Þegar Njörður sá ljósið
Dagurinn sem Njörður Torfi sveif upp úr sjálfum sér var óvenjulegur fyrir margra hluta sakir.
Í fyrsta lagi hafði Rósgerður gamla á annarri hæð ekki enn vökvað óþefjandi blómhríslurnar í litlu stofunni sinni þó klukkan væri orðin átta að morgni. Njörður vaknaði yfirleitt hálfsjö við þruskið og þrammið í þessari fúlu skógarnorn. En ekki í dag.
Í öðru lagi svaf séra Kristján á þriðju hæð yfir sig, sá nákvæmnismaður sem hafði Njörð örugglega enn undir smásjá eftir uppgjör húsfélagsins fyrir tveimur árum. Njörður, sem bjó á fyrstu hæð og leyfði sér stundum litla kókdós í vikulokin yfir tarotspjöldum sem hann trúði ekki einu sinni á sjálfur.
Það var fleira. Þennan sunnudagsmorgun fann Njörður stakt, óopnað Georg Jensen dagatalakerti sem hann hafði óvart tekið með heim úr vinnunni, dönsku sérversluninni Mette & Matilda í Kringlunni.
Njörður hafði ætlað að skila kertinu, en síðan hljóp eitthvað í hann, sem hann skildi ekki. Njörður braut þykkt kertið varlega en ákveðið í tvennt. Með hverju númeri sem hrökk af vaxinu varð heimurinn léttari að vigt, þar til tignarlegt jólakertið splundraðist hljóðlaust í rauðum lófunum.
Njörður hélt gáttaður á ónotuðu en ónýtu kertinu og vissi ekki hvað hann ætti að gera, hvorki við vaxhrönglana né þessa skyndilegu hræringu innra með honum. Hvað hafði hann gert? Það var eins og eitthvað snerist í hringi, sem hafði lengi staðið óhreyft.
En það var ekki skapið sem léttist. Fyrst komu óvenjulegir og endurteknir kippir í hægra læri Njarðar, eins og fjörfiskur á röngunni. Síðan í vinstra læri. Áður en Njörður vissi af tókst líkami hans á loft í heild sinni, í fæðingargallanum einum saman.
Njörður komst ekki hjá því að spyrja sig, ekki aðeins hvers vegna hann svifi, heldur einnig hvers vegna einmitt nú? Út af einu litlu kerti? En hvenær braut maður viljandi Georg Jensen jólakerti með handaflinu einu saman, og hvenær lögðust forlögin á eitt í snöggt og sterkt handtak í stofusófanum? Greip Njörð Torfa skyndileg sjálfstýring, eða var þetta fyrsta meðvitaða verkið í mörg ár? Hvað var sköpun án eyðileggingar?
Njörður sveif yfir tarotbunkann. Spilið sem átti að veita spennu í líf hans eftir langa vinnudaga í Mette & Matilda, en varð að kapli sem aldrei gekk upp. Þennan morgun hafði hann dregið enn og aftur sama spilið: „Hengdi maðurinn“. Hvílíkt rugl.
Vaninn hafði gert tarotið jafn veraldlegt og raðir hinna brothættu smámuna sem hann seldi prúðbúnum viðskiptavinum daginn út og inn. Viðskiptavinum sem slepptu trítilóðum börnum sínum inn um fíngerðar gjafavörur, hlaupandi og hoppandi, hrínandi og rýtandi, gargandi og fálmandi á eftir þriggja hæða kökudisknum frá Royal Copenhagen, sem Njörður bjargaði óteljandi sinnum frá tortímingu. Ef einhver hefði ómakað sig við að þakka honum!
En nú hafði búðarborðið snúist við og Njörður sjálfur tortímt glænýju kerti frá engum öðrum en Georg Jensen, hinum danska fagurkera og silfursmið, og það af ásettu ráði. Hvílíkur glæpur! Gat Njörður látið sjá sína fölsku fingur í Mette & Matilda nokkurn tímann aftur?
En Njörður staðnæmdist ekki þar, heldur flaut upp í gegnum illa málað loftið. Alla leið upp í gegnum úldna blómapotta Rósgerðar á hæðinni fyrir ofan. Langar og mjóar greinarnar hrísluðust yfir höfði hans í dimman og dansandi frumskóg. Íbúðin virtist ganga í grænum bylgjum svo Njörð greip sama skógarveiki og þegar hann mætti ólyktinni af Rósgerði niðri við póstkassana.
