað af hljóðri gleymd og runnið saman við hljómandi strengjaverk náttúrunnar

og sjálfur alheimurinn, eins og endalausar breiður af ólífutrjám í vindi, þroskað aldin sín á stirndum greinum vetrarbrautanna

mánudagur, 4. október 2010


birting örlaganna

hlíðar sólar hafa risið upp
undir lýsandi hvolfum morguns;
vegi hvítum af himni beljar ótt fram
eins og flæðandi kviku úr æðum jarðar;
það er þróttur í stundinni, mátturinn og lukkan
og merkin hafa opnast yfir ljóskrýndri slóð sögunnar

miðvikudagur, 22. september 2010


haustnætur

hefurðu séð nóttina?;
þúsundir óskrifaðra ljóða
bak við rökkvuð augnlok hennar


vegir aufúsunnar

það var eins og einhver fögnuður
færðist yfir göturnar á kvöldin;
að þær hefðu lokið vinnudegi
og stefndu allar niður í bæ

miðvikudagur, 18. ágúst 2010


tré og breytingar

þarna
stóðu trén,
þessar risavöxnu
en all rósömustu lífverur,
með rætur sínar skorðaðar í jörðu,
eins og þær hefðu fundið þægilegan samastað
til að blómstra og deyja á, inn um stöðugt flæði árstíðanna


fyrir miðnætti

þægilegt
að sitja á veröndinni
kvöldið eftir heitan dag,
klukkan að nálgast miðnætti
en enn þá nokkuð hlýtt úti fyrir,
og horfa á trén hreyfast í golunni;
engin hugsun í gangi, aðeins þögult áhorf
á hægar dýfur stærstu greinanna og blaktandi laufin
rétt sjáanleg í ljósinu frá bænum og veikri birtu stjarnanna

mánudagur, 16. ágúst 2010


lofgjörð

eftir
rigninguna:
þakklætisvottur
í angan reynitrjánna

fimmtudagur, 12. ágúst 2010


ágúst

nú var orðið dimmt úti við á þeim tíma sem hann gekk vanalega heim á leið, áin í dalnum svartleit og spegillaus og eins og einhver hryllingur í trjánum; greinar þeirra þrungnar óttasleginni eftirvæntingu í vindhviðunum eins og fiðlur úr lokakafla líðandi sumars

laugardagur, 7. ágúst 2010


úr þokunni

það var dálítil þoka á strætinu sem hún gekk eftir, eins og hún hefði ratað í minningu þar sem smáatriði hafa máðst en atburðarásin stendur eftir að mestu - og að sums staðar hefðu atburðir og staðir runnið í óræðar samsetningar og umhverfið öðlast tilfinningu eða væntingu; eigið líf í samruna veruleika sem móta hverjir aðra í sífellu líkt og strandlengja og sjávarmál; og þarna gekk hún, eins og aðkomandi þáttur í eigin hugsunum; um gamalt hverfi fullt af minningum og vonum alls staðar

fimmtudagur, 29. júlí 2010


draumur öldrunarlæknisins

mig dreymdi að allir sjúklingarnir mínir, látnir og lifandi,
kæmu til mín á móttökuna ungir og hraustir að sjá,
ég man mér fannst dálítið skrítið í draumnum
að enginn þeirra virtist eiga pantaðan tíma
og einn þeirra hló bara þegar ég spurði
hvort hægðirnar væru reglulegar

miðvikudagur, 28. júlí 2010


svartur og rauður

unga nótt!
með hafið í brjóstinu
og höfuðið fullt af skýjum;
þín svefnlausa þrá og dökka ró;
- í hálfhljóðinu milli næturlestanna
rísa gljáandi strætin upp af skugganum
og einhvers staðar undir himninum fæðist von;
eins og borgarljósin lýsi upp veginn til sólarupprásar

miðvikudagur, 21. júlí 2010


úr albúminu

það vantaði nokkrar myndir í albúmið,
eins og augnablikin hefðu gleymst
og horfið aftur til eigin tíma

