Opið bréf til ríkisskattstjóra
Týnum um stund orði og mynd, lítum í gegnum göt hugmyndanna, lag fyrir lag. Hvert lauf ber ljósinu einn og sama vitnisburðinn.
Hér eru hvorki þagnir né tónar, aðeins hreyfing sem tvístrast frammi fyrir þeim sem leggur eyra að rótlausum sandi fyrirbæranna.
Lítum handan máttar og meins, grípum dýpri voðir en eirðarlaust kapphlaup tilgangs og merkingar. Sjáum yfir notagildi og markmið.
Augnablikið er án sundrunar, aðeins stakur þráður vefur hugsun og draum, ljós og reyk. Hver dropi er djúp, hver von er veröldin sjálf.
Sesselja hikaði í smá stund áður en hún rétti Ahmed skál með nýbökuðum kleinum. Langaði að segja honum hvað þetta væri en lét brosið duga. Sesselja gjóaði augum á framandi klæði Fatimu. Á börnin þeirra tvö sem höfðu flúið land án þess að flytja að heiman eins og Atli sonur hennar hafði gert í fyrra.
Sesselja hafði þrifið og þvegið launalaust fyrir komu fjölskyldunnar til landsins og bakað kleinur eftir uppskrift móður sinnar. Vissi þó að hún myndi ekki geta prjónað í viku á eftir vegna gigtarverkja. Það var Sif vinkona sem hafði neytt hana í þetta sjálfboðastarf. Sagðist muna hvernig sér leið þegar dóttir hennar flutti að heiman.
Þegar Fatima þakkaði Allah fyrir húsnæðið fannst Sesselju hún stíga ofan í sjóðheitt kar. Hún spurði sig í augnablik hvort hún væri raunverulega þarna. Fann fyrir stingjunum í höndunum. Nei, hvernig lét hún. Hún var auðvitað ekki þarna fyrir sig sjálfa. Hún var bara þreytt núna. Þreytt á að gefa.
En síðan, eftir nokkurra vikna sjálfboðastarf, breyttist eitthvað innra með Sesselju. Þetta hófst allt þegar hún ætlaði að panta sér pylsu eftir sundferð. Afgreiðslumaðurinn svaraði henni á ensku.
Fyrst hitnaði líkaminn allur og hún fann megna lykt af klór og brennisteini. Síðan fannst henni eitthvað taka yfir munnholið, eins og það væri ekki hennar lengur. Sesselja streittist á móti, en tilfinningin líktist drukknun í hennar eigin líkama.
Hún leit stjörf á pylsusalann. Í stað þess að segja: „Eina með öllu,“ þrumaði hún: „Þetta fólk er ekkert komið hingað til að vinna, heldur fara á bætur.“
Sesselja greip fyrir andlitið með skelfingarsvip. Hún heyrði hljóð sem minnti á rennandi vatn og fannst eins og líkaminn væri allur blautur og heitur. Sem betur fer skildi maðurinn hana ekki, né hvers vegna hún hljóp í burtu svo sundtaskan varð eftir.
Hún skellti aftur bílhurðinni og leit í baksýnisspegilinn. Hver var þetta? Sesselja sá móður sína fyrir sér kreista hönd hennar þegar þau gengu hjá erlendum verkamönnum á byggingarsvæði.
Hvernig móðirin hafði beðið hana að þvo sér um hendur eftir að hafa leikið við Alvarez í næstu götu. „Geturðu ekki leikið við Hallgerði frekar? Hún kann að spila á píanó eins og þú. Bróðir þinn er til í að skutla þér til hennar.“ Móðir hennar, fíkniráðgjafinn sem flúði sjálf til Kanaríeyja yfir vetrartímann.
Sesselja herpti varirnar og reyndi að segja: „Ég er ein af góða fólkinu,“ en í staðinn kom: „Þessir helvítis hælisleitendur fá allt upp í hendurnar.“ Hún hrópaði upp fyrir sig með tárin í augunum og tók leigubíl heim.
Sesselja vandist þessu ekki, en hún hætti smám saman að grípa fyrir munninn þegar hún var ein. Hún uppgötvaði sér til undrunar að hluti af henni fann sannleikskorn í hvössustu ummælum. Þetta bæði kitlaði hana og fyllti reiði og skömm.
