Móeiður og múmínkexið
Þegar Móeiður sá hilla undir kvöldið var eins og lætin í krökkunum minnkuðu aðeins. Alveg þar til Snorri litli skellti tveimur eldhússtólum á gólfið og grátur Myrtlu skar loftið eins og hnífur í gegnum harðfrosnar deigplötur.
„Krakkar, hvað er þetta?!“ hrópaði heimilisfaðirinn.
„Þau eru bara krakkar, Magnús minn,“ svaraði Móeiður án þess að heyra í sjálfri sér.
Af hverju var henni allt í einu svona kalt á fótunum, eins og hún hefði gengið langa leið í snjó og stormi? Heldur verri var þó þessi óþægilega kennd um að einhver fylgdist með henni úr garðinum.
Myrtla hljóp með fulla skál inn í stofu og hrasaði um legókubb, svo appelsínugul súpan slettist á sófasettið, gólfið og vegginn. Funheitur vökvinn rann á milli sófasessa og kjötbitarnir flutu í hringi á gólfinu. Móeiður fann gaddinn skríða upp leggina. Var þessi héla á rúðunni rétt áðan?
Magnús hrópaði á Myrtlu. Röddin var hvöss en deyfðist einhvern veginn á leiðinni, eins og hljóðin bærust í gegnum eitthvað þykkt. Móeiður virti húsbóndann fyrir sér. Þráðurinn í honum hafði styst verulega eftir að hann varð forseti þingsins.
Eftir að hann kom heim með framíköll úr salnum og ásakanir um að draga taum stjórnarflokkanna. Þegar hann settist niður eins og tómur pappakassi og bað Móeiði um að fylla á vatnskönnuna.
Magnús andvarpaði þegar Snorri hermdi eftir föður sínum: „Gengið er til dagskrár.“ Móeiður horfði á feðgana borða. Húðin á enni þeirra virtist einkennilega ljós og mött. Móeiður strauk yfir þunnt hár Magnúsar. Hvítt duft klístraðist við fingur hennar eins og hveiti. Þessi lykt… Var þetta vanillukeimur?
Síðustu mánuði hafði notaleg ró færst yfir stofuna um ellefuleytið. Ró sem bar ekki dramatíkina á bókasafninu, köllin í Snorra né vælið í Myrtlu. Og allra síst þetta óþolandi, stöðuga pot frá Magnúsi, sem aldrei gat verið sammála neinum. Magnús hætti fyrr ef Móeiður hvorki þrasaði né þagði alveg.
Móeiður greip um kálfann á sér. Aftur þessi nagandi þrýstingur. Þegar hún skakklappaðist á enda eldhússins fannst henni eins og líkaminn væri allur hægari og grófari. Gólfið marraði undan henni eins og stirndur freri.
Þegar Móeiður hækkaði á ofninum fannst henni eins og eitthvað stórt stæði úti í garðinum, sem hvarf samstundis og hún leit út. Aðeins spegilmynd hennar sat eftir í glugganum, breiðari og einhvern veginn lausari í sér.
Kvöldin. Þegar fjölskyldan hafði sofnað, voru bara Móeiður, norræn ævintýri og vinalegir pakkar af innfluttu barnakexi. Það var ótrúlegt hvað sætt bragð gat gert fyrir taugakerfið. Engir atburðir til að muna og undirbúa. Enginn til að skutla og sækja.
Skutla og sækja, skutla og sækja. Móeiður reyndi að róa hugann en fann aðeins sama hungur eftir þögn. Ef hún gæti gleypt allan þennan hávaða. Hún fékk sér kakósopa úr glansandi múmínbolla, en brá hversu kaldur drykkurinn var orðinn. Kakóhrönglarnir mörruðu undir tönn eins og ísinn úti í garði. Var enginn þarna úti?
Snorri hóf að tromma á matarborðið með skeið. En Móeiður heyrði ekki málmþungann skella á lakkaðri tréplötu, heldur hljóði sem líktist mjúkplasti slást utan í þéttan og sléttan pappavegg. Myrtla fór að syngja Góða mamma. Útlínur dótturinnar virtust vera upphleyptar eða eins og mótaðar ofan á líkamann.
Móeiði fannst sem hvítir veggirnir vikju fyrir blikandi ísbreiðum. Kalt og ferskt loft fyllti lungun. Ef þau gætu bara þagað í smástund. Ef hún gæti fryst heimilið í augnablik.
Hún sá fyrir sér kexpakkann sem hún faldi inni í býtibúri. Fann angan af ofnbökuðum sykri og hveiti. Heyrði næstum skrjáfið undan pappanum. Krakkarnir hrópuðu og hvolfdu úr dótaskúffum.