þriðjudagur, 20. júlí 2010


undir sunnudegi

nótt hefur farið yfir skýjum,
strætin orðin auð í þögulli bið;
bara hljóðið í laufinu við gluggann
og þær hugsanir sem nema ekki staðar
eða renna saman við slitrur hálfdraums,
gleymdar um leið án marks um tilvist sína;
hér virðist tíminn fjarlægari en nokkru sinni
líkur lágværum öldum bak við ósýnilegan skugga;
annað fjarað út; aðeins bjart rýmið í vöku morgungeislanna

miðvikudagur, 14. júlí 2010


orð eru eyjar

ef orð
eru eyjar
þegja djúpin
í óskýranlegri ró

laugardagur, 10. júlí 2010


hinsta kveðja

þegar hann vissi hver sín hinstu örlög yrðu;
að falla fyrir þessum ólæknandi sjúkdómi;
meðan hann stóð í síðustu dyragættinni
og bjóst til ferðarinnar út í náttúruna,
leit hann sem snöggvast við á okkur
eins og til að segja okkur eitthvað
mikilvægt; afhjúpa leyndardóma
sem aðeins deyjandi maður sér;
en hann sagði ekkert, ekki orð;
horfði alvarlegur upp til okkar,
en svo kom það, alveg óvænt:
brosið sem hann skildi eftir

þriðjudagur, 29. júní 2010


upphaf næturinnar

við enda suðurhúsanna
myndast af kvöldljósinu
svartur stigi úr skuggunum

miðvikudagur, 16. júní 2010


sumardagar

áhyggjulaus vindur
hreyfði við vörmu trjálaufinu
eins og mildur hafstraumur í sólbökuðu þangi

þriðjudagur, 11. maí 2010


hljómfall

stundum er eins og það sé
lágstemmd tónlist í rigningunni
eins og agnarlítil stef gleymdra tíma

mánudagur, 26. apríl 2010


hvítar nætur

það er eitthvað við íslenska sumarnótt;
einhver óræður tónn falinn í birtu og þögn
eins og himinninn búi yfir ósögðu leyndarmáli

laugardagur, 24. apríl 2010


eftir nærveru daganna

við bakkann stendur gamalt tré
og hallar yfir gáróttan vatnsflauminn
meðan áin heldur áfram að telja regndropana

föstudagur, 26. mars 2010


hundrað draumar

þegar andvari nýlaufsins fór gegn um reykvaðið nætursviðið
kviknuðu um leið hundrað draumar yfir húsþökunum
sem flögruðu stefnulausir um hljóðan blámann
eins og mannlaus bátur er losnar um nótt
og rekur áfram út á rökkvað haf


handan veru og falls

líklega er enginn staður, form eða tími;
aðeins tálsýn sem verður skynjuð
af einum og einum fáráðlingi

þriðjudagur, 23. mars 2010


inngangur

í morgunbirtunni
féllu nokkrir geislar á stíginn
líkt og til að bjóða gömlum vini góða ferð

miðvikudagur, 17. mars 2010


náttskyggni

í nótt er himinninn ókyrr
og máninn hljóður viti
milli hverfulla eilífða

föstudagur, 26. febrúar 2010


andrá

á milli strætisvagnanna
gekk andi borgarinnar
hjá biðskýlinu

mánudagur, 4. janúar 2010


röksemdir manna

helsti veikleiki
á röksemdum manna
er gefin forsenda um eigin skynsemi

fimmtudagur, 26. nóvember 2009


draumurinn

mig dreymdi dauðann í nótt; hann var ekki persóna eins og hann birtist í mörgum bókum, heldur óskýr nærvera sem leyndist bak við flöktandi hugsanir þess sem dreymir án eigin vitundar

mánudagur, 12. október 2009


svarið

ég spurði vindinn;
eftir stundarþögn heyrðist
lágvær gustur fara um hálmgresið

mánudagur, 28. september 2009


hringing

það var eins og að einhvers staðar
undan þögulu ryki gleymskunnar
slægi skírgullin bjalla að nýju


undirskrift

innan um sundurlaust
veggjakrotið í undirgöngunum
stóð ókláruð setning um hverfulleikann

mánudagur, 17. ágúst 2009


raunveruleiki

í rýminu hafa atburðirnir
horfið burt frá möguleikum líkinda sinna
og fengið stundarskjól í staðbundinni samsetningu veruleikans

laugardagur, 15. ágúst 2009


opus magnum

fegurð náttúrunnar
eins og meistaraverk
á óvart tekinni ljósmynd


blindi málarinn

það var eins og litirnir
á málverkum blinda mannsins
væru dregnir upp úr gamalli minningu

sunnudagur, 2. ágúst 2009


orðaflaumur

ég samdi ekki þennan texta;
ég fann hann fullritaðan
í uppsprettu orðanna

miðvikudagur, 29. júlí 2009


heimför

mér fannst ég heyra einhvern
raula gamalkunnuga tóna
aftarlega í lestinni


lagið

það var eitthvað fyndið við þetta lag
og leikarar blásturshljóðfæranna
urðu að gera hlé til að hlæja