Þegar raddirnar tóku yfir fannst Sesselju nasirnar fyllast af móðu og líkami hennar hvíla á einhverju hörðu. Hún fann hitann renna inn í holdið: „Er þessi sem lögreglan lýsir eftir útlendingur?“
Stundum var þessi tilfinning... góð. Var hún að missa vitið eða að öðlast nýjan skilning á sjálfri sér?
Atli sonur hennar neyddi hana til Korpúlfs læknis. Hann hafði hikað við að kynna móður sína fyrir erlendri kærustu sinni, Aminu. Korpúlfur sendi hana í rannsóknir sem komu eðlilega út. Hann skrifaði svo upp á kvíðalyf sem hún tók aldrei.
Þegar Sesselja mætti Viðari nágranna sagði hann henni að starfsfólkið hafi skyndilega lokað heita pottinum í sundlauginni:
Þegar hún mætti Viðari nágranna sagði hann henni að starfsfólkið hafi skyndilega lokað heita pottinum í sundlauginni: „Það er eitthvað að hitastillinum, potturinn var sjóðheitur.“ Hún vissi að Viðar færi daglega í heita pottinn. Bjóst við að röddin tæki yfir en náði að svara Viðari að sér þætti það leitt.
Ekki bar á neinu þrjá daga, en þá ætlaði hún að hrósa erlendum afgreiðslumanni í Nettó fyrir góða íslensku. Annað kom úr munni hennar: „Þetta fólk hefur verið hér í tíu ár og kann ekki stakt orð í íslensku!“
Sesselju fannst hún fljóta. Sá fyrir sér hveiti, sykur, egg og lyftiduft veltast yfir funheitri pönnu og fann aftur fyrir gigtinni smjúga inn í fingurna eins og bráðið smjör. Hún hljóp heim, á flótta í sínu eigin hverfi. Á flótta frá sínum eigin hugsunum.
Hún óð fram hjá Viðari nágranna í sameigninni sem mælti: „Jæja, potturinn fór í gang. Þessi Lithái kunni ekkert á þetta.“
Hún lokaði dyrunum. Potturinn? Gat það verið? Hitakófið, vatnshljóðin, lyktin. Það passaði við lokunartímann. Hún hafði oft farið í heita pott Dalvallalaugar. Fór með móður sinni í hann í gamla daga og hlustaði á fullorðna fólkið tala um „útlendingavandann“. Hafði ekki erlent barn drukknað í þessum potti þegar móðir hennar var lítil?
En var heiti potturinn uppsprettan, eða dró hitinn aðeins upp á yfirborðið eitthvað sem hún hafði sjálf reynt að halda niðri? Var potturinn þægilegur blóraböggull; bjó hún sjálf yfir fordómum innsti inni sem þægilegt hafði verið að varpa yfir á móðurina og óheflað fólk í sundfötum?
Var móðir hennar vond? Manneskja sem hafði helgað líf sitt til hjálpar fólki með fíknisjúkdóm. Af hverju gaf lífið aldrei einföld svör?
Atli reyndi allt. Rökræddi við móður sína um málefni innflytjenda. Gaf henni símanúmer dægurmálaþáttar til að viðra skoðanir sínar. En áfram hélt hún. Hvernig yrði að kynna hana fyrir Aminu? Það voru farnar að renna tvær grímur á Aminu við dularfulla biðina: „Is your mother afraid of me?“
Atli gafst upp og laug að Aminu að þetta væri byrjandi heilabilun. Amina horfði á eldrauð eyrun. Var það lygi ef Atli trúði því sjálfur? Hann skvetti köldu vatni framan í sig. Tíminn var kominn. Þau urðu að komast yfir þetta.
En Sesselja sagði ekkert allt kvöldið. Hafði komist að því að hennar þögn hélt líka röddinni niðri. Hún benti á maga Aminu og lék eftir þungun. Atli horfði undrandi á móður sína. Af hverju talaði hún ekkert?
Amina brosti og rétti Sesselju kalt vatnsglas. Hún sagði: „Faðir mín, líka bilað heilann. Alzheimer.“
Sesselja fór í kleinu og rauf þagnarbindindið: „Burt með hendurnar! Þetta er hreint, íslenskt vatn!“ Amina horfði óttaslegin á Atla, sem gaf móður sinni illt auga. Sesselju fannst Amina allt í einu vera komin í sundbol og pírði augun á hana. Þannig gekk þetta í hringi eins og í hreinræktaðri íslenskri fjölskyldu.