Á veggnum hékk svarthvít mynd af Rósgerði ungri og skælbrosandi í Grasagarðinum með skrautblóm í hendi. Annað en illgresin sem hún dró upp og niður sameignina, og skrælnuðu nú á ósýnilegum ölduboðum stofunnar. En hvar var Rósgerður? Var hún…
Njörður leit varlega í átt að svefnherberginu. Jú, sængin hreyfðist. Hann sá pilluglas rugga á stofuborðinu: „Við alvarlegu kvíðakasti, notist sparlega!“ Tvær töflur eftir. Tvær litlar töflur sem horfðu í gegnum hann eins og dæmandi augu.
Æ Rósa, ef Njörður hefði vitað þá hefði hann aldrei hreytt í hana fyrir að tæma aldrei blaðakörfuna almennilega: „Þú skilur alltaf nokkur blöð eftir þegar ég tek við ruslinu, í hvert einasta sinn.“
Njörður liðaðist skömmustulega úr þessum aldingarði og út í sameignina, svífandi í gegnum handrið og tröppur. Kannski átti hann ekki betra skilið eftir framkomuna við Rósgerði en að marinerast um dimma gangana að eilífu? Eftir að hafa skammað gamla og kvíðna konu eins og krakkadjöflana í búðinni.
Ekki var laust við, þegar ósýnileg hönd hífði Njörð Torfa hægt og rólega upp á milli baðherbergisflísa séra Kristjáns á þriðju hæð, að Njörður prísaði sig sælan að sérann sæti ekki á skálinni einmitt þá, og tónaði eitthvað annað en Lúkasarguðspjall.
Til að bæta gráu ofan á svart myndi sérann týna því litla trausti sem enn tórði í garð Njarðar, sjálfs gjaldkera húsfélagsins, fyrir nágrannagægjur og guðlast, ekki aðeins svífandi inni hjá honum heldur kviknakinn líka!
Sami Njörður gjaldkeri og lét óvart þúsund krónur svífa upp af handriðunum í hittifyrra. Já, sömu lökkuðu handrið og Njörður hafði nú sjálfur svifið í gegnum eins og hver önnur bókhaldsskekkja.
Ekki tók skárra við, því Njörður sá litla bók, falda á bak við klósettið. Þetta var ekki Biblía sérans, heldur miklu þynnri bókmennt: „Hvernig á að þykjast, bara fyrir aðra.“
Hvor þeirra hjóna átti þessa bók? Vildi Njörður vita það? Hann hafði séð of mikið. Nágrannarnir voru jafn fastir á milli hæða og hann sjálfur.
Var von að Njörður Torfi spyrði, hvort þessi sýn öll, svífandi á adamsklæðunum einum, væri draumur einn eða dauðinn sjálfur? Ný fæðing eða refsing fyrir tarot og kókdós í vikulokin? Njörður stirnaði upp. Hvað ef þetta væri draugur hins ólifða lífs? Lífs úr skemmtunum og skyndiákvörðunum.
Nei, þá hefði Njörður betur mátt brjóta fleiri Georg Jensen dagatalakerti í illa upplýstu bakherbergi Mette & Matilda, þegar verslunarstjórinn sleikti upp hvítu loðpelsana frammi í afgreiðslu. Líf Njarðar skorti ekki aðra eins óreiðu. Líf hans var alveg nógu spennandi.
Hver var Njörður Torfi annars, að svífa svona óboðinn um einkarými annarra? Hann var þekktur fyrir allt annað en hnýsni og snudd, ólíkt kjaftaganginum við kassann; Jóhann að kaupa í Vogahverfi. Rúna að skilja við Styrmi. Hverjum var ekki sama?
Njörður tók ekki þátt í þessum félagslegu leikjum. Hann lifði bara sínu eigin lífi, laus við sýnd. Eða hvað? Átti hann nokkuð í vörunum sem hann seldi? Hvað var að lifa lífinu, og hvað að svífa í gegnum það af gömlum vana?
Njörður lyftist yfir baðgólfi sérans. Hann rifjaði upp síðustu orð móður sinnar áður en hennar kerti kláraðist:
„Mundu Njalli minn...
Láttu það vera sem þú skilur ekki.“
Þvættingur. Af hverju gaf hún honum þá þennan tarotstokk? Úps, þarna sveif Njörður í gegnum brjóstahöld prestsfrúarinnar sem héngu til þerris, á litinn eins og svikul silfurmynt.
Ef sérann sæi hann núna svifi Njörður sjálfviljugur í gegnum þakið á þriðju hæð og kæmi aldrei niður aftur til að borga neinar stolnar þúsund krónur úr hússjóðnum. Allt í lagi! Njörður hafði þurft þessar þúsund krónur. Fyrir kassa með 30 kókdósum á tilboði. Bara fyrir sjálfan sig. Var það glæpur að sjá einu sinni um sjálfan sig þegar enginn annar gerði það?
Þakið! Njörður ætlaði að grípa í spegilinn, en höndin stakkst inn í steyptan vegginn. Njörður kippti að sér hendinni. Snertingin var hvorki hrjúf né hörð, heldur mjúk og hlý.