þriðjudagur, 28. júlí 2009


andartak

eitt andartak
virtist fræ biðukollunnar
standa kyrrt í lofti mótlægra vinda

miðvikudagur, 22. júlí 2009


prédikunin

við dögun kom í ljós að apabúrið hafði opnast
og stuttu síðar steig óvæntur gestur upp
í prédikunarstól nálægrar kirkju

mánudagur, 20. júlí 2009


sambakóngurinn

eitt sinn var mikill sambakóngur
og í hvert sinn sem hann sveiflaði sér
duttu bananar niður úr fjarlægum trjám

laugardagur, 4. júlí 2009


samúðarskeyti

á
tundurskeytið
var rituð afsökunarbeiðni

fimmtudagur, 2. júlí 2009


upplausn

óreiða regndropanna
vakti mátt ímyndunarinnar
af andlausum svefni endurvarpsins

þriðjudagur, 30. júní 2009


vaðall

sem færi álfamál
um misturlukið morgunsef
muldraði golan milt í mjölgult húmið


náttstafir

það var rétt eins og á hverri stundu
yrði öllum silfurpeningum himnanna
varpað ofan í dökkar laugar jarðar

mánudagur, 29. júní 2009


landslag

þar sem fjallið rís
spennist jarðlendið upp
eins og þúsund tröll með þanin lungu

sunnudagur, 28. júní 2009


bergmál

hellamálverkin
eins og leiftursýnir
úr löngu gleymdum draumi

miðvikudagur, 24. júní 2009


kalkstigi á hæð

efsta þrepið í hvíta kalkstiganum
hefur leysts upp í fjúkandi duft
og runnið saman við lágskýin


afhjúpunin

aldrei vorum við nær því að ráða
hina óskýranlegu þætti tilverunnar
en í rauðu flæðarmáli hnígandi sólar

sunnudagur, 21. júní 2009


ljós í stargresinu

ljósalda kviknar af dulráðum næturstreng
og færist yfir sviðið líkt og glóandi snjóbylur
með einhvern uppsprettulausan söng á bak við sig


fyrirboði

í hlýjum eftirmiðdagsbjarma
fló agnarlítið kul og snerti laufið
líkt og fjarlægur grunur um haustið

föstudagur, 19. júní 2009


skýrof

skyndilega þögnuðu fuglarnir
og eitt andartak laukst himinninn upp
svo skógarmáninn gljáði spegilsvarta steinana


vottorð

þegar brunnurinn var tæmdur
fannst gulnaður miði innan um botnlaufið
sem á hafði verið rituð vatnsmáðu letri ólæs kveðja

fimmtudagur, 18. júní 2009


stormurinn

er veðurguðirnir lemja á skógartrumbur sínar
stígur marglitt haustlaufið hringdans
undir stórsveit breytinganna

sunnudagur, 31. maí 2009


mýrarbærinn

á kvöldin
þegar mýrarsólin hnígur
lýkst upp rauður gluggi á vesturgaflinum

fimmtudagur, 28. maí 2009


jarðsprengjur

hraunið
sefur undir mosanum
líkt og minnisvarði löngu liðinnar styrjaldar

miðvikudagur, 27. maí 2009


opið hús

brotnar rúður eyðibýlisins
bjóða inn hvítri fjallaþokunni
eins og það vilji láta gleyma sér


gömul hús

þegar hitastigið breytist brakar í timburhúsinu
eins og viðurinn sé að greina frá
minningum úr skóginum

mánudagur, 18. maí 2009


birting

dag einn - fyrr en aðrir
mun hún ganga á morgunskónum
hljóðlaus eftir mannlausum sumargötum

fimmtudagur, 14. maí 2009


fallin vígi

við annan enda húsagarðsins
stendur gamalt járnhlið hjá girðingu
sem stendur núorðið hálfopið af sjálfu sér

þriðjudagur, 10. mars 2009


ár

ekkert verður ritað í fljótin
jafnvel nöfn steinanna
týnast í elfunni

laugardagur, 27. desember 2008


næturljóð

hvítmáninn kastar
silfurlyklum
í vatnið

mánudagur, 15. desember 2008


eilíf æska

gen deyja aldregi hveim
er gott af sér
getur


einu sinni

í hverjum
lífhring náttúrunnar
birtist þessi hverfula paradís


gullmynt í ræsinu

blessunarlega getum við ekki
síað gullið úr götuvatninu
þegar það endurkastar
birtu sólarljóssins!