Sesselja barðist við þörfina fyrir að tala um kostnað við heilbrigðisþjónustu hælisleitenda með því að bryðja ísmolana. Vildu ekki langflestir frið? Hafði hún ekki séð kærleikann með berum augum í starfi sínu? En undir niðri flæddi enn sama hveravatnið út í falinn, botnlausan pott.
Þegar þau voru komin út játaði Atli að móðir sín hefði ekki greinst með heilabilun, en breytingin á henni væri engu að síður bæði snögg og undarleg. Hann nefndi ekki samviskubitið yfir að hafa flutt að heiman. En hann var vissulega orðinn 25 ára. Amina horfði á bíl spóla í burtu hinum megin við götuna. Grár útblásturinn liðaðist á milli þeirra.
„I really want this to work out, Atli. But... I just need peace in my life now.“ Atla sveið þegar hún kvaddi. Þurfti hann í alvöru að velja á milli þeirra?
Eftir að parið gekk út rauk Sesselja inn á klósett, og baðaðist köldu vatni þar til hún skalf þver og endilöng. Daginn eftir bárust fréttir um að heitur pottur í Dalvallalaug hefði allt í einu byrjað að sjóða. „Það væri hægt að steikja kleinur í þessum hita!“ grínaðist fréttamaðurinn. Biluðum hitastilli var kennt um.
Sesselja leit út um gluggann, endurkast hennar á rúðunni var teygt og tvístrað. Höfðu þessar raddir alltaf tilheyrt henni á einhvern bældan, afskræmdan hátt? Var sundlaugin enn opin?
Sesselja skannaði sundmiðann. Fór dáleidd í gegnum búningsklefann. Fann hjartað slá í 37°C potti úr kjöti og beinum. Heyrði ylhýrt málið, vögguvísurnar, þjóðsögurnar, nöfn fjallanna. Sá fyrir sér fátækt fólk ganga yfir fornt landslag í gegnum hríð aldanna. Fyrir hvað? Fyrir hvern?
Hún fann gleðina og stoltið yfir að tilheyra þessari menningu. Sá svo risastóra ylvolga kleinu molna undir dökkum, traðkandi verum með framandi augnaráð. Síðan settist einn baðgestur á eftir öðrum í brennandi sæti með eldrauð augu og spúði gufustrókum yfir landið.
Sesselja hafði séð margt. Sumt fólk var svo ólíkt henni. Hún hafði spurt sig hvort það væri frelsi að hylja líkama sinn? Að karlmaður þyrfti að vera viðstaddur þegar kona fer til læknis? Hafði hún verið hrædd við að týna sjálfri sér? Mynd af móður hennar brá fyrir, marandi í 42°C potti með munninn upp úr: „Þetta fólk hugsar ekki eins og við, Sesselja.“
Hún stóð upp. Droparnir féllu af vörmum kroppnum. Hún gat ekki stjórnað hvað annað fólk lét út úr sér í sundi. En hún gat síað sínar eigin hugsanir. Átt rödd sem gat bæði sungið íslensk þjóðkvæði og boðið fólk velkomið. Þetta þurftu ekki að vera andstæður.
Amina sagði Atla að lífið hefði kennt henni að útiloka ekki fólk eftir fyrstu kynni. Faðir hennar hefði sjálfur sagt ýmislegt í sínum veikindum.
Næsta morgun sátu Atli og Amina við eldhúsborðið. Sesselja settist niður með þeim: „Ég vil að þú segir henni að mér þykir leiðinlegt hvernig ég var um daginn.“ Atli leit á hana með óvæntri aðdáun.
