sunnudagur, 16. nóvember 2025


Fyrsti gagnagjafinn

Tara fann ekki fyrir höndunum þegar hún setti upp hjálminn. Hvað ef þetta færi allt úrskeiðis eins og hjá fyrsta simpansahópnum fyrir tveimur árum? Tara mundi enn flöt andlit dýranna. Óétnu bananana.

Davíð, aðalforritari G&G, hafði útskýrt hvernig afkóðun tilfinningalega hlaðinna knippa myndi skapa gríðarlega verðmæta rafmynt. Hvernig lærð mynstur í limbíska kerfinu röðuðust saman í einstaka stafræna miða.

En vissi einhver hvaða tækni G&G hafði undir höndum? Hvað hún gerði við fólk? Jú. Tara hafði séð þróunina. Þrotlausa útreikninga og dýratilraunir.

Hún gat þetta. Kvíði hennar var mun hættulegri en sjálf gagnagjöfin. Kvíði sem hafði eyðilagt svo mikið fyrir Töru. Fyrir þeim Hlyni.

Alda hafði komið með sorgarsvip til Töru og sagt „freku kellingarnar í mannauðsdeildinni“ hafa dregið upp nöfn nokkurra starfsmanna sem voru „ekki í arðbæru jafnvægi fyrir reksturinn.“

Stuttu síðar bauð Tara sig fram sem fyrsti gagnagjafinn á sínum eigin vinnustað. Var eitthvað að henni? Já, þess vegna var hún þarna. Eins og Hlynur sagði: „Byrja heima fyrst.“

Hlynur, kærasti hennar til sjö ára, sat í rauðum hægindastól fyrir aftan fjarfundabúnaðinn. Eins gott að hann yrði ekki í mynd, ógreiddur og með akrýlsletturnar í snjáðum stuttermabol.

Akrýlmálningu sem Tara hafði greitt að mestu fyrir síðustu ár, ásamt aðföngum og leigu á vinnustofu, svo Hlynur gæti málað fleiri draumkennda fjallgarða á striga.

Skærhvítur starfsmannafatnaður fundargesta brá óþægilega sterkri birtu inn í svefnherbergið.

Norsku fjárfestarnir sátu við mahóníhringborð í öðrum Teamsglugga. Í þriðja og stærsta glugganum sást upp í nefið á Öldu forstjóra, yfir skínandi merki fyrirtækisins G&G, Gleymt og grafið.

Af hverju hafði Tara samþykkt þessa innrás inn á heimili sitt? Inn í sjálfa sig?

Alda forstjóri sló penna í voldugt rauðvínsglas svo slétt, karrígult hárið rykktist til yfir brúnuðu og gljáandi andlitinu:

„Ég vil þakka ykkur öllum fyrir hversu vel samþætting vinnu og einkalífs Töru okkar hefur gengið. Engin þörf á að stimpla sig inn í dag, Tara.“

Fundargestir hlógu. Stutt truflun á fundarstreyminu gerði hlátur þeirra undarlega skrykkjóttan.

„SKÁL FYRIR TÖRU!“

Tara kinkaði brosandi kolli á meðan hún hélt svo fast í náttborðið að eitthvað small, annaðhvort í borðinu eða í fingrunum.

Tara barðist við löngun til að setjast hjá Hlyni kærasta sínum og gráta. Nei. Þau yrðu að sjá yfirvegun. Tara hafði reynt árangurslaust að fá samþykki þessa hóps, og loksins var sú viðurkenning í sjónmáli.

„Hlynur, ertu ekki stoltur af konunni þinni?“ spurði Alda forstjóri.

Allra augu og eyru voru á Hlyni. Tara óskaði stuðnings hjá kærasta sínum með mildum og vonarríkum svip, en hann svaraði:

„Ég hef eiginlega enga trú á þessu. Ég er kannski gamaldags, en ég myndi bara vilja sjá Töru tjá tilfinningar sínar með samtali eða sköpun.“

Öldu brá greinilega. Vandræðaleg þögn á streyminu. Allt í einu var Tara svo rosalega ein.

„Hlynur…?“ spurði Tara lágt. Hún hafði reynt að opna sig fyrir Hlyni, en hafði einhvern veginn aldrei getað það. Annars færi hann líka.

„Ég er bara að hugsa um þig,“ bætti Hlynur við. „Munum að þetta fólk græðir á þessu.“

Þetta fólk? Af hverju þurfti hann að gera þetta fyrir framan alla? Hlynur vissi hve mikilvægt þetta var. Það var hann sem hafði málað Töru út í horn, þó hann neitaði að sjá það, með því að þrýsta á Töru til að vinna meira þegar leigan hækkaði.

Hlynur varð pirraður þegar Tara spurði um málverkin. Hvort hann vildi ekki auglýsa sölu eða sýningu, eða vinna aðeins í heildsölu foreldra hans.

Tara gat aldrei rætt nagandi fjárhagsáhyggjur sínar, eða þá staðreynd að hún væri að ofkeyra sig á vinnu, án þess að líða eins og hún væri að ráðast á Hlyn.

Tara horfði á græna akrýlblettinn á bolnum hans. Hlynur fengi nýja vinnustofu fyrir þetta hættulega verkefni hennar. Þá væri þessi endalausi núningur í sambandinu úr sögunni.

„Þú átt greinilega góðan mann, Tara,“ skaut Alda forstjóri inn í, augnabliksskeifan búin að snúast við. „Jæja… heyra allir vel í mér þarna á Teams?“

Tara gat stundum ekki farið ein út í búð. Hún gat ekki verið ein í tvær klukkustundir án þess að hringja og spyrja hvar Hlynur væri.

Tara skildi að þetta væri þreytandi. En stundum nagaði hana ótti við að Hlynur hyrfi einn daginn eins og faðir Töru hafði gert þegar hún var aðeins fimm ára.

„Tara. Mundu að tengja búnaðinn við Teams svo við sjáum líka, það er bara Bluetooth takkinn á hliðinni, manstu?“ sögðu andavarir á bak við skjá.

Tara leit spyrjandi á Hlyn. Hann dæsti, stóð þunglega upp og rétti fram höndina heilu skrefi frá Töru. Hún steig fram og lagði hjálminn í hönd Hlyns svo hann gæti tengt Bluetooth fyrir hana.

Upphafsskjárinn kviknaði með slagorðum sem Tara hafði sjálf tekið þátt í að búa til á markaðsdeildinni:

„G&G - Slæmar minningar brenndar til verðmætasköpunar.“

Tara lagðist niður með hjálminn. Skvaldur fundargesta. Einhver opnaði gosdós á meðan lífsmörk Töru birtust á skjánum.

Tara minnti sig á það af hverju hún var þarna. Ekki aðeins fyrir draumahúsið og svo Hlynur gæti einbeitt sér að listaferlinum.

Nei, fyrst og fremst til að losna sjálf við þessa nagandi innri rödd. Stöðuga hræðslu sem truflaði bæði vinnu og einkalíf. Tilfinningu um að vera lokuð inni, sama hvar hún var.

Sýndarveruleikinn tók smám saman yfir.

Töru fannst hún standa á litlum, huggulegum skógarstíg. Greinarnar báru ekki lauf heldur litlar myndir úr minningum. Ekki allt minni hennar, heldur það sem tæknideildin kallaði „taggaða hnúta og knippi.“

Margar minningar voru ljóslifandi. Aðrar misskýrar, eins og hún hefði ekki greiðan aðgang að þeim. Ein og ein geymdi aðeins óþægileg hljóð eða dula hreyfingu.

Á einni var Gríma frænka hennar og sjúkraliði að efast um magaverk hinnar átta ára Töru þegar hún vildi ekki grjónagraut með púðursykri. Gríma var einhvern veginn svo stór og ógnandi í minningunni.

Á næstu mynd var systursonur Töru að tæma úr þyngdarstjórnunarpennum ömmu sinnar ofan í fiskabúr Töru, því einn fiskanna væri svo þykkur. Tara gat hlegið að þessu núna.

Þarna var unglings Tara að ljúga því að foreldrum sínum að hafa ekki drukkið áfengi á árshátíð Flensborgar. Tara fann enn fyrir skömm.

Stór mynd af Hlyni kærasta á næsta tré að hrista höfuðið yfir kynningarefni sem Tara vann að fyrir G&G vegna ráðstefnu í Hörpu.

„Átt þú ekki að vakna sjö í fyrramálið?“

„Jú,“ svaraði Tara.

„Klukkan er orðin tvö sko. Stundum held ég að þú sért að gefa þig vinnunni til að þurfa ekki að byrja hérna heima.“

Hlynur hafði rétt fyrir sér. Hún hvíldi sig ekki nóg. Stundum lá hún úrvinda eftir vinnu þegar Hlynur kom þreyttur heim og talaði um að fórna hugsjónum sínum við að koma sér á framfæri. Hlynur skildi aldrei hvað hugsjónir kostuðu, einkum vegna þess að hann þurfti ekki að standa skil af þeim kostnaði sjálfur.

Hér og þar voru myndir sem Tara hafði þegar merkt með rauðu X-i, eins og þegar faðir hennar kom ekki heim eftir ferð til Kýpur en reyndist svo byrjaður með annarri konu.

Tara horfði á myndirnar þurrkast út í vélinni. Átti hún að finna fyrir einhverju strax?

Hún heyrði rödd Davíðs forritara stingast úr löngu og mjóu heyrnartólinu í hjálminum.

„Tara… Davíð hér. Þú átt bara að merkja mikilvæg knippi. Ef við tökum of mikið í einu endarðu eins og simpansarnir, manstu?“

„Já, geturðu samt leitt mig aftur í gegnum þetta?“

„Sjáðu kóðana undir myndunum. Þú átt að fara yfir þessa: 35,2: Vald sem brást, og 35,9: Vanmáttur eða önnur tilfinningaviðbrögð gagnvart ráðandi afli,“ sagði Davíð.

„Já. Já. Bara merkja þá,“ sagði Tara.

„Allur núningur í nánum samböndum gaf mikið hjá simpönsunum,“ bætti Davíð við fyrir fjárfestana. „Því þyngri reynsla, því fleiri gagnapunktar.“

Tara gekk inn í skóginn. Hún stirnaði upp við hljóð skammt frá sér. Barnsrödd. Hennar eigin.

Gömul minning um níu ára Töru að biðja bæn. Falleg birtan á myndinni. Greipar spenntar yfir koddanum. Hvenær hafði hún aftur hætt að biðja, um 17 ára aldurinn?

Allt í kringum hana var óþægileg og ágeng reynsla, hangandi á trjám eins og forboðin epli.

Tara hlustaði á saklausa röddina í minningunni. Hvaða skilning hafði hún öðlast síðan? Hún leit á gervijörðina undir fótum sér. Á gervitrén, gervihimininn. Á alvöru minningar, sumar að hverfa.

Tara sá allt í einu hvernig punktarnir tengdust. Óttinn, gróðinn, gleymskan, gervitrén, bænin, simpansarnir, faðir hennar, Hlynur og höktandi andlitin á Microsoft Teams.

Heill skógur fyrir framan hana. Þetta var yfirsýn sem Tara hafði aldrei haft. Síðan gerðist eitthvað, án þess að hún áttaði sig almennilega á því hvort það væri innra með henni sjálfri eða í þessum gerviheimi. Myndirnar lyftust um stund og hvítar, gegnsæjar línur tengdu þær allar.

Allt small saman í undurfagran kristal sem sveif yfir Töru. Hvað var að gerast? Var þetta hennar eigin skilningur eða einhver villa í gagnaferlinu?

Tara snerti kristalinn. Það var eins og hann kæmi frá mörgum stöðum í einu. Geislar úr óteljandi litum léku um opna lófa hennar. Lágvær, friðsæll hljómur virtist koma frá hálfgegnsæju yfirborðinu.

„Tara, ekki koma við þetta!“ hrópaði Davíð áhyggjufullur. Þetta hafði aldrei gerst hjá simpönsunum. „Við vitum ekki hvað þetta er. Alda, við erum komin upp í 800 einingar... eigum við ekki að hætta?“

Alda svaraði ekki, heldur horfði dolfallin á þetta furðuverk snúast í miðjum sýndarheimi.

Tara var ekki viss lengur hvar líkami hennar endaði og allt annað byrjaði. Það var aðeins þessi djúpa, óþekkta en kunnuglega ró. 

Sterk og traust tilfinning um að það þyrfti ekki að bregðast við neinu. Eins og allt væri eitt og hreyfðist í einu samfelldu flæði. Eins og Tara væri snúin heim eftir langt ferðalag.

Hjartslátturinn hægði á sér. Vöðvarnir slöknuðu einn af öðrum. Tara sneri sér í hring og horfði upp í himininn. Hún fann ekki fyrir höndunum. Hér var hún ómenguð kjarnavera.

Tara leit á allt fólkið á Microsoft Teams og á Hlyn sem birtist í öðrum glugga, en hún fann ekki sama tog innra með sér lengur. Enga yfirþyrmandi þörf fyrir staðfestingu á hugsunum sinni og líðan.

Þessa ótrúlegu tækni mátti nýta í meira en gróða. Til þess að heila. Til þess að vera. Ferlið snerist ekki um að gleyma, heldur að læra upp á nýtt.

Í fyrsta sinn þrýstu spurningarnar ekki á svör heldur fengu sitt rými í stórbrotnu gangverki. Innsæi. Traust. Flæði. Heild. Kyrrð. 

Var Tara laus við óttann? Hún brosti.

Þessi skilningur gæti fært heiminum nýjan frið. Leyft fólki, ekki aðeins að skilja, heldur að finna. Þrátt fyrir ólíkar áherslur og sjónarmið. Þrátt fyrir togstreitu og mótsagnir. Þrátt fyrir ágreining og þjáningu sögunnar.

Hlynur iðaði í stólnum. Ef hann gæti málað mynd af þessari uppljómun, myndi fólk sjá hæfileika hans. 

Alda leit á Davíð, sem yppti öxlum. Enginn hafði talað um neinn kristal. Hve fallegur og skínandi… Hve verðmætur.