það væri afskaplega leiðinlegt
að tengja slíka fegurð
við græðgi

fimmtudagur, 4. desember 2008


veglýsing

fylgdu gömlu viðarbrúnni yfir regnklædda ána
aðeins utar hverfa máðir götusteinarnir
brátt sporlausir inn í hvíta þögnina
upp úr þoku og tunglskini

þriðjudagur, 2. desember 2008


segl mót bláma

næturhiminninn;
óteljandi litlar hvítar skútur
sigla hljóðlega niður dimmblátt stórfljótið

mánudagur, 1. desember 2008


sjávarljóð

þar sem hafsbotninn
hefur risið upp fyrir yfirborðið
leikur regnið um hann eins og gömul minning

miðvikudagur, 26. nóvember 2008


skýjakljúfar

nei,
þú ert
ekki vakandi,
þig er að dreyma
drauminn um borgina aftur

mánudagur, 17. nóvember 2008


sól og máni

tveimur ólíkum augum
horfir himinninn niður á jörðina;
annað fylgir lífinu - hitt starir inn í dauðann

sunnudagur, 16. nóvember 2008


vopnin

lifði maðurinn í þúsund aldir
myndi hann týna hatrinu?

lifði maðurinn í einn dag
myndi hann finna það?

föstudagur, 14. nóvember 2008


brúna viðarfiðlan

hún gleymdi aftur
viðarfiðlunni sinni
í stofunni minni;

ég hef aldrei kunnað á fiðlu,
en leggi ég hana upp að andlitinu
eins og fiðluleikari finn ég ilm skógarins
og heyri einhvern fjarlægan óm í hljómbotninum

sunnudagur, 9. nóvember 2008


allegóría/dýramessan

í gulltötrum sínum gekk vættur dýranna inn í stirndan skógarsalinn; hann sagði vorið koma aðeins einu sinni, villigrænt, að maðurinn fæddist blindur eins og hin dýrin en sæi svo aðeins það sem dugði forfeðrum hans til endurmyndunar;

hægt væri að margbrjóta heilann endalaust, minnstu brotin yrðu alltaf óbrotin og að við kölluðum okkur menn því að við fórum úr trjánum en gætum aldrei í raun yfirgefið trén alveg, því þá fengjum við ekki súrefnið og misstum andann

föstudagur, 7. nóvember 2008


enduruppgötvun

allar hugmyndir urðu í síðasta lagi til við byrjun upphafsins;
þannig séð hefur maðurinn ekki komið fram með neina nýjung,
aðeins enduruppgötvað brot af því sem gleymdist við eigin tilurð

fimmtudagur, 6. nóvember 2008


tíminn gengur í garð

í sprungum gamalla viðarbekkja
innan almenningsgarða situr tíminn
löngum stundum og bíður eftir eilífðinni

þriðjudagur, 4. nóvember 2008


óbreytilegur breytileiki

eftir láréttum strigum tímarúmsins
stíga höfuðskepnur hlutveruleikans
í óvaranlegar eftirmyndir formanna

sunnudagur, 2. nóvember 2008


ljóshaf

milli hallandi húsaraða
renna götuljósin í gullvatni
af gljáandi slembu síðkvöldanna

föstudagur, 31. október 2008


fjarlægð

sagt er að máninn
verði aldrei einmanalegri
en þegar hann lítur yfir ljósborgirnar
í fjarlægum glaumi laugardagskvöldanna