Ef Magnús gæti staðið upp. Þurfti í alvöru að biðja fullorðinn mann um að setja í eina þvottavél? Hvernig átti hún að vinna á bókasafninu, skrifa meistararitgerð og sinna heimilinu ef hann steig aldrei niður úr pontunni? Móeiður hafði reynt að ræða þetta, en fann hvernig ylurinn slokknaði. Hún kyngdi munnvatninu.
Ef Móeiður gæti sest upp í bíl og keyrt út í frosna auðn þar sem enginn þarfnaðist hennar. Auðn þar sem hvorki þurfti að skutla, sækja, kaupa eða biðja Magnús um að sýna vott af frumkvæði gagnvart sínum eigin börnum.
Hún hristi dofnar tærnar. Hvað var að henni? Hvert ætti hún að fara? Hún elskaði þessa fjölskyldu. Heimilið var eina skjólið hennar. Skjól frá heimi þar sem einn munnur át annan, uns ekkert sat eftir nema köld mylsna.
Það var svo sem ekki umstangið í kringum krakkana sem át eitthvað úr henni, heldur öll óvæntu brotin á því sem átti að heita flatt og fyrirsjáanlegt. Stundum var eins og ekkert af þessu væri raunverulegt. Eins og Móeiður væri pökkuð inn í myndskreyttar umbúðir á færibandi. Hún andaði djúpt. Fjarrænt surg barst ofan úr henni, eins og allar þær mótbárur sem hún hafði kyngt.
Þetta voru bara krakkar. Magnús var að koma sér fyrir í nýju ábyrgðarstarfi. Sjálfur forseti Alþingis. Fjölskyldan þurfti á Móeiði að halda. Öll mynduðu þau einn deigkenndan klump til að fletja út og móta. Til að baka og lyfta. Hún fann sætan ilminn. Það var eins og hún stæði upp við langan og mjóan bakaraofn. Þægilegur hitinn.
Voðalega náði hún góðri einbeitingu allt í einu. Hmmm… grunsamleg þögn. Hvað höfðu krakkarnir gert af sér núna? Hún leit á Snorra og Myrtlu. Voru þau að minnka eða borðið að stækka? Hana svimaði og hún greip í kantinn á borðinu. Magnús smækkaði niður í gylltan ljóma. Hreyfingar krakkanna urðu hægar og stífar.
Allt var undarlega rólegt. Móeiður skimaði með hljóðum hryllingi yfir matarborðið. Maturinn var enn þarna, en fjölskyldan sást hvergi.
Magnús, sem hafði setið með fýlusvip á móti henni augnabliki áður var horfinn. Hún leit undir borðið og stóð svo upp. Í stólnum hans lá aðeins lítill og fölur massi. Og þar sem krakkarnir höfðu setið og hrópað, mætti móður þeirra mildur keimur af vanillu yfir sams konar ljósgylltum formum.
Móeiður heyrði enn skæting barnanna og tautið í eiginmanninum. Hún hallaði sér nær. Hljóðin komu frá þessum litlu, ljósgylltu skífum. Móeiður þekkti raddir fjölskyldunnar en gat ekki skilið hvað þau sögðu áður en þær runnu alveg út í þögnina.
Móeiður ætlaði að styðja sig við vegginn en hann sveigðist undan hendinni eins og slétt karton. Formin virtust mynda litla, útskorna líkama. Tvö augu litu upp af hverri þeirra. Var þetta lítill pípuhattur efst á Magnúsarkökunni? Það var eins og Magnús reyndi að segja eitthvað, en það kom aðeins kæfð mylsna sem minnti á orðin „frumvarp“ og „frestun“.
Það verðmætasta sem Móeiður átti í þessu lífi, litla fjölskyldan hennar í Dalsmýri 17, hafði öll breyst í múmínkex. Litlar, ljósgylltar og stökkar kökur í laginu eins og persónur Múmíndals.
Þau máttu ekki brotna. Hún hagræddi múmínpabba í stólnum. Yfirborðið var þurrt og matt. Magnús var svo meðfærilegur svona. Stökkur og hljóður. Börnin voru alla vega kyrr. Móeiður fann titring innra með sér. Garnagaul. Hvaða vitleysa? Fæturnir urðu kaldir og sverir.
Iðragólið endurtók sig. Hærra og lengra, eins og gnýjandi brestur úr jökulsprungum. Munnvatnið streymdi fram. Var þetta hungur í mat eða yfirráð? Hún tók Magnúsarkökuna upp og þefaði af henni.