„Taktu hann, Davíð.“ Frekjuleg rödd Öldu gall úr Teamsglugganum og rauf dulmagnaða þögnina. Orðin virtust bergmála í sinni eigin vigt.

Tara spenntist upp. Lífsmörkin breyttust. Kristallinn blikkaði. Lítil rifa kom á himininn. 

„En Alda, við vitum ekkert hvort...“ byrjaði Davíð.

„Davíð, núna! Taktu kristalinn!“ hrópaði Alda.

Skruðningar í hljóðrásinni, síðan fór hljóðið alveg af. Slökktu þau á því? Við tók löng, grunsamleg þögn.

Allt í einu hristist jörðin. Sprungan á himninum stækkaði. Skömmu síðar hófst skyndilegur vélargnýr og stórir, gráir armar liðuðust upp úr sýndarskóginum. Hver armur endaði í hvössum, málmkenndum pinnum sem stungust út í allar áttir.

„Nei!“ hrópaði Tara. Hún reyndi að skýla kristalnum frá örmunum en þeir hrintu henni niður í jörðina.

Pinnarnir á örmunum læstust kröftuglega um kristalinn og boruðu sig inn í hliðar hans með ærandi hvellum. Teamsglugginn dökknaði svo aðeins útlínur Öldu og hinna sáust á meðan. Þegar Tara stóð aftur upp rykktu armarnir kristalnum upp í stækkandi gatið á himninum.

Tara sá stakt brot falla úr kristalnum, og lenda á milli trjátoppana. Myndirnar á greinunum glitruðu í augnablik.

Síðan tók aðeins við stafræn þögn á milli hjartslátta, grafin í aðra, raunverulegri þögn.

Eitthvað mikilvægt var horfið. Tekið frá henni. Ekki aðeins minning, heldur áttaviti. Tara starði á gatið á himninum. Stórt, ágengt gat sem hafði ekki einungis gleypt fortíðina, heldur framtíð hennar líka.

Sýndartrén virtust dekkri og sveigðari, næstum því lifandi. Myndirnar voru daufari, lokaðri. Hvíslið á Teams virtist koma í gegnum þykkan hjúp.

Töru fannst hún snúast í kringum botnlaust tóm. Tilfinningin var eins og líkami hennar teygðist í allar áttir í einu, þvingaðist á milli óteljandi sjónarmiða eins og dofinn og skutlandi pendúll, án þess að geta nokkurn tímann lent. Þessi heimur var orðinn jafn raunverulegur og sá sem hún reyndi að flýja.

„Tara... Þessi var stór, vinan,“ heyrðist í Öldu.

Tara leit á Teams. Hvað höfðu þau gert? Hún horfði á litla kristalsbrotið sem hafði fallið við minninguna af biðjandi stúlkunni. Einu leifarnar af þessum brotna djúplykli. Stúlkan spennti greipar yfir koddanum, en Tara heyrði ekki lengur í henni.

„Tara mín, er allt í lagi?“ heyrðist í Öldu, mýkra en áður.

Þetta fólk hafði notfært sér hana. Þau höfðu ekki aðeins tekið af henni slæma reynslu, þau höfðu rænt af henni eina möguleikanum á bata.

Tara vissi ekki fyrir hvern hún var þarna lengur. Hvernig hún átti að taka ákvarðanir. Það sem áður geymdi þörf á stöðugri viðurkenningu hýsti nú nýja tegund af stefnuleysi. Hylki án innihalds.

Átti Tara að snúa aftur til sama lífs eða halda áfram að fletta ofan af því hver hún var í raun og veru? Hvað gat komið í stað hreyfils úr ótta?

Hún gekk áfram, myndirnar voru óskýrari en áður. Þó kunnuglegt akkeri væri horfið, fann hún að hugsunin hafði aldrei verið skýrari. Hraðari. Sjálfstæðari. Afkastameiri.

Það voru tækifæri í þessari stöðu. Ef heimurinn var aðeins markaður, var komið að skuldadögum. Stundum þurfti að brenna til að skapa ný verðmæti.

Þarna var mynd merkt: „11,2: Óvænt rof eða sundrun á nánu vináttusambandi á mótunarárum.“

Teamsliðið glennti upp augun. Enn fleiri einingar? Hlynur leit glottandi út um stofugluggann. Þetta viðskiptalið skildi ekki hvað alvöru verðmæti voru. Síðan kíkti hann aftur á skjáinn. Það sem hann gæti málað fyrir peninginn. Eitthvað sem skipti raunverulega máli.

Tara dró andann djúpt og um leið varð myndin fyrir framan hana skýr.

Viktoría, fyrsta og eina vinkona Töru í grunnskóla. Minningin var frá deginum sem Tara heyrði óvart Viktoríu segja fimleikastelpunum að Tara væri „skíthrædd við allt,“ og hermdi síðan eftir Töru þegar stóru stelpurnar læstu hana inni á litla klósettinu.

Hve niðurlægjandi. Hálsinn þrengdist, hún fann ekki fyrir fótunum.

„Svo á hún enga vini,“ bætti Viktoría við áður en myndin hvarf undir móðu.

Viktoría hékk eftir þetta með fimleikastelpunum í frímínútum. Hún sagðist vera upptekin eftir skóla. Tara var mikið ein. Jafnvel þó hún segði Viktoríu aldrei frá því að hafa heyrt samtalið.

Tara horfði á Teamsgluggann, þar sem norsku fjárfestarnir kinkuðu kolli. Hvaða einingaverð fylgdi tilfinningu um að vera einskis virði?

Hlynur. Vafði hann henni um fingur sér líka? Á sama tíma og hann sagðist fyrirlíta viðskipti og talaði niður gráðu hennar í markaðsfræðum, héldu hennar laun þeim báðum uppi.

Hún horfði á minninguna eyðast. Tara reyndi að muna eftir tilfinningunni sem hafði fylgt kristalnum, en hún kom ekki. Aðeins löng, hol hreyfing sem geymdi hvorki von né ótta.

Fólk hafði sagt Töru að hætta að hafa áhyggjur, en enginn gat sagt henni hvernig.

Tara sótti fram, leitandi að kvöldi sem hafði verið á stöðugri endurspilun síðan hún var 17 ára.

Þarna.

Vinnufélagar Töru á Teams litu undan, og einn norsku fjárfestanna féll í yfirlið ofan á mitt mahóníborðið. Alda sjálf klökknaði og lagði lófann á skjáinn.

Tara ein vissi hvaða áhrif atvikið hafði haft á traust hennar. Á hvernig hún talaði. Hvernig hún leit í kringum sig þegar hún fór út. Minnkaði.

Þegar myndin eyddist sveigðist flöturinn í ógreinilega, svarta grind. Skuggi mannsins á myndinni rann saman við sortann sem bruninn skildi eftir sig.

Tara mundi ekki lengur eftir röddinni. Lyktinni. Þéttu handtakinu.

Þar sem árum saman höfðu setið skömm og sjálfsásökun, hreiðraði nú um sig hol og hreinsuð skynjun, sem hvorki var né var ekki, eins og sýndarskógurinn fyrir framan hana.

Tara reyndi að muna hvað hafði verið á myndinni. Örugglega eitthvað slæmt miðað við fagnaðarlætin á Teams. Klappinu fyrir henni. Óteljandi einingunum. Árangrinum.

„Tara, þú verður starfsmaður ársins með þessu áframhaldi,“ sagði Alda björt og brosandi.

Hvöss rödd Hlyns barst af næsta tré. Minning frá 35 ára afmæli Töru um daginn:

„Þú ert ekkert að gera þetta fyrir peninga. Þú ert að gera þetta fyrir öryggi sem þú hefur aldrei fundið. Sem þú finnur aldrei, og þú veist það. Nema hjá mér.“

Aldrei fundið? Hún hafði einmitt fundið öryggið. Það var enginn ótti eftir.

Þrusk. Hún leit við.

Hlynur að tala um litinn á móbergsstöpunum á málverki í vinnslu. Hvaða skynhrif hann vildi vekja í hugum fólks. Það var þessi Hlynur sem hún hafð fallið fyrir, sá sem ætlaði að snerta litina innra með fólki. Eins og hann hafði snert við einhverju í henni, sem hún hafði sjálf ekki aðgang að.

Tara reyndi, en hún fann ekki þessa hrifningu lengur. Hafði vélin rænt henni, eða Hlynur séð um það sjálfur? Með því að láta allt snúast í kringum sjálfan sig. Suma daga kom hann engu í verk. Hann þurfti peningana hennar.

Önnur minning. Hlynur að selja frænda sínum fjallamynd með miklum afslætti en kvarta svo undan tilætlunarsemi fólks þegar frændinn var farinn.

Tara hrökk við. Þessi setning Hlyns um tilætlunarsemi geymdi svarið. Aðferð Hlyns var marglaga. Tara sá nú í gegnum svo mörg samtöl þeirra. Persónuleg fórn og umhyggja voru aðeins á yfirborðinu. Undir niðri var stöðugur flótti frá ábyrgð. Vörpun á hans eigin óöryggi yfir á aðra. Yfir á hana.

Þetta var ekki tilfinningasemi, heldur stjórntæki. Vél sem hafði nýtt sér hana. Hlynur og G&G höfðu beitt Töru sömu brögðum.

Samkvæmt Hlyni átti Tara að hætta flóttanum. Ytri lausnir myndu aldrei veita skjól gagnvart storminum að innan. Um leið átti hún samt að finna þetta skjól í honum.

Tara horfði á myndirnar eyðast. 4000 einingar. 

Rödd Hlyns enn og aftur, en ekki úr neinni minningu:

„Tara! Tara! Ertu þarna? Þetta er búið.“

Hún datt niður. Opnaði augun. Trjágreinarnar sveifluðust undarlega hægt yfir henni. Litlar, dansandi myndir og svartir blettir á víxl í dáleiðandi mynstri sem dofnaði og hvarf.

Smám saman fann Tara fyrir rúminu aftur. Alda og aðrir fundargestir horfðu á stóran skjá með endalausum talnarunum sem frusu og blikkuðu á víxl. Síðan kom stakur, vélrænn tónn og talnarunan stöðvaðist.

Alda hnyklaði brúnir og Davíð steig tvö skref aftur. Hinir þögðu. 

Tölurnar tóku aftur við sér, svo Alda hrópaði í Teamsglugganum:

„Sjáið! Ha,ha! 10.000 einingar í hverju knippi! Tara, þú ert snillingur! Tara, er allt í lagi með þig? Þú varst æði, ég er svo ánægð með þig.“

„Mér er létt en samt svolítið dösuð einhvern veginn,“ sagði Tara.

Hlynur brosti: „Núna líður þér betur, elskan. Núna geturðu komið aftur til mín.“

Líður betur? Tara hugsaði um staka brotið sem hafði fallið af kristalnum. Henni fannst hún horfa á Hlyn í gegnum það. En brotið geymdi ekki heildarmyndina sem kristallinn hafði sýnt henni. Í staðinn sá hún aðeins afmarkað, aftengt sjónarhorn.

Rödd Hlyns hljómaði á annan hátt. Það sem áður hafði bæði togað og ýtt, gerði nú hvorugt.

Hver var arðurinn af þessu 7 ára sambandi? Ef hún hefði getað staðið oftar með sjálfri sér og tekið sínar eigin ákvarðanir hefði gróðinn orðið meiri.

Andlitin á Teams geisluðu. Meira að segja Alda. Tara hafði ekki séð það áður. Maturinn á borðinu fyrir framan þau stóð ósnertur. Eldri kona hrósaði Töru fyrir hugrekkið.

Tara mundi eftir risastórum kristal sem glitraði í loftinu áður en vélin tók hann. Eftir þögninni sem hann skildi eftir. En skipti það máli? Tara var hér. Hún var til. Þau sáu hana.

Um kvöldið sat kærustuparið við eldhúsborðið. Hlynur sagðist skilja hve mikilvægt þetta ferli hefði verið fyrir Töru.

Fyrir hana? Hún var að gera þetta fyrir þau bæði. Gera það sem Hlynur gat ekki gert sjálfur. Hve mikillar rafmyntar virði var allt ruglið sem hann hafði sagt við hana síðustu sjö árin?

Tara leit vandlega á Hlyn. Um stund var hún ekki viss hvort þeirra hafði farið í vélina. Röddin var óbreytt en hljómaði þó öðruvísi, eins og það væri hola í henni miðri.

Tara gat ekkert að því gert, Hlynur var ekki sami maðurinn. Hann hljómaði yfirlætislega:

„Ég veit hvað það er að gefa hluta af sjálfum mér í vinnuna, Tara. En ég hef samt aldrei fundið mig í því að selja það hver ég er, eins og þú gerðir í dag.“

Tara nam orð Hlyns án þess að finna neitt. Átti hún að hlæja? Finna fyrir óöryggi? Rífa sig niður? Hún fann ekki lengur þennan kunnuglega ótta við að vera skilin eftir. Svikin. Smáð. Yfirgefin. Ein.

„Ég vona að þú sért ánægð með árangurinn. Ég sé alla vega engan mun á þér.“

Þetta var dýrt. Tara skynjaði nýtt lag undir orðunum. Þetta var leið til að halda stjórn. Hlynur myndi ekki passa inn í veislu viðskiptaheimsins.

Töru fannst hún aldrei hafa hugsað svona skýrt áður. Hlynur vildi hafa hana næma. Til að geta notfært sér snöggan blett þegar hans eigið óöryggi tók yfir.

Þetta var ekki ást. Þetta var aðferð til að mynda 35,9, vanmátt eða önnur tilfinningaviðbrögð gagnvart ráðandi afli. Hlynur varð að fara. Tara myndi segja honum upp í fyrramálið.

Bíddu nú við… Ný hreyfing innra með henni. Sjö ára sambandið við Hlyn var sami sýndarveruleiki og G&G hafði búið til. Samansafn af tilfinningalega hlöðnum gagnapunktum.