útlaginn

hulinn dulu næturhúmi
dæsir einmana vetur
á heitar rúðurnar

fimmtudagur, 30. október 2008


til gamals vinar

ég man mér fannst himinninn alltaf líta öðruvísi út
frá herbergisglugganum þínum;
eins og hann væri brotinn

mánudagur, 27. október 2008


haust

í lágum haustvindinum
andvarpar skógurinn
í brúnt laufið

fimmtudagur, 23. október 2008


jarðarför mánans

frá lygnu hyldýpinu
hljóðlaus niður

niður til
jarðar


O



flýtur milli
hafs og himins

áður en hann leggst
aðframkominn í þangið

mánudagur, 20. október 2008


ósjáanlegur aðdragandi

upphafið
er blindur blettur
á hinum sjáanlega alheimi

sunnudagur, 27. maí 2007


ályktun

veröldin er án nokkurs vafa
furðulegasti staðurinn
sem ég hef verið á

fimmtudagur, 1. febrúar 2007


óreiðulögmálið fyrir byrjendur

með hverri tímaeiningu sem líður af heimi okkar eykst glundroði í honum, þetta hefur varmafræðin sýn2t okkur, sólarorka hitar og fl$æðir um lífhvolf6ið og ljóstil36lífarar taka hana82 t5il sín og mynda kolv528yretni4 og h57ita, ófrumbjarjrtigtra lífv4ye4rur gæyða sdfér svo á þeaim fruemh4bjyarga, hreheyfa sihg og umrbreyta þaanunig s4utöðuuorku yí h2yreyfiorku u5sem hverfa5ur 5uaþa$nun5igi útr íut 5umh3verfkiieðyik oyg uonýtliusltl ekkil saftu2r vlegnkua þesyssæ ayuo%d or)keufererlið æer tesurkykli hsrilnlguursik

þriðjudagur, 24. október 2006


saga mannsins

í eilífðarmynstri tímans hafa myndast ævilangir aurslóðar af fátæku dufti lífdómsins, þar sem sögur genanna snúast í blóðmyllum jarðar, svo brot meðvitundar dreifast um draumlausan svefn náttúrunnar

eins og reikistjarna sem fýkur í veðrabrigðunum eitt skjótt tilveruskeið, þannig er maðurinn, leikinn í lifandi tónum langt í kvikuholi ótímans; hálfnóta, sem brátt greinist ekki frá endalausri hljómkviðu alheimsins

þriðjudagur, 17. október 2006


flökkusögur

í þessum stuttu og óskýru draumum
sem flökta um þröng aflíðandi strætin
á leið sinni meðfram borgartrjánum

í rjóðri skógarins langt inni í nóttinni
þar sem draugar dýrahringsins dansa
einhver ármilljón kringum lífhvolf sólar

í hverju heimilislausa tungli
sem vaknar djúpt undir sjávarganginum
og finnur sér veg í fari skýjanna, á slóð himins

mánudagur, 2. október 2006


skuggar skýjanna

kannski
það sé ekki guð
sem á að fyrirgefa okkur
heldur við sem eigum að fyrirgefa honum

þriðjudagur, 19. september 2006


samræður regnsins

'' ''''
'''' '''''''
''' ' '' '''''' '' ''

föstudagur, 15. september 2006


silfurregn á haustgreinum

það stendur einhvers staðar í hálfdraumi

að þegar vangar sjávar dansa við tunglið
í takt við kvöldljós lifandi stórborga

vakni þrá um hríð af árslöngum draumi
og flökti nakin í óskýrri birtu götunnar

- áður en hún sofni á ný

og snúi aftur inn í hjartað

laugardagur, 26. ágúst 2006


ljóð í fís-moll

andante

G ### eina öld árstíða að finna skammlíf ljós

p

F ### skógarljóð í tunglvöfnu silfurfljóti

_______led_______* led______* led_________*



G ### hlaut ég hér í týndu myrkri hafsins



F ### svölur þrestir starrar og næturgalar


_______led______* led______* led_______*



G ### við sem trúum á tímann og merkingu orða

f cresc.

F ### blekuð fjöður blæðir olíulitum ofan á skýjatjörn

_______led_________* led__________* led___________*



G ### og skynmyndir brotnar í eigin skáldskap



F ### bergmál skugganna leikur um veggi daganna

_______led________* led________* led__________*



G ### megi tregi hverfa af dimmum degi

ff diabolus infernalis

F ### viðtengingarháttur vonar og ótta

_______led_______* led_____* led______*


in tempo

G ### og haf og nótt fá stundarfrið ef finnumst við

p con affetto

F ### venusar himins æða yfir endalausan blámann

_______led________* led_________* led__________*

fimmtudagur, 27. júlí 2006


um mikilfengleika smæðarinnar

ó!