Svo góð lykt. Móeiður velti honum á milli handa sér. Eining og stjórn í sama munnbita. Ef hún borðaði Magnús, þyrfti hún ekki að hlusta á fleiri þingræður. Hafði hann ekki tekið sína bita úr henni?
Móeiður beit hattinn af múmínpabba: „Fyrirgefðu, Magnús minn.“
Ljós hveitiskelin splundraðist á milli gulnaðra framtanna: „BRAKRAKK-KNAKKR!“ Þurr brotin mýktust upp í munnvatninu og bráðnuðu í mjölkenndan massa sem límdist upp við mjúka góminn. Bragðið var bæði þykkt og sætt. Vanillublómin mættu daufum tónum úr rakspíra og þingbók síðasta árs.
Móeiður fann gæsahúðina aukast. En um leið fann hún undarlegan frið. Magnús var svo lítill og brothættur í hendi hennar. Ein hreyfing og allar ræðurnar myndu molna á tungu hennar. Hún hélt áfram að tyggja. Þessi þögn var ekki svo slæm.
Allt í einu var sem eitthvað væri dregið eftir eldhúsgólfinu. Hljóðið minnti á rofnandi pappa. Dauf angan af blautri mold og steinum þröngvaði sér inn í húsið. Móeiður heyrði andardrátt fyrir aftan sig. Hægt, surgandi hvæs. Lykt af mýrarfrera og rotnandi gróðri tók við.
Ljósin dofnuðu. Loftið varð dökkt og þrúgandi.
Móeiður leit við. Köld, uppglennt augu mættu henni yfir stóru og breiðu nefi. Dökkur líkaminn sveif yfir ísilögðu eldhúsgólfinu. Ljósaperurnar frusu og sprungu yfir þeim, svo gegnsætt glerið molnaði og rann eftir hörðu svellinu.
Þetta var Morrinn, hin ógnarstóra utangarðsvera úr Múmínheimum. Fætur Móeiðar hvítnuðu og kólnuðu meira en nokkru sinni.
Þetta var ekki raunverulegt. Hún var bara þreytt og svöng. Móeiður lygndi aftur augum og einbeitti sér að eftirbragði kökuhattsins sem lá eins og þykk, bráðin skán yfir tungurótinni.
En frerinn smaug í gegn þar til vanillubragðið þynntist út. Þegar Morrinn nálgaðist bjargaði Móeiður múmínfjölskyldunni sinni af stólunum.
Morrinn gekk nær. Allt húsið fylltist fannhvítri móðu. Móeiður horfði á múmínkexið í lófanum. Ef annaðhvort þeirra átti að innlima fjölskyldu hennar, þá var það hún. En hvað var að bjarga og hvað að bryðja, þegar allt fór inn um sama munn?
Gjósturinn úr vitum Morrans myndaði ísnálar í hári Móeiðar. Kökurnar frusu undir stífnuðu brosi hans.
Móeiður opnaði munninn. Lyfti höndinni. Leit á múmínkökurnar. Hún færði þær upp að vörum sér. Ekki fleiri þjóðfélagsmál þegar það þurfti að elda mat. Ekki fleiri frekjuköst og endalausar spurningar um allt og ekkert.
Morrinn starði á Móeiði. Allt í einu fann hún ekki fyrir kuldanum lengur. Líkaminn var fastur. Hún reyndi að hreyfa sig, en með hverju átaki færðist Morrinn nær.
Múmínkexið rann á brún lófans. Sex augu horfðu á Móeiði. Frosin hönd Móeiðar titraði. Mía litla hékk á brúninni og feðgarnir skammt undan. Höndin þyngdist af klaka. Ef hún héldi þeim, myndu þau frjósa. Ef hún kyngdi þeim, yrði hún sjálf að auðninni.
Móeiður fann að það var kominn tími til að sleppa. Hún lét þau falla. Eitt af öðru runnu þau úr hendinni og duttu. Tíminn hægði á sér. Hvert sekúndubrot glitraði og teygði úr sér eins og glitrandi hjarnbreiða. En með fallinu hvarf svellið úr brjósti hennar.
Móeiður beið eftir að heyra fjölskylduna splundrast á hörðu svellinu en þögnin varð aðeins þykkari. Bara hennar eigin hjartsláttur djúpt í frosnum líkama.
Hún náði að horfa niður. En hún sá ekki kökubrot, heldur sleipan hramm og þrjár fíngerðar skífur. En það var enginn Morri á móti henni lengur.
Móeiði fannst hún lyftast. Eins og líkami hennar væri stór, dökkur hóll sem sveif yfir kaldri og þögulli auðn. Eða var það Morrinn sem hafði orðið að henni?