Áralöng gremja, vangoldnar skuldir og tilfinningaleg kúgun... Hve margar einingar myndi það gefa hjá G&G? Af hverju að streitast á móti kerfi, þegar það mátti ná stjórn á því? Enginn kvíði - engin takmörk.

Tara hló svo Hlynur leit á hana eins og hún hefði misst vitið. Hláturinn var flatur og skrykkjóttur, eins og truflun í streymisveitu.

Hlynur var gullnáma. Að hugsa sér hvað Tara gæti grætt mikið á sambandi þeirra um ókomin ár. Nýjar og nýjar minningar fyrir vélina. 

Tara fór að skrifa niður leiðir til að bæta upplifunina hjá G&G. Síðan hugmyndir að skemmtilegum vinnuhittingi.

Á meðan hrærði Hlynur í sósunni og hélt áfram að segja Töru hvað henni fannst um þetta allt í raun og veru.

sunnudagur, 2. nóvember 2025


Þegar Njörður sá ljósið

Dagurinn sem Njörður Torfi sveif upp úr sjálfum sér var óvenjulegur fyrir margra hluta sakir.

Í fyrsta lagi hafði Rósgerður gamla á annarri hæð ekki enn vökvað óþefjandi blómhríslurnar í litlu stofunni sinni þó klukkan væri orðin átta að morgni. Njörður vaknaði yfirleitt hálfsjö við þruskið og þrammið í þessari fúlu skógarnorn. En ekki í dag.

Í öðru lagi svaf séra Kristján á þriðju hæð yfir sig, sá nákvæmnismaður sem hafði Njörð örugglega enn undir smásjá eftir uppgjör húsfélagsins fyrir tveimur árum. Njörður, sem bjó á fyrstu hæð og leyfði sér stundum litla kókdós í vikulokin yfir tarotspjöldum sem hann trúði ekki einu sinni á sjálfur.

Það var fleira. Þennan sunnudagsmorgun fann Njörður stakt, óopnað Georg Jensen dagatalakerti sem hann hafði óvart tekið með heim úr vinnunni, dönsku sérversluninni Mette & Matilda í Kringlunni.

Njörður hafði ætlað að skila kertinu, en síðan hljóp eitthvað í hann, sem hann skildi ekki. Njörður braut þykkt kertið varlega en ákveðið í tvennt. Með hverju númeri sem hrökk af vaxinu varð heimurinn léttari að vigt, þar til tignarlegt jólakertið splundraðist hljóðlaust í rauðum lófunum.

Njörður hélt gáttaður á ónotuðu en ónýtu kertinu og vissi ekki hvað hann ætti að gera, hvorki við vaxhrönglana né þessa skyndilegu hræringu innra með honum. Hvað hafði hann gert? Það var eins og eitthvað snerist í hringi, sem hafði lengi staðið óhreyft.

En það var ekki skapið sem léttist. Fyrst komu óvenjulegir og endurteknir kippir í hægra læri Njarðar, eins og fjörfiskur á röngunni. Síðan í vinstra læri. Áður en Njörður vissi af tókst líkami hans á loft í heild sinni, í fæðingargallanum einum saman.

Njörður komst ekki hjá því að spyrja sig, ekki aðeins hvers vegna hann svifi, heldur einnig hvers vegna einmitt nú? Út af einu litlu kerti? En hvenær braut maður viljandi Georg Jensen jólakerti með handaflinu einu saman, og hvenær lögðust forlögin á eitt í snöggt og sterkt handtak í stofusófanum? Greip Njörð Torfa skyndileg sjálfstýring, eða var þetta fyrsta meðvitaða verkið í mörg ár? Hvað var sköpun án eyðileggingar?

Njörður sveif yfir tarotbunkann. Spilið sem átti að veita spennu í líf hans eftir langa vinnudaga í Mette & Matilda, en varð að kapli sem aldrei gekk upp. Þennan morgun hafði hann dregið enn og aftur sama spilið: „Hengdi maðurinn“. Hvílíkt rugl.

Vaninn hafði gert tarotið jafn veraldlegt og raðir hinna brothættu smámuna sem hann seldi prúðbúnum viðskiptavinum daginn út og inn. Viðskiptavinum sem slepptu trítilóðum börnum sínum inn um fíngerðar gjafavörur, hlaupandi og hoppandi, hrínandi og rýtandi, gargandi og fálmandi á eftir þriggja hæða kökudisknum frá Royal Copenhagen, sem Njörður bjargaði óteljandi sinnum frá tortímingu. Ef einhver hefði ómakað sig við að þakka honum!

En nú hafði búðarborðið snúist við og Njörður sjálfur tortímt glænýju kerti frá engum öðrum en Georg Jensen, hinum danska fagurkera og silfursmið, og það af ásettu ráði. Hvílíkur glæpur! Gat Njörður látið sjá sína fölsku fingur í Mette & Matilda nokkurn tímann aftur?

En Njörður staðnæmdist ekki þar, heldur flaut upp í gegnum illa málað loftið. Alla leið upp í gegnum úldna blómapotta Rósgerðar á hæðinni fyrir ofan. Langar og mjóar greinarnar hrísluðust yfir höfði hans í dimman og dansandi frumskóg. Íbúðin virtist ganga í grænum bylgjum svo Njörð greip sama skógarveiki og þegar hann mætti ólyktinni af Rósgerði niðri við póstkassana.

Á veggnum hékk svarthvít mynd af Rósgerði ungri og skælbrosandi í Grasagarðinum með skrautblóm í hendi. Annað en illgresin sem hún dró upp og niður sameignina, og skrælnuðu nú á ósýnilegum ölduboðum stofunnar. En hvar var Rósgerður? Var hún…

Njörður leit varlega í átt að svefnherberginu. Jú, sængin hreyfðist. Hann sá pilluglas rugga á stofuborðinu: „Við alvarlegu kvíðakasti, notist sparlega!“ Tvær töflur eftir. Tvær litlar töflur sem horfðu í gegnum hann eins og dæmandi augu.

Æ Rósa, ef Njörður hefði vitað þá hefði hann aldrei hreytt í hana fyrir að tæma aldrei blaðakörfuna almennilega: „Þú skilur alltaf nokkur blöð eftir þegar ég tek við ruslinu, í hvert einasta sinn.“

Njörður liðaðist skömmustulega úr þessum aldingarði og út í sameignina, svífandi í gegnum handrið og tröppur. Kannski átti hann ekki betra skilið eftir framkomuna við Rósgerði en að marinerast um dimma gangana að eilífu? Eftir að hafa skammað gamla og kvíðna konu eins og krakkadjöflana í búðinni.

Ekki var laust við, þegar ósýnileg hönd hífði Njörð Torfa hægt og rólega upp á milli baðherbergisflísa séra Kristjáns á þriðju hæð, að Njörður prísaði sig sælan að sérann sæti ekki á skálinni einmitt þá, og tónaði eitthvað annað en Lúkasarguðspjall.

Til að bæta gráu ofan á svart myndi sérann týna því litla trausti sem enn tórði í garð Njarðar, sjálfs gjaldkera húsfélagsins, fyrir nágrannagægjur og guðlast, ekki aðeins svífandi inni hjá honum heldur kviknakinn líka!

Sami Njörður gjaldkeri og lét óvart þúsund krónur svífa upp af handriðunum í hittifyrra. Já, sömu lökkuðu handrið og Njörður hafði nú sjálfur svifið í gegnum eins og hver önnur bókhaldsskekkja.

Ekki tók skárra við, því Njörður sá litla bók, falda á bak við klósettið. Þetta var ekki Biblía sérans, heldur miklu þynnri bókmennt: „Hvernig á að þykjast, bara fyrir aðra.“

Hvor þeirra hjóna átti þessa bók? Vildi Njörður vita það? Hann hafði séð of mikið. Nágrannarnir voru jafn fastir á milli hæða og hann sjálfur.

Var von að Njörður Torfi spyrði, hvort þessi sýn öll, svífandi á adamsklæðunum einum, væri draumur einn eða dauðinn sjálfur? Ný fæðing eða refsing fyrir tarot og kókdós í vikulokin? Njörður stirnaði upp. Hvað ef þetta væri draugur hins ólifða lífs? Lífs úr skemmtunum og skyndiákvörðunum.

Nei, þá hefði Njörður betur mátt brjóta fleiri Georg Jensen dagatalakerti í illa upplýstu bakherbergi Mette & Matilda, þegar verslunarstjórinn sleikti upp hvítu loðpelsana frammi í afgreiðslu. Líf Njarðar skorti ekki aðra eins óreiðu. Líf hans var alveg nógu spennandi.

Hver var Njörður Torfi annars, að svífa svona óboðinn um einkarými annarra? Hann var þekktur fyrir allt annað en hnýsni og snudd, ólíkt kjaftaganginum við kassann; Jóhann að kaupa í Vogahverfi. Rúna að skilja við Styrmi. Hverjum var ekki sama?

Njörður tók ekki þátt í þessum félagslegu leikjum. Hann lifði bara sínu eigin lífi, laus við sýnd. Eða hvað? Átti hann nokkuð í vörunum sem hann seldi? Hvað var að lifa lífinu, og hvað að svífa í gegnum það af gömlum vana?

Njörður lyftist yfir baðgólfi sérans. Hann rifjaði upp síðustu orð móður sinnar áður en hennar kerti kláraðist:

„Mundu Njalli minn...

Láttu það vera sem þú skilur ekki.“

Þvættingur. Af hverju gaf hún honum þá þennan tarotstokk? Úps, þarna sveif Njörður í gegnum brjóstahöld prestsfrúarinnar sem héngu til þerris, á litinn eins og svikul silfurmynt.

Ef sérann sæi hann núna svifi Njörður sjálfviljugur í gegnum þakið á þriðju hæð og kæmi aldrei niður aftur til að borga neinar stolnar þúsund krónur úr hússjóðnum. Allt í lagi! Njörður hafði þurft þessar þúsund krónur. Fyrir kassa með 30 kókdósum á tilboði. Bara fyrir sjálfan sig. Var það glæpur að sjá einu sinni um sjálfan sig þegar enginn annar gerði það?

Þakið! Njörður ætlaði að grípa í spegilinn, en höndin stakkst inn í steyptan vegginn. Njörður kippti að sér hendinni. Snertingin var hvorki hrjúf né hörð, heldur mjúk og hlý.

Stakur lokkur úr hári Njarðar stakkst upp í loftið eins og dökkur kveikur. Hvað beið ofan þaksins? Myndi Njörður gleyma dögum sínum eins og Georg Jensen jólakerti sem brotnar ónotað í umbúðum sínum, ótendrað af lífinu sjálfu?

Jólakerti sem lofaði glitkornum og gylltum pökkum. Æ, var líf Njarðar ekki eitt stórt Georg Jensen dagatalakerti, sem sundraðist hægt og hljóðlaust í gljáandi umbúðum löngu áður en dagar þess voru taldir?

Njörður kallaði. Heyrði einhver, eða höfðu prestshjónin svifið út á undan honum? Höfðu dagarnir í Mette & Matilda verið raunverulegir, eða hafði Njörður líka svifið yfir gólfin þar?

Af hverju hafði hann aldrei nýtt sér 7% starfsmannaafsláttinn? Brugðið sér um stund hinum megin við borðið og fengið, aðeins í eitt skipti, að vera viðskiptavinur. Sá sem kom ekki þangað til að verða ríkari, heldur til að gefa verslunareigendum pening fyrir fallega hönnunarvöru. Hve ólík hlutskipti menn gátu hneppt á einum og sama stað!

Æ, sú freisting, þriggja hæða kökudiskurinn frá Royal Copenhagen. Neðsti diskurinn skreyttur hringjum og beinum línum, sá í miðið bugðum og beygjum og hinn efsti með skýjum og stjörnum. Hvílík dásemd að Njörður fékk það aldrei skilið! En hvað var kökudiskur án köku, annað en líkami án lífs?

Þegar Njörður sveif í gegnum húsþakið ómuðu orð móður hans aftur innan fyrir eyrnavaxið eins og spádómur:

„Láttu það vera sem þú skilur ekki.“

Kannski átti hún aldrei við að forðast það sem mennirnir skildu ekki, heldur að umfaðma það sem óaðskiljanlegan hluta tilverunnar.

Nirði Torfa fannst eins og brotið kerti ljómaði mörgum hæðum fyrir neðan sig, í fjarlægum, daufum loga.

Hafði Njörður smátt og smátt selt sína eigin vigt með vandaðri gjafavöru? Fyrir líf sem hvorki var helgað himni né jörðu? Til þess eins að sanka að sér smáaurum inn á gremjubók? Njörður leit yfir húsin og hugsaði um leynilíf nágranna sinna.

Hvar endaði sölumaðurinn Njörður Torfi Jensen og hvar byrjuðu sýningareintök af smjörgulum hrærivélum frá KitchenAid? Smjörgular. Litur ársins sögðu þau. En hvað var litur og hvað var til sýnis ef vélarnar hrærðu aldrei neitt uppi á búðarhillunum?

Já, þegar Njörður sjálfur hrærðist í hringi, dag eftir dag í sömu smjörmóðu, og þyrlaðist síðan, óviðbúinn og allt of snemma, baldinn og berstrípaður upp á milli hæða, eins og ósýnilegur reykur af brotnu og dýru dagatalakerti, hengdur og syndugur smáþjófur, svífandi í gegnum einkaeign nágranna sinna, logandi af því sem hann gat aldrei keypt í danskri sérverslun.

Vorum við ekki öll í lausu lofti í þessari tilveru, svífandi nakin í gegnum gólf og þök í lífi hvers annars? Njörður breiddi út faðminn.

Allt varð svart. Þegar Njörður fór í gegnum þakið hitnaði hann allur. Var þetta lykt af brennisteini? Húsið minnkaði fyrir neðan hann eins og þriggja hæða kökudiskur frá Royal Copenhagen að falla inn í sjálfan sig. Sérverslun Mette & Matildu rann brátt saman við hverfið hans í eitt flöktandi, lítið ljós sem logaði í tóminu.