„Ég ætla að kenna henni íslenska vögguvísu fyrir barnabörnin.“
Gleðisvipur Atla snerist í skeifu: „Mamma! Hvað er að þér? Við vorum að kynnast!“
„Mér er alveg sama,“ sagði Sesselja. Ég var búin að hitta pabba þinn tvisvar þegar ég varð ólétt af þér. Svo veit enginn hvað ég verð lengi hér.“
Sesselja byrjaði að syngja: „Bíum bíum bambaló...“ Hún fann lykt af klór og brennisteini. Líkaminn þrýstist upp að hörðu plastinu. Heyrði einhvern setjast í pottinn: „Það ætti bara að senda þetta lið heim í næstu vél!“
Sesselja hækkaði róminn. Söng um vin sem hún vaggaði í ró yfir hlýrri gufu: „Þetta fólk...“ Hún horfði á Atla og Aminu sem brostu bæði. Móðir Sesselju maraði í soðnu vatninu með froskalappir á bakkanum.
„En úti bíður andlit á glugga."
Róandi söngurinn, stoltur en hlýr, var hennar val. Söngur sem var ekki endanleg lausn, en upphafið að einhverju nýju.
Sesselja teygði sig í handklæðið. Klórinn sveið í augun. Hún reyndi að heyra ekki hæðnisraddirnar sem héldu áfram að bubbla í fjarlægum potti.
„Borðar Amina kleinur?“
Gylfi fann stingi í fótunum við að horfa á afa sinn ganga inn í barnaherbergið, og augun urðu þurr eins og eplið sem hann hafði falið undir rúminu þegar amma hans dó. „Þú nemur húsið,“ sagði afinn. Hann lagði höndina á vegginn: „Finndu, hérna tifar hann.“
Gylfa fannst best að sitja á gólfinu inni í herbergi þegar foreldrar hans rifust. Hann fann þrýsting í kviðnum, eins og raddirnar nörtuðu í eitthvað innra með honum. Hann skildi ekki orðin en vissi að þau snertu hann:
„Jónína, við eigum ekki efni á...
...Gylfa og þú kaupir samt...
...það eina sem þú...“
Nóttina eftir sjö ára afmælið vaknaði Gylfi við háreysti frammi á gangi, eins og oft áður. En þetta skipti var öðruvísi. Það var enginn herpingur í maganum, heldur hljóð sem var ekki hans eigið. Ekki grátur móðurinnar eða skrjáf í lyfjaspjaldi, heldur lágt hvísl úr veggnum.
Fyrst sá Gylfi ekkert og hljóðið hætti. En síðan heyrðist lágvær en skær titringur. Gylfi sá glæra, mjóa stilka færast upp vegginn, fasta við gegnsæja skel. Útlínurnar hurfu undir flagnaða málningu þegar pabbi Gylfa opnaði dyrnar og faðmaði hann. Munnur pabbans brosti en augun þögðu.
Mamma Gylfa fór í langa vinnuferð og þegar hún kom til baka bökuðu þau þrjú saman pönnukökur. Þegar foreldrarnir fífluðust í eldhúsinu fann Gylfi fyrir hlýjum straumi fara upp beinin og fiðringi í iljum. Sæt og mjúk lyktin af pönnukökunum myndaði þunnan hring sem snerist í loftinu.
En þegar afi hans lést og mánaðamótin skriðu yfir dagatalið hrópaði mamman á pabbann, og skordýrið kom aftur. Í þetta sinn voru angarnir og búkurinn ekki gegnsæ heldur fölur, og minnti helst á hvítan járnsmið. Hann boraði sig undir málninguna yfir rúmi Gylfa. Skildi eftir sig grófa hnoðra á gólfinu, eins og þurr, grá epli. Faðir Gylfa ryksugaði upp hnoðrana.
Gylfi virti járnsmiðinn fyrir sér. Gróf hann göng, eða var hann svangur? Hann setti puttann í gatið og stakk síðan upp í sig. Fyrst fann hann fyrir létti. En síðan kom sama þykka og daufa bragð og þegar móðir hans opnaði lyfjaskápinn, svo hann skyrpti á gólfið.
Járnsmiðurinn leit ekki við eplabitanum sem Gylfi skildi eftir handa honum. Hlustaði ekki þegar Gylfi talaði við hann. Gylfi reyndi að hugsa um sætu og mjúku pönnukökulyktina. Hvernig pabbi hans stríddi mömmunni og svífandi tilfinningunni í liðunum.
En ekkert gerðist og járnsmiðurinn hélt áfram að narta í vegginn. Þegar lætin frammi urðu hærri, vann járnsmiðurinn hraðar. Og þegar pabbi hans skellti hurð, bættist ný löpp við búkinn.