Hún sá ekki skrímsli lengur, heldur útskúfaða veru. Veru sem engin finnsk verksmiðja gæti þrykkt á sykraðan hveitimassa. Þetta var ekki Morrinn úr sögum Tove Jansson.
Þetta var Morrinn úr hennar eigin lífi. Morri úr sömu auðn og þögn og hún hafði þegjandi þráð. Og þessi Morri, sem passaði hvorki inn í þennan heim né annan, gnæfði nú yfir miðju eldhúsgólfinu og drakk í sig hvert einasta hljóð.
Á sama tíma fann Móeiður fyrir gleymdum létti. Henni fannst sem hluti af sér ruddist fram yfir kaldar auðnir. Endalausar, þöglar sléttur úr snjó og hveiti. Hvítir firðir runnu fram í salta dali sem gljáðu af klaka og repjuolíu.
Og þarna var það. Sjálft múmínhúsið. Alveg eins og í ævintýrunum, nema að þak þess líktist því á Dalsmýri 17.
Múmínmamma veifaði Móeiði úr glugganum. Átti hún ekki að vera í vetrardvala eins og hinir? Fyrir aftan hlýlegt brosið voru fínar sprungur úr þreyttri uppskrift.
„GNARRA-RARR-GNESTR!!“ Hver var að tyggja hvern? Móeiður leit yfir auðnina. Dökkur skuggi í fjarska. Kaldar útlínur sem enginn gæti þrykkt á litla og brotna hveitiskurn. Óbakanlegt afl sem Móeiður hafði árangurslaust reynt að gleypa.
Köld hveitimóðan tók við. Hún breiddist hægt út eins og óskrifaða meistararitgerðin, hangandi yfir heimilinu. Eins og óflokkanlegt skvaldrið innan veggja bókasafnsins. Eins og fætur Móeiðar þegar Magnús lagðist í sófann með andmæli og málþóf.
Það var eins og allt rynni saman í eitt hvítt deig. Gegnumfrosna hrúgu sem innihélt ekkert nema þögn og sollnar mýrar. Móeiður fann fyrst fyrir gólfinu. Síðan fyrir glerköldum múmínbollanum. Dökkur skuggi hreyfðist fyrir glugganum. Fyrst heyrðist stakt baul úr fjarska. Síðan annað. Brakandi hljóð. Loks brutust raddir krakkanna í gegnum íshelluna.
Höfuð Magnúsar birtist hinum megin við borðið, en það vantaði mest af hárinu. Kökuliturinn vék smám saman fyrir venjulega húðlitnum. Magnús byrjaði að röfla um gólfkulda þinghússins. Var ekki hægt að splæsa í almennilega ofna í æðstu stofnun landsins?
Móeiður starði kuldalega á bóndann. Hún ruddi gólfið með starandi augum. Hún fékk sér sopa af ísköldu kakóinu, stóð upp og lagði hönd á herðar Magnúsar. Höndin var þung og köld, næstum því sleip. Öndunin bullaði og hvæsti. Magnús hrökk við eins og glært plast innan í pappaboxi. Ófriður heimilisins þagnaði undan þessu ókunna, nýja valdi.
„Maggi, þrífðu sófann. Ég kem krökkunum inn. Síðan horfum við á mynd. Það er komið að mér að velja.“ Rödd Móeiðar var í senn hlý og köld, deigmjúk og bökuð. Þetta voru ekki spurningar, heldur staðreyndir.
Magnús fraus í ósýnilegri pontu. Hann sá ekki konuna sína, heldur stóran, keilulaga massa rísa yfir sér eins og brúnan pott úr búsáhaldabyltingunni.
Magnús greindi engan háls á Móeiði og hendurnar minntu á frosna trjáboli. Húð hennar var þurr og stökk, og með hverri hreyfingu fylgdi fjarlægt marr úr snævi skotnum fjörðum.
Axlir Magnúsar sigu niður, eins og líkami hans hefði þegar rofið þingið. Magnús leit þegjandi yfir stofuna, sló í ósýnilega bjöllu og fór síðan að nudda súpublettina úr stofusófanum.
Vanillulyktin fór aldrei úr gluggatjöldunum. Sum vetrarkvöld var eins og örfínt lag af hveiti hefði sest á rúðurnar, á meðan vindurinn bruddi stökka skugga í trjánum.
Og þó Magnús hækkaði í ofnunum var alltaf stór og kaldur blettur á miðju eldhúsgólfi, sem brakaði hljóðlega þegar gengið var yfir hann, eins og þurrar kexplötur að springa undan einum, samfelldum massa.