Síðan var eins og Njörður Torfi væri aftur staddur í sérversluninni. Hann fann lykt af ilmstráum og grenigreinum. Klístur af gervisnjó á milli fingranna. Hljómmikil rödd séra Kristjáns nágranna spurði um aðventugjöf handa frúnni.

Njörður leit á jólakertin frá Georg Jensen. Hann sá engar dagsetningar lengur. Þegar Njörður talaði, fann hann ágengan bruna á tungunni, fullan af lífi:

„Þessi kerti voru að svífa inn. Þau mæla ekki aðeins dagana, heldur sjálft rýmið sem við dveljum í. Rýmið sem við gerum að húsi okkar. Að heimili. Ég á eitt svona sjálfur. Ég get slegið af svona þúsund krónum bara fyrir þig, séra.“

sunnudagur, 19. október 2025


Trefillinn

Áður en Unnar hljóp út vafði hann gulum trefli vandlega um hálsinn. Einum af mörgum sem móðir hans hafði prjónað í sama lit. Halla dóttir hans þreyttist ekki á að benda föður sínum á hve fáránlegt væri að hengja sig í þessu snjáða garni allan ársins hring, sama þó sólin skini. „Svo er hann á litinn eins og piss,“ sagði hún.

En þegar Unnar nálgaðist götuna myndaði trefillinn mjúkan skjöld fyrir kunnuglegum, köldum tönnum. „Bílarnir koma úr öllum áttum Unnar minn, eins og skríðandi dýr,“ hafði móðir hans sagt við gangbrautirnar. „Aldrei sleppa hendinni.“

Unnar gekk yfir svarthvíta gangbrautina. Hinum megin götunnar var plakat með mynd af seiðkonu sem Unnar veitti enga eftirtekt. Ef það hefðu fylgt leiðbeiningar með einkadótturinni. Tíu bindi um hvernig ala eigi upp börn.

Samt. Voru það ekki aðrir foreldrar sem þurftu leiðbeiningar? Þessir sem mættu aldrei á foreldrafélagsfundi og leyfðu börnum sínum að valsa um dimm húsasund og góna á drápstölvuleiki fram undir morgun.

En því traustari sem rammi Unnars var, því meira streittist dóttirin á móti. Var kærasti hennar, Andri eða hvað hann hét nú, angi af því sama? Skilaboð í formi gervitöffara með vaxtaræktarvöðva og liðandi snákahúðflúr á hálsinum.

Unnar staðnæmdist við annað rautt ljós. Bílarnir þutu hvæsandi hjá. Hvað sá Halla við þennan dreng? Var þetta eðlilegt mótþróaskeið nítján ára stúlku eða hafði Unnar óafvitandi stýrt dóttur sinni þangað sem hann óttaðist mest?

Unnar leit á rafmagnskassa. Annað plakat af sömu seiðkonu. Fleiri á næstu ljósastaurum. Undir myndinni var texti sem las: „Vandræði með unglinginn? Úlfhildur Brekkan, uppeldiskuklari.“ 

Hvaðan komu þessar auglýsingar? Ef það væri hægt að galdra lélega kærasta í burtu. Tengdasynir áttu að veita öryggi, ekki grafa undan því. Aldrei hefði Unnar ögrað móður sinni með uppreisnargjarnri tengdadóttur. 

Unnar fann smápeningana fleyta kerlingar í leðurpyngjunni þegar hann stökk yfir síðustu götuna. Halla gerði grín að honum fyrir að burðast á milli bæjarhluta með fullan peningaskáp í vasanum. En þegar símarnir og kortin virkuðu ekki? 

Halla var enn of ung. Hún hafði ekki lent í neinu stórvægilegu. En þurfti það endilega að gerast svo hún byrjaði aðeins að gæta sín?

Unnar staðnæmdist fyrir framan leiguíbúðina. Stofuljósin kveikt. Blátt mótorhjól fyrir utan. Tengdasonurinn var greinilega heima. Unnar lokaði augum. Honum fannst hann finna aftur fyrir hörðu gúmmísætinu titra í hægri hendi og köldu járninu í þeirri vinstri.

Unnar herti trefilinn. Hlýtt og ljóst handverkið, prjónað konu eftir konu í gegnum aldirnar til að vernda börnin fyrir bítandi frosti, lagðist þétt upp að sláandi hálsæðunum.

Einn hring um hverfið áður en hann myndi banka. Kannski hyrfi mótorhjólið á meðan fyrir tilstilli töfra. Hókus, pókus, fílí-láttu þig hverfa úr lífi dóttur minnar.

En þegar Unnar gekk fyrir horn feykti miskunnarlaus vindur trosnandi prjónaskapnum upp í loftið. Þvaglitaður trefillinn tókst á loft og bylgjaðist í loftinu. Unnar hljóp á eftir og óskaði sér að allt þetta rugl myndi hætta.

Nístandi kuldi aftan á hálsinum. „Ertu að leita að þessum?“ spurði hvítklædd kona með agnarlítil augu og enn minna nef, sú sama og á auglýsingunum. 

„Hvað ef tengdabarnið er ekki raunverulega vandamálið?“ bætti hún við. Unnar kom ekki upp orði. Var þetta sölutrix sem hún notaði á alla eða las hún í alvörunni hugsanir? Tengdabarn... Snjallt. Hún gætti sín á að nota hlutlaust orð.

„Ahh... Ég sé að þessi trefill er mikilvægur. Hvað ef hann fengi rödd? Hlýja, styðjandi nærveru, sem enginn heyrir nema þú?“ sagði seiðkonan.

Unnar virti konuna fyrir sér. Augun og nefið voru svo pínulítil að skakkur munnurinn líktist risastórum, botnlausum pytti. Hafði ósk Unnars ræst eða gerði örvæntingin hann ginnkeyptan fyrir einföldum töfralausnum?

Kuldinn gróf sig inn í herðarnar eins og agnarlitlar skrúfur í frosinn trjádrumb. „Geturðu þá látið hann hvísla svona uppeldisráð?“ spurði Unnar. Seiðkonan brosti. 

Unnar valdi því næst mjúka kvenrödd úr hljóðdæmum sem seiðkonan lék fyrir hann af eldgömlu segulbandi. Væri þetta eintómt bull var þetta þó metnaðarfyllsta bull sem hann hafði séð. Unnar hitnaði í framan.

 „Geturðu líka gert hana, hvernig á ég að orða það... svolítið svona... þokkafulla? Með svona þykkt, krullað hár og líka þú veist... eða sko í la-laginu eins og, eða þú veist...“ byrjaði hann.

„Heyrðu góði, ég rek ekki þannig þjónustu,“ svaraði seiðkonan og hvessti pínulitlu augun. Síðan frussaði hún úr hlátri svo gljáandi, klofinn úfur rykktist til og frá yfir ólgandi kokinu.

Unnar mátti ekki blikka auga þegar hún blés í langa og mjóa flautu. Trefillinn hitnaði og hristist á hálsinum við djúpan tón. Síðan fylgdu háir og hraðir tónar og trefilinn tókst mjúklega á loft. Þetta virkaði! Eða?

„Nú þarftu að vera alveg kyrr, allt í lagi?“ varaði seiðkonan við. En þegar laus þráður úr treflinum straukst við nefið á Unnari hnerraði hann á sama augnabliki og seiðkonan blés ákafan lokatóninn.

Fyrst varð allt svart. Síðan var Unnar allt í einu staddur fyrir utan leiguíbúð dóttur sinnar. Trefilinn var horfinn, en samt var enginn kuldi á hálsinum. Aðeins smávægileg þyngd á hægri öxl, næstum eins og.. gler?

Unnar leit varlega til hliðar. Agnarlítil mannvera horfði til baka úr lítilli, opinni krukku. Þetta var snyrtilega klæddur maður með há kollvik og óvenjulega máttugt yfirvaraskegg sem hringaðist yfir báðar kinnar eins og öldur í stormi.

„Hinir veikburða kjósa að kafna í öryggi fortíðarinnar frekar en að horfast í augu við kulda lífsins.“ Maðurinn talaði á þýsku, sem Unnar skildi einhverra hluta vegna allt í einu. Látbragðið var ákveðið en gamaldags.

Hvar hafði Unnar séð þennan mann áður? Augun voru djúp en brunnu af næstum óþægilegri ákefð. Áttu þetta ekki að heita hlý og hughreystandi ráð? Þetta hafði greinilega mislukkast við hnerrann. Hann kíkti í veskið, allir seðlarnir voru horfnir.

Unnar gekk burt frá íbúð dóttur sinnar, í áttina sem seiðkonan hafði birst. Bölvaður svikahrappurinn. Að hann skuli hafa fallið fyrir...

„Heigull!“ hrópaði litli maðurinn.

„Hmpf... þú ert ekki einu sinni raunverulegur,“ tautaði Unnar og hraðaði skrefum.

„Raunverulegur? Eins og úldinn trefill sem móðir þín prjónaði?“ spurði maðurinn hortuglega.

„Rugl... Það þurfa allir leiðsögn,“ svaraði Unnar.

„Meinarðu þá leiðsögn sem þú vilt heyra?“ sagði maðurinn í krukkunni með starandi augnaráði.

Unnar reyndi að ýta krukkunni af öxlinni en hún var blýföst við hann.

„Heyrðu þú þarna, hver sem þú ert. Ég þarf bara einhvern til að segja mér að hafa ekki áhyggjur. Að ég sé á réttri leið með þetta allt.“

„Með því að labba í burtu frá heimili dóttur þinnar? Af því þú sást hjól kærastans fyrir utan? Hver var það aftur sem kenndi þessari stelpu að hjóla? Heigullinn sjálfur?“

Unnar fann hita vefjast um brjóstholið. Hart gúmmí í hægri hendi, kalt járn rauða barnahjólsins í þeirri vinstri. Hún mátti ekki detta.

Unnar sneri við og bankaði á dyrnar. Fyrst heyrðust raddir, síðan tók við þögn. Andri tengdasonur opnaði dyrnar, ber að ofan og greinilega nývaknaður þó klukkan væri orðin eitt.

„Blessaður, vinur.“

Vinur? Unnar reyndi að leyna ógeðiskenndinni. Hvern var tengdasonurinn að kalla vin? Unnar reyndi að horfa hvorki á snákahúðflúrið á hálsinum né að telja línurnar á skornum kviðnum.

„Hæ, hæ, má ég koma inn?“ sagði Unnar og laumaðist til að þefa eftir vímuefnum af honum og íbúðinni til skiptis. Bara einn hjálmur. Keyrði hann ekki um með Höllu aftan á hjólinu?

Maðurinn á öxlinni spratt upp: „Nei! Ekki biðja um leyfi í þínu eigin lífi! Segðu hvað þú vilt!“ Orðin bergmáluðu innan úr krukkunni svo lítil sprunga myndaðist á botni hennar.

Unnar rétti úr sér. „Ég er kominn til að tala við dóttur mína. Farðu í skyrtu, drengur.“

Andri glotti, steig til hliðar og fór að vefja sér tóbak.

„Pabbi? Hvað er í gangi?“ Rödd dóttur hans innan af klósetti. Hljóð í rennandi vatni. Var hún að fela eitthvað?

„Halla mín,“ sagði Unnar í gegnum baðherbergishurðina. „Ég er hræddur um þig.“

Þögn.

„Sauðir skíta í sama gras og þeir éta,“ hló karlinn í krukkunni. Sprungan á botninum dreifði úr sér með fíngerðum litlum nálum sem stungu sér upp þunna glerveggina.

„Þetta er ekki að hjálpa,“ urraði Unnar yfir öxlina.

Andri hristi höfuðið og stakk tóbakinu undir vörina: „Rólegur, þetta er bara munntóbak. Það er ekki eins og ég sé að taka spítt hérna.“

„Þú ert ekki bara hræddur um dóttur þína,“ heyrðist í fyrirlitlegum tón innan úr titrandi krukkunni. „Þú ert hræddur við að stíga af þessum litla, snjáða bletti sem þú kallar hreiður. En veistu hvað?“

„Hvað?“ spurði Unnar.

„Hvað hvað?“ spurði Andri.

Karlinn í krukkunni fékk sér sæti á sprungunni og sagði rólegar en áður: „Þó snákurinn nái ekki ungum hegrans, svelta þeir ef enginn skreppur á eftir æti.“

Unnar leit á hlykkjótt húðflúr Andra og fannst um stund allur tengdasonurinn hlykkjast um í dáleiðandi, gljáandi hreistri. 

Hann svimaði, settist á trékoll og endurtók í hálfu hljóði: „Snákurinn nær ekki ungunum. Snákurinn nær ekki ungunum.“

„Djúpt... En snákar þurfa samt að borða,“ hló Andri og opnaði hvæsandi Pepsidós svo tengdafaðirinn hrökk við.

Vatnið hætti að renna inni á baði. Dyrnar opnuðust.

Halla horfði spyrjandi á föður sinn og kærastann til skiptis. Hárið svart og blautt. 

„Bíddu pabbi, trefillinn... Hvar er trefillinn þínn?“ spurði Halla.

„Manstu þegar ég kenndi þér að hjóla?“ spurði Unnar.

„Hjóla?“ spurði Halla.

„Já. Ég gat ekki sleppt hnakknum, því ég vissi að þú myndir detta,“ sagði Unnar.

„Heppin,“ sagði Andri. „Pabbi minn hélt aldrei.“

„Pabbi, hvað ætlarðu að gera þetta lengi? Þú veður hérna inn og... Það er allt í lagi hérna sko.“ Rödd Höllu sveiflaðist á milli samúðar og pirrings. Hún vafði handklæði um drjúpandi hárið.

Karlinn í krukkunni spenntist upp. Úfið yfirvaraskeggið skall hamslaust á skörpum andlitsdráttunum. Hann hækkaði róminn með hverju orði, uns orðin loguðu: 

„Núna, Unnar, núna! Rístu upp núna... eða endurtaktu sömu úrkynjuðu þvæluna aftur og aftur til eilífðarnóns!“

„Halla,“ sagði Unnar. „Ég hélt svo fast í hjólið að þú dast þegar ég hafði ekki undan hraðanum. En síðan fattaði ég. Ég var ekki að halda fyrir þig, heldur mig. 