Stakur lokkur úr hári Njarðar stakkst upp í loftið eins og dökkur kveikur. Hvað beið ofan þaksins? Myndi Njörður gleyma dögum sínum eins og Georg Jensen jólakerti sem brotnar ónotað í umbúðum sínum, ótendrað af lífinu sjálfu?
Jólakerti sem lofaði glitkornum og gylltum pökkum. Æ, var líf Njarðar ekki eitt stórt Georg Jensen dagatalakerti, sem sundraðist hægt og hljóðlaust í gljáandi umbúðum löngu áður en dagar þess voru taldir?
Njörður kallaði. Heyrði einhver, eða höfðu prestshjónin svifið út á undan honum? Höfðu dagarnir í Mette & Matilda verið raunverulegir, eða hafði Njörður líka svifið yfir gólfin þar?
Af hverju hafði hann aldrei nýtt sér 7% starfsmannaafsláttinn? Brugðið sér um stund hinum megin við borðið og fengið, aðeins í eitt skipti, að vera viðskiptavinur. Sá sem kom ekki þangað til að verða ríkari, heldur til að gefa verslunareigendum pening fyrir fallega hönnunarvöru. Hve ólík hlutskipti menn gátu hneppt á einum og sama stað!
Æ, sú freisting, þriggja hæða kökudiskurinn frá Royal Copenhagen. Neðsti diskurinn skreyttur hringjum og beinum línum, sá í miðið bugðum og beygjum og hinn efsti með skýjum og stjörnum. Hvílík dásemd að Njörður fékk það aldrei skilið! En hvað var kökudiskur án köku, annað en líkami án lífs?
Þegar Njörður sveif í gegnum húsþakið ómuðu orð móður hans aftur innan fyrir eyrnavaxið eins og spádómur:
„Láttu það vera sem þú skilur ekki.“
Kannski átti hún aldrei við að forðast það sem mennirnir skildu ekki, heldur að umfaðma það sem óaðskiljanlegan hluta tilverunnar.
Nirði Torfa fannst eins og brotið kerti ljómaði mörgum hæðum fyrir neðan sig, í fjarlægum, daufum loga.
Hafði Njörður smátt og smátt selt sína eigin vigt með vandaðri gjafavöru? Fyrir líf sem hvorki var helgað himni né jörðu? Til þess eins að sanka að sér smáaurum inn á gremjubók? Njörður leit yfir húsin og hugsaði um leynilíf nágranna sinna.
Hvar endaði sölumaðurinn Njörður Torfi Jensen og hvar byrjuðu sýningareintök af smjörgulum hrærivélum frá KitchenAid? Smjörgular. Litur ársins sögðu þau. En hvað var litur og hvað var til sýnis ef vélarnar hrærðu aldrei neitt uppi á búðarhillunum?
Já, þegar Njörður sjálfur hrærðist í hringi, dag eftir dag í sömu smjörmóðu, og þyrlaðist síðan, óviðbúinn og allt of snemma, baldinn og berstrípaður upp á milli hæða, eins og ósýnilegur reykur af brotnu og dýru dagatalakerti, hengdur og syndugur smáþjófur, svífandi í gegnum einkaeign nágranna sinna, logandi af því sem hann gat aldrei keypt í danskri sérverslun.
Vorum við ekki öll í lausu lofti í þessari tilveru, svífandi nakin í gegnum gólf og þök í lífi hvers annars? Njörður breiddi út faðminn.
Allt varð svart. Þegar Njörður fór í gegnum þakið hitnaði hann allur. Var þetta lykt af brennisteini? Húsið minnkaði fyrir neðan hann eins og þriggja hæða kökudiskur frá Royal Copenhagen að falla inn í sjálfan sig. Sérverslun Mette & Matildu rann brátt saman við hverfið hans í eitt flöktandi, lítið ljós sem logaði í tóminu.
Síðan var eins og Njörður Torfi væri aftur staddur í sérversluninni. Hann fann lykt af ilmstráum og grenigreinum. Klístur af gervisnjó á milli fingranna. Hljómmikil rödd séra Kristjáns nágranna spurði um aðventugjöf handa frúnni.
Njörður leit á jólakertin frá Georg Jensen. Hann sá engar dagsetningar lengur. Þegar Njörður talaði, fann hann ágengan bruna á tungunni, fullan af lífi:
„Þessi kerti voru að svífa inn. Þau mæla ekki aðeins dagana, heldur sjálft rýmið sem við dveljum í. Rýmið sem við gerum að húsi okkar. Að heimili. Ég á eitt svona sjálfur. Ég get slegið af svona þúsund krónum bara fyrir þig, séra.“