Gylfi þorði ekki að segja foreldrum sínum frá járnsmiðnum af ótta við að gera illt verra. Þau höfðu oft sagt honum að hafa hljótt þegar þau töluðu saman.
Hvað ef veggurinn hryndi yfir hann? Á sama tíma fannst Gylfa gott að vita af járnsmiðnum, eins og þeir hefðu komist að þegjandi samkomulagi. Eins og járnsmiðurinn væri að segja það sem enginn annar gat sagt.
Síðan var það eitt kvöldið að Gylfi heyrði rödd afa síns innan úr sprungunni, með undarlegu bergmáli: „Sjáðu.“
Gylfi leit í gegnum rifuna. Sá báða foreldra sína. Þegar faðirinn gekk alvarlegur um gólfið fann hann herping í maganum. Andvarp móðurinnar gerði rif Gylfa þyngri. Rödd afans sagði: „Minn nærðist á þögninni.“
Dag einn kom járnsmiðurinn úr vegg grunnskólans. Þegar hann horfði á Öldu kennara hrópa á Björn að vera kyrr fann Gylfi fyrir bruna í bringunni eins og Alda hefði þrýst að því logandi kyndli. Og þegar Gylfa var litið á Björn fann hann straum í fótunum og ið í höndum, eins og hann þyrfti sjálfur að hlaupa um matsalinn.
Gylfi sagði ekkert, því Alda kennari virtist eiga nóg með kyndilinn þegar Björn hlustaði ekki. Hann fann hve þreytt hún var. Og Gylfi passaði að vera þægur svo Björn gæti hreyft sig meira án þess að vera skammaður.
Gylfi sagði engum frá því að hann fann til í bakinu þegar Alda skammaði Björn, eða var sársaukinn alfarið þeirra? Kennararnir hrósuðu Gylfa á foreldrafundum fyrir að vera þægur.
Árin liðu og rödd afans í veggnum varð hans eigin. Járnsmiðurinn varð að tilfinningu í andlitum annarra; skjálftanum í hendi Áskels fyrir próf, þögn kærustunnar þegar hann talaði við aðra stelpu. Þegar pabbi hans öskraði af gleði þegar Gylfi skoraði á körfuboltamótum fannst honum maginn í sér sogast inn í langt og mjótt gat.
Seinna fékk Gylfi ráðgjafastöðu hjá stóru lánafyrirtæki. „Númer 26!“ Ungt par gekk inn. Þegar Gylfi dró upp skuldastöðu parsins horfði konan þurrum augum á manninn sinn. Stóllinn varð allt í einu harðari. Kviður Gylfa skrapp saman eins og gamalt epli.
Þegar parið var farið sat eftir rykhnoðri undir borðinu sem Gylfi stakk ósjálfrátt í skúffuna. Pönnukökulykt barst úr veggnum á móti. Hann fann stingi í fótunum þegar afi hans gekk rólega inn í herbergið. Hann dró upp símtólið og bauð parinu annan tíma.
Fyrstu regndroparnir láku niður plastumbúðirnar sem Jódís tróð inn í stútfullan gám endurvinnslunnar. Uppsetning einingareldhússins hafði kostað sitt. Þakíbúðin var gósenland iðnaðarmanna. Samt virkaði vaskurinn ekki enn. Faðir hennar hefði lagað hann á fimm mínútum.
Gamla konan fyrir aftan hana í röðinni brosti tannlausu brosi þó Jódís tæki sinn tíma. Konan mælti mjóróma: „Þjappan kemur.“ Jódísi var of kalt til að svara. Flýtti sér inn í bílinn. Gæsahúð. 360 manns höfðu þegar líkað við myndina af henni á baki fíls við ána Brahmaputra. Heill hringur af brennandi augum.
Jódísi undraði hve henni var kalt þrátt fyrir hitann úti. Viðbrigði eftir Indland. Hún hækkaði í miðstöðinni. Hækkaði líka í tónlistinni í símanum og söng með. Kannski til að hunsa rödd föður síns í huga sér þegar hún dreif sig yfir á appelsínugulu og gaf síðan stefnuljós of seint: „Stefnuljós ÁÐUR en þú beygir. Fólk sér alveg þegar bíllinn er byrjaður að beygja.“
Hann hafði líka kynnt henni fyrir tónlistinni: „Jóa, hlustaðu á þetta.“ Hún mundi enn fyrstu hljómana á munnhörpuna og regnið á bárujárninu þegar hann kenndi henni að gera við vaskinn. Sama regn og rúðuþurrkurnar slógu nú af skuldlausum jeppa.