„Pabbi....“ sagði Halla.

„Ég sleppti. Þú dast. Byrjaðir aftur. Dast. Ég fann höggin sjálfur. En á leiðinni heim hjólaðir þú á undan mér. Alla leiðina heim,“ sagði Unnar.

„Pabbi, hvað er þetta? Varstu að drekka? Hvar manstu eftir að hafa séð trefilinn síðast?“ Halla fletti upp númeri móður sinnar í farsímanum en fingurnir skoppuðu bara á skjánum.

„Eini trefillinn sem ég þarf er sá sem þú vefur um þig,“ sagði Unnar.

„Það fást treflar hérna í Hagkaup,“ sagði Andri.

„Ég fer núna,“ sagði Unnar og fann hvernig hendurnar slöknuðu.

Dyrnar lokuðust. Andri ranghvolfdi augum. Halla hringdi áhyggjufull í móður sína.

Unnar staðnæmdist við mótorhjól tengdasonarins. Hann snerti hnakkan og stýrið. Gamalkunnur kuldi vafðist um hálsinn. Umferðin virtist æða áfram í bakgrunni.

„Flott. Nú heldur hún að ég sé orðinn klikkaður,“ sagði Unnar yfir molnandi krukkuna.

„Velkominn í hópinn. 150 ár og fólk heldur mig enn klikkaðan,“ heyrðist úr krukkunni. 

Síðan starði litli maðurinn beint á Unnar: „En hún á ekki að skilja þig, heldur sjálfa sig.“

Maðurinn stökk upp úr brotunum og setti upp lítil, kringlótt gleraugu:

„Ungt fólk hlustar á þá sem eru ekki á flótta... líka þegar heimurinn er kaldur og hvæsandi.“

Maðurinn sneri upp á yfirvaraskeggið og leystist síðan hljóðlaust upp í gul og hreistruð form sem vöfðu sér í andartak um háls Unnars og runnu því næst niður göturnar eins og óteljandi hamslaus skriðdýr.

Unnar dustaði ósýnilegt ryk af öxlinni. Hann leit í kringum sig. Plakötin af spákonunni voru horfin af veggjum og staurum. Eftir sátu aðeins þrír daufir punktar og stór, bogin lína í laginu eins og skakkur, brosandi munnur.

Á leiðinni heim fannst Unnari lítið, rautt hjól hverfa á bak við hvert horn. Þó hljóðin í umferðinni væru há og hvell, beit kaldur gusturinn hann ekki lengur.

laugardagur, 11. október 2025


Áhöldin

Mímir strauk yfir fyrstu ljósmyndina af Tryggva. Fingurgómarnir námu ekki lengur slétt yfirborðið. Þessar hendur tilheyrðu einhverjum öðrum. Mímir opnaði hvert nammibréfið á eftir öðru. Bragðið lagði daufa slæðu yfir langan og mjóan ganginn.

23 ár í dag síðan Mímir þurfti að hlaupa á hinn enda sjúkrahússins þar sem barnsmóðir hans beið. Brátt stæði Tryggvi sonur hans á sömu skurðstofum og Mímir hafði sjálfur helgað sitt fyrra líf. Tryggvi. Ætlaði sonur hans að hreinsa hendur þeirra beggja? Hann hafði keypt þessa dellu sjálfur.

Mímir rölti inn á bað. Hann reyndi að hugsa ekki um skurðstofuna þegar hann veiddi lítil skæri úr snyrtitöskunni. Ekki hjálpaði daufur keimur af sápu og spritti sem hafði fylgt honum síðan snemma í hjúkrunarnáminu.

Hann sá fyrir sér svip Hákons skurðlæknis á bak við grímuna. Hákon sagði aldrei neitt um málið, sem var eiginlega verra en skammir. Vinaleg þögn Hákons var þyngri en nokkur reiðilestur.

Var þögnin af umhyggju eða sjálfsvörn? Líklega hið síðarnefnda þar sem Hákon hafði aldrei hringt í þessi tvö ár síðan hann var látinn fara. Hákon var líka dreginn inn í þetta. Þeir voru teymi. Hákon vissi um dofann.

Teymi. Nei. Hver maður stendur aleinn í hvítum hönskum yfir skurðinum sem kallaður er líf. Mímir kenndi Tryggva syni sínum að vinna með höndunum. Líka þegar hann hafði sofið lítið eftir langar vaktir. En hann kenndi syni sínum aldrei að leggja hendur á neinn. Þetta voru ekki hans gen.

Þegar þeir Hákon opnuðu sýktan skurðinn aftur viku síðar veiddi Hákon upp slímugan bómullarþráð sem aldrei ætlaði að enda. Ef Mímir hefði talið allt einu sinni enn. Hann klippti neglurnar. Hversu flókið var að telja upp að sjö? Tryggvi gat talið upp að sjö þegar hann var tveggja ára.

Enginn vissi hvort sýkingin tengdist grisjunni, en Mímir var viss um það. Samt. Ein aum grisja. Skárra ef þetta hefði verið heilt áhald. Þá hefði enginn efast. Sjúklingurinn lifði en var bundinn við hjólastól eftir þetta.

Mímir var ekki einu sinni illa sofinn eða þreyttur þegar næsta atvik henti. Hann fann bara ekki hvar skurðhnífurinn var. Atvikunum fjölgaði. Símtöl. Raddir á göngunum. Eftir brottreksturinn hætti Mímir alveg að mæla blóðsykurinn.

Stóri skugginn í baðherbergisspeglinum var ekki hann. Einhver hafði plantað niður eftirlíkingu þar sem áður dafnaði farsæll skurðhjúkrunarfræðingur. Nákvæmar hendur sem gættu sjúklingsins þegar hann gat það ekki sjálfur. Hreinar hendur. Góðar hendur. Hvernig gátu þær tengst slóð alvarlegra atvika?

Sápa, spritt og rennandi vatn. Kunnuglegar hreyfingar við vaskinn. Hákon að ræskja sig og segja eitthvað. Mími fannst hann sjá lítinn hvítan þráð sveiflast til á botninum. Hvað batt föður og son? Sykurmóðan lagðist fyrir augun eins og mjúk grisja. Af hverju hafði hann ekki mælt sykurinn svona lengi? 

Tvær hendur teygðu sig varlega úr móðunni. Unglegar og fimar hendur í mjólkurhvítum hönskum. Hendurnar svifu í hvítu myrkri þar sem brjóstkassinn hefði átt að vera. Önnur hélt á skærum, opnaði þau og lokaði með hægum takti. Hin studdi við stirndan bakka með sex glærum áhöldum.

Þegar hendurnar tóku upp skærin, mundi Mímir eftir þrýstingnum á fingrinum þegar hann klippti á fölan naflastrenginn hans Tryggva fyrir tuttugu árum. Nokkrir fingur sonarins höfðu verið krepptir frá fæðingu, eins og hann héldi sjálfur á ósýnilegum skurðhníf. Hver hafði rétt syninum hnífinn sem skar á þráð bekkjarbróðurins?

Mímir hafði sannfært sig um að allar aukavaktirnar hefðu verið fyrir þau. Hann sá það ekki þá, en skurðstofan varð að skjóli. Stað þar sem hvert handtak skipti máli, ólíkt óreiðunni handan litla gluggans. Óreiðunni eftir vakt. Hliðarmynd hans fyrrverandi sem þeysti um gólf og sagði hvernig Mímir ætti að ala upp son sinn. Son sem átti að hafa verið gerandi í einhverju eineltismáli. Mímir herti takið um skærin. Í hvaða vef hafði hann flækt hendur sínar? Gerði Tryggvi þetta í alvöru?

Mímir reif upp nýjan kleinuhringjapakka af klunnalegum ákafa. Glær þoka færðist yfir myndirnar á veggjunum. Guðsgafflarnir hurfu inn í sykrað ský sem tók á sig útlínur konu. Því fylgdi ákveðin nautn þegar allt raknaði upp í rennandi hvítar rákir. Þegar ekkert bast engu og eilífðin flaut á milli fingranna.

Mímir leit aftur í spegilinn inni á baði. Meiri þoka en áður. Skærin voru hulin en nú sást þráðurinn. Ljós strengurinn vafðist um sjálfan sig. Titringur í lófanum. Hafði einhver lagt skærin í hendur Mímis, eða hélt hann á þeim allan tímann? Hann mætti alhvítum augum yfir stórum gráum sloppi í speglinum.

Kunnuglegur þrýstingur á baugfingur þegar hann glennti skarpar brúnirnar í sundur. Hljóðið í soginu. Hanskarnir í speglinum drógu upp fölan, slímugan þráð. Var þetta naflastrengur eða raknandi bómullargrisja?

Mímir lagði skærin upp að þræðinum. Málmurinn dansaði við sláttinn í strengnum. Grímuklætt andlitið í speglinum kinkaði kolli. Hver maður var einn í sinni aðgerð. Klippa.

Þráðurinn titraði undan hvössu áhaldinu, eða voru það hendurnar sem hristust? Móðan þykknaði. Mímir sá fyrir sér þegar hann skráði sig í hjúkrun. Kvöldin sem geymdu loforð. Tryggva að læra að reima. Þreytulegan skólastjórann að líta upp frá skjalinu. Hákon að tala við nemana.

Voru þetta stakir þræðir eða ófst allt í einn risastóran vef sem var stærri en nokkur gat séð? Var hægt að klippa einn þráð án þess að rekja upp aðra? Hafði Mímir hvítu hanska, eða lá hann opinn uppi á borðinu?

Tryggvi. Mímir stöðvaði hreyfinguna. Skærin duttu hljóðlaust í vaskinn. Sumt var ekki hægt að klippa burt. Sláttur og þagnir á víxl. Saltir vefir víkkuðu og drógust saman.

Mímir reikaði inn í stofu. Hann fann ekki fyrir símanum í hendinni, fyrir utan smá þrýsting á baugfingur eins og undan augum skæranna.

Fingurnir krepptust. Tilfinning um að halda á einhverju hörðu. Mímir þurfti að losa takið með hinni hendinni. Þegar lófinn opnaðist heyrðist fjarlægur skellur.

Mímir var ekki viss hvort hann hafði í raun komið við skjáinn og stimplað inn tölurnar. Þangað til rödd Tryggva heyrðist: „Halló... Pabbi? Ég er á vakt. Ég hringi á eftir, ókei?“ Tryggvi lagði á.

Mími fannst hann anda í gegnum þrönga slöngu. Hann tók upp rykugan blóðsykursmælinn. Honum fannst hann sjá Hákoni bregða fyrir í litla stofuglugganum. Sjö nóvemberstjörnur loguðu á himni.

Þó Mímir fyndi ekki fyrir stungunni var eins og hendurnar svifu yfir óendanlegu skurðarborði. Hann kveikti á lampanum. Hrein áhöld á glitrandi silfurbakka. Svæfingin settist við tækið. Mímir heyrði dyrnar opnast þegar sjúklingurinn rúllaði inn.

sunnudagur, 5. október 2025


Hórus fer í Bónus

Það gerist ekki á hverjum degi að fornegypskur guð ranki allt í einu við sér á miðju gólfi íslenskrar lágvöruverðsverslunar, en þannig var það með hann Hórus í Bónus á Egilsstöðum.

Gylltur sandurinn hrundi af öxlum guðsins þegar ljómandi fálkahöfuðið rakst utan í kexrekkana með háværum skelli. Hórus gargaði.

„Var þetta vont?“ Hórus leit við. Lítil stúlka með hvítan bangsa í hönd. Hórus skildi hana ekki og reif upp hart bananatré með rótum til að fæla hana á brott. 

En stúlkan skríkti aðeins þegar bananarnir hrundu yfir Hórus af hvítum standinum og rétti honum bangsann sinn. Var himnaguðinn valdlaus í þessu undarlega ljóshofi?

Hórus leit í kringum sig. Hvar var hann? Hann sá aðeins endurtekið myndletur af sama bleika grísnum. Hafði föðurbani hans Set tekið á sig svínsham og hrakið Hórus til eilífrar útlegðar?

Eða, það sem Hórus óttaðist innst inni, hafði hann, himnaguðinn sjálfur, sofið alla eyðimörk og konungdóma af sér af eintómum klaufaskap frammi fyrir undarlega bleikum grísaguði?

Hórus gekk óséður fram hjá morgunkornspökkum og litríkum snakkpokum. Hann skipaði ungu pari fyrir, en þau hlógu bara og beindu logandi flötum olíulömpum að honum. Skammt frá safnaði gamall maður dýrafórnum úr hvítri, lýsandi vök. Var þetta æðstipresturinn?

„Hvar áttu heima?“ Litla stúlkan aftur. Hórus hafði ekki tíma fyrir þetta. Hann reyndi að hvessa augu sólar og mána en gat það ekki. Það var eins og eitthvað annað tæki yfir. Litla stúlkan virtist ekki aðeins sjá í gegnum guðdóminn, heldur neyða hinn mikla Hórus til að gera slíkt hið sama.

Hann tók upp þvottaefnispakka og þefaði af honum. Hórus gretti sig og henti honum á gólfið. Hvaða viðbjóður var þetta? Unglingur í svörtum hálfkufli merktum grísaguðinum gekk hjá en lét sig hverfa þegar hann mætti risavöxnum guði bíta í grænt ilmkerti og hrækja því svo á gólfið.

Í þessu hofi staflaði fólk ekki sandklumpum upp í pýramída heldur þunnum pökkum í litlar járnkörfur. Hann hló. Hvort myndi endast lengur?

En hvers vegna var Hórus þarna? Sjálfur Hórus, sonur Ósíriss, andi faraóa og verndari hins sameinaða Egyptalands. Var þetta refsing? Hafði grísaguðinn slátrað hinum máttugu guðum Nílar í himneskum bardaga á meðan Hórus lokaði auga?

Hator. Hvar var konan hans, Hator? Var hún... Hvaða tilfinning var þetta? Ekki guðleg reiði, heldur... skömm? Máttu guðir finna fyrir sorg og skömm? Hórus leit upp en mætti ekki hlýjum geislum Ra heldur flöktandi og kaldri flúrskímu sem risti sig inn í höfuð hans.