sunnudagur, 2. júlí 2006


náttúrusöngvar

í árstíðabundinni hringreið úr kringumstæðum,
endurteknum þáttum á háttum náttúrunnar
og róti fyrirbæranna fram og aftur

þóttist ég sjá í þig,
eitt sinn í ljóði

miðvikudagur, 29. mars 2006


loftárásir

stundum
hækka ég bara í tónlistinni
og þá heyri ég ekki í sprengjunum

laugardagur, 28. janúar 2006


ha?

hvernig skal hver mæla hvað,
hvenær, hvar, við hvern
og í hverra áheyrn?

sunnudagur, 15. maí 2005


24:00

í fyrndinni reyndu forverar okkar að ná taki á tímanum; þeir hentust á eftir honum í eins konar eltingarleik og þegar þróunin hafði loksins gefið þeim tímaskyn þóttust þeir geta klukkað hann; stássið hangir nú uppi á vegg eigendum til prýði eins og uppstoppað dýrshöfuð í húsi ævintýramanns

í rauninni náðu þeir honum aldrei, og tókst því síður að drepa tímann; þetta er eins og að reisa rimla utan um sjálfan sig og segjast þannig hafa fangað umheiminn

ólin er enn spennt um höndina og maður tímabundinn þannig; sá tími sem menn elta með úrum sínum er þegar úreltur þá er þeir ná honum; hamstrahjólið snýst enn; þó maður eigi dagatal eru dagar hans samt taldir og enn í dag er maðurinn fangi eigin huga en hugfanginn eftir sem áður

laugardagur, 14. maí 2005


+/-

heilinn er þrumuský sem eldingum slær niður úr
og þaðan þyrlast æðisgenginn skýstrokkur

eyðileggingarmáttur
hvirfilbylsins er
óhugnanlegur:
tré eru
rifin
upp
með
rótum
og mannvirki
jöfnuð við jörðu

takist hins vegar að hagnýta
starfsemi rafmagnstauganna
- þá ljóma heilu byggðarlögin

föstudagur, 8. apríl 2005


framhaldsleikrit

þegar ég vaknaði var morgunninn sestur í stofusófann án þess að ég hefði boðið honum inn; ég fékk mér morgunverð og virti boðflennuna fyrir mér úr nokkurri fjarlægð

allt í einu rifnaði hann í sundur og úr hamnum liðuðust persónur, mál og staðir líkt og leikrit væri að hefjast - ég steig á sviðið, enda sjálfur strengjabrúða erfða og umhverfis

laugardagur, 27. nóvember 2004


takk fyrir mig

ég hef
fengið mig
fullsaddan af
eldamennsku þinni

mánudagur, 25. október 2004


lauslæti

ég
þoli ekki
lausa enda,
eins og þegar að

miðvikudagur, 2. júní 2004


efnisheimurinn sigraður

heilar manna eru viðtæki sem nema útsendingar alheimsins;
þó öll raftæki bili um síðir halda útsendingarnar áfram
óháð eftirliggjandi ruslinu, án afláts, um alla eilífð

miðvikudagur, 26. maí 2004


út í bláinn

ég stefni í átt til sjávar, straumur minn á hin fjarlægu mið

langt frá upphafinu mun ég renna saman við
hinn óendanlega bláma handan sjóndeildarhringsins

í hinn víðáttumikla rúmsjó, þangað sem allt rennur

föstudagur, 9. apríl 2004


varnaðarorð

til þess að njóta síðunnar til fulls er nokkur kunnátta í lestri nauðsynleg; hraðlestur getur verið hættulegur; komi slys upp á er nauðsynlegt að halda ró; bið getur orðið á að hjálp berist; eigi skal stökkva um stefnulaust innandyra eður hlaupa út í óðagoti; finna margir vissa öryggistilfinningu í læstri hliðarlegu undir borði eða úti í horni; trúin um að verða bjargað eykur lífslíkur til muna

að lokum skyldi nefna að að lestri loknum mæla lesendur kínversku, öðlast meirapróf, bæta við sig 8 skilningarvitum, verða arftakar bresku krúnunnar tvisvar og kunna að spila heims um ból á trompet; ef eitthvað af ofantöldu er nú þegar á valdi eða á við lesanda er hann stranglega varaður við frekari lestri, því annars springur hann í loft upp; síðustjóri tekur enga ábyrgð á yfirhöfnum lesenda

eXTReMe Tracker