Faðir hennar gat lagað hvað sem var. Nýtti hlutina. Ók sama bíl í tuttugu ár. Jódís gat aldrei gert neitt með höndunum. Selja eða henda. Hann gat líka talað við hvern sem var. Jódís skammaðist sín fyrir að losna ekki við tilfinningu um að sóa tímanum í samneyti við fólk sem stóð ekki undir sjálfu sér. Við fólk sem ætlaði sér aldrei að verða neitt.
Jódís rétti úr sér. Þrýstingurinn í grindarbotninum. Þrátt fyrir öll bætiefnin. Björk læknir hafði ráðlagt að draga úr ákafanum. Þvílíkt bull.
Jódís fór lengri leiðina heim. Faðir hennar var ekki fullkominn. Hann hafði þessa óskiljanlegu þörf fyrir að vera á móti, vera sérstakur. Þessir eiginleikar unnu gegn honum. Gegn þeim. Hann hefði getað skarað fram úr. Skinið. Þess í stað hlógu bekkjarfélagar hennar þegar hann reifst við kallana á verkstæðinu.
Þvermóðskan kostaði hann vinnuna. Gat ekki sótt um bætur. Þetta ár hafði hún ekki fengið ný föt við skólabyrjun. Hún fann hvernig krakkarnir horfðu á sig. Hvernig þeir töluðu þegar hún var ekki á staðnum.
Hún leit örsnöggt á gengi hlutabréfanna: „+1,05%.“ Rödd föður hennar: „Fyrirtækjastyrkir, Jóa. Húsið vinnur alltaf að lokum.“ Ef hann sæi núna húsið sem hún hafði sigrað. Af hverju gat hann aldrei hlustað án þess að finna að því sem hún gerði? Jódís pírði augun í gegnum regnið. Slakaði á takinu um stýrið.
Faðir hennar hafði mætt hörku snemma. Hún opnaði gluggann. Lykt af díselolíu og blautu malbiki. Ljósin í mælaborðinu, brakið í plastleðrinu. Hún gólaði yfir græjunum og setti sætishitarann í botn.
Þegar Jódís keyrði hjá gamla hverfinu fannst henni hún snögglega sjá einhvern í baksýnisspeglinum: Raunamæddan mann á hennar aldri í óhreinum vinnugalla með skiptilykil í hendinni. En þegar hún leit aftur var þar enginn. Fjarlæg lykt af sagi og málningu sat eftir. Jódís lokaði glugganum aftur.
Undarleg tilfinning, eins og vegurinn væri ekki raunverulegur. Hún fann heldur ekki fyrir stýrinu. Gaf í til að gera heiminn áþreifanlegan aftur. Síðan, allt í einu: Rautt ljós.
Hún hemlaði snögglega á blautum veginum, ískrandi dekkin staðnæmdust yfir hálfri gangbrautinni. Vegurinn hökti, eins og truflun í myndskeiði. Af hverju þurfti alltaf eitthvað að stöðva hana þegar hún komst af stað?
Hún leit út. Móðir í slitnum buxum með barn í fanginu á leið yfir gangbrautina. Gegnsósa í rigningunni. Hjartað sló örar en tíminn virtist hægja á sér. Það var eitthvað skrýtið við móðurina. Hárið sýndist þurrt þrátt fyrir úrhellið.
Móðir og barn stigu úr regnveggnum. Jódís sá þau skýrt. Hún hrökk við. Rak höfuðið í spegilinn. Hrópaði lágt. Þau höfðu ekkert andlit, aðeins glært tóm sem beyglaðist eins og tröðkuð plastflaska. Droparnir mynduðu lágvær hljóð þegar þeir lentu á því, og láku ekki niður heldur undir það. Þessi eyða virtist gleypa í sig önnur hljóð, eins og agnarlítið gat á veruleikanum.