Hórus þurfti að styðja sig við hillu með bökunarvörum, svo nokkrir hveitipakkar hrundu á gólfið og þyrluðu upp þykku, hvítu skýi. Voru konungar Nílar orðnir að dufti?

Litla stúlkan datt við lætin, hruflaði sig á öðru hnénu og fór að gráta. Saklausu blóði var spillt. Hórus mundi hlutverk sitt sem verndari mannkyns.

Hórus ætlaði til stúlkunnar en maður, sem spratt úr mjólkurkælinum, gaf honum illt auga svo hann hrökklaðist í burt og þóttist skoða vítamínin í horninu. Hafði Hórus verið of upptekinn af sjálfum sér?

Hvað voru þúsundir dýrkenda þegar það eina sem hann þráði voru alvöru tengsl? Guðirnir voru líka helteknir af ímynd sinni hjá mönnum. Allt snerist um einhverjar myndir á vegg. Litla stúlkan sá ekki guð, heldur nýjan leikfélaga.

Ef hann hefði fengið að spila Mehen eins og venjuleg börn fyrir þúsundum ára. Börn sem voru löngu horfin. Það var ekki eins og Hórus hefði valið sér eilíft líf í goðsögn um föðurhefnd. Fólkið vildi átök. Hefnd. Stríð.

Var það ekki annars? Hann virti fyrir sér unga parið. Svona höfðu þau Hator verið áður en Set náði úr honum auga, Hórus gelti Set og allt fór fjandans til. Þegar Hator var bara venjuleg kona með kúahorn og drauma. 

Af hverju hafði hann samþykkt þetta blóðuga hlutverk? Fyrir mannkynið, eða til þess að trúa á sjálfan sig? Og nú var allt horfið.

Þetta múmíustand var líka þreytt. Fjarlæg, súr líkamslykt í bland við natron, léreft og gips. Lykt sem hékk í nösunum eins og þúsund ára bænasöngur. Hórus fitjaði upp á nefið. Hann sagði aldrei neinum frá útbrotunum og kláðanum sem hann fékk af þessu.

Guðdómi fylgdi djúp einsemd. Þurftu guðir að falla til að finna fyrir jörðinni? Máttu himneskar verur ekki ganga örna sinna án þess að einhver asninn þrykkti því á leirker? Hvenær vék dýrkun fyrir hreinni kúgun?

Hórusi varð óglatt. En hvað yrði heimurinn án Hórusar, guðs himneskrar verndar? Ískrandi, bilað hjól á kerru æðstaprestsins rauf guðlega einbeitinguna. Hjól? Þetta magnaða snúningsverk hefði getað sparað svolitla vinnu við að draga alla sandklumpana.

Stúlkan veifaði Hórusi í fangi föður síns. Unga parið beindi lampanum að Hórusi og hló sig máttlaust. Æðstipresturinn brosti og sagði eitthvað óskiljanlegt sem hljómaði eins og verndarbæn fyrir Hórus.

Þetta var augljóslega helgistaður þar sem fólk hittist til að deila einhverri djúpri samkennd. Ekki til að þræla af sér skinnið frammi fyrir brennandi auga Ras. Kannski var þessi nýja svínaveröld ekki svo vitlaus?

Augu Hórusar ljómuðu. Ef enginn vissi hver hann var þurfti hann ekki að hefna neins! Hórus fann hlýjan innvortis straum flæða yfir bakka sína. Það var hægt að taka Hórus frá Níl, en enginn gat náð Nílinni úr Hórusi.

Hórus smeygði sér út á milli talandi sjálfsafgreiðslukassa. Mynd hans brá fyrir á glærum fleti. En Hórus sá ekki guð, heldur fanga í fuglabúningi. Eitt risastórt, starandi fífl í bjánalegum fálkabúningi. Blóðhefnd guða og manna hafði ekki aðeins verið uppátækjasöm ástríða, heldur skilgreint hver hann var.

Nei! Ekki lengur. Hórus kastaði klæðum og gekk nakinn út í haustmyrkrið. Maður á stéttinni með glóandi reykelsi í munninum rak upp stór augu.

Grísaguðinn glotti á gulum og sléttum sandvegg. Þetta var ekki Set, heldur verndari nýs menningarsamfélags. Samfélags þar sem hver og einn gat ekki aðeins valið á milli tuttugu tegunda af súrnaðri mjólk, heldur einnig hver hann var.

„Vel spilað grís, vel spilað,“ muldraði Hórus.

Hórus sneri sér við og beygði sig inn í næsta hof, sem hafði volduga, rauða stafi: „LINDEX“.

Hórus tók upp hálfgegnsæja lendaskýlu með hlébarðamynstri. Skýlan teygðist á milli fingra hans án goðsögulegs þunga og fyrirheits um eilíft líf. Efnið var létt og teygjanlegt, ólíkt skerandi þykku líni múmíanna.

Stakur sólargeisli féll inn um gluggann. Þetta var ekki sól hins almáttuga og dæmandi Ras, heldur hlýtt ljós á himni. Ljós sem eitt sinn geymdi guðdóm, féll nú á brjóst hins frjálsa neytanda.

sunnudagur, 28. september 2025


Hjálpin

Þegar Rúnar fékk skilaboðin frá Yngva fann hann fyrir kunnuglegri lúku yfir brjóstinu. Nöturlegum, titrandi fingrum sem herptust með óáþreifanlegan dofa á milli rifjanna. En nú vaknaði enginn annar en Rúnar við hvell skilaboðin. Engin sem fannst hún vera í samkeppni við veikan æskuvin.

Vonandi tæki þetta fljótt af, síðast sofnaði Rúnar á miðri kynningu um nýja verkferla í vinnunni eftir aðra eins nótt. Það sæmdi ekki millistjórnanda að sofna á mikilvægum fundi um verkferla. Svo var Sif þarna líka; leiðin út.

Rúnar þekkti þetta tog löngu á undan Yngva. Áður en hann þekkti sjálfan sig. Togið í strengjunum. Rúnar hafði aldrei áttað sig á því hvort hann hafði fæðst með þá eða tekið þá upp á Túngötunni þegar hann sá systur sína lúffa fyrir vafasömum kæröstum. Ef hann hefði getað varið hana. En kærastarnir voru miklu eldri en Rúnar.

Rödd í þögninni spurði hvers vegna fólk gerði sjálfu sér þetta. En hver annar kæmi til Yngva? Enginn. Og þar með var kippt í brúðuna. En fann Rúnar í alvöru til með Yngva, eða sveipaði hann sjálfan sig með skikkju til að gleyma einhverju?

Rúnar hefði aldrei vingast við þennan mann í dag. En hann mundi eftir Yngva sem hafði skriðið inn um gluggann á Túngötunni þegar að meira en dyrnar voru læstar. Yngvi sem vældi ekki, heldur hlustaði með honum á heiminn.

Yngvi hafði oftar en einu sinni kennt Rúnari að standa með sjálfum sér. Síðast eftir skilnaðinn, þar sem hann fékk að gista á sófanum hjá Yngva. Einir saman á ný, tveir fráskildir menn gegn heiminum.

Rúnar mundi eftir fyrsta dramatíska skilaboðinu. Þegar Hófí fór frá Yngva með krakkana. Aftur, en í síðasta sinn. Hvernig Yngvi hafði grátið eins og smábarn á meðan Rúnar talaði í gegnum nóttina þar til sólin kæfði dauft stofuljósið.

Rúnar sá fyrir sér drapplitaða himininn þegar hann skildi Yngva eftir fyrir framan bráðamóttökuna. Þó hann væri drungalegur fylgdi honum samt djúpur ylur, eins og kvika undir jökulhettu. Sum hlutverk gefa tilgang. Ástæðu til að vera.

Rúnar stöðvaði bifreiðina. Hafði hann tekið þátt í að skapa þennan vítahring? Hvenær hafði hann orðið áskrifandi að eymd annarra? Eða var eymdin orðin áskrifandi að honum? Honum hafði tekist að sannfæra Yngva um að fara ekki aftur til sinnar fyrrverandi. Rúnar hafði tekið undir með Yngva að ekkert vit væri í sálfræðingum og læknadópi. Fyrir hvorn þeirra?

Ef það væru til verkferlar fyrir fólk, svona eins og í vinnunni. Samt. Þó þeir væru til myndi fólk ekki innleiða þá viljandi. Bryti þá í spað og kenndi öllu um nema sjálfu sér. Bara til að skapa upplifun um val. Hafði Rúnar valið sér þetta líf eða aldrei haft neina stjórn? Hafði hann rekið áfram með blekkingu viljans að leiðarljósi?

Þegar Rúnar gekk inn fannst honum stofugólfið lýsast ögn. Lykt af áfengi, lágt hljóð úr sjónvarpi. Rúnar fann aftur þykku, skrýtnu lyktina úr herbergi systur sinnar. Hann gekk hjá eldhúsi með opinni túnfiskdós og kexmylsnum, leit á rykfallinn golfbikar og hálfupplýstar krakkamyndir á veggjunum. Hálft lyfjaspjald lá undir stofuborðinu.

Rúnar þekkti þessa sviðsmynd, hreyfingarnar voru næstum sjálfvirkar. En þrýstingurinn á milli rifjanna var farinn. Átti hann ekki að finna fyrir einhverju? Var dofinn hættur eða voru þeir orðnir að einu og sama fyrirbærinu, hann og dofinn?

Neyð Yngva hafði hjálpað Rúnari að finna tilgang, en þessi sami tilgangur deyfði þá báða. Hvor hafði notfært sér hvorn? Voru þeir enn menn eða ekkert nema reykur og skuggi að þvinga sér leið yfir hverfandi, dökk ræsi?

Rúnar vissi að Yngvi lægi í sófanum. Sama sófa og Rúnar hafði sjálfur fengið að gista í eftir skilnaðinn. Hann fann næstum því fyrir slitna gorminum stingast aftur í bakið.

Rúnar heyrði innra með sér allt sem Yngvi myndi segja: Fyrst ögrandi opnunin, svo upptalning á blórabögglum. Síðan hikið, svo sjálfsvorkunnin. Síðast myndi Yngvi sofna í sófanum og Rúnar færi þreyttur í vinnuna og hugsaði sjálfur um að hverfa. 

Ef Rúnar hefði ekki alltaf verið svona upptekinn af því að bjarga heiminum gæti hann bjargað því litla sem eftir var af hans eigin lífi. Hjúkrunarfræðingurinn hafði sagt honum að passa bakið. En hvað um manninn á þessu baki?

Í þetta sinn staðnæmdist Rúnar á miðju gólfi. Yngva virtist brugðið: „Bíddu, hvar er ræðan?“ Ögrandi háðstónn vafði sér á milli orðanna. Aðferð sem Rúnar þekkti of vel. Næst myndi Yngvi neita því að leita sér hjálpar. Tala um hvernig enginn gæti hlustað nema Rúnar. Hvernig enginn annar myndi skilja. Síðan myndi Rúnar sitja í litla, þrönga sófanum þar til Yngvi sofnaði á snjáðum sófa eymdarinnar.

En Rúnar fraus. Getur maður bjargað öðrum en sjálfum sér? Hann sagði ekkert. Fann ekki fyrir neinu. Reyndi að sjá Sif fyrir sér. Hvernig var aftur lyktin af henni? Í staðinn kom í hugann fyrsta starfsmannakvöldið sem Sif mætti á. Þó Yngvi hefði ekki sent nein skilaboð, bjóst Rúnar við slíkum á hverri stundu, svo hann varð þeim mun óöruggari og endaði á því að taka óvart undir hálfrasísk ummæli Kristnýjar beint fyrir framan Sif, sem var sjálf ættleidd. Hvernig gat hann verið svona mikill aumingi?

„Rúnar?“ Yngvi hljómaði hissa yfir því að Rúnar væri ekki að spyrja um hvað hann hefði drukkið mikið. Hvort hann hefði borðað eitthvað og tekið töflurnar? Talað um draslið í íbúðinni og spurt um krakkana. Sekúndurnar liðu eins og bergmál á milli þeirra. „Rúnar, ertu þarna? Gerðist eitthvað?“

En Rúnar sagði ekki neitt og fann sjálfur hvernig stofan varð dimmari með hverju ósögðu orði. Af hverju var hann þarna? Til að endurtaka leikinn eftir tvær vikur? Til að hjálpa sjálfum sér í gegnum hinn veika? Sif myndi skilja, ólíkt Guðnýju. Sif hafði verið í ofbeldissambandi var hvíslað á kaffistofunni.

„Rúni, manstu þegar Guðný fór, hvað þú sagðir mér þá?“

„Hættu.“

„Þetta með að vera einn, innan um aðra.“

Rúnar þagði. Hvernig fór Yngvi að þessu? Var hann búinn að æfa þetta, skipuleggja flóttaleið ef leikurinn breyttist?

„Þú ert ekki einn.“

Rúnar fann ekki fyrir fótunum. Það var eins og stofan væri ekki raunveruleg. Dauf peran lýsti upp sama svið og þegar systir hans sagði að hann mætti ekki segja foreldrum þeirra frá nálunum.

„Ég get þetta ekki lengur, Yngvi. Hringdu á sjúkrabíl eða ég geri það fyrir þig.“

„Ég vissi það. Þú komst bara hingað fyrir sjálfan þig, eins og alltaf. Til að einhver annar sé auminginn.“

Göturnar voru hljóðar þegar Rúnar keyrði heim. Þó hann keyrði heim var eins og hann vissi ekki hvert göturnar leiddu. Síminn titraði. Rúnar sá byrjun skilaboðanna en opnaði þau ekki: „Ég hjálpaði þér þegar...“ Rúnar tók nýja beygju. Það var slökkt í blokkaríbúð Sifjar. Auðvitað, klukkan var þrjú. Hann hélt heim.

Rúnar fann símann titra aftur í vasanum á miðjum hádegisfundi um úrelta verkferla. Nafn Yngva á skjánum. Yngvi hringdi og hringdi aftur. Hvað var flótti og hvað að hlaupa aftur heim? Á furðulegan hátt fylgdu orðljótu skilaboðunum sem á eftir komu ákveðin huggun, næstum hreinsun.

Að vissu leyti fannst Rúnari hann eiga ásakanirnar skildar. Þau sögðu líka að Yngvi væri þarna enn. En kannski hafði Yngvi aldrei beðið um hjálp, heldur aðeins einhvern til að spyrna sér frá. Ekki til að breyta, heldur viðhalda. En hvað getur maður verið hetjan í mörgum lífum í einu?

Rúnar fór fram af hádegisfundinum og sá mann fara inn með matarbakka. Hann dró upp símann og hringdi. Þegar Rúnar kom aftur inn sungu gamlir verkferlar sinn síðasta söng yfir lyktinni af grilluðum laxi og hrísgrjónum.

Á milli rifjanna hreiðraði um sig ný tilfinning, á sama tíma þung og létt. Á meðan fyrirlesarinn talaði um að breytingar rétti Rúnar Sif litla, hvíta servíettu úr bunka á enda borðsins. Hann sá örið yfir úlnlið hennar skjótast undir ermina.

Þegar þau spjölluðu saman eftir vinnu ímyndaði Rúnar sér að Yngvi hefði opnað dyrnar fyrir faghjálpinni sem Rúnar hafði kallað út án þess að svara honum. 

Sif spurði hvað honum fyndist um breytingarnar. „Ég skil alveg þörf fyrir svona ferla, en þeir mega ekki taka yfir sjálfstæða hugsun starfsmanna,“ svaraði Rúnar mun vélrænna en hann hafði vonað.

„Nei, ég veit um nokkuð sem þeir ná ekki utan um,“ hvíslaði Sif í eyra Rúnars, skaut olnboganum í síðu hans og opnaði útidyrnar upp á gátt. Marsloftið var kalt, en ótrúlega ferskt.

„Það er gott kaffið hérna neðar í götunni.“

þriðjudagur, 16. september 2025


Heimspekistríðið í JYSK

Tjaldið opnast. 

Stólókles veður gegnsósa af vætu inn í JYSK á Norðurtorgi á Akureyri, í blárri regnkápu með skeggið grafið ofan í skyrtuna. Hann grípur um síðasta bláa sturtuhengið á sama tíma og Fornfúsíus öldungur læsir í það beinaberri krumlu.


STÓLÓKLES: Afsakið háttvirtur Fornfúsíus. Mér ferst að ónáða samborgara mína í vinsælum rúmfataverslunum. Á stað þar sem almennir borgarar ýta blárri innkaupakerru á milli tekks og tilboða, ganga náungar eins og ég og þú um í eilífri sannleiksleit. En þetta bláa sturtuhengi er mitt.


FORNFÚSÍUS: Ah, Stólókles. Við mætumst aftur yfir baðvöru sem við þörfnumst báðir. En kæri vinur, hvor okkar á eignarétt á því sem hefur ekki enn verið keypt? Sá sem fyrstur hugsar, sér eða snertir? Við hljótum að geta rökrætt okkur úr þessari klemmu.


STÓLÓKLES (slakar á takinu): Ég tek áskorun þinni. Réttlætið fer ekki í matarhlé eins og starfsfólk JYSK. Því hvað er maður og hvað skepna, fái rökin ekki að ráða!


FORNFÚSÍUS: Ég þarf þetta sturtuhengi meir en þú. Brottrekstur minn úr akademíunni í fyrra hefur leikið fjárhaginn grátt síðustu mánuði. Og konan er komin með svo hátt upp í kok af frumspeki, að hún hefur hótað mér sófanum, snúi ég heim án þessa vesæla sturtuhengis. Þetta er því ekki aðeins spurning um ógreinilegt skeljamynstur á gerviefni, heldur síðasta hálmstrá mitt við veruleikann - sjálft hjónabandið!


STÓLÓKLES: Leitt með atvinnumissinn, kæri Fornfúsíus. En þyngri er mín raun en að gera sófann mér að góðu. Gamla sturtuhengið mitt var gegnsætt, og sáust því mín helgustu vé út um baðgluggann gegn minni betri vitund. Nú hefur húsfélagið hótað mér lögreglunni, skýli ég ekki nekt minni fyrir gestum og gangandi! Þetta snýst því ekki um enn eina hagkvæma heimilisvöru, heldur sjálfan rétt minn til einkalífs og frelsis frá yfirgangi valdhafa!


FORNFÚSÍUS: Þvættingur, Stólókles. Þú lyktar eins og blóm á engi! Og hvaða máli skiptir liturinn þig? Þetta hengi er líka til í sefgrænu.


STÓLÓKLES: Það er í stíl við bláa litinn inni á klósetti hjá mér. Þú ættir að þekkja mikilvægi áreiðanleika og samfellu þegar hugsmíðar eru annars vegar! Hvað með þig? Konunni þinni hlýtur að vera sama um sefgrænan lit?


FORNFÚSÍUS: Ah, Stólókles. Hér stendur þú og hefur áhyggjur af nekt þinni. En sérðu ekki að rökvillur þínar svipta þig meiru en klæðum? Er þetta sturtuhengi raunverulega blátt eða litar skynjun okkar það blátt? Hvenær verða plasthringir og þrýstistöng að hengi, nema þegar við höfum fært þessum hlutum merkingu og notagildi?


Stólókles virðist ringlaður og Fornfúsíus nýtir færið og rykkir sturtuhenginu úr höndum hans. Ungur starfsmaður verður var við ryskingar og nálgast spekingana. Það stendur „Kevin Sveinsson“ á nafnspjaldi hans.


KEVIN: Get ég aðstoðað?!


STÓLÓKLES (lítur ekki á Kevin): Ég verð að hrósa þér Fornfúsíus, fyrir metnaðinn. Þú hefur ekki aðeins skapað nýja fræðigrein í kringum þvaðrið í sjálfum þér, heldur ætlarðu nú að teygja hana eins og krumpað lak yfir gjörvalla heimsbyggðina. Og þú hefur náð nýrri dýpt með tvöfaldri afneitun, því ekki snýrð þú þér undan gatinu í þessari speki þinni, heldur kallar það nauðsynlega blástursholu!


KEVIN: Halló? Mér sýnist þið tala um þetta hengi. Ég get gáð hvort við eigum fleiri svona í Skeifunni.


FORNFÚSÍUS (við Kevin): Skeifunni?! Býr hugur minn Skeifuna til, eða stendur hún fyrir eitthvað í raunveruleikanum? Ég þarf þetta hengi núna!


Fornfúsíus grípur klósettbursta eins og sverð og snýr sér að Stólóklesi.


FORNFÚSÍUS: Ætlar þú næst að afklæðast hér í baðvörudeildinni og bíða eftir vatni af himnum? Sérðu ekki, að þrátt fyrir heilu hillurnar af handklæðum og sápustykkjum, að þá verður „bað“ aðeins hugmynd þar til hver og einn gerir það að veruleika heima hjá sér?


KEVIN: Herramenn. Hjá JYSK trúum við á góð tilboð, þar sem réttlætið er... Umm... Já. Réttlætið er.


Kevin brosir stoltur að óvæntu og djúpu innleggi sínu í umræðuna.


STÓLÓKLES (löðrungar Fornfúsíus og togar í sturtuhengið): Þú telur þig slíkan öðling þegar þú ferð í biðröðina við kassann. En þú ferð einungis í röðina til að hleypa fólki á undan þér. Þannig viðheldur þú tálsýn um siðferðislega yfirburði þína. En er það ekki makalaus della, að telja sig fremstan með því að svindla sér aftast?


KEVIN (við sjálfan sig): Er ég til í alvörunni, eða bara sem persóna í einhverju leikriti?


Kevin hristir höfuðið, dregur upp síma og gengur í burtu.


FORNFÚSÍUS (sparkar í sköflunginn á Stólóklesi, sem dettur aftur fyrir sig ofan á sýningarrúm): Ég biðst forláts! Ert þú hér til að ræða undirstöður þekkingar og siðgæða, eða festa kaup á sturtuhengi á gjafaverði? Er það ekki viðeigandi fyrir rökþrot þitt, að þú þurfir að draga fyrir augun á sjálfum þér með þessu þrugli?


Kevin kemur aftur. Spekingarnir toga báðir af alefli í sturtuhengið sem brotnar á milli þeirra.


KEVIN: Ööö... Þið þurfið að borga þetta.


FORNFÚSÍUS: Hver á að borga það sem enginn hefur keypt?


Nokkur ljós slokkna innst í versluninni. Rödd í kallkerfi segir verslunina loka eftir 5 mínútur.


STÓLÓKLES: Þú hefur grafið þína eigin gröf Fornfúsíus! Þú smættaðir hengið niður í brotið plaströr og skeljatjald, og heyrir ekki að verslunin lokar! Mér sýnist stofusófinn bíða þín heima, nema þú hafir sætt þig við hugmyndina um konuna þína?


FORNFÚSÍUS: Þú ert ekki aðeins dóni Stólókles, heldur einnig flón! Það ert þú sem hefur snúið upp á hengið, og fjötrað sjálfan þig um leið! Því þó kassarnir loki og verslunin tæmist, þá lifa hugtökin áfram.


STÓLÓKLES: Ú, ú og æ, æ.


FORNFÚSÍUS: Síðan, aumi og lágkúrulegi Stólókles, er betra að sofa frjáls frammi í sófa, en að skola neyðina í sjálfskipaðri prísund úr baðmottu og blautum flísum!


Kevin veifar öryggisverði sem fylgir spekingunum út. 


STÓLÓKLES (við Fornfúsíus): Geturðu skutlað mér í Bakarameistarann? Mig langar svo í kleinuhring núna.


Tjaldið fellur.

miðvikudagur, 10. september 2025


Rúm og litir

Ólafur ólst upp í gráma sem sagði ekki aðeins drauma hættulega, heldur rændi sjálfri vökunni frá Héðni föður hans. Héðinn hafði lifað af ofríki hvítu doppanna. Hann sagði syni sínum sögur frá tíma þegar fólk missti stjórn á sér. Frá Hilmari nágranna sem setti eitur út í kökurnar því doppurnar sögðu honum að gera það.

„En pabbi, af hverju vildi hann gefa fólki eitur?“ „Ég veit það ekki, sonur sæll. Það er ekki hægt að skilja hvenær við hættum að vera menn og doppurnar taka við. Og það sem við skiljum ekki er hættulegt, eins og martraðir. Góða nótt, kútur.“

Með árunum fór Ólafur að efast um gildi gráa svefnsins. Svefninn hljómaði eins og þægileg átylla til að hlaupast undan ábyrgð. Faðir hans virtist ekki drifinn áfram af lífsgleði heldur ótta. Stundum varð Ólafur reiður í garð fólks sem fylgdi reglum í blindni. Var hann verri maður fyrir vikið?

Héðinn faðir hans mundi hvernig hvítu doppurnar mörruðu í tréstiganum þegar skugginn þrengdi sér á milli fúnandi spýtnanna. Héðinn fékk enn sviða í lófana við það eitt að hugsa um hvítu doppurnar. Doppurnar sem höfðu svæft konuna hans. Einn daginn myndi Héðinn segja syni sínum að Hilma móðir hans hafði ekki látist af slysförum.

Þegar Ólafur var nítján ára varð hann hugfanginn af bannaðri, litaðri tónlist sem gekk í laumi á milli skólafélaganna. Þetta voru miklu dýpri tónverk en sama gráa hlandið sem sprændist endalaust úr útvarpinu. Ólafur var sannfærður um að gráminn hefði kæft sjálfa sköpunargleðina í manneskjunni.

Um þetta leyti sótti Ólafur ólöglegan litaðan fund. Framsækin kona talaði um óteljandi svefnliti. Hún hefði ekki aðeins sofnað í doppóttu, heldur svifið um alheiminn í bleiku og bröndóttu. Þetta hljómaði ekki eins og hræðsluáróðurinn á hans heimili. Ólafur sannfærðist um nauðsyn litabyltingar. Fólk hlyti að rísa upp fyrr eða síðar.

Ólafur sagði föður sínum ekki frá fundinum. Ekki fyrr en hann hafði smíðað appelsínugult rúm með byltingarsinnum úti í skógi. Ólafur sagði Héðni hvernig hann hafði sofnað undir skæru mynstri og séð appelsínugula menn teygja heiminn í nýjar áttir. Hvernig hann andaði í skýjum og stjörnum undir dynjandi lófataki.

„Þetta var engin martröð, pabbi. Ímyndaðu þér hvað þetta getur gert fyrir vinnuna þína. Þú getur smíðað fleiri rúm á tveimur tímum en þú gerir núna á tveimur vikum!“ Ólafur lét vera að segja föður sínum frá lágværu, óþægilegu braki sem barst samtímis sýninni.

Héðinn gamli ærðist: „Hver lét þig gera þetta? Var það Felix? Ég vissi að þau væru enn doppótt!“ Héðinn var sjálfur orðinn doppóttur í framan af reiði. Nei. Ekki fyrir framan drenginn. Hann dró grátt andann.

Sonur hans trúði á liti, hann vissi ekki betur. Hafði Héðinn ýtt undir áhugann með öllum doppóttu sögunum? Söguna um hermanninn sem snerist gegn samborgurum sínum, og vaktmanninn sem hló að viðvörunarljósi álversins. Ólafur sagði ekki neitt. Svipurinn gaf til kynna að hann vissi meira en honum hafði verið sagt. Það var kominn tími á sannleikann.

„Óli minn, ég þarf að segja þér svolítið. Hilma mamma þín dó ekki í bílslysi. Hún missti smám saman tengslin. Þetta byrjaði allt með litunum. Fallegum litum. Fyrst gulur, svo grænn. Hún málaði ótrúlegar myndir. En þegar hvítu doppurnar komu hætti hún að hvíla sig. Dag einn var hún farin að mála sína eigin liti á raunveruleikann.