Á eftir þeim gekk ungt par með sama lekandi hol yfir hálsinum. Hún þekkti þetta fólk. Öruggt göngulagið, ögrandi merkjafötin: Ási og Sísí úr G&G þáttunum. Það hafði ekki sést til sólar fyrir þeim. Vatn hafði safnast fyrir í fellingar og vasa þess sem þau báru í stað andlits. Vatn sem skvettist til og frá á meðan þau gengu yfir götuna.
Á eftir þeim hljóp manneskja sem líktist... Nei. Jú. Jódís fann hvernig grindarbotninn beyglaðist saman eins og plastbox í þjöppun. Þetta var hún sjálf sem skokkaði hjá með sama æpandi tóm undir hettupeysunni. Sömu peysu og hún hafði hlaupið í fimm kílómetra í morgun.
Myndin hvarf á bak við næsta horn. Gömul kona kallaði frá gangbrautinni. Hún var ekki með tóm í andlitinu. Hafði Jódís ekki séð hana áður? Rödd konunnar smaug í gegnum lokaðan gluggann á meðan rauða ljósið dansaði á tannlausum gómnum: „Þau komast núna fyrir, vinan.“
Jódís leit í hliðarspegilinn og mætti andliti föður síns: „Augun á veginum.“ Bíll flautaði. Hún rankaði við sér. Grænt ljós. Jódís steig á bensíngjöfina. Fólkið á gangstéttunum leit aftur eðlilega út, en gamla konan var horfin.
Jódís hækkaði í útvarpinu en heyrði samt ekkert í því. Aðeins hljóðið í plastinu sem hún hafði þegar losað sig við úr skottinu. Undir því nam hún æðasláttinn, á sama tíma harður og hlýr, eins og hamarshöggin úr skúr föður hennar.
Það sem eftir var leiðar fannst henni bíllinn vera kyrr en mjúkt hylki renna með hana til baka. Á eldhúsborðinu lá skiptilykill eftir iðnaðarmennina. Í speglinum sat lítil stúlka og reyndi að spila á munnhörpu. Hljóðið blandaðist regninu.
Jódís tók skiptilykilinn, kaldan og slitinn. Vaskurinn fór ekki í gang þó hún herti róna. En eitthvað rann aftur innra með henni. Eitthvað raunverulegt. Regnið hélt áfram.
Ylfa sofnaði með heilbrigðu höndina kreppta um fjarstýringuna. Skrifstofudramað minnti á vinnuna. Fund um ársskýrslur. Fólk las til skiptis upp úr lélegu handriti á meðan tíminn lamaðist á illa uppsettum glærum. Svona fundum fylgdi skrýtin tilfinning um að máttlausa höndin héldi á einhverju köldu.
Óraunveruleikakennd Ylfu hafði komið löngu á undan heilablóðfallinu fyrir tveimur árum. Kannski þegar hún vaknaði við að önnur brosandi Ylfa horfði á hana af ljósmynd á náttborðinu. Myndinni frá fyrsta ári í hjúkrun. Ætli þessi Ylfa hefði þorað?
Markaðsdeildin varð ekkert raunverulegri þegar hún hvorki fann fyrir né gat stjórnað sinni eigin hendi. Eins og höndin tilheyrði einhverri annarri. Þeirri Ylfu sem hafði enn skoðanir og ætlaði aldrei í viðskiptafræði.
Þegar Sonja mætti til vinnu breyttist allt. Dagarnir í endurhæfingunni höfðu líka snúist um það eitt hvenær Sonja kæmi næst. Þennan morgun hafði hún hlegið með Sonju yfir rembingi Rögnu yfir glærunum. „Sástu svipinn á henni þegar tölurnar blikkuðu bara?“
Þegar Sonja deildi vonbrigðum sínum með Ylfu að fá ekki stjórnunarstöðuna í hinum enda bæjarins fann Ylfa hjartsláttinn, hnútinn í maganum. Sonja táraðist en Ylfa reyndi að leyna léttinum. Hún væri örugglega ekki mætt aftur til vinnu ef Sonja væri ekki þarna. Einn daginn myndi Ylfa segja Sonju hvaða þýðingu hún hefði.
Ylfa rankaði við sér í stofusófanum. Sjónvarpið í gangi. Hægri höndin enn læst um fjarstýringuna, en hún leit allt öðruvísi út. Fjarstýringin var ekki svört lengur, heldur föl og fjólublá. Líka lengri og mjórri, eins og einhver hefði teygt úr henni á meðan Ylfa svaf. Allir takkarnir báru sama spóla-áfram merki.