Héðinn horfði blíðlega á son sinn. Héðinn og Hilma höfðu líka trúað á drauma. Kannski var það nauðsynlegt skeið. Ólafur var skynsamur drengur. Hann myndi sjá fallvaltleika litanna. 

„Óli minn, þú ert að þroskast svo mikið. En veistu... Stundum er það sem syfjar okkur mest einmitt það sem heldur fyrir okkur vöku. Mig dreymir kannski aldrei, en ég sef saklaus maður.“

Héðinn fann smíði sonarins úti í skógi. Hve fögur hún var í náttbirtunni. Hann hikaði, leit í kringum sig og var næstum því lagstur í appelsínugult rúmið. Hann sá Hilmu fyrir sér. Hve glöð hún hafði verið áður en allt fór á hvolf. Þessi gleði gerði ekkert ómögulegt, sem var einmitt það hættulega við hana. Hilma réði ekki við litina. Hún málaði sig smátt og smátt frá Héðni og frá tveggja ára syninum. Frá sjálfri sér.

Héðinn táraðist og hóf öxina á loft. Grár málmurinn blikaði í tungsljósinu. Þegar litaðar spýturnar hrukku í sundur gáfu þær frá sér undarlega langa bresti sem fylgdi Héðni alla leiðina heim. 

Útidyrnar stóðu opnar. Lítið bréf lá á borðinu: „Þú ert ekki hræddur við litina pabbi, heldur sjálfan þig. Þú ert hræddur við að dreyma eins og frjáls maður.“

Héðinn vissi hvar Ólaf væri að finna en lét hann vera. Hann heyrði aftur dynkina. Marrið í stiganum. Hann sá fyrir sér gamla barnaherbergið. Skuggann yfir dýnunni. Drauminn sem varð eftir.

Ólafur gisti hjá byltingarsinnum sem unnu að nýju rúmi. Um nóttina fékk hann litaða sýn: Þrír appelsínugulir menn teygðu veruleikann í nýjar, glitrandi áttir. En það var líka þögul skelfing undir sviðinu. Myndi hann missa stjórn eins og doppótta fólkið? Eins og móðir hans?

Breytingar voru í aðsigi. Grái flokkurinn fékk á sig harða gagnrýni fyrir einokun á sífellt dýrari og þynnri svampdýnum. Andófið náði hámarki þegar Fríða Heiðars í Gráa flokknum svaraði mótmælaröddum í næturútvarpinu: „Kannski vill fólk bara vera sofandi.“

Var fólk að vakna frá gráa minnissvampinum? Þetta var hárrétt augnablik. Ólafur heyrði grámann tifa í bæjarlæknum þegar hann og aðrir byltingarsinnar afhjúpuðu appelsínugult rúm á markaðstorginu. Bæjarbúar göptu af syfju og undrun.

Hægt og bítandi vék þögnin fyrir skvaldri, sem braust út í fagnaðarlæti. Þetta var ekki aðeins rúm, heldur loforð um betri tíma. Múgurinn trylltist.

Var Ólafur tilbúinn? Allt í einu streymdu appelsínugular dýnur og rúmbotnar úr nýrri verksmiðju. Á kaldhæðinn hátt hætti hann að dreyma þó hann legðist í sama litaða rúmið. Í staðinn kom hreinn ótti. Beindist hann að því að endurtaka vegferð foreldra sinna? Eða hræddist hann sína eigin leið?

„Ertu búinn að sjá þetta Óli?“ spurði Davíð félagi hans. Ólafur tók við blaðinu: „Lesblindan dreng dreymdi tvær síður úr Sjálfstæðu fólki í appelsínugulu rúmi.“ 

Ólafur ætlaði að fagna, en innst inni heyrði hann langt, holt hljóð. Hann leit út um gluggann og sá safnsvörðinn hlaupa hálfnakinn niður götuna með appelsínugulan fána á lofti. Hvenær varð fögnuður að algjöru stjórnleysi?

Stundum var Ólafur ekki viss hvort hann væri vakandi. Nafnlausar hótanir sem bárust inn um lúguna bættu ekki úr skák. Ólafur fann djúpstæðan ótta um að hann myndi annaðhvort vakna frá þessu öllu eða missa stjórn á sjálfum sér. Næturnar geymdu hljóð sem minnti á brestandi grein. Heyrðu aðrir þetta líka?

Fríða Heiðars mætti Ólafi í næturútvarpinu. Hún sakaði hann um lýðskrum. „Hvað með efnahaginn og menntakerfið? Allt grátt.“

„Doppurnar voru aldrei illar, aðeins ástríða sem fór úr böndunum,“ sagði Ólafur.

„Þetta er allt sami liturinn,“ svaraði hún. „Það eina sem Ólafur er búinn að gera hérna er að taka eldgamla hvíta doppu niður af háalofti...

„Er rykið á háaloftinu ekki grátt?“ spurði þáttastjórnandinn.

Leyfðu mér að klára hérna. Taka eldgamla hvíta doppu og mála hana appelsínugula. Það er það eina sem hann er búinn að gera.“

Ólafur benti á að fjölskylda Fríðu Heiðars ætti verksmiðjurnar sem framleiddu gráu rúmin. Fólk hefði nú frelsi, ekki aðeins til að velja, heldur til að dreyma sína eigin drauma.

Fríða Heiðars svaraði: „Frelsið er grátt. Að draga upp bara einhvern lit er gera lítið úr baráttu þeirra sem fórnuðu sér fyrir grámann sem við göngum að í dag. Doppurnar koma aftur um leið og við sofnum á verðinum. Gráminn færði okkur vegina og sanngjarna vinnutíma. Ólafur ætlar bara að skola þessu burt með appelsínugulri froðu!“

En fólk hafði tekið lit. Fríða Heiðars sá appelsínugult listaverk spretta upp neðar í götunni sinni. Risavaxna skæra kúlu sem teygði kræklótta anga upp til himins. Óteljandi litaðir kristallar geisluðu í sólinni. Göturnar fylltust af dansi og söngvum. Fríða Heiðars barðist við tilfinningu um að fara út og fagna með þeim.

Hún settist niður við sjónvarpið með bragðlausan gráan safa. Hún dæsti yfir frétt um að vísindamenn hefðu uppgötvað appelsínugular stjörnuþokur og appelsínugul lyf. Hafði hún staðið í vegi fyrir eðlilegri framþróun?

En svo kom frétt um að lögreglumenn og húsverðir hefðu endurtekið sofið yfir sig svo venjulegt fólk hætti sér ekki út á kvöldin. Síðan um versnandi aga sem foreldrar og kennarar kölluðu „appelsínuguluna“. Fríða Heiðars hugsaði um samdráttinn í Gráu verksmiðjunni. Það var hennar að snúa þessari óöld við.

Veröldin hafði litast. En undir skæra litnum var talað um lágværan holan brest. Sumir sögðu hljóðið koma úr nýjum jarðgöngum. Aðrir að hljóðið kæmi einhvern veginn innan frá. Fólkið í lituðu verksmiðjunni hafði varla undan framleiðslunni og Ólafur lofaði að ráða fleira fólk.

Ólafur fann fyrir stolti, en á sama tíma læddist að honum skömm. Voru hvatar hans sjálfselskir eða samfélagslegir? Hann heyrði að strætóbílstjórinn í næsta húsi hefði fengið svo hrikalega martröð að hann gat ekki komið nálægt skiptimiðum aftur. Brak. Fólk mátti ekki fá ranga mynd af byltingunni. Þrátt fyrir að það vantaði fleira fólk tók Ólafur nokkra frá færibandinu og fól þeim að búa til jákvæðar appelsínugular fréttir.

Ólafur lét hraða á framleiðslunni þrátt fyrir viðvaranir starfsfólks: „Við náum ekki að sveigja gormana svona hratt.“ „Lengjum þá vaktirnar,“ svaraði Ólafur og hunsaði grámann sem læddist á milli hans eigin orða. Hann skrifaði undir ódýrari hráefni til að halda niðri kostnaði. Seinna yrðu þau kölluð hetjur.

Úrvinda starfsmenn báðu um frí. „Nú er ekki rétti tíminn til að hvíla sig.“ Ólafur kreppti gráan stein í vasanum. Í hvað var hann að breytast? Var hann farinn að hljóma eins og þau? Nei. Hann var að bjarga fólki frá grámanum. Bjarga framtíðinni.

Allt í einu fóru þræðirnir að slitna. Málningin náði ekki að þorna. Gormarnir skekktust. Ólafur brást við með því að selja dýrar bætur og varahluti. Starfsfólkið vann enn lengri vaktir. Hann rak gamlan skólafélaga sem mótmælti. Annaðhvort var fólk með í byltingunni eða á móti henni.

Rúmin héldu áfram að eyðast innan frá, með undarlegu, holu braki. Ólafur tók nokkur rúm í sundur af ótta við að sjá þar doppur en fann engar. Var hann að endurtaka sömu martröð í nýjum lit?

Fríða Heiðars hló í næturútvarpinu þegar talið barst að holu brakinu sem nú var orðið stöðugt: „Hljóðið í litabólunni að springa. Hún bætti við í samúðarfullum tón: Sjáðu hvernig þeir hafa farið með sitt eigið starfsfólk. Við í Gráa flokknum höfum alltaf barist fyrir eðlilegum hvíldartíma.“

Sumir hörfuðu aftur í grámann. Margir starfsmenn snerust gegn ofríki Ólafs. Harðir stuðningsmenn héldu þó fast í litinn og unnu með Ólafi að því að bæta bæði gorma og grindur.

En skaðinn var skeður. Fríða Heiðars benti á að glæpatíðni og verðbólga hefðu aukist með tilkomu appelsínugulu rúmanna. „Greinilegt orsakasamhengi. Fólk er svo upptekið af sjálfu sér að það lítur ekki á sig sem hluta af samfélaginu lengur. Gráminn sé oss næstur!“

Heima bylti Ólafur sér. Var þetta honum að kenna? Í fréttunum sá hann fólk í appelsínugulum fötum brenna grá rúm á markaðstorginu. Reiður ungur maður baunaði litasprengjum yfir öldunga Svefnráðsins. Þetta var ekki byltingin sem Ólafur ætlaði sér. Hafði hann vakið upp gamla martröð? Nei. Nú þurfti hann að hafa vit fyrir fólki.

Þegar Fríða Heiðars steig út úr útvarpshúsinu mætti hún ungu pari með appelsínugula vöggu. Barnið svaf, ómeðvitað um merkingu litanna.

Eitt sinn hafði Fríða séð heiminn í lit, án þess að þagga hann niður. Gat hún það enn? Hún heyrði innra með sér doppóttu lögin sem mátti ekki syngja:

„Dreymum doppur frjáls,
dýrð sé kóngi nætur!
Klífum kojur stáls,
kátir sveina fætur!“

Hún fann fyrir létti sem hún náði ekki utan um. Hafði líf hennar gengið á sjálfstýringu? Hún leit á barnið. Hún vissi að sumar reglur í Gráu bókinni voru út í hött. En fólki þurfti að mæta þar sem það var.

Fríða Heiðars leit frá barninu. Hún rifjaði upp loforðið sem hún gaf föður sínum á dánarbeðinu. Loforð um að gefa andvaka heimi gráan svefn.

Slagorðið „GRÁTT ER GOTT“ var á allra vörum í næstu kosningum. Grái flokkurinn náði yfirgnæfandi meirihluta og rúm bæjarins féllu aftur í gráan svefn.

Eftir langa kosninganótt lá Fríða Heiðars með Gráu bókina opna í fartölvunni. Hún lék sér að því að breyta litnum á stöfunum á meðan maður hennar svaf. Fyrst í doppótt. Svo í appelsínugult. Loks aftur í grátt.

Svefnráðið bannaði Ólafi að koma nálægt hönnun og samsetningu rúma nokkurn tímann aftur. Honum var úthlutað starf í grárri verslun. Ólafi var að vissu leyti létt að bera ekki heiminn á herðum sér. Og skyndilega var brakhljóðið á bak og burt.

Héðinn faðir hans heimsótti Ólaf oft í búðina og keypti gráa blýanta. Eitt sinn færði hann Ólafi rykuga mynd sem Hilma móðir Ólafs hafði málað. „Þetta var síðasta myndin.“ Undir gráma myndarinnar skein í litlar hvítar doppur.

Ólafur skildi að Héðinn hafði aðeins reynt að vernda hann fyrir sínum eigin ótta. Ekki var hann heldur til í að fórna geðheilsunni fyrir bæ sem var ekki reiðubúinn að vakna. Ólafur hafði lært að getunni til að dreyma fylgdu óhjákvæmilega martraðir. En síðasta mynd móður hans fylgdi honum.

Eitt kvöld horfði Ólafur á sólina setjast. Skýin, sem minntu á hvítar doppur, urðu smám saman grá. Í andartak brá fyrir keim af appelsínugulu á milli þeirra. Ólafur var ekki aðeins orðinn hræddur við doppurnar heldur sjálfan sig. Hann mundi eftir draumnum í skóginum. Lófatakinu þegar hann tókst á loft. Ef hann gæti aðeins byrjað aftur.

Ólafur heyrði fjarlægan brest, næstum eins og úr minningu. Síðan sá hann fjóra unga menn bera rúm inn í dökkvann. Rúmið hafði liti sem hann hafði aldrei dreymt um: Gulan, bláan, grænan...

Ólafur hristi höfuðið. Þessir litlu drengir vissu ekkert um byltingu. Hverju hann hafði fórnað. Fyrir hverja? Hrjótandi hálfvita.

Annar drengjanna leit á Ólaf og kinkaði kolli áður en hann hvarf út í nóttina. Ólafur fann fyrir óvæntum sting. Hann skildi að lófatakið í fyrsta draumnum hafði aldrei verið fyrir sig heldur alla sem börðust fyrir lituðum hugmyndum.

Ólafur lokaði augum og brosti. Hann fann litina streyma fram hjá sér. Hann sá litina í augum móður sinnar. Óendanlega liti sem hann hjálpaði til við að vekja en myndu hvorki enda með honum né henni.

eXTReMe Tracker