Ylfa reyndi að sleppa fjarstýringunni en hún var föst við lófann. Titraði og sló eins og lifandi vefur. Voru þetta skilaboð eða bölvun? Ylfa smellti á takka. Tíminn leið á tvöföldum hraða. Hún fylgdist með sjálfri sér standa upp og hafa sig til. Fann lítinn sting í lömuðu hendinni.
Ýtti á annan takka með sama merki: x4 hraði. Ylfan fyrir framan hana var mætt í vinnuna. Leiðinlegur fundur. Hana hafði alltaf dreymt um að spóla yfir þá. Hún ýtti á takka: x8 hraði. Aftur: x16. Sterkur rafstraumur út í lömuðu vinstri hendina.
Það var eitthvað frelsandi við að ýta á takkana. Ekki aðeins aukin stjórn, heldur djúp losun á ósýnileika. Fólkið stóð upp. Bíddu. Núna var Sonja að segja henni eitthvað. Það var lítil sprunga á hökunni á Sonju. Var hún að biðja um hjálp?
Sonja leit í kringum sig og hallaði sér nær Ylfu. Hún var greinilega að segja eitthvað mikilvægt. En hvað? Veikindi? Skilnaður? Nýtt starf? Ylfa ýtti í fáti á takkana í von um að hægja á eina atriðinu sem skipti hana máli. En hver smellur hraðaði öllu enn meir.
Skrifstofan. Klósettið. Skrifstofan. Kaffistofan. Af hverju stóðu allir inni á kaffistofunni? Var það gott eða slæmt? Sonja horfði beint á Ylfu. Þagði og talaði til skiptis. Þetta var of hratt. En Ylfa gat næstum hreyft allt vinstri hendina aftur, þó því fylgdi kaldur sviði.
Frammi sá hún sjálfa sig þefa örsnöggt af treflinum hennar Sonju þegar enginn sá til. Hún fann ekki lyktina. Sonja aftur. Hún var komin með aðra sprungu í andlitið. Ylfa ýtti á fleiri takka. Sá ekki lengur sprungurnar á Sonju. Vinstri höndin lifnaði alveg við, greip fjarstýringuna úr þeirri hægri og hamaðist stjórnlaus á tökkunum.
Á þessum hraða sá hún ekki hvar hún sjálf endaði. Líkami hennar varð að ormi sem teygði sig ekki aðeins í gegnum tíma og rúm, heldur sameinaðist göngunum sjálfum. Veggir skrifstofunnar urðu að dansandi línum og ljósin á skrifstofunni runnu út í óteljandi skæra liti.
Hún reyndi að hrópa en það kom aðeins undarlegur smellur. Gólfið minnti á þykkt hlaup sem sveigðist undir henni. Hún sá stjörnur. Vetrarbrautir þyrluðust yfir óendanlegar glærur Eyvarar um ársskýrslur. Þessu fylgdi skrýtin tilfinning um að tilheyra einhverju stærra en hún sjálf.
Allt svart. Ekki frá tómum skjá, heldur fyrir augum sem horfðu á bak við ljósið. Ylfa reyndi að spóla áfram. Ekkert. Síðan dauft ljós. Skrifstofan, sjúkrahúsið og heimili hennar runnu saman í eitt rými. Tvöföld rödd flutti eitthvað sem minnti á þakkarræðu. Tilfinning um kaldan hlut í hendinni. Höndin seig niður.
Hljóð í öndunarvél rauf þögnina. Þegar Ylfa leit á hendurnar voru fjarstýringar í þeim báðum. Í þeirri vinstri var hvít fjarstýring sem var enn í plastinu. Skynlaus höndin virtist nema örfínan titring. Hún sá glitta í takka til að pása og spóla til baka.
Ylfa reyndi að lyfta fingri, en höndin hreyfðist ekkert. Hún hugsaði um Sonju. Tilfinning um kipp án þess að sjá hreyfingu. Þá gerðist það. Höndin hreyfðist ekki, heldur hvíta fjarstýringin. Færðist nær. Eftir þó nokkra stund tókst henni að ýta á „PLAY“. Andlit Sonju birtist á skjánum. Hún spólaði upp á byrjun.